Bloggfærslur mánaðarins, desember 2022

Verndaðir vinnustaðir opinberra starfsmanna

Ég hef unnið á ófáum vinnustöðum í gegnum tíðina, og má þar nefna ýmsar byggingalóðir, fiskvinnslu, pósthús, skrifstofur og kjallara sem þurfti að hreinsa af myglusveppum í kjölfar yfirfylltra niðurfalla. Sérhver vinnustaður hefur ákveðið andrúmsloft og sín eigin mörk á því hvað þykir við hæfi og hvað ekki. Á sumum hafa hangið myndir af fáklæddu kvenfólki. Á sumum mátti varla heyra mun á sóðalegu tungutaki kvenna og karla. Á sumum er mikið um faðmlög og koss á kinn, á öðrum (sérstaklega á síðari tímum) er eins og að fólk þori ekki að snertast af ótta við að senda einhver röng skilaboð. 

Hvað um það. Stundum sé ég texta frá fyrirtækjum, stofnunum og fjölmiðlum sem fá mig til að íhuga hvers konar andrúmsloft sé á viðkomandi vinnustað. Tökum sem dæmi Ríkisútvarpið. Þar er örugglega mikið talað um samsæriskenningar og hvernig sé nú ekki gott að hlusta á slíkt þvaður. Þótt ég vinni á verkfræðistofu og eigi við tæknileg vandamál sem koma stjórnmálum ekkert við þá skynja ég svipað andrúmsloft. Ég er sennilega meðal örfárra á 1500 manna skrifstofu sem er ekki gataður eins og svissneskur ostur af sprautum. Vinnufélagar mínir hafa sagt að ég sé hallur undir samsæriskenningar en nefna svo aldrei þær kenningar sem hafa ræst, og ég er ekkert að kvelja þá með slíkum áminningum enda ekki allir sem þola mjög vel að hafa látið blekkja sig. Einn og einn hefur samt játað í mín eyru að sjá á eftir sprautunum og óttanum eða játað að hafa bara látið sprauta sig til að geta ferðast eða komast á ráðstefnu í Bandaríkjunum.

Í Staksteinum Morgunblaðsins um daginn er gert svolítið grín að baráttu Umhverfisstofnunar gegn flugeldum. Verðskuldað grín, vel á minnst, enda segir stofnunin:

Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir en þörfin fyrir flugelda fer minnkandi með nýjum hugsunarhætti. Íslendingar eru nú mun meðvitaðri um þessi skaðlegu áhrif flugelda. Flestir huga að því að endurmóta sínar áramótahefðir þannig að allir geti tekið þátt án þess að heilsa manna og umhverfis hljóti skaða af. 

Er það svo, já? Þessu orð fengu mig til að hugleiða hvernig vinnustaður Umhverfisstofnun er. Hvað tala menn um við kaffivélina? Flugelda? Mengun? Hvað sé hægt að gera við afganginn af fjárheimildum stofnunarinnar áður en árið er á enda svo stofnunin lendi ekki í niðurskurði? 

Ég ætla að draga mjög í efa að „flestir“ Íslendingar séu að endurmóta sínar áramótahefðir með sérstakri áherslu á að forðast flugeldakaup. Mögulega skutu þeir eitthvað minna upp þegar ríkisvaldið bannaði áramótabrennur og fjölskyldufagnaði (og þó) en hafa nú gleymt öllum slíkum inngripum inn í fagnaði og hefðir og ætla sér að skjóta upp eins mikið og þeir hafa efni á. 

Ég held á hinn bóginn að meðal starfsmanna Umhverfisstofnunar ríki ákveðin veruleikafirring, kannski á svipuðu stigi og innan fréttastofu Ríkisútvarpsins. Skoðanakannanir meðal starfsfólks sýni eitthvað allt annað en þær meðal almennings. Yfirgnæfandi kosið til vinstri. Tröllatrú á fjórðu sprautuna. 

Mér gæti skjátlast og læt gjarnan leiðrétta mig, en mun óháð því hugsa til starfsfólks Umhverfisstofnunar þegar ég troðfylli lungu mín og barna minna af brenndu púðri í kvöld.

Gleðilegt ár, allir sem þetta lesa!


Hin ýmsu heiti skattlagningar

Skattar heita ekki alltaf skattar. Stundum heita þeir gjald, svo sem vörugjald og úrvinnslugjald. Stundum heita þeir tollur. Stundum kemur skattheimtan fram í skrifræði og reglugerðum sem leggja mikinn kostnað á seljendur og kaupendur varnings og þjónustu. 

Auðvitað er þetta allt saman gert í nafni velferðar, umhverfis, heilsu, menntunar, löggæslu, innviða, jafnréttis og þess háttar. Auðvitað er öll þessi skattheimta að stuðla að blómgun nútímalegs samfélags. Ef þú fengir að halda eftir meiru af launum þínum færi allt til andskotans. Landið yrði að barbararíki, náttúran hyrfi undir malbik og plastmengun dræpi allt lífríki sjávar. 

Nýjasta útspil yfirvalda er hugtakið hringrásarhagkerfi. Það er snjallt. Maður fær það á tilfinninguna að allar umbúðir, matarleifar og úrgangur fái nýtt líf í gegnum endurvinnslu eða sem hráefni í framleiðslu á næstu umferð umbúða og varnings og um leið má hlífa náttúruauðlindum plánetunnar fyrir frekari ágengni. Plastflaskan í dag er orðin að Barbie-dúkku á morgun og þess háttar. Dagblaðið verður að eggjabakka sem verður að einhverju þriðja. En þetta kostar fé svo nú þarf að skattleggja meira fyrir allar umbúðir og varning. Hringrásin er ekki ókeypis. Í raun er hún óendanlega dýr því alltaf er hægt að finna eitthvað sem fellur til sem þarf að koma í hringrás. 

Með því að finna upp óendanlega dýr verkefni (eins og hringrás, umhverfisvernd og jafnrétti kynja og kynþátta) getur hið opinbera haldið áfram að þenjast út eins og blaðra, sem er um leið níðþung byrði á almenningi. En tilgangurinn er göfugur og áætlanir þínar með eigin laun þurfa að bíða - jafnvel til eilífðar. Og þú skalt þakka fyrir það.


mbl.is Úrvinnslugjald hækkar um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt afbrigði? Góðar fréttir!

Á hverju ári gengur flensa yfir land og þjóð. Á hverju ári er um nýtt afbrigði að ræða. Á hverju ári veldur þetta mörgum heilsufarslegum vandræðum en yfirleitt tímabundið. Á hverju ári skilur flensutímabilið eftir sig útbreitt hjarðónæmi sem á endanum yfirbugar flensuafbrigði þess árs en hefur að auki þann ávinning að styrkja ónæmiskerfið og halda því uppfærðu og aðlögunarhæfu.

Á hverju ári.

Árið 2020 gekk yfir ný tegund kórónuveiru og fór hún í gegnum nokkur afbrigði á meðan hún breiddist um heiminn. Að lokum gerði nýja kórónuveiran það sama og aðrar sem hringsóla í samfélagi manna (yfirleitt undir heitinu kvef): Stökkbreytti sér til að breiðast hratt út en um leið valda minni veikindum. 

Ný afbrigði af þessari kórónuveiru munu um alla framtíð koma fram, dreifa sér um samfélagið, valda einhverjum veikindum og skilja eftir sig hjarðónæmi með sama ávinning og það gegn flensuveirunum: Halda ónæmiskerfum okkur í æfingu, uppfærðum og aðlögunarhæfum.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld áttu í morgun fund með fulltrúum Sóttvarnastofnunar Evrópu og fulltrúum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, ásamt öðrum löndum í Evrópu, um útbreiðslu Covid-19. Var þetta gert í ljósi opnunar landamæra í Kína.

Til hvers? Jú, til að ræða hvort það þurfi að bregðast við mögulegu nýju afbrigði af kórónaveirunni nýju!

Hafa menn ekkert lært? Er nýr sóttvarnarlæknir byrjaður að þrá sviðsljósið eins og forverinn í starfi? Eru lyfjafyrirtækin farin að sakna ofurhagnaðar heimsfaraldursins? Eru stjórnmálamenn að leita leiða til að beina athyglinni frá brunarústum hans, sem þeir bjuggu sjálfir til?

Nýtt afbrigði eru góðar fréttir! Nýtt afbrigði gefur tilefni til að gera ekkert umfram það sem alla tíð hefur verið gert gegn nýju afbrigði flensunnar (passa gamla fólkið, efla spítalana og segja fólki að sofa af sér veikindi). 

Látum ekki telja okkur trú um annað. Aftur.


mbl.is Funduðu í morgun og fylgjast grannt með útbreiðslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinasti flugeldurinn

Áramótin nálgast og það sést í tilboðsbæklingum danskra verslana. Jólaskrautið farið og  jólakökurnar að klárast og í staðinn komin tilboð á vodka og bjór og hillur fullar af áramótaskrauti og flugeldum. 

Það er kannski bara mín tilfinning en mér finnst þrýstingurinn á að skerða mjög notkun á og jafnvel banna flugelda vera að aukast. Flugeldar uppfylla jú öll skilyrði þess að banna eitthvað:

  • Þeir rýra loftgæði
  • Þeir valda hávaða langt yfir allskyns heilsufarsmörkum
  • Þeir kosta gjaldeyri í innkaupum
  • Þeir eru einnota og alls enginn hluti af hinu svokallaða hringrásarhagkerfi
  • Þeir hræða börn og dýr
  • Þeir geta valdið alvarlegum meiðslum

Engu að síður er þeim sem boða bönn og takmarkanir svarað fullum hálsi. Í íslensku samhengi er aðallega bent á mikilvægi flugeldasölu til að björgunarsveitir geti starfað án þess að ganga um með betlistafinn í kringum fjárlagagerð. Í dönsku samhengi gilda ekki sömu rök. Þar er skemmtanagildið mikilvægasta röksemdin. Og hefðin auðvitað. Danir elska hefðir.

Ég velti því samt fyrir mér hvenær verður tekið af skarið. Hvenær verður seinasta flugeldinum skotið upp? Við vitum að þegar einhverjir heimta boð og bönn þá hætta þeir auðvitað aldrei. Hver einasta sprengja minnir þá á heilagan leiðangur sinn. Ef opinbera umræðan gagnast ekki tillögu um bann þá er hægt að tengja framhjá henni og herja beint á stjórnvöld. Þau banna saklausa og nothæfa hluti eins og plastpoka án þess að sóa miklum tíma í umræðuna. Þau þynna út bensínið þitt án þess að útskýra fyrir þér ávinninginn, enda er hann enginn. Þau nenna ekki umræðu og gætu því dag einn allt í einu sagt: Seinasta flugeldinum hefur verið skotið á loft. Takk fyrir og bless!

Og hvað gerum við þá? Ekkert, auðvitað. Við teljum okkur í trú um að pokar úr maís séu jafngóðir og spáum ekki í því hvaðan sá maís kom og hvað hefði verið hægt að gera við hann í staðinn fyrir að búa til poka úr honum. Við látum okkur hafa það að fara oftar á bensínstöð til að bæta upp fyrir rýrara eldsneyti. Við förum á litlar flugeldasýningar en snertum aldrei kveikiþráð sjálf. Við lúffum, aftur og aftur og aftur, stundum með grímu á andlitinu og sprautusár á handlegg og hjartavöðvabólgu í brjóstinu. 

Og yfirvöld vita það. Því fer sem fer.


Veðjað á rangt líkan

Ímyndum okkur að allir væru sammála um að loftslagið sé að kólna. Snjórinn kemur fyrr og stendur lengur yfir. Vetrarbylir að verða sterkari og leggja meira á háspennulínur og vegi. Þörfin á góðri kyndingu með öflugri hitaveitu að aukast. Rafmagnsnotkun á uppleið til að lýsa upp grátt skammdegið. 

Væri þá ekki búið að efla innviðina, viðbúnað vegna snjókomu og úrræði til að takast á við vinda og vond veður?

Jú, væntanlega.

Ímyndum okkur öfugar aðstæður: Allir væru sammála um að loftslagið sé að hlýna. Jöklar að hverfa. Snjórinn að heyra sögunni til. Þörf á eflingu innviða minni en áður. Kyndun stendur í stað eða er jafnvel á niðurleið. Vindmyllur að rísa fyrir fé sem áður rann í borholur fyrir hitaveitur.

Væri þá ekki búið að slaka á í eflingu innviða og viðbúnað vegna snjókomu? Væru bílar ekki komnir á heilsársdekk og búið að banna nagladekkin? 

Jú, væntanlega.

Mér sýnist á öllu að menn séu í fjölda ára búnir að veðja á rangt loftslagslíkan - þetta sem sýnir hlýnun frekar en kólnun. Skiljanlega hafa menn því brugðist rangt við:

  • Ófærð í þéttbýli svo dögum skiptir eftir snjókomu
  • Rafmagns- og hitaveitur að bila þegar mest ríður á
  • Rútur að festast þar sem þær komust áður í gegn
  • Skortur á heitu vatni til kyndingar

Þetta er ekkert séríslenskt ástand og auðvitað jafnvitlaust sama hvar menn veðja á röng líkön. Sem betur fer er aldrei of seint að breyta áætlununum sínum og láta þær endurspegla rétt líkön.


Jólahugvekja

Þá eru jólin gengin í garð, pakkar hafa verið opnaðir, góður matur borðaður og vinnan sett á ís í nokkra daga. Jólin má kalla uppskeruhátíð kapítalismans af mörgum góðum ástæðum, fyrir utan að vera hátíð ljóss og friðar. Þar sem fólk býr ekki við frið og velmegun eru jólin bara enn eitt drungalegt tímabilið sem veitir lítið svigrúm til að staldra við, klæða sig í sparifötin og gleðja vini og ættingja með gjöfum og kveðjum.

Þetta eru fyrstu jólin síðan árið 2019 þar sem ríkisvaldið takmarkaði ekki möguleika okkar til að fagna hátíðinni á hefðbundinn hátt. Ástæðan? Veira sem var aldrei hægt að stöðva, og sérstaklega ekki með misheppnuðum sprautum, gagnslausum grímum, tilgangslausum sótthreinsunum og handahófskenndum samkomutakmörkunum sem meðal annars náðu til skólabarna. Skuldafjallið var stækkað og það mun líka draga dilk á eftir sér. 

Þegar var loksins búið að koma á eðlilegu fyrirkomulagi veiruvarna tók ekki annað betra við: Rússar réðust inn í Úkraínu og menn létu eins og það væri eitthvað annað en það raunverulega er, skelltu í heimatilbúna orkukreppu og hröðuðu heiminum í átt að nýrri valdadreifingu á heimsvísu þar sem hið vestræna samfélag er fært neðar í áhrifum og mikilvægi. Hvað tekur þá við? Um það er erfitt að spá.

Ekki að Vesturlönd þurfi á aðstoð annarra til að grafa undan sjálfum sér. Eftir að hafa rústað gjaldmiðlum sínum og blásið í svimandi verðbólgu á nú að bæta í við svokölluð orkuskipti til að sigrast á djöflinum í hinum nýju trúarbrögðum: Loftslagsvánni. Evrópa ætlar að skattleggja allan innflutning frá skítugum fátæklingum í nafni kolefnislosunar. Hagkvæmar bifreiðar verða teknar af almennu launafólki með skattlagningu og reglugerðum um útblástur. Vesturlönd eru jafngóð í að byggja sig upp og brjóta sig niður.

Jólin gefa okkur vonandi tíma til að staldra aðeins við. Viljum við halda upp á hátíðleg jól á næsta ári? Hvað getur komið í veg fyrir það? Hvað getur stuðlað að slíku? Ég legg til að við höldum okkur við það uppbyggilega, setjum öll nýju trúarbrögðin ofan í skúffu (þau eru mörg), hættum að espa upp átök og leyfum veirum og ónæmiskerfum að mætast á vígvelli frumustigsins en ekki göngum skólanna.

Gleðilega hátíð, lesendur, og takk fyrir samfylgdina!


Sprautur eru kannski lækning verri en sjúkdómurinn

Já, ég veit. Sprautur gegn COVID-19 eru öruggar og áhrifaríkar. Þær stöðva útbreiðslu, draga úr veikindum og hlífa heilbrigðiskerfinu.

Þær valda ekki dauðsföllum og auknum veikindum og leiða ekki til fötlunar.

Auðvitað ekki.

Þess vegna gerir ekkert til að horfa á heimildamyndina ANECDOTALS, sem var gefin út nýlega á öllum miðlum (en auðvitað bönnuð á jútjúb, af heilbrigðissérfræðingunum þar).

Gerðu það, ekki láta sprauta þig aftur án þess að spyrja spurninga, skoða aðrar hliðar málsins en þær frá áróðursmiðlunum og hugleiða hlutverk ónæmiskerfis þíns og hvernig má efla það án aðkomu efna- og erfðafræðinga.

Eða ekki. Þú ert fullorðin manneskja. Láttu mig vita ef þig vantar heróín. Ég þekki mann sem þekkir mann sem getur skaffað. Eins og allir.


Hvort er það?

Loftslagsmál eru mjög fyrirferðamikil í danskri umræðu, a.m.k. umræðu stjórnmálamanna og fjölmiðla (mjög lítið rædd af venjulegu fólki). Danir fá líka að borga töluvert af sköttum í nafni umhverfisverndar. Verið er að hanna landfyllingar sem eiga að verja borgir og bæi gegn hækkandi sjávarmáli framtíðar. Allskyns orkuskiptaverkefni eru í gangi. 

klima_OLEn stundum passa fréttirnar svolítið illa saman. Hér er ein sem segir að bráðum verði ekki hægt að halda Ólympíuleikana í vetraríþróttum í Evrópu því allur snjórinn er farinn frá helstu skíðasvæðum dagsins í dag.

Hér er svo önnur segir að desember stefni í að verða sá kaldasti í Danmörku í 10 ár. 

klima_rekordkoldÞað er kannski fjölmiðli til happs að lesendur lesa sjaldan margar fréttir og setja svo í samhengi. Fimbulkuldi ríkir víða í Evrópu og mikið rætt um orkuskortinn sem ýkir óþægindi fólks vegna hans. Á sama tíma er rætt um hlýnun jarðar og allar þær áhyggjur sem við þurfum að hafa af því. 

Vissulega eru allir heimshlutar að hlýna margfalt hraðar en allir hinir, eins furðulega og það hljómar, og menn þurfa því ekki að hafa áhyggjum af innviðunum og viðhaldi á þeim (eins og snjómokstri). Gott og vel. En kannski er raunveruleikinn annar, Jörðin að kólna og loftslagslíkönin rusl. Ef sú er raunin þá erum við í vandræðum því við erum að undirbúa okkur fyrir framtíðina á kolvitlausan hátt.


Verðþak og málið er leyst!

Orkumálaráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins hafa loks komið sér saman um verðþak á jarðefnaeldsneyti. Mark­miðið með verðþak­inu er að vinna bug á orkukrepp­unni sem skek­ur nú meg­in­land Evr­ópu.

Er þá ekki búið að leysa öll vandamál?

Verðþak, og málið er leyst!

Þeir sem hafa lesið eina blaðsíðu (eða meira) í hagfræðibók hljóta að hrista hausinn. Þeir sem fylgjast með orkumörkuðum sömuleiðis. Evrópa dregur ekki til sín meiri orku með því að borga minna fyrir hana en aðrir. Hún þarf þvert á móti að yfirbjóða orku úr höndum heimshluta með minna á milli handanna. Gleymum því heldur ekki að Kínverjar kaupa alla þá orku sem þeir geta (sérstaklega núna þegar ótti yfirvalda við mótmæli er orðinn stærri en við veiru). 

Þetta verðþak mun hafa sömu afleiðingar og önnur slík þök: Valda skorti. Skortur leiðir til skammtana. Skömmtunum þarf að útdeila, og ætli orkumálaráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins séu þá ekki til í að framkvæma þær útdeilingar? Hver þarf orku núna? Þýskur iðnaður? Pólskur almenningur? Ungverskur landbúnaður? Hver veit!

Samfélag sem hefur ekki orku er vont samfélag. Þetta gildir í Afríku, þar sem mörg hundruð milljónir hafa ekki einu sinni aðgang að innstungu, og í Evrópu þar sem köld húsnæði draga úr heilsu fólks og stuðla að mygluskemmdum. Lausnin er ekki sú að setja á verðþak heldur hvetja til meiri framleiðslu á orku. Fyrir suma þýðir það vatnsfallsvirkjun, fyrir aðra þýðir það nýtt kolaorkuver. Hérna má ekki láta loftslagsprestana hræða sig með röngum spám um hlýnun Jarðar vegna athafna manna. Prestar, sem láta ekki einu sinni snjóbyli draga úr sér kjark, enda nægur hiti frá ofurtölvunum sem þeir mata með þvælu til að framleiða spár sem rætast aldrei. 

Verðþak leysir ekki vandamál. Það býr til ný vandamál. Lausnin er sú að framleiða meiri orku.


mbl.is ESB kynnir verðþak á jarðefnaeldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimilisbókhald 101

Hvað gerir venjulegur maður þegar tekjur hans lækka eða útgjöldin hækka umfram tekjur?

Sækir hann um nýtt greiðslukort? Bætir við sig sólarlandaferðum? Endurnýjar jakkafötin?

Nei, hann selur væntanlega eignir upp í skuldir, minnkar við sig útgjöld og lætur gömlu jakkafötin endast aðeins lengur. 

Hvað gerir hið opinbera þegar endar ná ekki saman og áætlanir sýna að það muni ekki takast í nokkur ár? Þegar opinber umsvif leiða til skuldasöfnunar?

endar1

Selur eignir? Minnkar útgjöld? Fækkar gæluverkefnum? Nei, þvert á móti.

endar2

Rafbílar eru ágætir að mörgu leyti en ekki öðru. Þeir eru leikföng hinna efnameiri. Þeir eru þungir og slíta vegum. Hljóðlátir, vissulega, og þægilegt að keyra þá, vissulega, en leikföng.

Það er því með öllu algjörlega óskiljanlegt að hið opinbera er að safna skuldum til að niðurgreiða rafmagnsbíla þeirra efnameiri á meðan venjulegu fólki er gert sífellt erfiðara fyrir að eignast ódýrari og hagkvæmari bifreiðar, knúnar bensíni og olíu.

Skattaafslættir eru góðir auðvitað en þeim mætti beina í aðra hluti, eins og að gera kaup á glænýjum og hagkvæmum bensínbílum ódýrari og stuðla þannig að betri nýtingu eldsneytis. Einnig mætti spara töluvert fé með því að fella niður kröfur um íblöndun á lífolíum í eldsneytið, og kannski hlífa einhverjum regnskógum í leiðinni við að verða breytt í pálmatré. 

Ónefnd er svo tregða hins opinbera að heimila fleiri virkjanir til að knýja leikföngin. Er takmarkið að búa til rafmagnsleysi? Þvinga fiskvinnsluna til að snúa sér aftur að olíu? Moka álverunum úr landinu? 

Hið opinbera spyr sig: Hvernig gengur að ná endum saman?

Svarið er: Nú illa, auðvitað, á meðan það heldur áfram að hegða sér eins og unglingur með greiðslukort foreldra sinna sem kaupir sér nýjar græjur fyrir lánsfé!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband