Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013
Þriðjudagur, 10. desember 2013
Enn skal moka fé á bálið
Lagt er til að heimild til greiðslu á framlagi til Íbúðalánasjóðs hækki um 175,5 milljón króna frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum.
Enn skal fé skattgreiðenda mokað á bál Íbúðalánasjóðs. Það er slæmt. Hitt er verra að svona fréttir slökkva nánast allan vonarneista um að einhver raunveruleg tiltekt verði á ríkisrekstrinum á Íslandi. Eitthvað er flutt til og frá í fjárlögum, framlög hér hækkuð aðeins og önnur lækkuð, en engin raunveruleg tiltekt á sér stað.
Ríkisstjórnin ætlar að hliðra aðeins til en ekki taka slaginn við einn né neinn um eitt né neitt. Óttinn við næstu kosningar, eftir rúm 3,5 ár, er strax búinn að draga allan kjark úr ríkisstjórninni. Á meðan færumst við mörgum og hröðum skrefum nær ríkisgjaldþroti. Þá, kæru Íslendingar, kemur skellur sem verður miklu verri og sársaukafyllri en hann þyrfti að vera ef tiltekt hefði hafist fyrr, t.d. í vor.
Framlög til Íbúðalánasjóðs verði hækkuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 4. desember 2013
Er ekkert þarfara að gera?
Starfsmannamál Ríkisútvarpsins verða tekin til sérstakrar umræðu á Alþingi í dag. Málshefjandi er Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og til andsvara verður Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra.
Er virkilega ekkert þarfara að gera á Alþingi? Ef ekki þá finnst mér að Alþingismenn eigi bara að byrja jólafríið sitt, og framlengja það fram að sumarfríi.
Ríkissjóður er tómur og í raun gjaldþrota. Skorið er niður í ríkisrekstrinum, bæði þeim hlutum hans sem sinna þjónustu sem þörf er á, og hinum (t.d. RÚV). Uppsagnir fylgja í kjölfarið. The end.
En nei, núna var snert við hinni heilögu belju, RÚV. 8% starfsmanna þar fá uppsagnarbréf. Það er minna en margar ríkisstofnanir hafa þurft að þola, og miklu minna en hjá mörgum einkafyrirtækjum sem berjast við að halda sér á lífi í umhverfi hárra skatta, þrúgandi regluverks og gjaldeyrishafta.
Stjórnarandstaðan er einfaldlega að reyna skapa sér vinsældir. Vonandi mistekst það. Vonandi stendur ríkisstjórnin í lappirnar og leggur bráðum fram frumvarp um að leggja RÚV niður með öllu, og til vara 90% af RÚV. Vilji stjórnmálamenn halda áfram að fjármagna eitthvað af núverandi verkefnum RÚV með skattfé má gera það með útboði á einstaka verkefnum. Best væri samt að stjórnmálamenn létu sér nægja að hafa áhrif á dagskrá fjölmiðla með persónulegri áskrift eða ekki áskrift að einstaka einkareknum sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Það virkar ágætlega fyrir okkur hin sem neytendur.
Ræða uppsagnir á RÚV á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 2. desember 2013
Nokkrir óvinir iðnmenntunar á Íslandi
Viðvarandi skortur hefur verið á fólki með menntun í málmtækni undanfarin ár. Skortur er í fleiri greinum, s.s. í rafiðnaði en staðan er mismunandi á milli iðngreina. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Katrín Dóra, að kannanir SI hafi sýnt fram á að þörf væri á að um 1.100 manns útskrifuðust úr iðnnámi á ári í stað 500-600 manns nú.
Er ekki eitthvað bogið við þetta? Hvernig getur verið skortur á einhverju á frjálsum markaði? Ef eftirspurn er næg en framboð lítið, þá ætti verð að hækka og sú hækkun á verði ætti að laða fleiri að og uppfylla þannig framboð. Eru iðnfyrirtæki að biðja málmtæknifólk um að vinna fyrir lægri laun en það getur krafist í ljósi lítils framboðs á þekkingu þeirra? Það efast ég um. Ég er viss um að málmtæknifólk kann að semja um kaup og kjör. Eru iðnfyrirtæki að vonast til að geta haldið aftur af launahækkunum með því að biðla til stjórnvalda um að mennta fleiri í málmtækni? Hver veit!
Ég held samt að vandamálið sé einfalt, en um leið margslungið: Fjölmargir á Íslandi berjast gegn því að á Íslandi sé stundum framleiðsla af nokkru tagi, a.m.k. af þeirri gerð sem krefst orku. Til hvers að mennta sig í fagi sem er smátt og smátt verið að þvinga út úr landi?
Iðnaðarmenn eru margir hverjir sjálfstæðir atvinnurekendur. Er ekki búið að þjarma alveg gríðarlega að litlum fyrirtækjum á Íslandi undanfarin ár? Lagafrumskógurinn er orðinn svo flókinn að einfalt "rassvasabókhald" dugir ekki lengur til að hafa yfirsýn yfir reksturinn. Þegar starfsmaður nr. 50 er ráðinn þarf að móta jafnréttisstefnu. Veltuskattar á fyrirtæki eru háir og hafa hækkað mikið. Hinn sjálfstæði iðnaðarmaður þarf orðið svo miklu meira en góða verkkunnáttu. Hann þarf að vera lögfræðingur og endurskoðandi líka, og sérfræðingur í skattarétti og jafnréttismálum.
Ríkisvaldið gerir meira til að skemma fyrir. Það ákveður til dæmis að "virkja" og "skapa störf" og blæs því til mikillar bólumyndunar (ýmist í gegnum beinar ríkisframkvæmdir, ríkisábyrgðir eða framkvæmdir ríkisfyrirtækja) sem sýgur iðnaðarmenn í sig, en hendir þeim jafnóðum út aftur þegar bólan springur. Iðnaðarmenn eru e.t.v. berskjaldaðri en margir aðrir í þessum ofsafengnu upp- og niðursveiflum sem Íslendingar þekkja alltof vel. Það fer ekki framhjá ungu fólki sem er að velja sér menntun.
Margir halda ranglega að iðnaðarmenn þéni minna en sprenglært háskólafólk. Það er oftar en ekki ósatt. Tekjur iðnaðarmanna eru e.t.v. sveiflukenndari (góðæri/hallæri, sumar/vetur) en að jafnaði oft háar.
Fyrirtæki eru einfaldlega að bregðast við óvissu árferði þegar þau hika við að fylla alla rennibekki af iðnnemum. Fjárfesting í þeim er óviss. Ég get líka ímyndað mér að þeim fylgi mikill kostnaður, t.d. vegna lífeyrissjóðs, trygginga og annarra launatengdra gjalda. Ríkisvaldið gæti ákveðið á morgun að opna þjálfunarbúðar á kostnað skattgreiðenda fyrir iðnnema, og þá geta fyrirtækin fengið "ókeypis" þjálfun. Annað eins hefur nú sést á Íslandi.
Menn þurfa ekki að skrifa fleiri skýrslur um skort á iðnmenntuðu fólki á Íslandi. Lausnin er bara sú að koma ríkisvaldinu úr veginum og minnka kostnað vegna hins opinbera á fyrirtæki á Íslandi. Á þann hátt geta framboð og eftirspurn náð saman á ný.
Gætu tekið tvöfalt fleiri á samning í málmiðnaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)