Þriðjudagur, 7. maí 2024
Þjóðkirkjan og þjóðin
Ég er sífellt meira að færast á þá skoðun að kirkjan eigi mikið inni í samfélagi okkar, jafnvel meira en oft áður.
Hvers vegna?
Jú, vegna alls þessa ógeðs sem er hellt yfir okkur og jaðrar við brenglun, svo sem:
- Ásókn fullorðins fólks í börn og búningsklefa þar sem eru börn af andstæðu kyni
- Klámfræðsla fyrir börnin
- Dýrkun samfélagsins á geldingum
- Afsakanir fyrir þá sem girnast börn kynferðislega
- Hatur á samfélagi manna - sú trú að maðurinn sé eitur
- Tilbeiðsla á ríkisvaldinu og æðstuprestum þess
- Aukinn vilji til að blása í stríðsátök og jafnvel útrýmingu á ákveðnum hópum
Fyrir marga væri mögulega miklu betra að skreppa í nytjamarkaðinn á Háaleitisbraut og krækja sér í ókeypis eintak af Nýja testamentinu og lesa aðeins í því. Fyrir aðra að mæta í kirkju. Fyrir enn aðra að rifja upp sögulegar rætur okkar helgidaga og hvaða sögur liggja að baki þeim.
Sjálfur keypti ég mína fyrstu Biblíu í fyrra, gullfallegt og handhægt lítið eintak sem er ljúft að blaða í og lesa aðeins. Þetta gerði ég ekki af því að mín gamla kristna trú hafði snúið aftur heldur var ég einfaldlega að leita að áþreifanlegu móteitri við öllum viðbjóðnum sem okkur er núna kennt að sé hin nýju trúarbrögð.
Ég heyrði skemmtilega greiningu á samfélaginu í hlaðvarpi um daginn um það hverjir væru hinir einu sönnu uppreisnarseggir í dag (sem myndin við þessa færslu minnir mig á). Það eru ekki fólkið með bláa hárið og nefhringina sem berar sig á almannafæri og dregur að húni fána Palestínu. Slíkir einstaklingar eru í dag orðnir hin viðtekna venja sem fær allt sviðið. Nei, uppreisnarseggirnir í dag eru snyrtilega klæddir, boða hefðbundin gildi og tala af yfirvegun og ró eftir að hafa lesið sér til um flókin málefni og myndað sér skoðun.
Kristnir menn í jakkafötum og kaþólskar konur í dragt.
Þetta eru þyrnarnir í augum yfirvalda og hin raunverulega andspyrna gegn yfirgangi þeirra.
Þjóðkirkjan gæti mögulega komist í tísku aftur, sem móteitur gegn viðbjóðnum.
Ætli hún nái að nýta það tækifæri?
![]() |
Vill hafa ungan ráðgjafa sér við hlið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 6. maí 2024
Verkfallsvopnið
Verkfallsrétturinn, eða verkfallsvopnið, er furðulegt fyrirbæri. Hann hafa ekki allir. Þeir sem hafa hann eru oftar en ekki hálaunastarfsmenn. Þeir geta sett samfélagið á hliðina í einhverju sem ætti einfaldlega að vera innanhúsmál launþega og atvinnurekenda.
Ég hef ákveðna samúð með þeirri trú að verkföll séu góð leið til að bæta kjör. Slík trú byggist á því sem menn sjá hér og nú og síður á sögulegum staðreyndum eða afleiðingum misræmis á milli launa og verðmætasköpunar. En gott og vel, það er lítið hægt að gera við því.
En einhvern veginn er það nú samt þannig að þær stéttir sem þurfa einfaldlega að mæta í vinnuna til að halda henni og fá laun hafa það bara alveg ágætt. Kannski er það af því að þær eru alveg hárrétt staðsettar með tillit til framboðs á og eftirspurn eftir þekkingu þeirra, kannski er um hreina tilviljun að ræða eða kannski lepja þær bara þegjandi dauðann úr skel. Svari þeir sem vita.
Ég hætti á að kalla yfir mig reiði Austfirðings en ég legg til að þessi svokallaði verkfallsréttur - þetta barefli sem venjulegt fólk verður svo ítrekað fyrir - verði einfaldlega afnuminn. Vilji menn leggja niður störf þá er þeim velkomið að gera það en maður kemur í manns stað. Batnandi kjör til lengri tíma fara jú eftir verðmætasköpun, ekki taxtabreytingum. Of háir taxtar þrýsta á fækkun starfa eða flótta þeirra, of lágir taxtar ná ekki að laða að sér vinnuafl. Kannski er þetta ekkert flóknara en svo.
Þar með er ekki sagt að launþegar eigi ekki að sameinast um hagsmunabaráttu sína. Nú er ég sjálfur til dæmis í verkalýðsfélagi sem ég borga litla þóknun til og hef þannig aðgang að lögfræðingum ef þess gerist þörf. Aðrir vilja borga meira og fá aðgang að sumarbústöðum og gleraugnastyrkjum. Sjálfsagt mál. En að geta skrópað í vinnunni og meinað öðrum að ganga í störfin - það er óréttur, ekki réttur.
![]() |
Bjóða fólki að færa sig um flug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 5. maí 2024
Samanburður: Fréttaskýring vs. þvæla dulbúin sem fréttaskýring
Ég les reglulega fréttir og fréttaskýringar á Oilprice.com sem fjallar fyrst og fremst um orkumál, en með breiða skírskotun. Þessi miðill fer yfir víðan völl og er að mér finnst oftast raunsær í nálgun sinni. Rétt í þessu las ég þar fréttaskýringu um sameiginlega ákvörðun hinna svokölluðu G7-ríkja (einu sinni sjö stærstu hagkerfi í heimi en í dag bara kjaftaklúbbur lítils hóps ríkja) um að draga úr og að lokum hætta notkun á kolum til orkuframleiðslu. Eins og kemur fram í pistlinum þá er slíkt markmið vægast sagt langsótt, af mörgum ástæðum, svo sem:
- Orkunotkun er sífellt á uppleið, meðal annars vegna aukinnar notkunar á gervigreind sem krefst mun meiri orku en hefðbundin tölvustarfsemi
- Orkuöflun með sól og vind er óstöðug, og tekið dæmi um að í Þýskalandi hafi vindorkuver nýlega verið fjarlægt til að stækka kolanámu til að tryggja orkuframleiðslu
- Það tekur of langan tíma að byggja upp kjarnorku til að hún dugi til skemmri tíma til að leysa af kol
Einnig er bent á að minnkandi kaup Vesturlanda á kolum muni bara lækka verð á þeim og ríki eins og Kína munu njóta hins lækkandi verðlags og einfaldlega kaupa meira, og hið sama gildir um afgang heimsins sem er að iðnvæðast með notkun kola.
Niðurstaðan var því sú að þetta væri nokkuð óraunsætt markmið og jafnvel ef það næst að hluta eða í heild þá munu kolin einfaldlega renna í aðrar áttir, á afslætti.
Berum þessa umfjöllun saman við fréttaskýringu um sama mál hjá einum af þessum hefðbundnu, gagnslausu, innantómu áróðursmiðlum og tökum CNN sem dæmi.
Þar er aðallega vitnað í glópa sem telja að yfirlýsingin sé of metnaðarlaus og að meira þurfi til að breyta veðrinu, að það sé galli að jarðgas hafi ekki líka mætt dauðadómi sínum, og að orðalag yfirlýsingarinnar hafi ekki verið nógu sterkt og gefi möguleika á að nota kol lengur gegn ákveðnum skilyrðum.
Með öðrum orðum alveg gjörsamlega ónothæf fréttaskýring sem skilur lesandann eftir með þá villutrú í höfðinu að stjórnmálamenn séu raunsæir og að heimurinn sé að fara bráðna því Japan er ekki búin að dagsetja endalok kolanotkunar.
Að lokum:
Blaðamenn hafa mikil áhrif á það hvernig þeir fjalla um viðfangsefni og jafnvel þótt þeir telji sig allir sem einn vera að skrifa á hlutlausan og yfirvegaðan hátt, og í anda nýjustu vísinda og rannsókna, þá velja þeir sína viðmælendur og sínar heimildir á þann veg að búa til frásögn frekar er frétt. Fæstir blaðamenn sleppa úr þeirri gildru að troða eigin hugmyndafræði inn í fréttir sínar. Við hin þurfum því að hafa varann á til að missa ekki jarðtenginguna og helst að tileinka okkur fjölbreytni í vali á fréttamiðlum, eða sleppa því bara alveg að neyta frétta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 4. maí 2024
Kosningar fá blaðamenn til að vinna vinnuna sína
Forsetaframboð ýmissa einstaklinga eru að fara eins og hreinsandi eldur um marga afkima íslensks samfélags. Menn eru látnir svara fyrir rangar ákvarðanir á ögurstundu, gerðir minnislausir í útsendingu og núna er ringulreiðin innan hinnar íslensku stjórnsýslu líka komin í sviðsljósið, í þessu tilviki innan Orkustofnunar en þar tel ég víst að ekkert óvenjulegt sé á ferð þótt það sé óeðlilegt. Maður fær það miklu frekar á tilfinninguna að innan hins opinbera ríki algjör glundroði sem kostar skattgreiðendur óhemju tíma og fjár.
Til dæmis las ég á einum stað um raunir manns sem hafði lengi haft íbúð í útleigu en skyndilega fengu leigjendur hans engar húsaleigubætur því einhver þriðji aðili hafði skráð lögheimili sitt á íbúðina, og gat það alveg án afskipta eiganda. Við tók mikið flakk á milli Þjóðskrár, Hagstofu og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ríkisins sem tala ekki saman, deila ekki upplýsingum og vísa hver á aðra.
(Góður grikkur gegn einhverjum sem manni líkar illa við gæti þá verið að skrá lögheimili sitt á heimili hans og baka honum allskyns vandræði í samskiptum hans við hið opinbera.)
Í viðleitni sinni til að þrýsta aðeins á frambjóðendur eru blaðamenn að byrja vinna vinnuna sína. Það er gott. Enn betra væri að þeir gerðu það allan ársins hring og ekki bara á tímum kosningabaráttu. En það er kannski óhófleg bjartsýni. Sjáum hvað setur.
![]() |
Ráðuneytið kannast ekki við samráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 3. maí 2024
Á maður að kolefnisjafna sig?
Mér var bent á grein sem bar eftirfarandi kynningu:
Að meðaltali losar hver Íslendingur um það bil 12 tonn af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið á ári. Víða á netinu er hægt að kaupa kolefnisjöfnun á 12 tonnum fyrir 20 þúsund krónur eða svo. Þá er eðlilegt að margur spyrji: Ef fólk gerir þetta árlega, er fólk þá ekki bara í góðum málum?
Gagnvart svona nálgun súpa sumir hveljur en aðrir staldra við. Málið er umdeilt eins og hér er farið yfir.
En spennandi! Farið yfir umdeilt mál! Á miðli sem ég þekkti ekki og sem fjallar kannski gagnrýnið um málið! Ég hoppaði undireins inn í greinina sjálfa.
Vonbrigði mín voru mikil. Fjallað var um allar svikamyllurnar, bæði þær sem eru það án þess að kallast það og hinar sem eru það og kallast það. Lokaorðin segja alla söguna:
Aðalatriðið er þó að gleyma alls ekki að rækta sinn eigin garð, minnka sína losun og auka sína bindingu, og berjast fyrir því að stjórnvöld geri allt slíkt auðveldara fyrir alla. En að kolefnisjafna sig að auki, með vottuðum og viðurkenndum einingum það getur varla sakað. Það þarf jú mörg verkfæri í boxið, margar nálganir og aðferðir, þegar loftslagsvandinn er annars vegar.
Þarna rekst ég sérstaklega á að það geti ekki sakað að kolefnisjafna sig. Þetta er einfaldlega rangt. Það sakar, mjög mikið. Þessi árátta til að kolefnisjafna, eins og það kallast, er að valda miklum skaða á samfélagi okkar og hagkerfi. Mjög miklum. Og allt til einskis. Fé út um gluggann. Verðmæti í súginn. Mannlegar þjáningar. Efnahagslegt sjálfsvíg.
En bíddu nú við, er ekki í lagi að ég borgi auka hundraðkall fyrir flugmiðann svo það sé hægt að rækta meiri skóg? Það er í góðu lagi, en kallaðu það þá stuðning við skógrækt, skógræktar vegna. Ef þú hefur áhyggjur af kolefnisfótspori þínu þá kaupir þú auðvitað ekki flugmiðann til að byrja með. Sparaðu þér bara ómakið.
Kolefnisjöfnun er ein stór svikamylla sem er einfaldlega ætlað að herða tök yfirvalda og alþjóðasamtaka á samfélagi okkar. Nú þegar er hægt að fá greiðslukort sem reikna út hvað þú ert búinn að losa miklum koltvísýring í andrúmsloftið með neysluvenjum þínum. Næsta skref er að setja kvóta á slíkt. Bíddu bara.
Allt þarf þetta að stoppa sem fyrst, og sem betur fer mörg teikn á lofti um að það sé líkleg lokaniðurstaða. Fyrst eru sett markmið, síðan er dregið úr þeim og loks er þeim frestað, ítrekað. Á meðan er auðvitað svimandi upphæðum sturtað í eltingaleikinn við eigin skugga en fyrr eða síðar segja kjósendur nóg, ef þeirra atkvæði hafa þá eitthvað að segja, en að því er líka unnið að slíkt verði ekki raunin.
Við erum kannski bara lítil kónguló í klósettinu og búið að ýta á takkann til að sturta niður. En hver veit, með því að ríghalda í klósettskálina er kannski hægt að lifa af ódæðið og fá böðulinn til að sleppa takkanum. Eða hoppa upp úr og hverfa úr greipum hans.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 2. maí 2024
Ekki borða grafinn lax en fáðu þér sprautu
Það er flókið að vera barnshafandi kona í dag. Leiðbeiningar til þeirra eru margar og jafnvel misvísandi.
Ég lærði það á sínum tíma að barnshafandi konur ættu að forða ýmislegt. Ég man ekki sérstaklega eftir neinum sérstökum meðmælum öðrum en að borða hollt (með bannlistann í huga) og halda líkamanum í gangi. En bannlistinn var langur og tekinn alvarlega.
Á vef Heilsuveru má til dæmis finna þessar leiðbeiningar:
Fiskur er frábær næring á meðgöngu en ekki ætti að borða hann hráan. Dæmi um hráan fisk:
- Grafinn fiskur
- Kaldreyktur fiskur
- Sushi með fiski
- Súrsaður hvalur
- Hákarl
Barnshafandi konur ættu ekki heldur að borða:
- Þorskalifur
- Sverðfisk
- Stórlúðu
Aðrar fæðutegundir sem ber að forðast á meðgöngu:
- Hráar baunaspírur
- Ógerilsneydd mjólk og ostar/afurðir úr ógerilsneyddri mjólk
- Hrátt kjöt
- Hrá egg
- Fýll og fýlsegg
Eftirfarandi fæðutegundir ætti að borða í hófi ekki oftar en einu sinni í viku:
- Túnfisksteik
- Búra
- Niðursoðinn túnfisk
- Svartfuglsegg
- Hrefnukjöt
Og hvers vegna ætli svo sé? Jú, af því að ýmislegt í matnum getur haft slæm áhrif á fóstur þótt móðir finni ekki fyrir neinu.
En nú er öldin önnur. Í frétt RÚV (hvar annars staðar!) segir læknir barnshafandi konum að fá sér sprautu og skýrir mál sitt svona:
Því er svo mikilvægt að konur á meðgöngu fylgi ráðleggingum um endurbólusetningar, í dag er ráðlagt að endurbólusetja við 28. viku meðgöngu. Það tryggir það að nægjanlegt magn bóluefna, eða sem sagt mótefna, í blóði myndist til þess að verja barn fram að fyrstu bólusetningu við þriggja mánaða aldur. Það er einmitt þessi aldur frá fæðingu að þremur mánuðum þar sem að ungbörn eru viðkvæmust og það er þeim sem er hættast við alvarlegum fylgikvillum og jafnvel lífshættulegum fylgikvillum kíghósta.
Þarna rek ég augun í orðin ...
... tryggja það að nægjanlegt magn bóluefna, eða sem sagt mótefna, í blóði myndist ...
Bíddu nú við. Ég hélt að bóluefni ætti í raun að sýkja líkamann en bara mjög lítið og nægjanlega til að kenna líkamanum að mynda mótefni sem síðar kæmi að góðum notum þegar fullfrísk veira mætir.
En ekki að bóluefnið eitt og sér virki eins og mótefni.
Er læknir ekki að ruglast? Eða að rugla okkur? Eða er ruglaður? Það er eitthvað af þessu því það er ekkert sem sagt samhengi á milli bóluefna og mótefnis. Bóluefnið sýkir móður, og kannski fóstur, og menn geta bara krosslagt fingur að móðir myndi nógu mikið mótefni til að verja fóstur sitt í tæka tíð.
Rússnesk rúlletta með líf fósturs. Hvað veldur?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 1. maí 2024
Samsæriskenning allra samsæriskenninga: Engin samsæri í gangi
Í dag birtist á vefritinu Krossgötum grein eftir mig um lygar sem bráðna. Ég mæli auðvitað með henni allra en langaði að koma sérstaklega inn á þessa efnisgrein:
Sú samsæriskenning að yfirvöld stundi engin samsæri er röng. Þau stunda mörg samsæri, oft í samvinnu við ýmis alþjóða- og hagsmunasamtök. Okkur er sagt frá sumum þessara samsæra en ekki öllum. Við vitum til dæmis ekki af hverju viðbrögð Vesturlanda á veirutímum voru svona samstillt og hvort það sé verið að brugga einhver launráð fyrir næsta heimatilbúna vandamál.
Fyrir tilviljun fékk ég nefnilega fréttabréf í dag sem hófst á þessum orðum:
Ef þér hefur einhvern tíma þótt eins og fjölmiðlar hafi sömu skoðun á ýmsum fréttum, og nota allt að því sömu setningarnar, og vinir þínir kalla þig samsæriskenningasmið fyrir svo mikið sem að velta þessu fyrir þér, haltu þér fast. Þú ert að fara að fá réttlætingu.
**********
If it´s ever seemed to you as if media outlets have identical takes on various news items, down to the phraseology they use, and your friends call you a conspiracy theorist for so much as wondering about it, hold on. You´re about to be vindicated.
Ástæðan er þessi afhjúpun miðilsins Politico. Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf (Inside the Off-the-Record Calls Held by Anti-Trump Legal Pundits) en lesturinn áhugaverður þótt fátt komi á óvart. Auðvitað tala spekingarnir sem fá boð í viðtöl sín á milli og stilla saman strengi. Auðvitað eru blaðamenn þvert á fjölda fjölmiðla að stunda stórt samsæri þar sem sama fréttin er sögð með svipuðum hætti á mörgum stöðum (safe and effective, einhver?).
Svona er ekki bara búið um hnútana þegar rætt er um málefni Donald Trump. Svona voru veirutímar líka, svona er framleidd umfjöllun um loftslagsmál og svona er líka fjallað um ýmis staðbundin átök sem bandarísk yfirvöld hafa af ýmsum ástæðum meiri áhuga á en öðrum (og áhugi okkar verður nákvæmlega sá sami).
Svona erum við talin í trú um að það sé bara ein rétt skoðun og að aðrar skoðanir séu samsæriskenningar. Það er nokkuð kaldhæðnislegt því það er þá hið eina sanna samsæri sem ræður því hver er kallaður samsæriskenningasmiður og hver ekki.
En þú hefur val, jafnvel án þess að leggjast í eigin rannsóknir. Þú getur efast, og þá sérstaklega þegar þú finnur að það er bara ein viðurkennd skoðun sem fær aldrei málefnalegt aðhald í fjölmiðlum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 30. apríl 2024
Orkumálastjóri gleymdi raforkunni
Ég var í sakleysi mínu að horfa á myndband á jútjúb þegar þar birtist allt í einu auglýsing frá forsetaframbjóðandanum Höllu Hrund (sem virðist ekki vera með eftirnafn). Þetta er áhrifamikið og vel unnið myndband með tónlist og talsetningu (sérstaklega miðað við að það var greitt af opinberum starfsmanni, eða hvað?), og þar segir Halla Hrund meðal annars að Íslendingar hafi með seiglu og samvinnu byggt...
brýr, vegi og hitaveitu.
En gleymdi orkumálastjórinn fráfarandi ekki einhverju þarna? Einhverju enn mikilvægara en jafnvel brúm, vegum og hitaveitum, þótt allt sé þetta nú mikilvægt?
Jú, auðvitað. Hún gleymdi vatnsfalls- og jarðvarmavirkjununum.
Hún gleymdi raforkunni. En mundi eftir hitaorkunni.
En kannski gleymdi hún engu. Hún hefur í starfi sínu sem orkumálastjóri lagt á sig ýmsar krókaleiðir til að koma í veg fyrir fleiri raforkuvirkjanir. Hún vill ekki kannast við það býst ég við.
Brýr, vegir og hitaveita, og stórar, öflugar, arðbærar, umhverfisvænar, verðmætaskapandi vatnsfallsvirkjanir sem mala eigendum sínum gull um leið og þær útvega ódýra orku til heimila og iðnaðar.
Kannski er það jákvæða við þetta framboð að núna losnar stóll hennar fyrir manneskju sem lítur ekki á það sem vinnu sína að hindra orkuframleiðslu, og kannski frekar að koma henni á koppinn með ábyrgum hætti.
Orkumálastjóri sem gleymir ekki mikilvægi orku.
Það má vona.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 29. apríl 2024
Brennuvargar mótmæla eldsvoða
Þingsályktunartillaga að stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024 til 2028 var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi í dag með 47 atkvæðum. Þá vitum við það. Ísland er aðili að stríði án þess að hafa lýst yfir stríði, vera dregið inn í stríð, standa ógn af stríði (nema kannski núna, með því að taka beina afstöðu) eða fá nokkurn skapaðan hlut úr því stríði, sama hvernig það fer.
Það var engin sérstök eftirspurn eftir afstöðu eða aðstoð Íslendinga, nema auðvitað þegar íslenskir ráðamenn voru að gera sig gildandi með faðmlögum við skeggjaðan karlmann.
Íslenska ríkisvaldið gæti sent allar skattheimtur á Íslandi yfir heilt ár í þetta stríð og þær myndu fuðra upp yfir helgi án þess að breyta neinu.
Nú þarf auðvitað að finna lausn á vandamálum Austur-Úkraínu. Þar hefur geisað stríðsástand í áratug, fyrst án beinnar aðkomu rússneskra hermanna og undir það seinasta með beinni aðkomu slíkra hermanna. Þetta eru samt sömu átökin og sama vandamálið. Áhugi á að leysa þau átök með friðsamlegum hætti hafa dalað mjög eftir að Rússagrýlan var dregin úr geymslunni. En það er eina vænlega leiðin.
En hvað gerum við þess í stað? Jú, gerum Vesturlönd að fíflum í alþjóðasamfélaginu - fíflum sem að lokum hafa skuldsett sig í fátækt, drepið fátæka fólkið úr orkuskorti, eyðilagt alla gjaldmiðlana, gert að óvinum öll ríki sem geta framleitt varning og orku með hagkvæmum hætti og auðvitað málað stóra skotskífu á okkur sem skortir engan vilja til að miða á.
Og segjum svo að við séum að tala fyrir friði og gegn stríði.
Brennuvargur með eldspýtur og bensínbrúsa að tala gegn eldsvoðum.
Vonum að þvælan taki enda sem hraðast svo niðurstaðan verði ekki heimsstyrjöld. Ég sé kosti í að brenna illgresi til að byrja upp á nýtt, en mun fleiri ókosti.
![]() |
Ekki sammála um stuðning Íslands við Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 29. apríl 2024
Forsetabaninn
Þeir hljóta að vera hugsa sig vel um þessir forsetaframbjóðendur sem hafa enn ekki stigið inn í settið hjá Spursmálum Morgunblaðsins. Þeir sem þar hafa verið hafa lent í ótrúlegu minnistapi, hrasað um beinagrindurnar í skápunum sínum og talað af sér fylgi í skoðanakönnunum.
Forsetabaninn, eins og raunar Fréttin.is líka.
Forsetaframbjóðendur geta ekki lengur gert ráð fyrir drottningaviðtölum þar sem þeir eru bara spurðir út í ást sína á íþróttastarfi barna og landgræðslu.
Atvinnustjórnmálamenn hefði líka gott af því að fara í almennilegar yfirheyrslur þar sem þeir fá ekki að komast upp með að fara undan í flæmingi. Eftir veirutíma, þar sem blaðamenn stóru miðlana fóru í hálfgerða keppni í upplýsingaóreiðu og þöggun, eru kannski að verða til fleiri nothæfir fjölmiðlar á ný. Sjáum hvað setur.
![]() |
Með sakleysislegri myndum af mér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |