Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2023

Eru við góðu gæjarnir?

Síðan á árum kalda stríðsins hafa Vesturlönd kallað sig góðu gæjana. Þau berjast jú fyrir mannréttindum, friði, lýðræði, verndun eignaréttar og málfrelsi andspænis fjandmanni sem boðar hið gagnstæða.

Heldur sú þula ennþá? Eða er hún útrunnin eins og gömul mjólk?

Ég sé nokkrar veigamiklar ástæður til að efast um að Vesturlönd séu í raun góðu gæjarnir. Það þýðir ekki endilega að einhver annar sé það. Það þýðir bara að Vesturlönd standa fyrir mörgu sem er í raun ógeðfellt, rétt eins og gildir um aðra heimshluta.

Vesturlönd standa nú fyrir miklu vopnakapphlaupi.

Vesturlönd stóðu að baki veirutímum sem tortímdu bæði verðmætum og lífum á heimsmælikvarða.

Vesturlönd reyna að tefja orkuöflun fátækustu heimshlutanna.

Vesturlönd labba ennþá um gömlu nýlendurnar sínar og fyrri áhrifasvæði eins og eigið gólfteppi og hirða og sprengja það sem þau vilja.

Vesturlönd misnota söguleg völd sín á gjaldmiðlum, greiðslukerfum, fjármagni og skuldum til að skammta refsingum og hindrunum á hina og þessa, oft eftir geðþótta.

Ofan á allt þetta grafa Vesturlönd undan sjálfum sér á marga vegu: Stjórnlaust flæði innflytjenda inn í velferðarkerfin, eyðilegging gjaldmiðla með peningaprentun, kæfandi skattlagning og skrifræði í nafni loftslags og umhverfis svo eitthvað sé nefnt, og ýmislegt fleira. 

Ég er stoltur af því að búa í vestrænu landi, með sínar hugmyndafræðilegu og trúarlegu rætur, gildi og áherslu á einstaklinginn. Það er margt að í vestrænum ríkjum og margt að þróast til verri vegar, en valkostirnir (afríski sósíalisminn, kínverska flokksræðið, klerkastjórnir múslímaríkjanna, o.s.frv.) eru verri. 

Ég vona að það séu fleiri áhyggjufullir og að það sé skref í átt að því að laga það sem er að. 


Unga fólkið

Þegar ung manneskja deyr, lamast, fær hjartaáfall eða álíka þá er það stórfrétt í raun. Slíkt ætli að fá fullt af fólki til að velta við öllum steinum og komast að því hvað veldur. Stundum blasir ástæðan við en þá er það niðurstaðan. Stundum ekki, og þá þarf að fara í gegnum öll gögn og skoða athafnir, lyfjagjöf, lífsstíl, erfðir og fleira.

Þetta er augljóslega ekki raunin í dag og augljóslega er ástæðan sú að afhjúpa ekki stórkostlega skaðleg áhrif þess að sprauta þorra uppkominna einstaklinga með tilraunalyfjum í óðagoti.

Man einhver eftir ungu stelpunni sem lamaðist fyrir neðan mitti sumarið 2021 og skrifaði það á sprautur? Af henni er ekkert að frétta nema orðrómar um endurhæfingu.

Þessu unga fólki hefur verið sópað undir teppið. Það blasir eiginlega við. Lyfjafyrirtækin eru ekki hætt. Í Bandaríkjunum er ennþá verið að krefjast nánast ófáanlegra bólusetninga til að fá aðgang í skóla og á vinnustaði, jafnvel í fjarvinnu! Til vara má fá eitthvað nýtt glundur. Sem betur fer hefur lítið borið á þessum nýja heimsfaraldri (ekki faraldri í raun, heldur áróðri) í Evrópu en það gæti breyst hratt.

Mér er þannig séð alveg sama ef fullorðið fólk sprautar sig með einhverju. Verra er að unga fólkinu sé smalað í sprautur undir hótunum um að missa ferðafrelsið, áhugamál sín og lífsviðurværið ef það hoppar ekki á bátinn. Þegar það hrynur niður eins og flugur í kjölfarið er öllum alveg nákvæmlega skítsama. 

Sérstaklega þeir sem tala hæst um að vilja verja það. 


Eru veiruuppgjörið loksins að eiga sér stað?

Um daginn birtist greinin Að viðurkenna mistök án þess að viðurkenna mistök eftir Einar Scheving, tónlistarmann. Hún lagði upp úr orðum Kára Stefánssonar í nýlegu viðtali. Þar segir meðal annars:

Er Kári s.s. kominn í hóp samsæriskenningasmiða, eða sleppur hann fyrir horn þar sem hann er aðeins vitur (afsakðið - vitrari) eftir á? Er Kári kannski, með þessu nýjasta útspili, búinn að gefa læknum, vísindafólki og fjölmiðlum leyfi til að tjá sig á annan máta en leyfst hefur hingað til? Ég meina, ef Kári getur viðurkennt mistök - án þess reyndar að gera það - þá hljóta minni spámenn að mega það líka, eða hvað? 

Nú segir hann að óþarfi hefði verið að bólusetja fólk undir fimmtugu. 

Ef frá eru talin börn fram að fimm ára aldri (sem - ótrúlegt en satt, ekki þótti nauðsynlegt að bólusetja), þá erum við að tala um u.þ.b. 250.000 Íslendinga, þ.e. u.þ.b. 65% landsmanna. M.ö.o. - af öllum þeim Íslendingum sem Kári vildi ólmur bólusetja, þá segir hann nú að 2/3 þeirra hefðu ekki þurft þessa bólusetningu. Ef þessi afgerandi meirihluti Íslendinga hefði haft tök á því að fara eftir ráðleggingum ritskoðaðra og ófrægðra kollega Kára um heim allan (eða getað þegið ráð Kára sjálfs núna), væru þeir þá allir drullusokkar, eins og hann kallaði óbólusetta á sínum tíma? 

Þessu gat Kári ekki setið undir og skrifaði einhvers konar svar í eigin grein, Að láta sér ekki nægja að berja trommur - Opið bréf til Einars Scheving. Stíl Kára þekkjum við:

Þú ert trymbill og sem slíkur mikill listamaður og með stíl sem mér finnst stórkostlegur og það er ekki nokkur vafi í mínum huga að þú hefur veitt margfalt meiri ánægju með þínu starfi en ég með mínu. Hins vegar þegar þú leggur frá þér kjuðana og ferð að tjá þig um heilbrigðismál eins og farsóttina þá lendir samfélagið í svolitlum vanda með að meta þann viskubrunn sem þú byggir skoðanir þínar á meðal annars af því það veit ekki það sem ég og þú vitum að þú ert mikill heilbrigðisvísindasnillingur.

Einar svarar þessu auðvitað enda um að ræða þá dæmigerðu tilraun til að þagga niður umræðu með því að gera öðrum upp þekkingar- og skilningsleysi. Úr grein hans, Opnum á umræðuna - Opið bréf til Kára Stefánssonar (og núna fer þetta að verða spennandi):

Ef fjölmiðlar myndu taka upp á því að sinna vinnunni sinni, myndir þú þá samþykkja að mæta sérfræðingum sem eru á öndverðu meiði við þig varðandi skað- og gagnsemi bóluefnanna - t.d. hjartalæknum á borð við Dr. Aseem Malhotra eða Dr. Peter McCollough? Slíkar umræður gætu t.d. farið fram í spjallþætti á RÚV eða Stöð 2. Væri þetta ekki kjörið tækifæri til að þagga niður í efasemdarröddum í eitt skipti fyrir öll? Þessir tveir læknar hafa verið ofarlega í umræðunni um skaðsemi bóluefnanna og er sá síðarnefndi, að ég best veit, með fleiri birtar rannsóknargreinar í fagtímaritum en nokkur annar læknir – a.m.k. hjartalæknir. 

Nú er að sjá hvað Kári segir. Samþykkir hann áskorun „trymbilsins“ um að mæta sérfræðingum með jafnmargar doktorsgráður og fræðigreinar á bakinu og hann sjálfur, en með öndverðar skoðanir á ágæti þess að dæla tilraunalyfjum í fólk niður í barnsaldur? Eða æðir hann aftur í manninn með uppnefnum um leið og skautað er framhjá aðalatriðum málsins?

Ég bíð spenntur, vægast sagt.


Hjarðhegðun af öllu tagi

Um daginn var minnst á þessari síðu í athugasemd á dæmi um íslenska hjarðhegðun í svokölluðu Lúkasarmáli. Það er nánast lyginni líkast að lesa um atburði í því máli nú þegar allt fyrir löngu gengið yfir (nema mögulega endurreisn á mannorðum þeirra sem lentu undir hjörðinni). Blaðamaður tekur svona til orða:

Lúkasarmálið ber reglulega á góma í almennu tali í íslensku samfélagi. Þá yfirleitt í því samhengi að fólk voni að ekki sé um annað Lúkasarmál að ræða. Mikilvægt sé að muna að fólk sé saklaust uns sekt sé sönnuð og annað slíkt. Enda margir sem létu ýmislegt flakka á netinu sumarið 2007 sem þeir sjá eftir í dag.

Því miður rættist ósk blaðamanns ekki. Lúkasarmálunum hefur bara fjölgað, meðal annars sem hluti af hinni svokölluðu slaufunarmenningu (e. cancel culture) þar sem einföld ásökun nægir til að kveikja í samfélagsmiðlum og bola fólki úr starfi. 

Núna er eitt Lúkasarmál óðum að fá á sig endanlega mynd: Veirutímar, þegar hjarðhegðunin náði nýjum hæðum. Hér má telja til hróp og köll úti á götu á ókunnugt fólk af því það var ekki með gagnslausa grímu, klögur á nágranna fyrir að bjóða í heimsókn, lokanir á fyrirtækjum þar sem var langt á milli fólks í fámenni á meðan fyrirtæki með stutt á milli fólks í fjölmenni voru opin, og auðvitað sprauturnar. 

Ef orðið Lúkasarmál mun einhvern tímann rata í íslenska orðabók ætti miklu frekar að taka þar sem besta dæmið veirutíma en ekki hundaleitina. 

Nema Rússahatrið, sorpflokkunarbrjálæðið og loftslagskvíðinn séu betri dæmi? Erfitt að segja.


Vanir leikarar

Þórólfur Guðnason fyrrverandi sóttvarnalæknir er kominn í varastjórn í framleiðslufyrirtæki fyrir afþreyingu. Það er við hæfi. Hann lék í langan tíma mann sem vissi hvað hann var að tala um og lét á engu bera þegar hann laug því upp í opið geðið á fólki að hann hafi kynnt sér rannsóknir og áhættu vegna lyfja. Rothöggið á svipaðan leikaraskap Kára Stefánssonar, sem má finna hér, nær líka til fyrrverandi sóttvarnalæknis. 

Leikarinn sem nú vermir stól sóttvarnalæknis er engu síðri leikari en að aðeins öðru leyti. Sú manneskja játar hiklaust að þekkja ekkert til nýjustu rannsókna en leikaraskapurinn felst svo í því að telja sig samt vera rétta manneskju í réttu embætti. Blaðamenn láta glepjast.

Þegar kemur að því að ákveða hver þessara leikara á skilið Eddu-verðlaunin vandast málið. Mikið af hinu leikna efni sem þessir leikarar hafa tekið þátt í virðist ekki vera aðgengilegt lengur. Hvar er leikna þáttaröðin um blaðamannafundina? Öll hjálp hérna vel þegin.


mbl.is Sóttvarnalæknir í kvikmyndabransann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygar eru ekki samsæriskenningar

Þetta orð - samsæriskenningar - birtist nú víðar en áður.

Núna er það notað um blákaldar lygar. 

Af hverju?

Um það má mynda samsæriskenningu: Með því að kalla blákaldar lygar samsæriskenningar er hægt að gefa til kynna að sá sem endurtekur orð lyginnar (í þessu tilviki að tengja andlát við sprautu), jafnvel þótt orðin séu sönn í öðru samhengi, sé að boða samsæriskenningar. Þannig eru allt í einu allir sem benda á vensl sprauta og dauða orðnir samsæriskenningasmiðir og má afskrifa.

Eða hvað?

Ég sé að í tilviki ungs manns sem er sagður hafa dáið úr sprautu en féll í raun fyrir eigin hendi að miklu líklegra er að hann hafi valið að taka eigið líf sem afleiðing mikillar vanlíðanar vegna lokunar á samfélaginu. Lokanir í Írlandi voru svakalegar.

En hvað sem því líður er gott að sprauturnar eru að yfirgefa samfélag okkar, þvert á spár sprautuframleiðenda, og hluthöfum þeirra til mikilla vonbrigða (að undanskildum stjórnendum sprautuframleiðendanna sem hafa fyrir löngu séð í hvað stefndi og búnir að selja). Nú þarf hvert ríkið á fætur öðrum að henda sprautulagerum sínum vegna lélegrar eftirspurnar. Eitthvað kostar það mig og þig, en skárra en að horfa upp á fólk örkumlast og deyja úr unga aldri.


mbl.is Höfðar mál vegna samsæriskenninga fjölmiðils
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engar áhyggjur! Rússneska olíuleiðslan verður löguð

Okkur er sagt svo margt um sumt og svo fátt um annað. Skiljanlega, kannski. Þótt eitthvað sé, eða sé að gerast, þá telst það ekki alltaf fréttnæmt. Ég tala nú ekki um ef eitthvað er á réttri leið, svo sem dauðsföll vegna loftslagstengdra fyrirbæra, en það er önnur saga.

Um daginn kom upp leki í einni af olíuleiðslunum sem flytja rússneska olíu til Evrópu. En engar áhyggjur! Það er verið að lagfæra hana og engar grunsemdir eru um skemmdarverk. Olía étur sig í gegnum stál og lekar geta komið upp, en menn fylgjast vel með og bregðast við.

En hvernig stendur á því að rússnesk olía flæði til Evrópu í gegnum rör? Jú, á slíkum innflutningi er undanþága. En rennur þá ekki stórfé úr evrópskum vösum í rússneskar hirslur og þær hirslur svo nýttar til að fjármagna hernað í Úkraínu? Jú, væntanlega. 

Olíu er tiltölulega auðvelt að flytja í skipum. Gas er dýrt og erfitt að flytja í skipum. Samt er hamast við að finna valkosti við rússneska gasið á meðan olían streymir óhindruð í rörum.

Rússum er víst bannað að flytja olíu til Evrópu í skipum, en þau skip sigla bara eitthvert annað í staðinn og olían berst til Evrópu í gegnum indverskar olíuhreinsunarstöðvar: Made in India!

Nú er ég ekki að leita að réttlætingu og ekki einu sinni útskýringu. Stjórnmál innan Evrópusambandsins eru flókin og einhverjir hafa sennilega bent á að án rússneskrar olíu frjósi fátækt fólk í Austur-Evrópu til dauða, og á það hlustað í bili.

Góðu fréttirnar eru þá kannski þær að rússneska olían mun streyma áfram sem áður og á fullu eftir að viðgerðum er lokið. Og á meðan fuðra vestræn stríðstól upp á sléttum Úkraínu eftir að hafa hvorki komist lönd né strönd.

Allt samkvæmt áætlun einhvers, mögulega.


Tvenns konar samsæriskenningar

Mér sýnist vera tvær tegundir af samsæriskenningum í gangi á sérhverjum tíma.

Ég kýs að kalla þær:

  • Fámennissamsærið
  • Fjölmennissamsærið

Fámennissamsærið snýst um að fámennur hópur auðugra, valdamikilla, vel tengdra aðila komi sér saman um einhvern málflutning og stilli saman strengi sína á ráðstefnum í Sviss eða á einhverjum sólarströndum (oft nefndar loftslagsráðstefnur). Sá málflutningur getur verið sá að heimurinn sé að farast vegna hagkvæmrar orkuframleiðslu, að Rússland sé núna versta ríki í heimi eða að afurðir nokkurra stórra lyfjafyrirtækja þurfi að renna um æðar alls heimsins, á kostnað skattgreiðenda og í krafti leynilegra samninga.

Fjölmennissamsærið snýst um að milljónir óbreyttra borgara einhvern veginn detti inn á sömu bylgjulengd og eyði tíma sínum og takmörkuðu fé í að senda og brengla allskyns gögn. Að almenningur sé til dæmis mjög upptekinn af því að senda inn falskar tilkynningar vegna aukaverkefna á lyfjum stórra lyfjafyrirtækja. Þessar milljónir einstaklinga þekkjast ekkert og vita jafnvel ekki af samsærinu en fengu allar sömu hugmynd á sama tíma og niðurstaðan verður einhvers konar býflugnasveimur sem hangir saman án fyrirmæla að ofan.

Persónulega hallast ég frekar að því að ef og þegar einhver samsæri eru að eiga sér stað að þá séu þau búin til í lokuðum fundarherbergjum af einstaklingum með mikið fé eða mikil völd undir og aðgang að úrræðum (t.d. ginnkeyptum blaðamönnum) til að knýja þau áfram. Fjölmennissamsærið hljómar frekar fjarstæðukennt satt að segja en er ákaft haldið á lofti í fjölmiðlum og af launuðum og ólaunuðum talsmönnum lyfjafyrirtækja, hergagnaframleiðenda og samkeppnisaðila við hagkvæma orku.

Blaðamenn geta séð um að lýsa íþróttaleikjum og þylja upp rangar veðurspár. Fyrir annað þarf að leita annað.


Trúarbrögðin fóru ekkert. Þeim var skipt út

Nú þegar er verið að reka fleyg á milli skóla og kirkju er ekki verið að taka trúarbrögð út úr skólunum. Það er verið að skipta þeim út. Í staðinn fyrir eitthvað eitt er komið eitthvað annað.

Menn geta deilt um mikilvægi og réttmæti kristinfræðikennslu í opinberum skólum. Að mínu mati hjálpar skilningur á kristinni trú til að skilja sögu okkar, menningu og núverandi samfélag. Þetta segi ég án þess að vera kristinn. Ég segi líka, án þess að vera kristinn, að við búum í samfélagi byggðu á kristnum gildum (eins og þau eru predikuð í Nýja testamentinu, nánar tiltekið). Að vita lítið um kristni er því ígildi þess að vita lítið um samfélagið. 

Hvað um það. 

Hvaða trúarbrögð hafa komið í skólana í staðinn fyrir kristinfræði?

Þau eru mörg.

Trúin á að börnin séu að tortíma plánetunni með losun sinni á koltvísýring og notkun á plasti. Sennilega eru þau í verklegri þjálfun í að troða pappírsrörum í gegnum álfilmu á skólamjólkinni sinni.

Trúin á að börnin séu kynverur frá unga aldri (og af röngu kyni miðað við líkama sinn).

Trúin á að börnin séu fordómafullir rasistar sem þurfi að kenna lexíur í umburðarlyndi.

Trúin á að börn eigi fyrst og fremst að læra að elska hið opinbera og hlýða því frekar en að læra sjálfstæða og gagnrýna hugsun.

Trúin á að strákar séu letingjar með athyglisbrest og þurfi að skola út úr skólakerfinu sem fyrst. Þeir eru líka nauðgarar sem þarf að handsama áður en þeir svo mikið sem fá skapahár.

Börnin eru líka hættulegir smitberar, svo því sé haldið til haga. Það þarf að kenna þeim að þiggja sprautur og hylja á sér andlitið og læra fyrir framan tölvuskjá.

Já, það vantar ekki trúarbrögðin í skólunum þótt sú kristna sé komin í skammarkrókinn.

Spurningin er bara: Er þetta jákvæð þróun eða neikvæð?


mbl.is Undarleg þögn um Jesúm Krist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er sóttvarnalæknir að gera á vinnutíma?

Ég leyfi mér hérna að endurnýta fyrirsögn á mjög góðum pistli Arnars Þórs Jónssonar sem ég mæli mjög með að lesa enda er þar rekinn enn einn nagli (og frekar stór) í líkkistu þeirrar samsæriskenningu yfirvalda um að veirusprauturnar hafi virkað og verið öruggar.

Það eina sem yfirvöld hafa sér til málsbóta í dag er að bera við vanþekkingu á nýjustu rannsóknum og kannast hvorki við tilvist þeirra né innihald.

Sóttvarnalæknir Íslands, sem fær beinlínis borgað fyrir að fylgjast með sóttum og aðgerðum gegn þeim, segir nánast berum orðum að hún sé ekki að vinna vinnuna sína.

Má þá ekki hreinlega loka sjoppunni?

Ég efast um að margir fái að tolla í starfi eftir að hafa ítrekað lýst því yfir að hafa ekki unnið að verkefnum sínum svo mánuðum skiptir. 

Þótt ótrúlegt sé þá virðast blaðamenn vera aðeins að vakna úr rotinu. Dæmi þess er að þeir spyrji sóttvarnalæknir út í rannsóknir. Áður fyrr biðu blaðamenn einfaldlega eins og slefandi hundar eftir því að sóttvarnalæknir segði þeim hvaða rannsóknir ætti að fjalla um og hvað innihald þeirra væri. Nú er eins og blaðamenn séu byrjaðir að fylgjast með, bæði á Íslandi og erlendis, og afhjúpa um leið vanþekkingu, getuleysi, skilningsleysi og ólæsi yfirvalda, sem ætti nú að hafa verið flestum ljóst fyrir löngu síðan.

Nú þegar talsmenn aðskilnaðarstefnu og hættulegra lækninga eru hver á fætur öðrum að reyna þvo af sér veirutímana og þann fórnarkostnað sem þeir lögðu á fólk og fyrirtæki hlýtur að vera kominn tími til að taka skref sem koma í veg fyrir slík fasísk inngrip yfirvalda á samfélaginu aftur.

Fyrsta skrefið er að við almenningur hættum að lepja upp þvæluna. Hún er víðar en í veirutali.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband