Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

En hvað með undantekningarnar?

Allir eiga rétt á frelsi til ákvarðana um líf sitt og líkama. Víða eru þó margir sviptir þessum sjálfsákvörðunarrétti og sæta refsingu fyrir að nýta þann rétt. Þetta er viðfangsefni herferðar Amnesty International og ljósmynda Ástu Kristjánsdóttur.

Undir þessi orð get ég tekið af algjörlega heilum hug. Andstaða við þetta viðhorf er samt mjög útbreidd, og er Ísland engin undantekning.

Sumir telja til dæmis að sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga megi setja takmörk. Sumir telja að frelsið til að taka ákvarðanir um líf sitt og líkama sé í besta falli lausleg viðmiðun sem megi ráðskast með, t.d. í nafni einhvers háleits markmiðs.  

Sumir telja að fólk megi þvinga í hjónaband eða refsa fyrir kynhneigð. Aðrir telja að neysla ákveðinna efna sé glæpur í sjálfu sér. Enn aðrir telja að með því að stunda kynlíf gegn greiðslu sé viðkomandi búinn að opna á afskipti lögreglu af sér.

Ég vona að Amnesty International gangi vel í herferð sinni en ég sé takmarkanir á boðskap samtakanna sem eiga eftir að hamla árangrinum. Samtökin höfða ekki til hins breiða réttar einstaklinga til að ráða óskilyrt yfir eigin líkama. Sértæk dæmi úr fátækjum ríkjum eru valin - hörmuleg og sorgleg dæmi vissulega en sértæk engu að síður. Samtökin líta út fyrir að setja ákveðin stjórnvöld í skammarkrókinn og friða um leið Vesturlöndin þar sem sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga er einnig fótum troðinn (á minna ágengan hátt vissulega, en engu að síður fótum troðinn).

Yfirvöld í fátæku ríkjunum eiga eftir að láta þessa siðapredikun eins og vind um eyru þjóta. Þar eiga menn eftir að hugsa: Eru það ekki Bandaríkin sem geyma heimsins hæsta hlutfall af íbúum sínum í fangelsi, aðallega vegna þess að þar er glæpur að setja ofan í sig eða selja fíkniefni? Eru það ekki Vesturlöndin sem mörg hver stinga kvenfólki í fangelsi fyrir að framfleyta sér með sölu kynlífs? Eru Vesturlöndin ekki að skattleggja fitu og sykur til að halda fólki frá neyslu þessara fæðuflokka? Eru Vesturlönd ekki mjög upptekin af útgáfu svokallaðra "lyfseðla" til að skammta ýmsar tegundir lyfja ofan í fólk? Af hverju eru þau að predika yfir okkur á meðan þau troða sjálf á sjálfseignarrétti sinna þegna?

(Ekki er þar með sagt að hin fátæku ríkja leyfi eitthvað meira en Vesturlönd, en Vesturlönd eru engu að síður sek um að troða á sjálfseignarrétti einstaklinga án þess að Amnesty International skammist í þeim.) 

Stundum verða fílabeinsturnarnir svo háir að súrefni á toppi þeirra verður af skornum skammti. Þá verða predikanir úr þeim líka frekar máttlausar. Ég vona að Amnesty International klifri ekki alveg svo hátt í turnstiganum. 


mbl.is Minn líkami, mín réttindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unga fólkið sent heim úr vinnu

"Eftirlit með svartri atvinnustarfsemi" hefur á sér margar hliðar. Ein er sú að verið sé að fylgja lögum og tryggja að allt sem lög segja að eigi að vera skattlagt sé skattlagt að fullu. Með því eru "tekjur ríkisins" gerðar svipað miklar og áætlanir ríkisvaldsins segja til um.

Önnur og öllu myrkari hlið er sú að ýmis störf eru lögð niður og fólkið sem vinnur þau sent heim í atvinnuleysi. Fyrirtæki þurfa alltaf að vega og meta hvaða starfsfólk þau þurfa á að halda og hvað það má kosta. Skattur er svo hár á Íslandi að mörg störf yrðu aldrei til ef þau væru að fullu skattlögð. Tökum dæmi:

Fyrirtæki gæti bætt við sig starfsmanni sem gæti aukið verðmæti framleiðslunnar um 2000 kr. á hverja vinnustund. Starfsmaður kemur inn og biður um 1500 kr. á klukkustund. Ofan á það koma lífeyrissjóðsgreiðslur (sem ríkisvaldið tekur að láni og gerir að ríkisskuldum), skattar og ýmis launatengd gjöld. Starfsmaðurinn kostar fyrirtækið meira en 2000 kr. á tímann. Hann er ekki ráðinn nema gegn því að "vinna svart". Skattstjóri mætir á svæðið og "upprætir" hina svörtu atvinnustarfsemi. Starfsmaðurinn fer heim. Fyrirtækið framleiðir minna en það gerði áður. Starfsmaðurinn fer á atvinnuleysisskránna svokölluðu.

Í stað þess að "uppræta" svarta atvinnustarfsemi á að lækka alla skatta og afnema skylduáskrift að lífeyrissjóðum. Launaseðlar eiga að samanstanda af fjórum línum (fyrir utan bónusa, kostnað vegna hádegismats og þess háttar): Laun, útsvar til sveitarfélagsins, skattur til ríkisvaldsins og útborguð laun. 

Lægri skattar og einfaldara skattkerfi fer langa leið í átt að útrýmingu "svartrar" atvinnustarfsemi. Embætti ríkisskattstjóra mætti um leið skera niður í eitt starfsígildi og þannig mætti spara enn frekar og lækka skatta enn meira.  

Engum er greiði gerður með því að senda fólk heim úr vinnunni og minnka verðmætasköpun fyrirtækja.  


mbl.is Ástandið heldur betra en áður var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með að fjarlægja skiltið?

Er erfitt að fá bílstjóra til að virða stöðvunarskyldu? Eru langar raðir við umferðarljós að tefja marga bílstjóra? 

Hvað með að fjarlægja umferðarskiltin og götuljósin?

Það hefur verið gert víða í Evrópu og hefur leitt til betra flæðis í umferðinni og jafnvel færri umferðaróhappa. Um þetta má lesa víða, t.d. hér. Að sögn flyst þá athygli bílstjóra frá ljósum og skiltum og að umferðinni og öðrum bílum og vegfarendum. Umferðin flæðir betur og slysum og óhöppum fækkar.

Boða-og-bann-menningin er vinsæl. Hugmyndin er sú að með því að beina athygli bílstjóra að skiltum og ljósum megi fá umferðina til að ganga betur fyrir sig. Mörgum finnst raunin vera önnur þegar umferð er borin saman við svæði þar sem skilti eru fá og umferðarljós engin.

Mér dettur kannski í hug að skrifa meira um þetta seinna, en í bili læt ég mér nægja að benda á þessa litlu frétt.  


mbl.is Nærri helmingur braut umferðarlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafsígarettan - dæmi um skaðsemi ríkisins

Margir hafa heyrt um hina svokölluðu rafsígarettu (e. e-cigarette). Þetta er lítið tæki sem hitar sérstakan vökva upp og gerir notandanum kleift að „reykja“ hann, þ.e. anda honum að sér. Frá notandanum kemur svo fátt annað en vatnsgufa. Nikótíni er gjarnan blandað í þennan vökva og getur hann því komið í stað reykinga eða annarrar tóbaksnotkunar, en án tjörunnar og hinna krabbameinsvaldandi efni (kostir og gallar nikótínsins halda sér sem fyrr).

Margir hafa tekið þessari tækni fagnandi, sérstaklega reykingafólk sem hefur átt erfitt með að hætta að reykja. Hægt er að fá mismunandi styrkleika nikótíns í vökvann, og hann er gjarnan bragðbættur. Reykingafólk hefur getað „trappað sig niður“ þar til nikótínþörfin er orðin lítil sem engin. Kostnaðurinn við að „reykja“ rafsígarettu er einnig brot af því sem gildir um almennar reykingar, og það getur veitt efnalitlu reykingafólki fjárhagslegt svigrúm sem minnkar fjárhagsáhyggjur þess og þar með þörfina til að reykja til að slaka á.

En hvað gera yfirvöld á Íslandi þá? Þau klóra sér í hausnum og flokka nikótínblandað vatn sem „lyf“ og gera innflutning á því þar með rándýran og óhagkvæman. Svartur markaður hefur því sprottið upp líkt og á fíkniefnamarkaðnum. Vatnsblönduna má þar af leiðandi nánast eingöngu nálgast hjá söluaðilum sem ekki njóta sama aðhalds og lögleg lyfjafyrirtæki og lyfsalar og verslanir almennt. Þetta er að gerast á Íslandi í dag og fáir kippa sér upp við það.

Það er í sjálfu sér athyglisvert að þeir einu á Íslandi sem geta stundað óheft viðskipti með ýmis efni séu óharðnaðir unglingar á hinum ólöglega fíkniefnamarkaði. Þeir hafa sjaldnast mikið fyrir hreinlæti og góðum merkingum á varningi sínu. Við hin, sem eldri og lífsreyndari erum, þurfum að horfa upp á okkar lyfjaviðskipti flækt í net hins opinbera. Hið opinbera er beinlínis að stuðla að því að reykingafólk á Íslandi haldi áfram að soga ofan í sig tjöru og eiturefni í stað þess að geta notið nikótínblandaðrar vatnsgufu.

Vatnsblandan umrædda er ekki eina dæmið um heilsuspillandi áhrif hins opinbera á Íslandi. Heilbrigðiskerfi þess í heild sinni er að mörgu leyti farið að líkjast biðröð í kirkjugarðinn. Einkaaðilar eru beinlínis regluvæddir og skattlagðir út af markaði heilbrigðisþjónustu og meinað að lækna fólk sem bíður í biðröðum hins opinbera. Hið opinbera býður jú upp á „ókeypis“ heilsugæslu, sem er annað orð yfir skammtanir og biðraðir eftir mjög takmarkaðri þjónustu, sem kostar meira og meira enda laus við óþægindi eins og samkeppni og eigendur með persónulega hvata til að stunda arðbæran rekstur.

Er ekki kominn tími til að endurskoða hlutverk hins opinbera? Er ekki kominn tími til að minnka heilsuspillandi áhrif þess?
 
Geir Ágústsson 
 
(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag. 2. júní 2014. Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast hana hérna.) 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband