Byggt á sandi

Víða er ranglega gert ráð fyrir því að "botninum" sé náð í íslensku hagkerfi, t.d. á húsnæðismarkaði eða kaupmáttarlækkun almennings. (Húsnæðisverð er rangt af mörgum ástæðum: Ríkið bannar bönkum og Íbúðarlánasjóði að fleyta tómu húsnæði á sölulista, krónan er rangt skráð og kaupmætti er haldið uppi með lántökum og gjaldeyrishöftum.)

Botninum er ekki náð. Grunnstoðir hagkerfisins eru veikari en nokkru sinni fyrr. Ríkissjóður er skuldsettur á bólakaf og búið að binda þannig um hnútana að flestir gjalddagar þeirra lána falla um eða eftir næstu kosningar. Þannig hefur ríkisstjórnin skuldsett sig frá því að þurfa taka til í ríkisrekstrinum og leyfa krónunni að taka út aðlögun sína að breyttum aðstæðum eftir bankahrunið. Vandanum hefur verið slegið á frest, og hann aukinn gríðarlega.

Með gjaldeyrishöftunum er krónunni haldið rangt skráðri, og það kemur fram í of mikilli eftirspurn eftir innflutningi, og stórkostlega dregið úr ábatanum við útflutning. Það er gríðarlega mikilvægt að afnema gjaldeyrishöftin, og því hefur verið marglofað, en öll slík loforð verða svikin og höftunum verður haldið út kjörtímabilið. Vandanum hefur verið slegið á frest, og hann aukinn gríðarlega.

Hagstjórnin á Íslandi gengur út á að ýta öllum stórum vandamálum fram yfir næstu kosningar. Ríkisstjórnin veit að hún heldur ekki lífi eftir þær, og vandinn er því orðinn að vanda næstu ríkisstjórnar. Sú ríkisstjórn mun með réttu geta kennt núverandi ríkisstjórn um hið erfiða ástand sem mun skapast þegar gjaldeyrishöft verða að fara og gjalddagar falla á risalán. En vonandi tekur hún bara á verkefninu sem núverandi stjórnvöld forðast eins og latur unglingur forðast tiltekt á eigin herbergi.


mbl.is Spá verðhækkunum á húsnæðismarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Pétursson

Óþarfi að leita uppi gamlar greiningaskýrslur frá Glitni. Fólk man ennþá eftir vitleysunni sem kom frá Þeim. Ekki hefur það skánað við nafnabreytinguna. Reyndar eru allir stjórnendur Íslandsbanka algjörlega úti á túni og fer þar forstjórinn fremstur í flokki. Þvílíkt samansafn af aulum :-)

Guðmundur Pétursson, 20.12.2010 kl. 07:49

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Glitnir er ekki einn á báti hérna. Langflestir "sérfræðingar" sem koma fram tala um að núna sé betri tíð í vændum. Erlendir matsaðilar hafa jafnvel látið slíkt út úr sér.

En það er óþarfi að trúa því. Menn eiga að safna að sér eins miklum erlendum gjaldeyri og þeir geta, og greiða niður skuldir eins og hægt er eða selja eignir upp í skuldir og fara á leigumarkaðinn. Skellurinn kemur. Menn hafa um 2-3 ár til að undirbúa sig. 

Geir Ágústsson, 20.12.2010 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband