Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016

Hugmyndir að úrræðum

Stjórnmálamenn leita margra leiða til að koma sér í fjölmiðla og minna kjósendur á tilvist þeirra. Hér er ein slík leið:

Sveitarfélagið Hornafjörður stefnir að því að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um að minnsta kosti 3% á ári í samræmi við samning sem það hefur undirritað við Landvernd.

Auðvitað er þetta tilgangslaus vegferð og algjör óþarfi en stjórnmálamaðurinn fékk mynd af sér birta vegna málsstaðs sem sumir en ekki allir telja göfugan.

En úr því svo er komið er rétt að bera á borð nokkrar hugmyndir til að ná þessu blessaða markmiði:

Sveitarfélagið hætti að slá grasið í bænum: Plöntur gleypa í sig CO2 og stórar plöntur gera það í meira magni en litlar. Útsvarsgreiðendur spara fé og grasið fær að vaxa og dafna og breyta koltvísýring í súrefni.

Sveitarfélagið minnki akstur starfsmanna sinna: Brennsla eldsneytis losar koltvísýring. Minni akstur þýðir minni útblástur. Útsvarsgreiðendur spara fé.

Sveitarfélagið minnki við sig húsnæðið: Kynding fer víða fram með jarðhita og við borun eftir honum losna allskyns lofttegundir úr jörðinni, þar á meðal koltvísýring. Sums staðar er díselolía notuð til kyndingar sem losar koltvísýring. Sveitarfélagið þyrfti ekki að kynda eins mikið í minna húsnæði. Um leið mætti lækka rekstrarkostnað sveitarfélagsins vegna húsnæðis. Útsvarsgreiðendur spara fé.

Sveitarfélagið tali við Landvernd í gegnum Skype í stað þess að bjóða á fund: Akstur á vegum Landverndar gæti þá dregist saman og þannig er minna losað af gróðurhúsalofttegundum. Skattgreiðendur spara fé vegna fundarhalda í sveitarfélaginu (kaffi og kökur og þannig lagað). 

Sveitarfélagið bjóði út ýmsan rekstur til einkaaðila og hætti honum hreinlega alveg: Rekstur sem er ekki á vegum sveitarfélags telst væntanlega ekki með í útblástursútreikningum þess. Um leið gætu útsvarsgreiðendur sparað fé vegna starfssemi sveitarfélagsins. 

Það er úr mörgu að velja og vonandi verður eitthvað fyrir valinu sem bitnar ekki á útsvarsgreiðendum. 


mbl.is Draga úr losun um 3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamál númer 1: Ríkið kaupir of mikið

Það kemur vonandi ekki neinum á óvart að fé skattgreiðenda fossar út við innkaup á allskyns óþarfa. Tölvur, skjáir og skrifborð - allt er þetta endurnýjað alltof oft og þegar endurnýjun á sér stað er allt keypt á alltof háu verði. 

Nú einskorðast svona lagað vitaskuld ekki við ríkisvaldið. Einkafyrirtæki eyða líka miklu fé í dýra hluti. Munurinn er hins vegar sá að þar þarf einhver að sjá á eftir fé úr eigin vasa. Eigendur einkafyrirtækja standa vaktina stíft og fylgjast vel með því að endurnýjun sé ekki óþarflega ör um leið og starfsmenn eiga ekki að þurfa að sóa tíma sínum með því að eiga við úrelda tækni.

Hjá opinberum stofnunum er þetta bara spurning um að ná að kreista meira af fé annarra inn á eigin útgjaldareikning. Aðhaldið verður einfaldlega allt öðruvísi - ómeðvitað eða meðvitað verra.

En gott og vel - gefum okkur að ríkisvaldið verði áfram risastórt og þurfi að kaupa ógrynni af tölvum, tækjum og tólum. Hér er sparnaðarhugmynd: Kaupa notað! Gömul Windows-tölva getur upplifað endurnýjun lífdaga með örlítilli hreingerningarvinnu og ókeypis Linux-stýrikerfi. Notaðir tölvuskjáir falla til í heilu gámaförmunum á hverju ári og má alveg nýta. Síðan má bjóða öll þessi innkaup út og þá meina ég ekki að opinberar stofnanir sameinist um að kaupa heldur má ráða verktaka til að sjá um innkaup - verktaka sem hagnast vel á því að finna bestu verðin. 

Vandamálið er samt að ríkisvaldið er of stórt og þarf of mikið af dóti. Í slíku ástandi felst kjarni málsins. 


mbl.is Vilja bæta opinber innkaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þotuliðið mun ekki sætta sig við þetta

Kæra hefur verið lögð fram á hendur Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli vegna brots á áfengislögum. Kærendur, HBO vín ehf., vilja meina að engin lagaheimild sé fyrir hendi til þess að selja áfengi í Fríhöfninni. 

Snillingar!

Ef dómstóll samþykkir þessa kæru og leggur á lögbann á tollfrjálsa áfengissölu í íslenskum flugvöllum er ljóst að þotuliðið verður brjálað. Opinberir embættismenn og vel borgaðir viðskiptaferðalangar líta á aðgengi að tollfrjálsu áfengi sem nokkurs konar fríðindi eða bónus. Þetta fólk á fulla vínskápa af koníak, vodka og gini sem sauðsvartur almúginn getur ekki leyft sér að kaupa á venjulegu verði í tolluðum vínbúðunum.

Um leið er þotuliðið á því að áfengi til almennings eigi að vera dýrt og óaðgengilegt - annars fara allir sér jú að voða, ekki satt?

Ef fríhafnaráfengi hættir að vera í boði mun þotuliðið ekki sætta sig við það. Áfengislöggjöfinni verður breytt á slíkum hraða og í slíkri fjarveru umræðu á Alþingi að furðu sætir. Löggjöfinni verður ekki breytt til rýmkunar á sölufyrirkomulagi áfengis heldur eingöngu til að koma til móts við þotuliðið svo það geti áfram haft aðgang að tollfrjálsu áfengi. Vínbúðir ríkisvaldsins munu standa óhreyfðar á einokunrstalli sínum utan flugvallanna.  

Þetta verður spennandi mál, en um leið svo fyrirsjáanlegt. 


mbl.is Bannað að selja áfengi í Fríhöfninni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar börn festast í kerfinu

Þegar löggjöf er mjög nákvæm og á að ná yfir allt hugsanlegt og óhugsanlegt skapast tvö vandamál:

- Sveigjanleiki fólks til að gera samninga sín á milli er í raun kæfður

- Ef eitthvað fellur utan lagarammans festist það á eilífu gráu svæði

Það mætti segja að nákvæm löggjöf geri allt sem ekki er sérstaklega tilgreint sem löglegt - ólöglegt!

Þetta er breyting frá því sem áður var þegar almenn lög voru skrifuð og nákvæm túlkun þeirra leyst fyrir dómstólum. Nú þykist löggjafinn geta séð allt fyrir með ófyrirséðum afleiðingum.

Sem dæmi má nefna glóperuna sem Evrópusambandið bannaði og Íslendingar töldu sig þurfa að banna líka. Nú virðist vera að koma í ljós að glóperan - með svolítilli viðbót - er í raun miklu skilvirkari ljósgjafi en hinar svokölluðu sparperur. Vandamálið er hins vegar að nú standa lögin (meðal annars) í veg fyrir hraðri útbreiðslu tækninnar. Eða eins og segir á einum stað:

Why should governments be in the business of picking right and wrong technologies at all?

Þetta er spurning sem fáir geta svarað svo vel sé. Það er þá helst hægt að útskýra málið með því að velta því fyrir sér hvort stuðningsmenn opinberra boða og banna séu einfaldlega hræddir við sjálfa sig og hæfileikann til að prófa sig áfram, gera mistök og læra af reynslunni. 

Er þetta fólkið sem á að ráða?


mbl.is Hagir barns breyta ekki konu í móður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjálfsögðu

Það er gott að einhverjir vinstrimenn á Alþingi líta ekki á það sem eina hlutverk sitt að fá sem mestan tíma í ræðustól.

Auðvitað á Ísland að stunda frjáls viðskipti við Japan og við heiminn ef því er að skipta.

Til þess þarf samt ekki neina sérstaka samninga sem vefja viðskipti inn í allskonar skilyrði og undanþágur frá þeim. Alþingi getur einfaldlega ákveðið að afnema alla tolla og allar hömlur á frjáls viðskipti við allan heiminn - á morgun!

Þetta myndi þýða að í einhverjum tilvikum kæmu vörur frá einhverju landinu ótollaðar inn til Íslands á meðan íslenskar vörur lenda í háum tollum þegar þær fara í hina áttina. Það er samt engin ástæða til að tolla eitthvað. Þótt nágranninn grýti höfnina sína er engin ástæða fyrir okkur að grýta okkar.

Frjáls verslun er réttlætismál en ekki spurning um krónur sem lenda í höndum stjórnmálamanna. 


mbl.is Sammála um fríverslun við Japan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband