Nokkrir óvinir iðnmenntunar á Íslandi

Viðvarandi skortur hefur verið á fólki með menntun í málmtækni undanfarin ár. Skortur er í fleiri greinum, s.s. í rafiðnaði en staðan er mismunandi á milli iðngreina. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Katrín Dóra, að kannanir SI hafi sýnt fram á að þörf væri á að um 1.100 manns útskrifuðust úr iðnnámi á ári í stað 500-600 manns nú.

Er ekki eitthvað bogið við þetta? Hvernig getur verið skortur á einhverju á frjálsum markaði? Ef eftirspurn er næg en framboð lítið, þá ætti verð að hækka og sú hækkun á verði ætti að laða fleiri að og uppfylla þannig framboð. Eru iðnfyrirtæki að biðja málmtæknifólk um að vinna fyrir lægri laun en það getur krafist í ljósi lítils framboðs á þekkingu þeirra? Það efast ég um. Ég er viss um að málmtæknifólk kann að semja um kaup og kjör. Eru iðnfyrirtæki að vonast til að geta haldið aftur af launahækkunum með því að biðla til stjórnvalda um að mennta fleiri í málmtækni? Hver veit!

Ég held samt að vandamálið sé einfalt, en um leið margslungið: Fjölmargir á Íslandi berjast gegn því að á Íslandi sé stundum framleiðsla af nokkru tagi, a.m.k. af þeirri gerð sem krefst orku. Til hvers að mennta sig í fagi sem er smátt og smátt verið að þvinga út úr landi?

Iðnaðarmenn eru margir hverjir sjálfstæðir atvinnurekendur. Er ekki búið að þjarma alveg gríðarlega að litlum fyrirtækjum á Íslandi undanfarin ár? Lagafrumskógurinn er orðinn svo flókinn að einfalt "rassvasabókhald" dugir ekki lengur til að hafa yfirsýn yfir reksturinn. Þegar starfsmaður nr. 50 er ráðinn þarf að móta jafnréttisstefnu. Veltuskattar á fyrirtæki eru háir og hafa hækkað mikið. Hinn sjálfstæði iðnaðarmaður þarf orðið svo miklu meira en góða verkkunnáttu. Hann þarf að vera lögfræðingur og endurskoðandi líka, og sérfræðingur í skattarétti og jafnréttismálum. 

Ríkisvaldið gerir meira til að skemma fyrir. Það ákveður til dæmis að "virkja" og "skapa störf" og blæs því til mikillar bólumyndunar (ýmist í gegnum beinar ríkisframkvæmdir, ríkisábyrgðir eða framkvæmdir ríkisfyrirtækja) sem sýgur iðnaðarmenn í sig, en hendir þeim jafnóðum út aftur þegar bólan springur. Iðnaðarmenn eru e.t.v. berskjaldaðri en margir aðrir í þessum ofsafengnu upp- og niðursveiflum sem Íslendingar þekkja alltof vel. Það fer ekki framhjá ungu fólki sem er að velja sér menntun.

Margir halda ranglega að iðnaðarmenn þéni minna en sprenglært háskólafólk. Það er oftar en ekki ósatt. Tekjur iðnaðarmanna eru e.t.v. sveiflukenndari (góðæri/hallæri, sumar/vetur) en að jafnaði oft háar.

Fyrirtæki eru einfaldlega að bregðast við óvissu árferði þegar þau hika við að fylla alla rennibekki af iðnnemum. Fjárfesting í þeim er óviss. Ég get líka ímyndað mér að þeim fylgi mikill kostnaður, t.d. vegna lífeyrissjóðs, trygginga og annarra launatengdra gjalda. Ríkisvaldið gæti ákveðið á morgun að opna þjálfunarbúðar á kostnað skattgreiðenda fyrir iðnnema, og þá geta fyrirtækin fengið "ókeypis" þjálfun. Annað eins hefur nú sést á Íslandi. 

Menn þurfa ekki að skrifa fleiri skýrslur um skort á iðnmenntuðu fólki á Íslandi. Lausnin er bara sú að koma ríkisvaldinu úr veginum og minnka kostnað vegna hins opinbera á fyrirtæki á Íslandi. Á þann hátt geta framboð og eftirspurn náð saman á ný.  


mbl.is Gætu tekið tvöfalt fleiri á samning í málmiðnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Skarplega athugað.

Ásgrímur Hartmannsson, 2.12.2013 kl. 13:05

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

"Seðlabanka Íslands á að leggja niður, hið íslenska ríki á að hætta peningaútgáfu með öllu, og hætta algjörlega að skipta sér af því hvaða peninga fólk velur að nota, og hver má gefa út peninga, og á hvaða "fæti" þeir peningar eiga að vera." Úr pistli hér á undan.

Ofurvextir á Íslandi eru að sliga iðnaðinn og smáfyrirtæki í þjónustugreinum. Seðlabankinn má þó eiga það að fyrst nú eru menn að átta sig á að ekki þýðir að semja um verðbólguhvetjandi launahækkanir. Seðlabankastjóri hefur lagt áherslu á þetta sjónarmið. Auðvitað á að hætta útgáfu örmyntar.

Ríkisstjórnin á að semja um stöðugt gengi og láta atvinnurekendur bera ábyrgð á samningum. Fjármálaráðherra hefur ítrekað gefið í skyn að launahækkanir toppana megi ekki verða meiri en hjá launafólki. Þjóðarsátt um stöðugt gengi og hófsamar launahækkanir eru framkvæmanlegar. Útflutningsgreinar eru sterkar og útstreymi gjaldeyris vegna hárra innlendra vaxta ætti ekki að líðast.

Óverðtryggðir vextir eru nú um 8-9%. Hvaða fyrirtæki og heimili þola það til lengdar? Án lækkun vaxta verður hér viðvarandi hrun. Ekki hagnast bankar á því. Hvernig getur þjóð í gjaldeyrishöftum tekið upp aðrar myntir?

Sigurður Antonsson, 2.12.2013 kl. 22:44

3 Smámynd: Geir Ágústsson

"Inflation is a policy. And a policy can be changed."

Economic Policy: Thoughts for Today and Tomorrow (bls. 72-73)

http://mises.org/document/994/Economic-Policy-Thoughts-for-Today-and-Tomorrow

Geir Ágústsson, 3.12.2013 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband