Litlar líkur á málshöfðun frá Bretum og Hollendingum

Úr Vefþjóðvilja dagsins:

******************

Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins virðist telja áhættu fólgna í því að málið verði lagt fyrir dómstóla. En það er nú ekki eina og ekki versta áhætta málsins.

Það má hugsa sér tvenns lags atburðarás:

  • Í þeirri fyrri lækkar gengi íslensku krónunnar 2% á ársfjórðungi til 2016. Fyrsta greiðsla úr þrotabúi berst ekki fyrr en 1. apríl 2012 ásamt því að innheimtur úr þrotabúi lækki um 10% frá áætlun skilanefndar. Kostnaður ríkissjóðs Íslands verður 233 milljarðar króna.
     
  • Í þeirri síðari taka Bretar og Hollendingar þá áhættu að leggja kröfur sínar fyrir dómstól, vitandi það að tap í málinu gæti þýtt að allt bankakerfi þeirra kæmist í uppnám, fólk sæi vanmátt innstæðutryggingakerfisins í hendi sér og stórfelld áhlaup hæfust á evrópska banka. Þrátt fyrir þessa áhættu fara Bretar og Hollendingar í málið og þrátt fyrir að engin lagaleg skylda hvíli á Íslendingum, þá vinna þeir málið.

Hvor atburðarásin er nú líklegri? Og hvaða afleiðingar hefði nú hvor um sig? Sú fyrri myndi, ef Icesave-ánauðarfrumvarpið verður samþykkt, kosta íslenska skattgreiðendur um tvöhundruð milljarða króna í erlendum gjaldeyri. Sú síðari myndi þýða að Íslendingum bæri að greiða sömu kröfu og ríkisstjórnarflokkarnir þrír vilja semja um, en hugsanlega á hærri vöxtum.

Af einhverjum ástæðum virðist forysta Sjálfstæðisflokksins hafa miklar áhyggjur af síðari atburðarásinni en engar af þeirri fyrri. Þó ættu flestir að sjá að það er einmitt sú fyrri sem er mun líklegri.

****************** 

Einnig úr Vefþjóðviljanum: Nokkuð sem menn gleyma oft og gjarnan og jafnvel viljandi (af pólitískum ástæðum):

******************

Það er vert að hafa í huga að í raun vilja Bretar og Hollendingar njóta þrefaldrar tryggingar:

Í fyrsta lagi nutu þeir trygginga hjá Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Allir gátu kynnt sér hversu burðugur sá sjóður var.

Í öðru lagi færðu neyðarlögin innstæðueigendum mjög aukinn rétt við uppgjör á þrotabúi Landsbankans, á kostnað annarra kröfuhafa. Við þann skuggalega verknað var ríkissjóður Íslands settur í stórhættu.

Í þriðja lagi vilja svo Bretar og Hollendingar að íslenskir skattgreiðendur taki ábyrgð á öllum kostnaði sem ekki fæst bættur með tryggingunum hér að ofan við þá ákvörðun þeirra sjálfra að greiða í óðagoti sparifjáreigendum bætur strax haustið 2008.

En fjárlaganefnd Alþingis heldur áfram að reikna og hefur af skiljanlegum ástæðum fengið aðstoð við það verk því margir þættir hafa áhrif á hvað íslenskir skattgreiðendur þyrftu að punga út ef nýjasta útgáfan af kröfum Breta og Hollendinga yrði samþykkt.

****************** 


mbl.is Ýta á alla takka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta er frábær greining á málinu.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.2.2011 kl. 15:19

2 Smámynd: Steinarr Kr.

Nú þarf að muna í næsta prófkjöri hverjir kusu hvað.

Steinarr Kr. , 3.2.2011 kl. 19:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband