Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Dæmigert fyrir ríkisafskipti af markaði

Það vantar ekki kórinn af fólki sem reiðist yfir bónusgreiðslum í gjaldþrota fyrirtækjum sem ríkisvaldið heldur á lífi með fé skattgreiðenda. Meira að segja þeir sem ákváðu að veita fé skattgreiðenda til illa rekinna fyrirtækja í taprekstri hneykslast á afleiðingum eigin gjörða.

En við hverju bjóst fólk? Bjóst fólk við því að gjaldþrota fyrirtæki sem fengu afhent fé úr vösum skattgreiðenda myndu breyta um stefnu varðandi bónusgreiðslur og önnur fríðindi sem eigendur og æðstu stjórnendur höfðu vanið sig á? Bjóst einhver við að fíkillinn sem fékk ókeypis skammt mundi ákveða, við móttöku nýja skammtsins, að hætta á eiturlyfjum?

Það eru alltaf mistök að láta hið opinbera ákveða hvaða fyrirtæki eiga að fara á hausinn og hver eigi að halda áfram í rekstri. Markaðurinn er eins og stór vél með milljónum tannhjóla sem jafnóðum er skipt út þegar þau bila og standa sig ekki lengur. Þegar ríkisvaldið reynir að troða of stóru tannhjóli í of lítinn gírkassa, setja of lítið tannhjól á milli tveggja annarra, eða líma saman ryðguð og sprungin tannhjól, þá hefur það í för með sér keðjuverkun og eyðileggjandi áhrif á allt gangverkið.

Alltaf.


mbl.is Reiði vegna bónusgreiðslna AIG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur: Ofurlán á okurvöxtum ekki varhugavert

Beint og óbeint segja ráðherrar Icesave-stjórnarinnar að engin leið sé betri en sú að skrifa undir skuldabréf í erlendum gjaldeyri upp á 1000 milljarða á okurvöxtum og um borga af því um ófyrirséða framtíð. Aðrar leiðir eru sagðar varhugaverðar, áhættusamar eða óskynsamlegar, t.d. að kæra Breta og Hollendinga, neita að hlusta á óréttmætar kröfur, stinga Icesave-málinu í skúffuna og sjá hvað Bretar og Hollendingar gera, samþykkja einhvers konar pólitíska málamiðlun með fyrirvörum, og svona má lengi telja. Nei, 33 þingmenn töldu að 1000 milljarða okurskuldabréfið í erlenda gjaldeyrinum væri besta lausn á deilu sem Íslendingar eiga fyrst og fremst við sjálfa sig.

Eða hvar er gíróseðillinn frá Bretum og Hollendingum? Þá meina ég pappírsútgáfan en ekki munnlega rukkunin sem styðst ekki við fugl né fisk.

"Samningsstaða" Íslands er nú ekki verri en það að búið er að sópa út af borðinu öllum "vilyrðum" sem voru gefin út mitt í hringiðu hrunsins og þau því úr sögunni, Bretar og Hollendingar þora ekki að kæra né rukka formlega og beita þess í stað áhrifum sínum innan fjölríkjaklúbba og ESB-gulrótinni á ríkisstjórn Íslands, og eftir að Ólafur Ragnar stakk sokk upp í Jóhönnu og Steingrím hefur stuðningur við málstað íslenskra skattgreiðenda aukist í útlöndum, þrátt fyrir áróðursherferð íslensku ríkisstjórnarinnar gegn þeim á erlendri grundu.

Ísland á hvorki að "semja" um nýja skuldaklafa né fara "dómstóla"leiðina. Það eru Bretar og Hollendingar sem eiga að rukka ef þeir telja sig hafa grundvöll til þess, en ekki við að bjóðast til að borga eitthvað sem engin lögmæt krafa er fyrir. 


mbl.is Dómstólaleiðin varhugaverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilræði fyrir ríkisstjórnina

Ríkisstjórnin er ráðvillt, og ekki sýnist mér stjórnarandstaðan hafa lausnir á færibandi. Er þá ekki við hæfi að birta heilræði til þingmanna, í formi reynslusögu þar sem rétt úrræði voru tekin og kreppa tekin af lífi á litlum tveimur árum?

Hér er texti um "gleymdu kreppuna" í Bandaríkjunum árin 1920-1923. Örlítill textabútur þaðan, í minni lauslegu og einfölduðu þýðingu:

Í stað "örvunaraðgerða" þá helmingaði ríkisstjórnin útgjöld hins opinbera á tveimur árum. Aðrar aðgerðir voru í svipuðum stíl. Skattprósentur voru snarlækkaðar á alla tekjuhópa. Skuldir hins opinbera voru minnkaðar um þriðjung.

Þar fyrir utan var varla um neinar aðgerðir af hálfu seðlabankans að ræða. Þrátt fyrir hraða efnahagssamdráttarins þá aðhafðist seðlabankinn ekkert til að auka peningamagn í umferð og berjast þannig gegn samdrættinum [hjöðnun verðlags]. Sumarið eftir að kreppan hófst voru merki efnahagsbata þegar byrjuð að sjást. Ári seinna hafði atvinnuleysi helmingast og var komið í 2.4% öðru ári síðar.

Kreppan 1920-1923 í Bandaríkjunum hófst sem sú alvarlegasta í sögu Bandaríkjanna en var á brott 2 árum seinna. Ástæða: Ríkisvaldið leyfði hagkerfinu að hreinsa sig af peningaprentun og hallarekstri fyrri heimstyrjaldar og dró stórkostlega úr umsvifum sínum.

Kreppan sem hófst árið 1929 hófst af öðrum ástæðum en byrjaði ekki verr en sú árið 1920. Hún entist í áratug og einkenndist frá upphafi af stórkostlegum "örvunaraðgerðum" hins opinbera. Hagkerfinu var ekki leyft að jafna sig á peningaprentun 3. áratugs 20. aldar. Afleiðingin var heimskreppa.

Skyldu hagfræðingar hafa lært eitthvað? Nei. Þeir ætla sér að endurtaka öll mistök Kreppunnar miklu.


mbl.is Mörg stórmál óleyst á ársafmæli stjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband