Bloggfærslur mánaðarins, október 2023
Þriðjudagur, 10. október 2023
Er Bjarni Ben. að spila skák?
Ég er enginn sérstakur aðdáandi Bjarna Benediktssonar, fráfarandi fjármálaráðherra. Hann hefur miklu frekar verið ill nauðsyn en drífandi stjórnmálaforingi. Honum tekst að halda hlutum límdum saman - Sjálfstæðisflokknum (það sem er eftir af honum), ríkisstjórninni - en mögulega má þakka honum fyrir að ríkissjóður stendur miklu, miklu betur en flestir sjóðir sveitarfélaga á Íslandi. Hann er duglegur og diplómatískur, en varla meiri hægrimaður en forsætisráðherra Danmerkur (sósíaldemókrati).
En mögulega er hann að reynast vera klókasti stjórnmálamaður Íslands í dag og að spila skák þar sem öll peðin færa sig sjálf í rétta reiti.
Hann segir af sér en lýsir því um leið yfir að hann sé ósammála áliti Umboðsmanns Alþingis. Hann fær afsögn sína til að hljóma eins og kurteisilegan greiða, og stígur skrefið áður en nokkur manneskja nær að reyna ýta honum út.
Eins og bent hefur verið á fer núna að hitna undir matvælaráðherra sem situr þrátt fyrir að hafa brotið lög.
Formaður Flokks fólksins hrósar Bjarna fyrir að stíga til hliðar, og orðar á sinn einstaklega skemmtilega hátt:
Þetta eru algjör tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. Hingað til höfum við þurft að hrinda þeim fyrir björg þessum blessuðu ráðherrum ef við ætlum að losna við þá, eða þvinga þá á einhvern hátt.
Ekki styrktist ríkisstjórnin við þetta. Bjarni var eina brúin á milli kommúnistanna og kratanna. Hann er ekki hættur á þingi en kominn neðar í goggunarröðina.
Kannski sér hann fyrir sér nokkrar mögulegar útkomur.
Að ríkisstjórnin springi og að blásið sé til kosninga. Bjarni er ennþá formaður og nú með ásynd hins ábyrga sem axlar ábyrgð, þó ekki væri nema til að tryggja starfsfrið þingsins fyrir hrópum og rangfærslum dindla.
Að ríkisstjórnin springi og að það megi í hvelli líma saman nýja ríkisstjórn með Miðflokki, Framsókn og Flokki fólksins.
Að ríkisstjórnin tóri en þannig að það blasi við að versnandi tíð fram að kosningum komi Sjálfstæðisflokknum ekkert við. Vinstri-grænir fái skellinn, jafnvel þótt Sjálfstæðismenn fá einhvern úr eigin röðum til að taka við fjármálaráðuneytinu.
Eða eitthvað annað. Eitthvað er það, sama hvað.
Vonandi rankar Bjarni þá aðeins við sér og rifjar upp stefnu, ályktanir og hugmyndafræði flokks síns og þorir að tala út frá þeim pappír, sem í dag hangir á rúllu á klósettinu í Stjórnarráðinu.
Ísland er að sligast undan regluverki Evrópusambandsins sem hefur verið túlkað á versta mögulega hátt í íslenskri löggjöf. Skattar eru í hæstu hæðum. Verðbólgan virðist vera þrálát. Það vantar húsnæði. Innflytjendur eru einfaldlega orðnir of margir . Listinn er endalaus. Það þarf að finna stóra sópinn og byrja að sópa.
Kannski er Bjarni rétti maðurinn í það núna þegar hann þarf ekki að eyða öllu sínu púðri í að líma saman hluti sem eru að detta í sundur í sífellu.
En kannski ekki. Við sjáum hvað setur.
![]() |
Það má ekki selja pabba sínum banka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 9. október 2023
Hálendishátíð og nothæfir listamenn
Landvernd, öfgafull samtök þeirra sem vilja hlaða rafmagnsbíla án þess að rafmagn sé framleitt, hafa blásið í svokallaða Hálendishátíð. Nothæfir listamenn hafa boðað komu sína um leið og þeir ásaka Íslendinga um skammsýni. Í yfirlýsingu Landverndar segir meðal annars:
Með tónleikunum viljum við vekja athygli á dásemdum Hálendisins en líka benda á þær ógnir er að því steðja. Við viljum auka skilning og þekkingu á Hálendinu en jafnframt hvetja alla til að standa að baki Landvernd og styðja samtökin í því að vera málsvari náttúrunnar, sem ekki getur varið sig sjálf.
Við viljum ekki fleiri virkjanir, ekki fleiri uppbyggða vegi, hótel eða háspennulínur á Hálendinu, sem er í raun hjarta landsins.
Þarna er margt sagt en annað ósagt. Nú troðast erlendir ferðamenn í gegnum Keflavíkurflugvöll til að skoða íslenskt hálendi. Þar eru háspennulínur og vegir og meira að segja einstaka vindmyllur, sem eru sérstakt lýti í sérhverju landslagi. Þar eru líka innstungur til að hlaða farsíma og það er erfitt að komast eitthvert á bíl ef enginn er vegurinn. Mikið er talað um orkuskipti, meðal annars af Landvernd, sem sér helst þá lausn að álverin minnki orkunotkun sína, svona eins og það sé ekki nú þegar efst á lista hjá þeim af rekstrarlegum ástæðum.
Ef Landvernd fengi að ráða þá væri illa komið fyrir Íslendingum.
En það er alltaf nóg af listamönnum til að stökkva á hvaða vitleysu sem er. Kannski án þess að hafa lesið smáa letrið. Kannski án þess að vita að rafmagn í hljómtæki þeirra yrði af skornum skammti ef Landvernd væri við stjórnvölinn.
Sem samtökin eru kannski, óbeint. Fylgjendur samtakanna eru sennilega víða innan báknsins að flækjast fyrir þjóðþrifaverkefnum með endalausum kæruferlum og breytingum á leikreglunum.
Það er þá vandamál sem ráðherra með veik hné þarf að rísa gegn.
En á meðan geta klappstýrur rafmagnsleysis og malarvega notið tímans á Hálendishátíð til heiðurs aðgengilegu hálendi þökk sé vegum, virkjunum og háspennulínum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8. október 2023
Öll þessi tilgangslausu hagsmunasamtök
Ég rakst á áhugaverðan pistil frá hinu danska félagi bifreiðaeigenda þar sem bent er á hvernig mörg dönsk sveitarfélög eru að reyna brúa hallarekstur sinn með því að snarhækka bílastæðagjöld og auka við gjaldskyldu. Slíkt er ólöglegt samkvæmt dönskum lögum og sveitarfélög með svona áform gerð afturreka.
Þetta kalla ég raunverulega hagsmunagæslu fyrir hönd félagsmanna!
Nú er mikið kvartað undan endalausum ágangi Reykjavíkur í vasa bifreiðaeigenda. Gjaldsvæði eru stækkuð, tímabil gjaldskyldu lengd og gjöldin hækkuð. Eru engin lög á Íslandi sem taka fyrir hendurnar á sveitarfélögum þegar þau beita sér svona? Þegar þau rukka þjónustugjöld án þess að veita þjónustu? Þegar þau segjast vera að bæta bílastæðanýtingu en eru í raun bara að reyna fjármagna óráðsíu?
Sennilega ekki. Því þá væru auðvitað íslensk hagsmunasamtök bifreiðaeigenda, neytenda, heimila og miðbæjarbúa búin að spyrna við fótum, ekki satt?
Eða hvað?
Ég renndi hratt yfir heimasíður tveggja hagsmunasamtaka: Neytendasamtakanna og Hagsmunasamtaka heimilanna. Þar er sumt nothæft en flest ekki. Hvergi rekst ég á gagnrýni á skattheimtu á neytendur og heimilisfólk sem stóran útgjaldalið sem yfirvöld gætu alveg lækkað. Hvergi er talað um bankaskatta sem byrði á lántakendum. Hvergi eru yfirvöld gagnrýnd fyrir að framleiða verðbólgu, en þeim mun meira þegar þau reyna að ná henni niður. Mikið er atast í fyrirtækjum í bullandi samkeppnisumhverfi. Það er djúpt á samanburði á verðum og þjónustu. Þegar þau halda málþing þá er passað vel upp á að ekkert mótvægi skapist við áróður þeirra.
Og vitaskuld ná þessi samtök engum árangri í raun, að því er mér sýnist.
Persónulega finnst mér að svona samtök eigi að reyna verjast atlögunni að neytendum og heimilum með því að ráðast á ræturnar: Ræða skattana, íþyngjandi regluverkið og samkeppnishindranir hins opinbera.
Skoða orsakir, ekki afleiðingar.
Grafa upp ræturnar, en ekki bara klippa laufblöðin.
Væru það ekki fín hagsmunasamtök?
Leiðrétting: Hagsmunasamtök heimilanna hafa svo sannarlega staðið vaktina sé ég eftir ábendingu og nánari eftirgrennslan. Ég dreg til baka allar fullyrðingar um að svo sé ekki. Vonandi skilja forsvarsmenn hins vegar þann punkt að það blasi ekki endilega við eftir stutta heimasókn á heimasíðu samtakanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.10.2023 kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 7. október 2023
Óáreiðanlegar upplýsingar sem leiðbeiningar til fólks
Veirutímar hröðuðu ferli sem vissulega hafði verið að eiga sér stað um þó nokkurn tíma.
- Stærri fjölmiðlar afhjúpa sig sem málpípur ríkisvaldsins og þeirra sem hafa efni á því að ráðskast með það og t.d. háskólana sem ljá ríkisvaldinu vísindalegan blæ.
- Sérfræðingar afhjúpa sig sem launamenn styrkveitenda - sjá punktinn hér að ofan.
- Sá þrýstingur sem hafði lengi verið lagður á almenning að hugsa ekki sjálfstætt og skoða málin ekki á eigin spýtur náði hámarki sínu í að hreinlega skamma fólk fyrir að mynda sér aðra skoðun en þá sem boðuð var, óháð röksemdafærslu og heimildavinnu.
- Það varð mjög skýrt að flest fólk er hreinlega þakklátt fyrir að fá skoðanir sínar úr fréttatímunum og drottningaviðtölunum. Lífið verður einfaldara. Aðrir eru álhattar, borða dýralyf og vilja drepa ömmu sína.
Ég hengi við þessa færslu færslu Wikipedia um Dr. Pierre Kory eins og hún lítur út í dag. Dr. Kory hélt nýlega erindi á alþjóðlegri ráðstefnu á Íslandi (sem ríkisstyrktir fjölmiðlar fjölluðu fyrirsjáanlega lítið um á meðan aðrir gerðu betur) og fór í tengslum við þann fyrirlestur í viðtal í Spjallinu með Frosta Logasyni (brot úr viðtalinu hérna). Hann hefur frá mörgu að segja og hefur rakið í ítarlegu máli þær ófrægingarherferðir sem hafa verið keyrðar gegn honum fyrir að vilja einfaldlega lækna lungnasjúkdóm á einn eða annan hátt, til dæmis með ódýrum lyfjum.
Mér finnst líklegt að færsla Wikipedia eigi eftir að taka miklum breytingum í náinni framtíð þegar ekki verður lengur hægt að halda aftur af sannleikanum (en til vara að Wikipedia komi út úr skápnum og breyti nafni sínu í Propagandia). Það er því mögulega nothæft að eiga stillimynd af henni áður en það gerist, sem dæmisögu um heilaþvottinn sem er keyrður yfir okkur eins og jarðýta að fletja út þúfu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 7. október 2023
Einhugurinn sem vísbending
Ekki veit ég af hverju Rússar eru ekki fyrir löngu búnir að teppaleggja Úkraínu. Þeir eiga flugvélarnar, flugskeytin og sprengjurnar. Þeir eiga mannaflann til að framkvæma. Þeir eru hvort eð er í skammarkrók þess litla hluta mannkyns sem telst til Vesturlanda. Ekki virðist efnahagur þeirra þjást mikið af þessum langvinnu átökum. Ýmis ríki eru að henda sér í fang Rússa.
Heimurinn er að klofna. Dollarinn er mögulega að missa stöðu sína í heimsviðskiptum.
Sem betur fer flæða vörur enn á milli heimshluta, stundum eftir nýjum leiðum. Sem betur fer, því ef vörur flæða ekki yfir landamæri þá gera hermenn það, eins og einn hagfræðingurinn sagði mögulega.
Hvað heldur aftur af Rússum? Af hverju er ekki búið að teppaleggja Úkraínu? Er þetta leikur kattarins að músinni? Eða eru Rússar að reyna lágmarka skaðann í eltingaleiknum við yfirlýst markmið sín? Eru þeir bleyður og þora ekki? Eru Kínverjar, Indverjar, Íranar, Brasilíumenn eða aðrir sem eru að auka viðskipti sín og samskipti við Rússa búnir að skamma þá og segja þeim að halda átökum við skotgrafir og sniglahraða?
En þá er það næsta spurning:
Hvað þarf til að Rússar ákveði að teppaleggja Úkraínu? Geislavirka sprengjuodda í vopnabúri Úkraínu? Litlar kjarnorkusprengjur? Atvinnuhermenn frá NATO sem beina þátttakendur (frekar en óbeina)?
Sem aukaspurning: Er einhver sem vill að Rússar teppaleggi Úkraínu af einhverjum ástæðum?
Ákvörðun Rússa um að senda hermenn yfir landamæri Úkraínu hefur af einum greinanda verið kölluð óréttlætanleg en rökrétt, sem mér finnst vera ágætlega hófstillt afstaða (mögulega röng, en hófstillt engu að síður). Manni sem er búið að stilla upp við vegg eru ekki gefnir margir valkostir, en hann hefur þó einhverja aðra en að sveifla hnefanum. Gott og vel.
En það er nokkuð sem fær mig umfram allt til að efast um Grýlusögurnar um Rússa: Sá raunveruleiki að flestir virðast trúa þeim og gleypa með húð og hári. Þegar einhugurinn er svona mikill í flóknu máli með langan aðdraganda og margar flækjur er ástæða til að efast - mikið.
![]() |
Rússar reyni aftur að eyðileggja orkuinnviði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 6. október 2023
Maðurinn sem óttaðist dauða sinn
Einu sinni var mér sögð saga af manni sem hafði fengið einhvers konar vitjun um hvenær hann myndi deyja. Til að forðast allar mögulegar hættur ákvað hann því að læsa sig inni í peningaskáp og kafnaði þar til dauða á nákvæmlega þeim tíma sem spáin hafði hljóðað upp á.
Íslendingar eru mjög hræddir um að bankarnir hrynji. Svo hræddir að bankar eru nú að drukkna í lögum og reglum. Þetta bitnar ekki bara á arðsemi þeirra heldur líka samkeppninni. Til að geta keppt við íslenska banka þarf mikið fé til að geta uppfyllt allar kröfur, bæði áður en að rekstur hefst og eftir á. Menn eru því að gera hvoru tveggja: Hamla samkeppni og kvarta undan skorti á henni.
Að auki eru allskyns skattar lagðir á banka umfram aðra. Þeir bitna vitaskuld á verðlaginu, hvort sem það er þjónustugjöldum eða vaxtamuninum. Það er vel þekkt að skattar hafa hamlandi áhrif, enda leggja menn þá á tóbak og áfengi (og laun, væntanlega til að draga úr vinnuvilja fólks). Þegar ríkisvaldið er búið að keyra hagkerfið í þrot er blásið í tímabundin Allir vinna átaksverkefni þar sem aðeins er gefið eftir í skattheimtunni til að skapa störf, tímabundið.
Kannski vilja menn hafa þetta svona. Að rekstur banka sé dýr. Að samkeppni milli banka sé lítil. Að þjónusta þeirra kosti mikið. Mögulega felst í þessu mikill ávinningur fyrir ríkið og ríkissjóð. Á kostnað almennings, en hverjum er ekki sama?
Maðurinn sem drap sig í peningaskápnum vissi það kannski ekki þá, þegar hann dró sína seinustu andadrætti, en reynsla hans hefur reynst vera mörgum innblástur frekar en víti til varnaðar.
![]() |
Regluverkið mögulega of viðamikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 5. október 2023
Félag íslenskra rafbifreiðaeigenda
Gagnrýni getur tekið á sig tvær meginmyndir: Að gagnrýna eitthvað fyrir að ganga of skammt, og gagnrýna eitthvað fyrir að ganga of langt.
Síðan er auðvitað hægt að gagnrýna að eitthvað sé yfirleitt við lýði (eins og erfðafjárskattur, tollar og kröfur um leyfi til að fá að klippa hár), en það er önnur saga.
Félags íslenskra bifreiðaeigenda hefur nú gagnrýnt yfirvöld fyrir nýleg áform um skattlagningu á bifreiðar. Eitthvað með kílómetragjald og að í sumum tilvikum geti skattlagning á bensínbíl hreinlega verið vægari en á rafmagnsbíl. Formaðurinn lætur svo eftir sér þessi orð:
Við setjum ákveðinn fyrirvara við það og við teljum gjaldið of hátt í tilfellum minni og léttari rafbíla. Samanburðardæmi sýna að í einhverjum tilfellum er sambærilegur bensínbíll miðað við þyngd og notagildi að bera lægri notkunargjöld en rafbíllinn í því tilviki.
Þá teljum við að of hátt gjald gæti orðið neikvæður hvati varðandi vilja fólks til að fjárfesta í rafbílum.
Ég hef fulla samúð með þeim sem vilja senda færri peninga í vasa spilltra prinsa í Miðausturlöndum en áttum okkur á nokkrum atriðum: Það er nánast ómögulegt að fá leyfi til að virkja á Íslandi, nú þegar er verið að skerða raforku til ákveðinna notenda, rafmagnsnotkun eykst í sífellu af ýmsum ástæðum og rafmagnsbílar eru veðmál (ásamt vetnisbílum, metanbílum og öðru eins), en ekki endilega lausn til framtíðar. Fyrir utan að framleiðsla rafmagnsbíla er í sjálfu sér umhverfisslys með tækni dagsins í dag.
Félags íslenskra bifreiðaeigenda er því miður að reyna merkja sig sem Félags íslenskra rafbifreiðaeigenda. Hinn venjulegi launamaður hefur ekki efni á rafmagnsbíl nema með niðurgreiðslum og niðurfellingu skatta. Hann kærir sig heldur ekki um rafmagnsbílinn og vill frekar eiga bíl sem dregur nokkur hundruð kílómetrum lengur á einni áfyllingu (sem tekur sekúndur, ekki klukkutíma, að sækja) og getur að auki dregið á eftir sér kerru eða fellihýsi.
Mögulega var ákveðið á löngum fundi hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda að reyna höfða til yfirvalda og örlítils minnihluta félagsmanna um að gerast Félag íslenskra rafbifreiðaeigenda. Blaðamenn hlaupa þá til og veita viðtöl og ríkið opnar jafnvel buddu skattgreiðenda til að styðja við hinn heilaga boðskap. En jarðtengingin er horfin og félagið hætt að tala fyrir hönd venjulegra bifreiðaeigenda. Hverfur þar með eitt seinasta athvarf þeirra sem eru jarðtengdir, og knúnir jarðefnaeldsneyti á ferðalögum sínum.
![]() |
Gefur stjórnvöldum falleinkunn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. október 2023
Hetja veirutímanna
Á veirutímum voru ekki margir sem stóðu í lappirnar. Flestir trúðu því sem fjölmiðlar báru á borð. Embættismenn í dulargervi vísindamenna réðu ferðinni. Alþingi var þögult. Þeir sem höfðu áhyggjur af námi unga fólksins og geðheilsu gamla fólksins fengu litla sem enga áheyrn. Blaðamenn urðu að blaðamannafulltrúum.
Gegn allri þessari geðveiki börðust vitaskuld margir, og þá sérstaklega eftir að sprauturnar byrjuðu að skaða og lama og jafnvel drepa, en ég vil sérstaklega benda hér á og hrósa Jóhannesi Loftssyni. Hann barðist á hæl og hnakka, skrifaði ógrynni pistla í fjölmiðla, skipulagði útifundi og fékk meira að segja að koma í eitt og eitt viðtal, en mætti vissulega mótlæti þar líka.
Jóhannes er ekki hættur og skrifar nú hverja greinina á fætur annarri í Morgunblaðið sem birtast svo í kjölfarið á Krossgötum.
Í þessum greinum fer hann yfir veirutímana frá mörgum hliðum og tel ég víst að þessar greinar verði sagnfræðingum framtíðarinnar alveg ómissandi veganesti (sagnfræðingar dagsins í dag eru áhugalausir, enda meðsekir og ónothæfir með öllu).
Í dag birtist nýjasti pistillinn í Morgunblaðinu og ég stenst ekki að birta alveg hreint frábæran hluta úr honum:
Það virðast meiri kröfur gerðar til rekjanleika klettasalatsins í Hagkaup en covid-bóluefnana. En lyf án rekjanleika eru markleysa því þá veit enginn hvað er í þeim. Með að neita að birta tengsl framleiðslulota og aukaverkana eru heilbrigðisyfirvöld búin að taka sér stöðu við hlið framleiðenda gegn almenningi.
Hér er svo mikið sagt í svo fáum orðum, og gagnrýnin er beitt eins og austfirskur flökunarhnífur.
Ég var svo heppinn að hafa verið tengdur Jóhannesi á samfélagsmiðlum þegar veirutímar hófust og fylgdist vel með gagnrýni hans sem hófst nánast um leið og var búið að lýsa yfir heimsfaraldri. Hann fylgdist vel með gögnum frá Ísrael þegar menn þar á bæ byrjuðu að sprauta á færiböndum og kom strax auga á algjört gagnsleysi slíkra sprauta, svo dæmi sé tekið. Hann tók í sundur falsfréttir þríeykisins í rauntíma. Hann var klettur í ólgusjó upplýsingaóreiðu yfirvalda.
Jóhannes Loftsson er í mínum augum stærsta íslenska hetja veirutímanna og ég mæli með því að menn byrji að fylgjast með skrifum hans núna ef slíkt hefur verið vanrækt hingað til. Í Bandaríkjunum er nú þegar búið að trappa upp í nýja veirutíma og ef ríki Evrópu voga sér eitthvað slíkt þá er gott að vita hvar er hægt að fá rétta greiningu og afhjúpun lyganna.
Með austfirskan flökunarhníf í hendi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 3. október 2023
Færibandið
Nú er búið að opna á fleiri ókeypis og æðislegar sprautur á Íslandi. Margir hópar eru boðaðir, eins og segir í frétt Vísis:
Þeir áhættuhópar sem verða í forgangi eru: allir einstaklingar sextíu ára og eldri, börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, offitu, sykursýki, illkynja sjúkdómum eða eru ónæmisbæld af völdum lyfja eða sjúkdóma, barnshafandi konur, og heilbrigðisstarfsfólk sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
Tilkynning landlæknis og ítarefni bætir litlu við. Allir einstaklingar tiltekinna hópa eru boðaðir í ókeypis sprautu. Bókið tíma!
Berum þessar tilkynningar íslenskra yfirvalda saman við þau dönsku (skáletrun upprunaleg):
Við erum að fara inn í haust- og vetrartímabil þar sem við gerum ráð fyrir að sýking af inflúensu og covid-19 muni aukast.
Hver sem er getur smitast af inflúensu og covid-19 og langflestir veikjast ekki alvarlega. En hjá sumum getur inflúensa og covid-19 valdið alvarlegu veikindaferli og leitt til innlagnar á sjúkrahús og í versta falli verið lífshættulegt.
Bólusetning gegn inflúensu og covid-19 dregur úr hættu á alvarlegum veikindum. Við mælum því með bólusetningu fyrir þá sem eru í hættu á að fá alvarlega inflúensu og covid-19.
Mundu að fylgja ráðleggingum okkar um sýkingavarnir og þú hjálpar til við að stöðva smit af bæði inflúensu og covid-19.
Athugið. Eins og er er ekki hægt að panta tíma í inflúensubólusetningu fyrir börn yngri en 18 ára sem eru í aukinni hættu á að fá alvarlega flensu. Við erum að vinna að lausn.
Covid-19 bólusetning barna yngri en 18 ára fer fram eftir læknisfræðilegt mat sérfræðings í barnalækningum.
(Ítarlegri tilkynning fyrir fullorðna hér.)
Seinasta setningin sló mig aðeins. Hér er reistur hár þröskuldur gegn því að börn undir 18 ára aldri geti látið sprauta sig gegn kóvít. Engin færibandavinna hér.
Danir sprauta vissulega alltof mikið en í fjölmiðlum eru engar fréttir um hinar nýju sprautur, enginn ræðir þær og ég fæ það á tilfinninguna að hér sé bara verið að þjóna örlitlum minnihluta sem bankar reglulega á dyr yfirvalda og vill fá skammtinn sinn. Þessi hópur þarf ekki að bíða eftir fréttum fjölmiðla. Hann fylgist með vefsíðum yfirvalda.
Íslenskir blaðamenn sjá ennþá eitthvað fréttnæmt í því að fíklar fái nýja skammtinn sinn frá fíkniefnasala sínum (landlækni). Gott og vel, Ísland er lítið og fámennt land og margt talið fréttnæmt sem er það ekki. En vonandi mæta sem fæstir í stuttermabol og þiggja enn eina árás á ónæmiskerfi sitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 2. október 2023
Seinasta sólarglætan
Ég verð að viðurkenna að ég var búinn að bíða lengi eftir því að einhver teldi virkjun sólarorku vera fýsilega og hagkvæma og raunhæfa leið til orkuöflunar á Íslandi.
En ég viðurkenni um leið að ég sá ekki fyrir að slík hugmynd kæmi úr munni
... sveitarstjórnarfulltrúa!
... Sjálfstæðisflokksins!
... sem vill niðurgreiðslur!
En gott og vel. Byrjum á tæknilegu og efnahagslegu hliðinni. Það er rétt að sólarsellur eru að lækka í verði, batna í nýtni og styrkjast, svo þær endist lengur.
En hugmyndin er engu að síður glötuð. Ef hún væri góð þá væri einhver búinn að henda upp nokkrum sólarsellum, tengja við rafhlöðu og losna við stóran hluta af rafmagnsreikningnum. Og auðvitað segja öllum frá því og skapa eftirspurn.
Í Danmörku, þar sem ég bý, er töluvert meiri sól en á Íslandi. Sumarið er lengra og bjartara, að jafnaði. Engu að síður er stofnkostnaður fyrir sólarsellur töluverður og mörg ár þarf til að sjá fjárhagslegan ávinning í að setja slíkar á þak sitt. Afborganir lána á slíkum framkvæmdum þurfa að teygjast yfir fjölda ára til að lokka fólk í viðskipti.
En gott og vel. Peningar eru ekki allt, er það? Grípum niður í lokaverkefni í íslenskum háskóla (frá 2019):
Framleidd raforka frá kerfinu frá september 2018 til ágúst 2019 var 12.092 kWh. Sköluð árleg orka frá kerfinu var 689 kWh og endurgreiðslutíminn 24 ár. ... Miðað við uppsetningu á sólarsellum hjá IKEA eru sólarsellur möguleiki til þess að bæta í flóru aðferða til raforkuframleiðslu hér á landi ef horft er á skalaða árlega framleiðslu en uppsetningarkostnaður þarf að vera lægri svo verkefnið borgi sig hraðar tilbaka.
Já, það er með þetta eins og Borgarlínuna, lest frá Keflavík og annað gott: Ef framkvæmdin birtist einfaldlega, án uppsetningarkostnaðar, þá getur allt mögulega borgað sig!
Eða það sem hagfræðingar kalla slæma fjárfestingu, og hafa þeir þá sagt margt vitlausara.
Ég vil að lokum þakka borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins fyrir þjónustu þeirra á þessu kjörtímabili. Hún hefur falið í sér þátttöku í skemmtiferð til Bandaríkjanna á kostnað borgarbúa, setu í gagnslausum íbúaráðum og tillögum að hagræðingu í rekstri borgarinnar þar sem allir fá engu að síður allt.
Gangi ykkur betur næst.
![]() |
Gæti annað allri orkuþörf heimila |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |