Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kaffistofan og skynjarinn

Þegar ég les fréttir um getuleysi hins opinbera til að sækja rusl, viðhalda vegum, moka snjó, svara í símann og svo framvegis þá rifjast oft upp fyrir mér ákveðið atriði úr þáttaröðinni The Wire. Nýr umbótasinnaður borgarstjóri hafði verið kosinn og honum blöskraði vanræksluna í borginni. Brunahanar láku, leikvellir voru í niðurníðslu og göturnar fullar af holum. Hann settist í bíl sinn og keyrði á milli vinnustaða borgarinnar og kallaði yfir hópinn, sem sat yfir kaffibolla, eitthvað eins og „brunahaninn lekur!", eða „rólan er brotin!". Hann lét sig svo hverfa í sömu andrá og menn reyndu að komast að því hvaða brunahani læki eða hvaða róla væri brotin. Niðurstaðan var sú að menn risu úr sætum sínum og keyrðu um borgina og löguðu alla brunahana, leikvelli og holur sem þeir rákust á.

Mannaflinn var þarna með öll réttu tækin og tólin, og á fullum launum. En hann valdi frekar að drekka kaffi en sýna eitthvað frumkvæði. Hann var án eftirlits og hvata og í skjóli opinberrar ráðningar. Ég meina, hver rekur viðhaldsmann í borg í niðurníðslu?

Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé raunsæ lýsing á opinberum rekstri. Mannaflinn er nægur. Honum skortir engin tæki og tól. En hann haggast ekki. Hann gerir ekki handtaki meira en nauðsynlegt er. Hann lætur gáma troðfyllast og leyfir holum að rústa hverjum bílnum á fætur öðrum.

Núna ætlar Sorpa að setja skynjara í gáma sem láta vita þegar þeir eru fullir, og það er sennilega reglan frekar en undantekningin. Á þá í leiðinni að ráða fullt af mannskap til að ráða við það verkefni eða er mannskapurinn til staðar, og var einfaldlega of upptekinn af því að drekka kaffi? Það fylgir ekki sögunni. Eitthvað segir mér að það sé staðan. Vonandi hjálpa skynjararnir starfsmönnum Sorpu til að skynja hvenær þeir þurfa að standa upp úr stólnum.


mbl.is Skynjurum komið fyrir í grenndargámum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn og ráðherrar eiga ekkert í báknið

Ég er gjafmildur í dag og gef mér að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orkuskorts- og loftslagshræðsluáróðursráðherra, meini í raun og veru að hann vilji auka skilvirkni báknsins, fækka stofnunum og stöðva kerfisbundna keyrslu báknsins að orkuskorti.

Kannski heldur hann langa fundi, íbygginn á svipinn, og útskýrir fyrir forstöðumönnum að menn þurfi að líta á heildarmyndina jafnvel þótt það gæti kostað viðkomandi einhver völd og áhrif. Hann tyggur sig í gegnum skýrslurnar sem báknið framleiðir á færibandi. Hann leggur fram tillögur. Hann beitir sér sem ráðherra, og ætti að nafninu til að hafa nokkuð svigrúm til að taka ákvarðanir. 

En allt kemur fyrir ekki. Eftir marga mánuði af harki stígur ráðherra í ræðupúlt og segir að sér verði ekkert ágengt. Báknið neitar að haggast. Það spyrnir við öllum tilraunum. Kannski ekki skrýtið í samfélagi sem brennir 16% af verðmætasköpun sinni í opinbera starfsmenn á meðan ríki innan mesta skrifræðisbákns í heimi, Evrópusambandinu, láta sér 11% duga. 

Þetta ætti að segja okkur að það sé eitthvað öfugsnúið á ferð hérna. Kjörnir stjórnmálamenn koma engu áleiðis nema með blessun ókjörinna embættismanna. Ráðherrar, tilnefndir eða úr hópi hinna kjörnu fulltrúa, berja höfðinu í stein. 

Mögulega líta margir ennþá til Sjálfstæðisflokksins en þar á bæ sía prófkjörin út alla þá sem eru líklegir til að þora í slaginn.

Ég sé ekki hvernig nokkrar kosningar geti breytt þessu ástandi. Er það svartsýni?


mbl.is Allir smákóngar heimsins segja „ekki hjá mér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýska lýðræðisástin

Ég fer með óreglulegu millibili inn á heimasíðu þýska fjölmiðilsins DW. Oft er þar að finna góðar greiningar á ýmsum málum og auðvitað fréttir frá Þýskalandi sem birtast hvergi annars staðar, svo sem nýleg fjöldamótmæli bænda þar í landi sem nánast enginn fjölmiðill sagði frá. DW var hikandi í sinni umfjöllun en neitaði þó ekki raunveruleikanum.

En þar á bæ er núna einhver taugatitringur. Kjósendur í þessu lýðræðisríki eru í auknum mæli byrjaðir að styðja við stjórnmálaflokk sem er mjög gagnrýninn á helstu hugðarefni veruleikafirrtra glópa, svo sem að óheftur innflutningur flóttamanna sé sniðugur og að skattkerfið geti breytt veðrinu. 

Ég les að einn leiðtoga þessa flokks sé hreinlega verið að skilgreina sem fasista, og bendla hann við Þriðja ríki Hitlers. Ég les að það eigi að reyna banna flokkinn en til vara að takmarka hann miðað við aðra flokka. Velgengni flokksins meðal kjósenda er kölluð ógn við lýðræðið. Og svona heldur þetta áfram.

Vissulega er þetta lýðræði ekkert nema leiðindi í hugum margra, sérstaklega þegar kjósendur svíkja stjórnmálastéttina. En í stað þess að taka hina hugmyndafræðilegu baráttu, og reyna að hlusta á skoðanir og komast að líðan kjósenda, þá er eitthvað annað gert: Fasismi er barinn niður með fasisma (réttilega skilgreindur sem sterkt ríkisvald sem fólkinu ber að þjóna, frekar en þjónustulundað ríkisvald sem þjónar fólkinu). Úrval kjósenda skorið niður í það sem stjórnmálastéttin telur ásættanlegt. Leikreglunum breytt. Svolítið amerískt. Kosningar gerðar að sýndarkosningu til að fá rétta niðurstöðu, að mati ríkjandi afla.

Það er eitthvað að krauma í Þýskalandi sem þýðir að það er líka að krauma í öðrum ríkjum. Þetta sjáum við. En hvað gerist nákvæmlega? Fremur lýðræðið sjálfsmorð með því að hunsa lýðinn? Sjáum hvað setur.


Kæri stjórnmálamaður, af hverju fórstu í stjórnmál?

Eftir mikla yfirlegu yfir löngum ræðum og viðtölum hef ég komist að niðurstöðu: Flestir stjórnmálamenn eru handónýtar handtöskur sem fylgja bara þeirri línu sem þeim er mokað á. Þeir taka aldrei sjálfstæða ákvörðun, mynda sér ekki sína eigin skoðun í neinu máli, svíkja samvisku sína, tjá sig í skjóli ótta við almenningsálitið og gera í raun ekkert nema það sem þeir telja líklegt til að ná endurkjöri. Kjósendur verðlauna svo slík gólfteppi með atkvæði sínu og tryggja að þetta hugarfar verði áfram ríkjandi.

Reyndar þurfti enga langa yfirlegu yfir neinu til að komast að þessari niðurstöðu. Þetta blasir hreinlega við, eins og flóðljós á íþróttavelli.

Það er því við hæfi að spyrja sig að því af hverju flestir stjórnmálamenn fóru í þessa vegferð sína. Eru það launin? Athyglin? Fríðindin? Félagsskapurinn?

Ekki er það sú ástríða að setja mark sitt á þróun samfélagsins til betri vegar. Þó er þetta fólk sem sat í nemendaráðum á öllum skólastigum og varð jafnvel að formanni slíks félags á yngri árum. Fólkið sem hélt ræður. Skipulagði árshátíðir. Fólk sem lét prenta af sér litríka bæklinga á unga aldri, þyrst í athygli og hrós.

Lausnin á þessu ástandi er augljós: Að taka sem mest af verkefnum og fjármunum úr höndum hins opinbera og koma í hendur þinna og annarra á hinum frjálsa markaði í frjálsu samfélagi. Þá geta ráðhúsin og þinghúsið orðið að frekar skaðlausum kjaftaklúbbum fólks sem þráir ekkert heitar en að sjá andlit sín í litríkum bæklingum.

Því fyrr því betra. Og þá geta fagmennirnir tekið við.


Tímarnir breytast og vandamálin með

Ég rakst á þessa skemmtilegu litlu setningu í Morgunblaðinu 15. janúar 1998 þar sem blaðamaður var að taka út aðstæður á skemmtistað:

kk_wc

Þarna er að greina svolítið skopskyn.

Þetta var auðvitað vandamál árið 1998: Karlmaður gat ekki bara ætt inn á salernisaðstöðu kvenna til að skoða þar aðstæður og mögulega notendur aðstöðunnar. 

Í dag eru breyttir tímar. Blaðamaður getur í dag einfaldlega skilgreint sig sem kvenmann og ætt inn á konurnar. Einkarými kvenna eru ekki lengur einkarými kvenna. Hin svokallaða fötlun blaðamanns er ekki lengur nein hindrun. Hann hefur fengið sinn ramp. Konurnar mega vara sig.

Tímarnir breytast auðvitað. Í kvikmyndinni Starship Troopers baða karlar og konur sig saman og eiga þar afslöppuð samskipti. Kannski er það framtíðin. 

Með ákveðinni þróun á samfélaginu verða mögulega innleidd lög framandi menningarheima á Vesturlöndum sem kveða á um limlestingar á kynfærum kvenna og afleiðingalausra morða á samkynhneigðum.

Það er ekkert víst að það sem margir reyna að standa vörð um í dag sé það sem tóri í sögunni. Er það vegna þess að ekkert eitt er í raun betra en annað? Er eitthvað úrelt við frjáls, vestræn samfélög? Tíminn mun leiða það í ljós.

Persónulega ætla ég að leyfa konum að eiga sín einkarými út af fyrir sig, og það með glöðu geði. Eins og blaðamaður Morgunblaðsins árið 1998, en ekki endilega blaðamenn í dag.


Yfirvöld: Samkomubannið stútaði í ykkur ónæmiskerfinu

Í frétt hjá Ríkisútvarpi Útvaldra Viðhorfa (RÚV) segir frá mikilli aukningu veikinda í íslensku samfélagi undanfarið (nokkuð sem ég sé líka í kringum mig í Danmörku). Heilbrigðiskerfið hefur varla séð annað eins og er eins illa undirbúið og hugsast getur. En hvers vegna?

Möguleg skýring sem hefur verið nefnd er að aukin veikindi séu afleiðing af samkomutakmörkunum í heimsfaraldrinum. Þá hafi færri smitast og fólk hafi þá síður byggt upp ónæmi.

Þá höfum við það. Að mati heimildarmanna RÚV, sem mögulega eru aðilar innan heilbrigðiskerfisins en kannski ríkisins, er samkomubann veirutíma mögulega búið að stúta ónæmiskerfi landsmanna. 

Þetta er ákaflega nothæft því þegar yfirvöld prófa aftur að skella á samkomubanni er hægt að segja: Nei, bíddu nú við, þið eruð búin að segja að slíkt rústi ónæmiskerfi landsmanna! Leyfið okkur frekar að mæta í vinnuna, í ræktina, á djammið eða í kirkju og halda ónæmiskerfinu á okkur uppfærðu!

Auðvitað blasir við að skýringar yfirvalda eða spítalans eru þvæla. Sprauturnar eru orsakavaldurinn. Það munu yfirvöld samt aldrei viðurkenna. Engu að síður er nothæft að hafa handtæka þá skýringu yfirvalda sjálfra að samkomubannið hafi stútað ónæmiskerfum okkar og afleiðingar búnar að vera skelfilegar fyrir spítalana.


Lýðræðið og kjósa rétt

Þetta lýðræði er leiðinlegt og til óþurftar og mætti jafnvel leysa af með gervigreind, ekki satt?

Nú er vestrænt lýðræði auðvitað bara skugginn af sjálfu sér. Völd ókjörinna embættismanna eru í sífellu að aukast. Stjórnmálamaður getur varla tekið ákvörðun nema hafa fengið sérstaka nefnd til að skrifa fyrir sig skýrslu. Vald þings streymir til erlendra og alþjóðlegra stofnana. Stjórnmálaflokkarnir eru oft óaðgreinanlegir. Fjölmiðlar og yfirvöld reyna að berja á óþægilegri tjáningu. Skattar eru á rjúkandi uppleið: Skattar til að breyta veðrinu, halda uppi útlendingum og fjármagna vopnakaup fyrir spillta forseta. Verðbólga er framleidd til að færa kaupmátt frá launþegum til fjármagnseigenda. 

Í sumum ríkjum hafa menn séð í þessu sóknarfæri, og koma hér hratt í huga Argentína, Svíþjóð, Danmörk, Þýskaland og Holland. Stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar koma fram á sjónarsviðið. Þeir gagnrýna báknið, skattana, fólksinnflutninginn og valdatilfærsluna. Undantekningalaust eru allar slíkar skoðanir stimplaðar sem einhvers konar öfgaskoðanir hættulegra öfgamanna. Popúlista! Hægrimanna! Hægri-öfgamanna! Hægri-öfga-popúlista!

En það dugir ekki lengur til. Uppnefnin eru ekki nóg. Kerfisflokkarnir sjá að fylgið er að renna af þeim.

Þetta er auðvitað óþolandi. Við þessu þarf að bregðast. Ekki á leikvelli lýðræðisins samt. Nei, á forsendum báknsins. Þökk sé flókinni og mótsagnarkenndri löggjöf er yfirleitt hægt að grafa upp einhvers konar lögbrot á hvern sem er. Hér er enginn óhultur, og sérstaklega ekki þeim sem gengur vel að hamast á bákninu. 

Kerfisflokkarnir geta sjálfum sér kennt um vandræði sín. Þeir hafa í mörg ár hunsað almenning og kjósendur. Að það komi upp valkostir við þá er einfaldlega vegna eftirspurnar frá kjósendum. Flokkur sem þjónar kjósendum sínum vel þarf ekki að óttast samkeppni. Flokkur sem telur það vera hlutverk sitt að breyta veðrinu með skattheimtu fær á baukinn.


mbl.is Vilja að flokkurinn verði bannaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vissir þú ekki að þú værir rasisti?

Samfélagið skiptist í tvo hópa: Rasista og þá sem kalla alla aðra rasista. Ef þú ert rasisti en vilt ekki vera það lengur þá lagar þú það með því að byrja kalla alla aðra rasista. Þannig hættir þú að vera rasisti. Einfalt, ekki satt?

Við þurfum ekkert að spá í skilgreiningu orðabókar á því hvað er að vera rasisti (eitthvað með kynþáttafordóma). Nei, rasisti er sá sem kallar ekki alla aðra rasista. Þannig er ég til dæmis rasisti því ég kalla fólk ekki rasista.

En hvað réttlætir að kalla aðra rasista, og vera þannig um leið ekki rasisti sjálfur?

Það er svo margt. Til dæmis eru þeir rasistar sem segja að takmörkuðum verðmætum Íslendinga eigi frekar að ráðstafa í að hjálpa íslenskum flóttamönnum en erlendum. Þeir eru líka rasistar sem styðja ekki brúnna fólkið í einhverjum átökum í fjarlægum ríkjum. Svo eru þeir jafnvel rasistar sem hafna ákveðinni lyfjagjöf. Rasistarnir vilja líka stöðva geldingar á börnum og kynlíf fullorðinna með þeim, og þeir eru heldur ekkert alltof hrifnir af því að einkarými kvenna séu opin fyrir fullorðnum karlmönnum. 

Ég er sennilega að gleyma einhverju hérna en eitt er ljóst: Þú ert annaðhvort rasisti eða manneskja sem kallar aðra rasista. Hafir þú ekki kallað neinn rasista nýlega þá ertu rasisti. Vissir þú það ekki?


Listin að halda sér óupplýstum, með aðstoð blaðamanna

Ég vinn með vel menntuðu fólki sem fylgist með fréttum og segir frá því sem liggur því á hjarta. Stundum eiga sér stað hressandi skoðanaskipti en allt mjög yfirvegað og engin þörf á að verða sammála um alla hluti.

Til dæmis myndu flestir í minni vinnu, ef tilneyddir til að velja á milli Trump og Biden, velja Biden - lasið, elliært gamalmenni sem á bara að fá að fara á eftirlaun, eða í fangelsi, og hefur ólíkt Trump stofnað til margra nýrra stríðsátaka (sem er nánast það eina sem ætti að skipta umheiminn utan Bandaríkjanna máli þegar kemur að bandarískum stjórnmálum, og kannski eyðilegging yfirvalda þeirra á varaforðagjaldmiðli heimsins).

En oftar en ekki finnst mér fólk vita lítið. Það veit hvað er í fréttunum jú, en hefur ekkert á dýptina og ekkert utan hins þrönga sjónsviðs blaðamanna hjá stærri fjölmiðlum í sínu heimalandi. Það veit ekkert um bændamótmælin sem stífluðu Þýskaland um daginn. Það veit ekkert um gagnrýni á tal um hamfarahlýnun. Það vissi ekkert um sprauturnar á sínum tíma og veit varla enn þann dag í dag - telur þær hafa verið hrópandi vel lukkaðar. Sumir trúa því meira að segja enn þann dag í dag að þær hafi stöðvað smit. 

Það er því ekkert mál að halda sér nokkuð óupplýstum, meðvitað eða ómeðvitað. Besta leiðin er sú að treysta blaðamönnum til að velja það sem telst fréttnæmt og hvað telst til samsæriskenninga eða áróðurs.

En það er hægt að ganga lengra en að bara fljóta um á fleyi fjölmiðlanna. Stundum er hægt að tileinka sér, meðvitað, þá list að halda sér óupplýstum: Neita að fylgja ábendingum, neita að kynna sér gögn eða hina hliðina. Neita að samþykkja tal sem hróflar við heimsmyndinni. Blaðamenn eru hérna til þjónustu reiðubúnir þegar þeir flagga drottningarviðtölum við margdæmda glæpamenn, troðfullum af lygum, útúrsnúningum og slúðri sem er allt búið að taka fyrir af óteljandi dómstólum og sérfræðingum og fleygja í ruslið. Fólk sem gleypir við þvælunni telur sig vera að tala fyrir hönd barna sem er búið að þráspyrja um allar þeirra skoðanir og tilfinningar og taka ákvörðun í kjölfarið. 

Hérna er fólk viljandi og meðvitað að halda sér óupplýstu. Það er markvisst að velja að kynna sér ekki málin en hafa engu að síður löngun til að tjá sig um þau. 

Þetta er listin að halda sér óupplýstum og margir eru nokkuð góðir í henni.

En gerir það nokkuð til? Jú, það gerir það, því í versta falli getur það leitt til þess að réttarríkið er tekið úr sambandi með hópþrýsting, hrópum og jafnvel líkamlega með því að hindra lögreglumenn í sínum störfum.

Sem betur fer spyrna margir við fótum. Oft var þörf en nú er nauðsyn.


Þú ekki gott íslenska tala, kvárið þitt

Það er verið að reyna breyta tungumálinu okkar, meðal annars. Ég er ekki að tala um litlar breytingar eins og að segja sími í staðinn fyrir telefón, eða tölva í staðinn fyrir kompjúter. Hugmyndir að orðum sem draga aðeins úr vægi tökuorða eru í sífellu í framleiðslu og sumar njóta velgengni og aðrar ekki.

Nei, núna er verið að breyta því alveg í grunninn og niðurstaðan er sú að þú ekki gott íslenska tala. Ekki frekar en markaðsfólkið hjá Ölgerðinni, sem nýlega hlaut hinseginvottun Samtakanna 78, og valdi í kjölfarið að breyta slagorði þannig að þriggja ára krakki, sem er ennþá að ná tökum á íslenskunni, gæti hafa samið það:

Það sér hver drekka Kristal

Sennilega færri í framhaldinu en áður, en látum það liggja á milli hluta.

Ölgerðin er búin að vera lengi á þeirri vegferð að afmá kynin eins og lesa má í ársskýrslu Samtakanna 78 fyrir árin 2022-2023 (þar sem Festi, Advania, Rio Tinto Alcan og Te & Kaffi eru einnig á lista). Ekki veit ég hvernig klósettaðstaðan þar á bæ lítur út, eða hvort boðið sé upp á sturtuaðstöðu fyrir starfsmenn, og hvað þá hvað sé verið að gera við þessi rými núna - kannski verið að svipta konum einkarýmum sínum eins og algengt er eða hvernig það er. En vegferðin er hafin og hún er ekki lítill biti að kyngja. Þetta er hugmyndafræði sem boðar geldingar á börnum, aðför gegn samkynhneigð, eyðileggingu tungumálsins, umburðarlyndi fyrir kynferðislegum losta til barna og skautun í samfélaginu: Við eða þið, og ekkert þar á milli.

Mörg stór og öflug fyrirtæki hafa fallið fyrir þessum málstað og það er til slagorð fyrir afkomu þeirra í kjölfarið:

Go woke, go broke

Vonandi er Ölgerðin ekki á þeirri vegferð, enda hef ég taugar til fyrirtækisins. Til vara vona ég að einhver samkeppnisaðilinn nái að endurskapa uppskriftina að Egils Appelsín og Bola (Kristallinn er sá sami hjá öllum sem setja kolsýru og bragðefni í vatn). Þá ætti skaðinn af brotthvarfi fyrirtækisins að verða nálægt núlli fyrir okkur hin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband