Þriðjudagur, 4. júlí 2023
Ríkiseinokun deyr
Ég dag heimsótti ég eina af mörgum verslunum áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem er sem kunnugt er með fleiri útibú en nokkur önnur keðja matvöruverslana á Íslandi. Þar var sem betur fer lítið að gera og fleiri starfsmenn á vakt en viðskiptavinir í búðinni og því auðsótt að fá afgreiðslu.
Kannski var þetta í eitt af seinustu skiptunum sem ég fer í slíka verslun. Útsjónasömum aðilum hefur tekist að finna löglega leið til að selja áfengi ódýrar til neytenda og neytendur eru vitaskuld alltaf að leita leiða til að slá á verðbólguna með því að hagræða í innkaupum. Þeir vilja ekki borga fyrir þunga og dýra yfirbyggingu sem skilar sér í engu nema hærra verði. Þeir vilja ekki niðurgreiða lélega kaupmenn sem bjóða upp á það sama og góðir kaupmenn, nema dýrar.
Núverandi fyrirkomulag löglegrar verslunar með áfengi er auðvitað ekki gallalaust. Áfengisverslanir þurfa að greiða erlendum ríkjum tekjuskatt af hagnaði sínum, sem er frekar glatað. Pappírsvinnan er sennilega mikil. En núverandi fyrirkomulag er samt betra en hið fyrra. Maður óttast það helst að stjórnmálamenn sjái ástæðu til að gera eitthvað og eyðileggja gott samband seljenda og kaupenda með nýjum lögum, eftirlitströllum og hindrunum. Stundum er besta niðurstaðan sú að stjórnmálamenn geri ekkert. Þá skemma þeir a.m.k. ekkert í leiðinni.
Barátta neytenda við verðbólgu yfirvalda virðist vera að ganga sæmilega. Sú barátta þýðir væntanlega að ríkiseinokun þurfi að deyja, en það er gott mál.
Mánudagur, 3. júlí 2023
Rostungurinn hinn nýi ísbjörn?
Í mörg ár hefur okkur verið sagt frá því hvernig hlýnun jarðar er að eyðileggja búsvæði ísbjarna. Þeir finna ekki lengur ís til athafna sig á og geta þar með ekki veitt seli. Síðan kemur auðvitað í ljós að ísbjörnum vegnar bara ágætlega og hefur fjölgað mikið og ísbjörninn verður því ekki lengur nothæf táknmynd hamfarahlýnunar af mannavöldum. Meira að segja öfgafyllstu samtök græningja tjá sig með eftirfarandi hætti, sem jaðrar við bjartsýni:
Þrátt fyrir að flest af 19 ísbjarnaheimkynnum heimsins hafi náð heilbrigðum ísbjarnafjölda aftur þá er munur á þeim. Sum eru stöðug, sum virðast sjá fjölgun og sum sjá fækkun vegna ýmiss konar álags.
**********
Although most of the worlds 19 populations have returned to healthy numbers, there are differences between them. Some are stable, some seem to be increasing, and some are decreasing due to various pressures.
Hvað er þá til ráða? Jú, að tengja komur rostunga til Íslands við hamfarahlýnun af mannavöldum! Úr frétt Ríkisútvarps Útvaldra Viðhorfa (RÚV):
Breytingar á lífríki sjávar birtast skýrast í hegðun stórra sjávarspendýra og varpi sjófugla, segir sjávarlíffræðingur. Það að hingað flækist fleiri rostungar og að bæði lunda og kríu fækki séu birtingarmyndir þess að hitastig sjávar sé að hækka.
Síðar er að vísu bætt við, í hálfgerðu framhjáhlaupi:
Þessar tíðu komur til Íslands eru óvenjulegar, aftur á móti er Ísland gamalt búsvæði rostunga.
Hvað er hérna ósagt? Það er svo margt. Ef marka má Bergsvein Birgisson og skrif hans í bókinni Leitin að svarta víkingnum þá voru á landnámsöld stórar rostungabyggðir á Íslandi sem landnámsmenn gengu á og flæmdu rostunginn til norðurs. Þegar rostungurinn er ofveiddur þá flýr hann búsvæði sín og lætur ekki sjá sig aftur. Líklega eru Íslendingar núna að sjá einhverja flækinga sem eru að prófa sig áfram við íslenskar strendur og ef það reynist þeim hættulaust þá snúa þeir kannski aftur, eftir 1000 ára hlé, og hreiðra um sig við strandlengjuna.
Fréttamaður RÚV velur að spyrja ekki út í hvað átt er við með orðunum gamalt búsvæði rostunga og manni finnst eins og það sé gefið í skyn að með gamalt sé átt við mörg þúsund ár, en ekki landnámsöld, og auðvitað alls ekki nefnt að maðurinn hafi sennilega hrakið rostunginn frá Íslandi, ekki veðrið.
Allt annað er svo ágætlega í stíl við svipaðar og svokallaðar fréttir. Hver einasta breyting á einhverju í náttúrunni er undir eins orðin að vísbendingu um yfirvofandi hörmungar vegna hlýnunar jarðar sem er vitaskuld af mannavöldum og að sjálfsögðu fordæmalaus. Ekkert haft fyrir því að vísa í gögn, sýna línurit eða fá fleiri en eina túlkun.
Allt eins og við eigum að venjast og í boði skattgreiðenda, því miður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 3. júlí 2023
Sápuþvottur á plasti
Það getur verið athyglisverð æfing að bera saman hvernig ríki í Evrópusambandinu innleiðir ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins og hvernig ríki utan Evrópusambandsins innleiðir ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins.
Til dæmis Danmörk og Ísland.
Ég bý í fjölbýlishúsi í Danmörku, nánar tiltekið í sveitarfélagi sunnan við Kaupmannahöfn, og er núna staddur á Íslandi þar sem ég dvel einnig í fjölbýlishúsi.
Í Danmörku set ég þurrt plast, þurran pappír og annað slíkt í poka og ber svo á 2-4 vikna fresti út í skúr við bílastæðið sem er tæmdur nokkrum sinnum á ári. Þangað rata gömul húsgögn, stórir pappakassar, leikföng og ýmislegt. Allt annað rusl set ég í poka undir eldhúsvaskinum og treð svo í lúgu á veggnum á ganginum, þar sem ruslið fellur niður í einhvern gám sem ég kem aldrei nálægt.
Fagmenn taka við öllu þessu rusli og flokka það eins vel og hægt er, nýta sumt og brenna afganginum (og framleiða í leiðinni rafmagn og hita).
Nokkuð þægilegt, satt að segja. Ég þvæ ekki ruslið mitt. Ég þarf ekki að nýta annað rými en skápinn undir eldhúsvaskinum (fyrir báðar tegundir), og ég þarf ekki að fara í bíltúra með ruslið mitt.
Auðvitað svífa yfir vötnum hótanir um að frekari flokkun sé handan við hornið en þegar er búið að takast svo ágætlega að gera bíla óaðgengilega venjulegu launafólki (eins og í Danmörku) þá er erfitt að ætlast til að fólk geti komið ruslinu lengra í burtu en nokkra metra frá heimili sínu.
Færum okkur nú til Íslands. Ég sé að fólk er hérna byrjað að þrífa ruslið sitt með heitu vatni og sápu og setja svo tandurhreint í sérstaka poka sem fara í sérstakar tunnur eða gáma. Ruslalúgunum á að loka. Fernur eru pappír einn daginn en ekki þann næsta. Hvað með box sem eru bæði úr pappír og plasti? Enginn veit. Fólk þarf að eiga bíl til að komast í svokallaða grenndargáma eða móttökustöðvar og ekki boðið upp á að sækja stærri hluti eins og brotin húsgögn eða málningarfötur. Ruslið er því á ferð og flugi um allan bæ, og endar svo jafnvel í skipi sem siglir því til Svíþjóðar til að hjálpa Svíum að halda á sér hita.
Er hægt að kenna Evrópusambandinu um þessa þvælu? Nei, auðvitað ekki. Það sem gerðist er að fámennir ofstækismenn fengu frítt spil og óútfyllta ávísun til að innleiða stórt, dýrt og óskilvirkt klúður.
Sé einhver Evrópusambandstilskipun að baki þessari þvælu þá hefur hún verið túlkuð á strangasta mögulega vegu til að ónáða venjulegt fólk eins mikið og hægt er.
Það ætti að vera lítill vandi að vinda ofan af þessu og það mætti gera án þess að draga í neinu úr endanlegri flokkun og endurnýtingu ýmissa efna með því að leyfa venjulegu fólki að losna við ruslið og fagmönnum og færiböndum um að flokka það og koma í farveg. Að sjálfsögðu eiga Íslendingar að geta brennt því sem þarf að brenna í stað þess að niðurgreiða hitaframleiðslu í Svíþjóð og skipaflutninga þangað. Urðun er víða góð leið til að búa til jarðveg. Þetta á ekki að þurfa vera svona flókið og það er ekki hægt að saka Evrópusambandið um óþægindin.
Þetta þarf að gerast sem fyrst svo ekki fari að myndast fleiri ólöglegir ruslahaugar á bak við tómar byggingar og í skurðum við þjóðveginn.
Hugleiddu þetta, næst þegar þú stendur þig að því að þvo tómt salatbox með heitu vatni og sápu á eigin reikning áður en þú kemur því fyrir í upphituðu húsrými sem ætti í raun að nýtast fólki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. júlí 2023
Háskólagráður til sölu - þær hljóta þá að vera einhvers virði
Svolítil frétt frá Spáni segir að lögreglan þar á bæ hafi nú stöðva framleiðslu og sölu á fölsuðum prófskírteinum. Fyrir nokkur hundruð evrur hefur mörgum tekist að verða sér úti um skírteini og fá vinnu í kjölfarið og unnið við hana svo árum skiptir, eða eins og segir í fréttinni:
Elsta prófskírteinið var keypt árið 2013 og viðkomandi hafði starfað við fagið sem háskólaskírteinið hljóðaði upp á allar götur síðan.
Auðvitað er slæmt að falsa og starfa á fölsuðum forsendum en hversu mikils virði eru ýmis ekta prófskírteini? Mörg slík eru sennilega einskis virði og hafa verið hrein tíma- og peningasóun fyrir alla sem komu að framleiðslu þeirra. Fólk með pappír úr morgunkornskassa er að taka störf frá þeim með ekta pappír og sinna þeim svo árum skiptir án þess að nokkurn gruni neitt.
Mögulega er að einhverju leyti við fyrirtæki að sakast. Þau eru að gera kröfur um hinn og þennan ónauðsynlegan pappír til einfalda sér ráðningaferli og fækka umsækjendum. Mörg fyrirtæki hafa sem betur fer áttað sig á því að þannig er lokað á mikla hæfileika, en það virðist ennþá vera undantekningin.
Auðvitað þarf menntun til að sinna ákveðnum störfum. Raunverulega menntun. En ekki alltaf. Af hverju er til dæmis kostur að listrænn ráðunautur við Þjóðleikhúsið sé með háskólamenntun? Ég hefði haldið að listrænna ráðunautur, með alla sína skapandi hæfileika og óþol fyrir föstum formum, ætti jafnvel að vera algjörlega án formlegrar menntunar.
Er allt þetta daður við háskólapappíra hreinræktað snobb? Eða telja margir að þeir sem hafa klárað háskólanám hafi sýnt getuna til að fylgjast aðeins með og hafi lært að taka glósur, en að innihald námsins sé aukaatriði?
Margt af duglegasta fólkinu sem ég þekki er án háskólagráðu. Háskólagráða í ýmsum fögum er algjörlega verðlaus pappír - ódýrari í raun en þær nokkur hundruð evrur sem útsjónarsamir einstaklingar hafa eytt í falsaðan pappír. Kannski að góð atvinnuauglýsing sé stundum sú sem beinlínis bannar háskólamenntuðum að sækja um? Nema auðvitað að þeir lofi því að þeir hafi hrist af sér allan heilaþvottinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 1. júlí 2023
Hið nýja tungumál
Fyrir einhverjum áratugum var gerð tilraun. Nýtt tungumál var búið til frá grunni og hugmyndin sú að ef allir lærðu það gætu allir talað saman þvert á heimshluta. Hið nýja tungumál, esperanto, náði engu flugi. Fólk vildi tala sitt eigið tungumál jafnvel þótt það væri flókið og troðfullt af óskiljanlegum tilvísunum í fyrri venjur og siði og jafnvel þótt það þýddi erfiðleika á ferðalögum.
Í dag á svipuð tilraun sér stað. Það á að breyta tungumálinu og hreinsa það af hinni gömlu synd að kynin séu tvö og að manneskja sé annaðhvort karl eða kona - hann eða hún.
Gott og vel. Það er um að gera að styðja frumkvöðlastarf þótt gjaldþrotið blasi við. Hér er því mitt framlag í þá vinnu, gjaldfrjálst.
Lýst er eftir tillögum að eftirfarandi nýyrðum:
amma ? afi (kynhlutlaust orð yfir foreldri foreldra)
Orðin afi og amma vísa til foreldra foreldra út frá kyni þeirra. Hvaða sambærilega nafnorð getum við notað um kynsegin fólk eða fólk sem við vitum ekki kynið á?
Hugmyndir:
- Amlóð, hvorugkynsmynd af orðinu amlóði, þ.e. maður sem hefur lítinn dug og þol (til að segja barni sínu að hætta að uppnefna sig og bara kalla sig afa eða ömmu barnabarna sinna)
- Resk, sem nafnorðsmynd sagnorðsins reskjast, og ætti að lýsa ágætlega þeirri hugmynd að ömmur og afar eru bara gamalt og visið fólk sem má svipta ömmu- og afa-titlum sínum
- Arfbyrði, sem afbrigði af orðinu arfberi, og hefur þann tvöfalda tilgang að lýsa ömmum og öfum sem arfberfum en um leið sem byrði á samfélaginu enda eru ömmur og afar væntanlega að flækjast fyrir afskræmingu tungumálsins
kk. ? kvk. (skammstöfun fyrir kynsegin)
Skammstafanirnar kk. og kvk. vísa til karlkyns og kvenkyns. Hk. vísar til hvorugkyns en er almennt ekki notað til að vísa til fólks. Hvaða skammstöfun dettur þér í hug sem vísar til kynsegin?
- Huliðskyns, einnig skammstafað hk., sem lýsir því ágætlega að enginn veit hvað er í gangi og hvernig á að ávarpa viðkomandi eða umgangast.
- Hvergikyns, einnig skammstafað hk., sem lýsir því ágætlega að um leið og maður taldi sig þekkja kyn viðkomandi þá er það horfið og birtist dag einn að nýju, mögulega breytt, áður en það hverfur aftur
- xx, sem almenn lýsing á vandamáli þar sem þarf að finna fyrir hvað x stendur.
sú ? sá (kynhlutlaust ábendingarfornafn í eintölu)
Ábendingarfornöfnin sá (þann-þeim-þess) og sú (þá-þeirri-þeirrar) vísa til karlkyns og kvenkyns. Fornafnið það vísar til hvorugkyns en er almennt ekki notað til að vísa til fólks. Því þarf ábendingarfornafn sem hægt er að nota um kynsegin fólk og jafnframt er hægt að nota um fólk sem við vitum ekki kynið á. Nokkur dæmi um notkun ábendingarfornafna:
Sú / ___ / sá sem skorar flest mörk vinnur.
Sú er góð með sig / ___ er gott með sig / Sá er góður með sig
Hvaða ábendingarfornafn getum við notað um kynsegin fólk eða fólk sem við vitum ekki kynið á?
- Só er mín hugmynd. Þetta er tökuorð og vísar til enska orðsins so, sem þýðir í ákveðnu samhengi og hvað með það eða hvaða máli skiptir það. Sem dæmi um notkun:
Af hvaða kyni er Siggi úr Grafarvogi í dag?
Só.
Annað dæmi:
Só er gott með sóg. (Færeyingar telja sjálfsagt að hérna sé verið að tala þeirra tungu) - Það (skýring óþarfi)
femme
Orðið femme er stytting á enska orðinu feminine og er notað til að lýsa kyntjáningu einstaklinga en einnig þeim einstaklingum sem fólk laðast að. Hugtakið felur í sér ákveðinn skilning á hvað telst vera kvenlegt í samfélaginu, oftast miðað við hefðbundnar kynjaímyndir. Það geta öll verið femme óháð kynvitund og sömuleiðis geta öll laðast að femme einstaklingum, óháð kynhneigð. Hvaða íslenska lýsingarorð dettur þér í hug yfir femme?
Hérna þarf í alvöru að byrja á að svara spurningunni: What is a woman? Þegar það hefur tekist er hægt að leggja eitthvað til.
Ég ætla ekki að leggja í orðin masc og allosexual að þessu sinni enda er erfitt að búa til tungumál sem enginn notar, en ég óska frumkvöðlunum velgengni í starfi sínu og vona að opinberir styrkir nýtist vel við það.
![]() |
Leita að kynhlutlausu amma og afi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 30. júní 2023
Heimurinn að klofna
Vesturlönd hafa haft það frekar náðugt seinustu áratugina. Þau eru ríkust allra, friðsælust allra og hreinust allra. Þau fá til sín mat og varning frá öllum heimshornum og borga fyrir það með smápeningum sem eru prentaðir á Vesturlöndum og allir samþykkja að taka við. Ef Vesturlöndum vantar orku þá bora þau holur í jörðina þar sem þeim sýnist og láta senda sér alla orkuna á meðan heimamenn halda áfram að brenna stráum og þurrkaðri mykju til að fá orku. Ef Vesturlöndum vantar strigaskó þá henda þau í verksmiðju í einhverju þróunarríki til að framleiða þá og borga berfættum heimamönnum smápeninga fyrir greiðann.
Örfáum ríkjum hefur tekist að nýta sér þetta fyrirkomulag heimsverslunar. Í Suður-Kóreu, Taívan, Singapore og núna Kína hefur þátttaka í heimsversluninni lyft heimamönnum upp í svipuð lífskjör og þekkjast á Vesturlöndum. Frjáls verslun og vel varin eignaréttindi hafa stuðlað að slíkri þróun. En víða í Afríku láta menn ennþá sósíalismann plaga sig og heimamenn græða ekkert (ef einræðisherrar þeirra, sem þiggja arðgreiðslur úr olíuvinnslu og hjálparfé úr góðgerðarstarfi, eru undanskildir).
Núna er mögulega eitthvað að breytast.
Fyrir einhverjum árum komu fulltrúar Brasilíumanna, Rússa, Indverja og Kína saman og mynduðu með sér samstarfsvettvang sem fékk gæluheitið BRIC og sem Suður-Afríka bættist síðar við og úr varð BRICS. Lítið er fjallað um þennan samstarfsvettvang í íslenskum miðlum sem má teljast furðulegt því þetta er aðeins meira en kaffispjall nokkurra leiðtoga. Þar á bæ er samstaða um að bjóða upp á valkosti við vestrænar lausnir og vestræn viðhorf. Til að mynda beita engin ríki BRICS Rússum neinum efnahagsaðgerðum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Þar er talað um að búa til gjaldmiðil sem valkost við bandaríska dollarann. Og umsækjendur flæða inn að því marki að það fer að verða áberandi á heimskortinu.
En hvað þýðir þetta? Að heimurinn sé að klofna? Að það sé að myndast mótvægi við vestræn áhrif? Að einhver spenna sé að myndast? Mögulega allt þetta. Ef dollarinn missir stöðu sína sem hinn eini sanni gjaldmiðill í alþjóðaviðskiptum þá verður erfiðara fyrir Vesturlönd að halda sér uppi á útfluttri verðbólgu (þar sem er hægt að kaupa raunveruleg verðmæti fyrir peninga sem í sífellu eru að tapa verðgildi sínu vegna peningaprentunar). Mögulega eru vaxandi viðskipti að eiga sér stað með olíu án aðkomu dollarans, sem væru nýmæli. Þegar Bandaríkin beita dollarnum eins og vopni þá er sjálfsagt fyrir þann sem er laminn með því vopni að einfaldlega halda sig fjarri því.
Við teljum okkur í trú um að vestræn ríki marki ennþá stefnuna á heimssviðinu. Að það sem þau telja að sé rétt að gera sé það sem allir telji að sé rétt að gera. Að allir klappi þegar leiðtogar vestrænna ríkja tala. Þannig eru jú svokallaðar fréttir matreiddar ofan í okkur á Vesturlöndum. En kannski er þetta rangt og að hið rétta sé að Vesturlönd eru að mála sig út í horn og heimurinn að klofna með nýjum bandalögum.
Verðum við þá ánægð?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 28. júní 2023
Verktakar ríkisvaldsins
Tæknifyrirtækin sem loka á færslur á samfélagsmiðlum og ritskoða skoðanir eru einkafyrirtæki sem eiga vitaskuld að fá að ráða því hvað þau umbera og hvað ekki, og ekkert við því að segja.
Eða svo er okkur sagt.
Og gott og vel: Ef ég fæ gest á heimili mitt þá vil ég ekki að hann sé með tússpenna sem hann notar til að skrifa á veggina mína. Ég banna honum að koma inn. Ég hendi honum út ef hann skrifar á veggina mína.
En þetta er ekki alveg svona einfalt. Eða eins og segir í skýrslu íslenskra yfirvalda (kafla 9):
Evrópusambandið átti frumkvæði að því að skrifað var undir starfsreglur (e. Code of Practice on Disinformation) milli Evrópusambandsins og alþjóðlegra tæknifyrirtækja (Facebook, Google, Twitter, Mozilla, Microsoft og TikTok), auk auglýsenda og auglýsingastofa, þar sem aðilar viðurkenna mikilvægt hlutverk sitt til þess að takast á við þær samfélagslegu áskoranir sem fylgja upplýsingaóreiðu og skuldbinda sig til þess að sporna gegn henni. Er það í fyrsta sinn sem alþjóðleg tæknifyrirtæki skuldbinda sig til að setja sér starfsreglur til að koma í veg fyrir útbreiðslu rangra eða villandi upplýsinga og falsfrétta í ríkjum Evrópu.
Já, þú lest rétt. Samfélagsmiðlarnir gerðust handgengnir yfirvöldum og tóku að sér verktakavinnu í að kæfa skoðanir og skoðanaskipti.
Enginn óháður. Engir notendaskilmálar. Ekkert gegnsæi.
Við tölum um að það sé ekkert að marka fjölmiðla í Kína, Rússlandi, Úkraínu og Íran því ríkisvaldið skiptir sér af og hefur áhrif á það sem fjallað er um og ákveður hvaða skoðanir eru heimilar og hverjar ekki.
Kannski við ættum að líta okkur nær að sumu leyti. En að minnsta kosti að skola blekkingarhjúp yfirvalda og samfélagsmiðla í holræsið. Atlagan að málfrelsi okkar er stanslaus og fer vaxandi. Yfirvöld eru að giftast fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og mynda bandalag gegn skoðanaskiptum venjulegs fólks.
Hvaða skáldsögur er verið að segja okkur núna? Hvaða skáldsögur eru handan við hornið? Hvaða fyrirsagnir eru eins á öllum miðlum? Hvaða fyrirsagnir eru merktar á öllum miðlum sem falsfréttir og upplýsingaóreiða?
Það er kannski kominn tími til finna bókabúðir sem þola fjölbreytt úrval.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 28. júní 2023
Orkuskiptin og allt það
Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa lesið bókina Fossil Future: Why Global Human Flourishing Requires More Oil, Coal, and Natural GasNot Less eftir Alex Epstein þá hefur orðið ennþá erfiðara fyrir mig en áður að lesa fréttir af meintum orkuskiptum sem móteitri við svokallaðri loftslagsvá. Bókin er góð og vel rökstudd og jafnvel hörðustu andstæðingar hagkvæms jarðefnaeldsneytis gætu lært mikið af henni, þó ekki nema til að kynna sér almennilega þær áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir í að afla sér orku og hvað er mikið í húfi að það takist.
Ísland er orkueyja. Á eyjunni eru fallvötn og jarðhiti sem veita aðgang að stöðugri og hagkvæmri orku - ekki bara sveiflukenndu rafmagni heldur stöðugu streymi af bæði hita og rafmagni. Svolítil viðbót í formi jarðefnaeldsneytis tryggir svo samgöngur, siglingar og varaafl. Á Íslandi er hægt að reka álverksmiðjur sem losa töluvert minna af koltvísýringi en þær sem eru staðsettar víða annars staðar, og álið svo nýtt til að skipta út stáli í bílum og flugvélum, létta þessi tæki og minnka eldsneytisnotkun þeirra. Koltvísýringurinn stuðlar svo að örvun á plöntuvexti og gerir Íslendingum kleift að rækta korn og byggja upp skóglendi. Þetta er dásamleg blanda.
En það vantar meiri orku. Stöðuga og hagkvæma orku. Orku eins og þá sem vatnsfallsvirkjanir framleiða. En þær má helst ekki reisa. Þær breyta jú ásýnd landslagsins, raska fiskigöngum og rýra vatnabúskap, ekki satt?
Að taka spjaldtölvurnar og rafmagnsbílana af fólki? Að hækka rafmagnsverð á ákveðnum tímum sólarhrings, þá helst þegar barnafjölskyldur þurfa að sjóða vatn til að elda mat (að hætti Dana)?
Nei, reisa vindmyllur!
Þá er allt í lagi að breyta ásýnd landslagsins. Fuglar gætu orðið fyrir röskun (eins og þeirri að missa höfuð eða væng) en gleymum því. Rafmagn má allt í einu fara úr því að vera stöðugt, ódýrt og áreiðanlegt í óstöðugt, dýrt og óáreiðanlegt og krefjast varaafls í formi rafstöðva og annars konar virkjana - tvöfalt kerfi í stað einfalds.
Vindmyllur eru örugglega sniðugar í ákveðnum tilvikum, t.d. þegar valkostir eru fáir, plássið mikið, vasarnir djúpir og neytendur ríkir. En þær eru sjón- og hljóðmengun, raska náttúrunni, óstöðug uppspretta orku, kosta mikið í viðhaldi og mun síðri valkostur en margt annað sem er raunverulega í boði á Íslandi.
Bara svo því sé haldið til haga.
![]() |
Vill reisa vindorkugarða í nágrenni Hellisheiðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 27. júní 2023
Góða fólkið og fjölbreytileikinn
Það eru til margar leiðir til að sýna umburðarlyndi.
Ein er sú að umgangast einstaklinga af virðingu og kurteisi og fá í staðinn eitthvað svipað. Þá er allt svo einfalt. Í slíku umhverfi er meira að segja hægt að rífast án þess að það sé annað en heilbrigð skoðanaskipti.
Önnur er sú að setja einstaklinga í hólf sem byggjast á líkamlegum eiginleikum og blæbrigðum í skoðunum og líðan, og búa svo til sérstakar reglur um umgengni og talsmáta sem taka til hvers hólfs. Þeir sem fylgja ekki reglunum eru fordómafullir. Þá er allt svo flókið.
Því miður er flókna leiðin í dag vinsælli en sú einfalda, a.m.k. ef marka má fjölmiðla og tungutak stjórnmálamanna. Sem persónugerving hinnar flóknu leiðar er forsætisráðherra Kanada, eins og sést á þessari mynd:
Þessi maður, sem fangelsar heiðarlega borgara og sviptir þá eigum sínum ef þeir tala gegn stefnu hans, er búinn að hólfa einstaklinga og beitir síðan mismunandi reglum á hvert hólf.
Hann er fyrir vikið auðvitað afskaplega vinsæll. Mér finnst að hann ætti að vera óvinsæll. Hann er hroka- og fordómafullur en talinn vera umburðalyndur og víðsýnn. Það er áberandi hvað hann fyrirlítur venjulegt, vinnandi fólk sem vill eiga bíla og borða kjöt en er af einhverjum ástæðum talinn vera mikill mannvinur sem talar fyrir þá sem eiga undir högg að sækja.
Hin flókna leið að hólfa fólk niður og setja svo mismunandi reglur fyrir hvert hólf er mjög í tísku. En nú þykist ég finna fyrir því að hin flókna leið endist ekki mikið lengur. Ég fagna því.
Mánudagur, 26. júní 2023
Samhengi
Það er erfitt að fylgjast með fréttum frá átökum Rússa og Úkraínumanna. Þar stangast allt á. En það þarf ekki að vita allar staðreyndir málsins til að sjá að frétt um endurheimt Úkraínumanna á einu þorpi er ekki frétt heldur tilraun til að réttlæta mögnun átaka í Úkraínu.
Ég merkti að gamni inn svæði sem er um það bil tvöfalt stærra að flatarmáli og meintir landvinningar Úkraínumanna síðan þeir hófu í upphafi júní að dæla ungum mönnum og vestrænum stríðstólum í hakkavélina sem rússnesku varnarlínurnar eru.
Þetta flatarmál landvinninga er auðvitað ekki samþjappað á einum stað. Það dreifist yfir þúsundir kílómetra af varnarlínum. Í raun hefur ekki tekist að ná neinum árangri. Ef menn vilja Rússa út úr Úkraínu þá þurfa menn að setjast niður og sannfæra þá um að rússneski minnihlutinn í Úkraínu fái að tala rússnesku, stunda trúarbrögð sín og ráða sínum málum meira (Krím-skaga sleppa þeir samt ekki, svo það sé á hreinu). Rússar samþykktu tvo samninga sem kváðu á um eitthvað svona. Þeir voru auðvitað sviknir en til forðast meira blóðbað, meiri eyðileggingu og fleiri fórnir er þetta eina leiðin.
En á meðan menn afneita þá halda ungir menn áfram að deyja í rússnesku hakkavélinni, og við á Vesturlöndum klöppum fyrir því að eitt þorp hafi skipt um hendur, tímabundið.
![]() |
Úkraínumenn endurheimta annað þorp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |