Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012
Laugardagur, 31. mars 2012
Excel-hagvöxtur er ekki raunverulegur hagvöxtur
Hagstofa Íslands hefur enn á ný keyrt Excel-skjölin sín og komist að því að "hagvöxtur" sé á spákortunum. Þessi Excel-skjöl sýna plústölur þegar fólk tæmir sparireikninga sína og skuldsetur sig á bólakaf og eyðir fénu í flatskjái og nýja bíla. Excel-skjölin sýna líka "hagvöxt" þegar ríkisvaldið skuldsetur sig og eyðir í laun opinberra embættismanna, glerhýsi við hafnir og þýðingar á regluverki ESB.
Ekkert af þessu bætir samt heilsu hagkerfisins. Verðmætasköpun er ekki mæld. Það sem er mælt eru peningalegar stærðir, og þær segja bara hluta sögunnar, og oft villandi. Peningaprentun mælist sem hagvöxtur, en hún hækkar verðlag, rýrir sparnað, ruglar viðskiptaáætlanir og flytur verðmæti úr fjárfestingu og yfir í neyslu.
Hagstofa Íslands er dugleg að halda utan um ýmiskonar gögn, en spádómar hennar eru rusl byggð á drasli.
Hækkar hagvaxtarspá sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 29. mars 2012
Verðtrygging: Trygging gegn skattahækkunum?
Gefum okkur að verðlag hækki að jafnaði um 10% að meðaltali (skv. einhverri vísitölu einhverrar opinberrar stofnunar á Íslandi) á öllum varningi á Íslandi vegna veikningar á kaupmætti krónunnar (fjölgun á krónum í umferð). Þetta getur útlánandi vitaskuld tekið inn í sinn reikning með hærri vaxtakröfu eða notkun hinnar svokölluðu verðtryggingar. Kaupmáttur á útláninu er þannig varðveittur.
En útlánandi á Íslandi getur ekki bara beitt verðtryggingu til að verja kaupmátt þeirra peninga sem hann lánar út gegn rýrnun vegna peningaprentunar/útgáfu. Hann getur líka varið útlánið sitt fyrir skattahækkunum. Skattahækkanir reiknast nefninlega með í "verðtryggingunni".
Þannig að ef ríkisstjórnin hækkar skatta á hitt á þetta, þannig að 10% verðhækkanir verði að meðaltali að 15% verðhækkunum, þá getur útlánandi þénað vel. Ekki kaupir hann allt þetta sem var skattlagt upp í rjáfur, engu að síður fær hann "verðbætur" vegna skattahækkananna.
Ætli það sé ekki það sem Landsbankinn er að hagnast á?
Landsbanki hagnast mikið á verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 26. mars 2012
Jöfn tekju'dreifing' er slæm
Tekjur Íslendinga dreifðust jafnar árið 2011 en þær hafa gert síðan mælingar hófust með lífskjararannsókn Hagstofunnar árið 2004. Bilið milli tekjuhópa hefur minnkað verulega frá árinu 2009 og er tekjuhæsti fimmtungurinn nú með 3,3 sinnum hærri tekjur en sá lægsti. Til samanburðar var hlutfallið 4,2 árið 2009, segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Þetta eru slæmar fréttir. Nú er það svo að flestir skapa ekki mikil verðmæti með vinnu sinni. Flestir eru því með "lágar" tekjur eða "miðlungs háar". Í krónum og aurum væri sennilega hægt að miða við milljónina - langflestir eru með minna eða miklu minna en milljón á mánuði í laun.
Á Íslandi hefur þeim sennilega ekki fækkað mikið sem hafa minna en milljón á mánuði í laun og sennilega hefur þeim fjölgað sem hafa dottið undir milljónina, bæði sem hlutfall af vinnandi fólki, og fjöldi einstaklinga á Íslandi öllu. Þetta þýðir að störfum sem skapa mikil verðmæti og borga mjög vel hefur fækkað. Verðmætasköpunin hefur því annað hvort dottið niður, eða hún komin úr landi. Bæði er slæmt. (Hérna er ég ekki að tala um störf í fjármálabólustörfum, þar sem starfsmenn taka við nýprentuðum peningum og eyða í allskyns varning og þenja upp verðlag með því að láta sífellt fleiri peninga elta svipað magn verðmæta.)
Margir vilja meina að fólk með meira eða miklu meira en milljón á mánuði sé ekki launa sinna "virði". Fyrir slíku hugarfari eru margar ástæður. Ein ástæðan er misskilningur og fáfræði. Þeir sem þéna mikið gera það af því þeir sinna mörgum viðskiptavinum. Forstjóri kexframleiðanda sem selur 500 milljón kexkökur á mánuði þénar meira en forstjóri samskonar fyrirtækis sem selur 1 milljón kexkökur á mánuði.
Að laun séu að jafnast út á Íslandi eru slæm tíðindi fyrir hið íslenska hagkerfi. Jöfn laun þýða jöfn örbirgð allra. Ójöfn laun þýða að í hagkerfinu starfa nokkrir einstaklingar sem sinna miklum fjölda viðskiptavina. Þessir viðskiptavinir sjá ástæðu til að greiða fyrir þjónustu eða varning þessara einstaklinga. Þeir eru því hverrar krónu virði.
Loks vil ég vara fréttamenn við að tala um að laun "dreifist". Það er orðanotkun sem villir mörgum sýn.
Kaupmáttur svipaður og 2004 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 20. mars 2012
Sósíalismi í gervi vísinda
Sósíalistar nota margar aðferðir til að boða hugmyndafræði sína. Ein er sú að klæða sósíalismann í búning allskyns vísinda, til dæmis félagsvísinda. Háskólafólk og önnur "gáfumenni" er rauðara en flest annað fólk af ýmsum ástæðum. Þetta fólk hleður á sig háskólagráðum og boðar svo sósíalismann úr stólum hinna hlutlausu fræðimanna.
Það sem Steindór J. Erlingsson, líf- og vísindasagnfræðingur, segir um einstaklingshyggju og "bandaríska hugmyndafræði" stenst enga skoðun. Bandarísk hugmyndafræði líkist sífellt meira þeirri evrópsku, sem boðar að ríkisvaldið eigi að vera allt í öllu; löggæsla, dómsvald, velferðarkerfi, læknir, barnauppalandi, kennari, orkuframleiðandi, reglusetjari, peningaprentari, umhverfisverndari og svona mætti lengi telja.
Þegar Steindór J. Erlingsson, líf- og vísindasagnfræðingur, segir að "[f]rá 1990 hefur tíðni geðraskana næstum því tvöfaldast hér á landi", þá passar það ágætlega við þá hugarfarsbreytingu fólks, bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum, að ríkisvaldið eigi að vera hin alvitra og öfluga barnapía allra, sem sér um að enginn fari sér að voða, en passar líka að enginn leggi of mikið á sig.
Ef þunglyndi og önnur sálarmein eru að verða algengari væri miklu nær að telja skýringu þess vera þá, að þeir sem passa ekki í vísitölu- og kjarnafjölskylduramma ríkisvaldins finnist þeir vera fastir í neti kerfisins og geta ekki leitað hamingjunnar á eigin forsendum.
Verðum að draga úr ægivaldi lyfjaiðnaðarins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 15. mars 2012
Rétt spá á röngum forsendum
Greining Íslandsbanka spáir því að fasteignaverð eigi eftir að hækka töluvert á næstu 2 árum. Það er sennilega rétt spá, en er byggð á kolröngum forsendum.
Á einum stað segir um spá Íslandsbanka:
Greining Íslandsbanka segir í spá sinni um þróun íbúðaverðs það sem helst ýti undir verðhækkunina sé m.a. bati í efnahagslífinu, vaxandi kaupmáttur og ríflegar launahækkanir samhliða því sem draga muni áfram úr atvinnuleysi. Þá bendir Greiningin á að stýrivextir séu lágir og að draga úr óvissu um skuldastöðu heimilanna.
Tekið er fram að spáin hvíli á því að hagvöxtur verði á bilinu 2 til 2,5% á þessu og næsta ári og að hratt vindi ofan af þeim slaka og ójafnvægi sem nú sé til staðar í hagkerfinu.
Ég bið lesendur að afsaka orðbragðið um leið og ég spyr: Hvernig er hægt að halda annarri eins vitleysu fram?
Fasteignaverð á Íslandi er að taka flugið en þeir sem vilja vita af hverju er bent á þessi skrif. Greining Íslandsbanka er greinilega of þjökuð af hinni viðteknu hagfræði sem hefur leitt okkur í hinar gríðarmiklu efnahagslegu ógöngur dagsins í dag. Henni ber að hafna, því fyrr því betra.
Spá 16% hækkun fasteignaverðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 10. mars 2012
Pólitísk afskipti af tæknilegum viðfangsefnum
Stjórnarflokkarnir hafa komist að samkomulagi um að lagt verði til í væntanlegri þingsályktun um virkjunarkosti að hugmyndir um þrjár virkjanir í Þjórsá verði settar í biðflokk, að sögn traustra heimildarmanna í flokkunum tveim.
Nær víst sé að samkomulagið verði staðfest í ríkisstjórn og kynnt á næstu dögum. Jafnframt kemur fram að ekki verði hróflað við þeim tillögum um virkjanir á Reykjanesskaga sem verkefnisstjórn um rammaáætlun lagði fram í fyrra en hugmyndir um jarðvarmavirkjun við Hágöngulón og vatnsaflsvirkjun við Skrokköldu fari í biðflokk.
Mér sýnist stjórnmálamenn vera að ýta á virkjunaraðila að virkja meira í gufu og jarðvarma en minna í vatnsafli. Allar vatnsaflsvirkjanir eru stöðvaðar með pólitískum afskiptum ("settar í biðflokk") á meðan hindranir eru ekki lagðar í veg fyrir gufuaflsvirkjanir.
Hafa menn ekki verið að deila um ýmislegt í tengslum við Hellisheiðarvirkjun undanfarna mánuði? Vísindin í kringum áhrif þess að létta á þrýstingi heitavatnsbóla í jörðinni, og hella dæla heita vatninu svo aftur ofan í jörðina, eru að mér sýnist ekki alveg á hreinu. Uppistöðulón eru einfaldari. En þau eru óþægilegt útsýni að mati stjórnmálamannanna. Þess vegna á að ná í rafmagn með gufu.
Kannski er ég að lesa of mikið í yfirlýsingar ráðherra. Kannski eru þeir bara að reyna að stöðva öll virkjunaráform, en geta það ekki, t.d. af því þeir álpuðust til að lofa kjósendum sínum einhverju (störfum, fjárfestingu).
Engar virkjanir í neðri Þjórsá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |