Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Af hverju þessi þvingun?

Af hverju eiga allir borgarbúar að greiða fyrir eitthvað sem sumir borgarbúar vilja að sé greitt fyrir? Af hverju geta ekki þeir sem vilja kaupa þessi hús keypt þau, og aðrir fá að vera í friði til að kaupa eitthvað annað?

Hin "upprunalega mynd" er hvorki betri né verri en einhver önnur mynd. Þeir sem vilja að Reykjavík líti út eins og gamalt sveitaþorp geta byggt eða varðveitt hús sem ná fram þeim áhrifum. Aðrir gera eitthvað annað. Borgin ætti að einbeita sér að því að týna rusl og sópa götur og hætta að leika arkitekta með fortíðarþrá!


mbl.is Vilja að Reykjavikurborg kaupi Laugaveg 4-6
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju varð ÁTVR við ósk borgarstjóra?

Hitastig bjórs hefur engin áhrif á reykvíska róna frekar en annarra. Rónar drekka kardimommudropa og volgan elefant-bjór vegna áhrifanna en ekki vegna hinnar einstöku upplifunar. Hækkandi hitastig bjórsins mun hins vegar minnka ánægju hófdrykkjufólks af sötrinu. Þetta veit Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, og þetta vita allir. Tepruskapur Villa er gríðarlegur, og fyrir þessa aðgerð gegn kælingu bjórs fær hann stóran og rauðan mínus í minni bók (hinir stóru mínusarnir eru vegna ákveðinnar ráðstefnu sem Íslendingar tepruðu úr landi ásamt tekjunum af henni, og spilakassavitleysan í Mjódd).

Mér er hins vegar spurn: Af hverju í ósköpunum varð ÁTVR við óskum borgarstjóra? Hvaða heimild hefur borgin til að skipta sér af hitastigi löglegs varnings sem er seldur á löglegan hátt af löglegu fyrirtæki? Af hverju gafst ÁTVR upp svona auðveldlega? Af hverju eiga viðskiptavinir ÁTVR að líða fyrir það að einn heldri og eldri maður getur ekki sofið vegna pirrings á neysluvenjum annarra?

ÁTVR gafst upp án baráttu. Hvarf kæliskápsins er á ábyrgð ÁTVR.


mbl.is Kælirinn fjarlægður úr vínbúðinni í Austurstræti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ölvunarástandi fjármálamarkaða viðhaldið

Enn á að reyna fresta þeim timburmönnum sem bíða fjármálamarkaðanna um leið og búið er að rýra alla helstu gjaldmiðla heims öllu trausti sökum stanslausrar peningaprentunar ríkisstjórna. Það að "veita fé" inn á markaði er alveg stjarnfræðilega skammsýn "lausn" á þeirri leiðréttingu sem er óumflýjanlega handan við hornið.

Eða hvað heldur fólk annars að verði um gjaldmiðil sem er búið að útþynna svona hressilega í svona langan tíma? Ef peningaprentun seðlabanka er "lausnin" á allskyns vandamálum fjármálamarkaða, af hverju er peningamagn þá ekki tvöfaldað á hverju ári? Verður þá ekki til nóg af ódýru lánsfé handa öllum til að fjármagna neyslu og húsnæðiskaup með, án neikvæðra afleiðinga?


mbl.is Seðlabanki Japans setur meira fé í umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á sölulistann með hana!

Byggðastofnun er stofnun sem ætti að selja eða leggja niður hið snarasta. Ef ríkisvaldið getur fundið kaupanda þá er það frábært. Ef ekki þá á einfaldlega að selja allar eignir stofnunarinnar í brotum og koma sér út úr þessu pólitíska hagsmunapots-hrúgaldi.

Hver ein og einasta króna sem Byggðastofnun fær frá ríkissjóði er króna sem einhver annar missir úr höndum sínum. Þegar Byggðastofnun leggur milljón í einhvern atvinnurekstur þá er einhver annar að missa af tækifæri til að leggja milljón í rekstur - eða bara eitthvað annað!

Ég efast um að varnarlína Byggðastofnunar á Alþingi sé mjög sterk um þessar mundir. Þess vegna er um að gera og koma stofnunni út úr ríkiskrumlunum í einum grænum hvelli!


mbl.is Verulega dregur úr hagnaði Byggðastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danskir vinstrimenn eru óðir

Þeir sem á einn eða annan hátt eru hrifnir af gríðarlegum ríkisafskiptum eru fámennur en hávær hópur í Danmörku. Götubardagar Ungdomshuset-fólksins - hinna dæmigerðu sósíalista - eru frægir um alla Evrópu. Þjóðernissósíalistarnir eru engu skárri - og litlu síður herskárri! Munurinn liggur samt í almenningsálitinu. Þeir sem vilja sósíalískt ríki í skilningi Marx og Lenín njóta samúðar. Þeir sem vilja sósíalískt ríki í anda Hitlers og Mussolini eru fyrirlitnir. 

Ég skil þessa mismunun að vissu leyti. Þjóðernissósíalistarnir eru að mörgu leyti ósveigjanlegri og tvímælalaust fordómafyllri. En hvað eðlið og kjarna málsins varðar ættu þessir tveir hópar sósíalista að hljóta sömu meðhöndlun í augum almennings. Boðskapurinn er annar, en bara á yfirborðinu. Annar hópurinn vill afnema eignarrétt og ríkidæmi allra, og standa uppi með fámenna klíku ríkra og spilltra embættismanna. Hinn hópurinn vill afnema lífsviðurværi ákveðinna hópa og tryggja þannig ríkidæmi réttra hópa (þeirra "hreinu"), undir valdboði eins Foringja.  

Danir eru duglegir að fyrirlíta hið frjálsa fyrirkomulag á skrifstofutímum. Að þeim loknum eru þeir samt meira en lítið til í að njóta ávaxta þess.


mbl.is Danskur nýnasistaleiðtogi í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur lobbýismi

Þegar einhverjir sérhagsmunahópar, t.d. meðlimir í Félagi fasteignasala, vilja að ríkið banni öðrum en þeim sjálfum að gera eitthvað þá eru ein mest notuðu "rökin" þessi: Hin Norðurlöndin gera svona og hinseginn, og þess vegna ættum við að gera það.

Með þess konar málflutningi er hægt að sleppa því að rökstyðja mál sitt. Til dæmis er engin þörf á því að benda á að þótt eitt og eitt dæmi komi upp um misvísandi ráðgjöf frá ekki-félagsmanni í Félagi fasteignasala, þá er það ekki nefnt að hinir löggiltu fasteignasalar gefa stundum líka slæm ráð (eða fá þeir líka reynslu þegar þeir taka námskeiðið "Hvernig á að selja fasteign"?).

Því er líka sleppt að það þurfa ekki allir á ráðgjöf að halda, og þá er það bara allt í lagi! Er valið e.t.v. það að þiggja enga ráðgjöf eða þiggja ráðgjöf frá félagsmanni í Félagi fasteignasala, og þar við situr? Hvað með Jóa frænda eða Gullu vinkonu? Á að banna þeim með lögum að ráðleggja mér í fasteignaviðskiptum?

En gott og vel, ríkið mun að sjálfsögðu bugna undan óvéfengjanlegum rökstuðningi Félags fasteignasala fyrir ríkisafskiptum af fasteignaviðskiptum. Rökin "á hinum Norðurlöndunum.." eru einfaldlega þess eðlis að þeim er aldrei andmælt. Frjálshyggjumenn geta lært af þessu. Næsta ályktun frá Frjálshyggjufélaginu gæti þá orðið eitthvað á þessa leið:

"Frjálshyggjufélagið hvetur ríkisvaldið á Íslandi eindregið til að stórauka aðgengi einkaaðila að skólakerfinu og heilbrigðisgæslu á Íslandi. Í Danmörku og Svíþjóð er fjöldinn allur af einkaskólum og einkaspítölum sem sópa nú að sér viðskiptavinum í ljósi þess að hið miðstýrða og opinbera er sífellt að vaxa í kostnaði og versna í gæðum.

Hvatt er til þess að Íslendingar feti svipaða slóð og frændur okkar á Norðurlöndunum hvað þetta varðar."


mbl.is Reynslu- og menntunarskortur í fasteignasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort slær áfengi á timburmenn eða endurvekur ölvunina?

Sjóðasukk banka seinustu ár er byrjað að hafa slæm áhrif.

Fyrst skellur 2000-bólan á. Þá er gerð krafa á seðlabankana um að lækka vexti og lána bönkum ódýra peninga sem lána þá síðan áfram til einstaklinga og fyrirtækja.

Hinir nýju peningar ýta undir rangar offjárfestingar og gríðarlega lántöku, enda erfitt að standast ódýra peninga og enn erfiðara að standast að nota þá.

Sýnileg örvun efnhagslífsins ýtir undir hátt hlutabréfaverð og ójafnvægi á gjaldeyrismörkuðum. Hinir ódýru peningar taka að falla í verði gagnvart hinu dýrari. Þeir peningar sem sýnilega eru sterkir eru bara búnir að falla hægar í verði en þeir ódýru. Þeir sem hafa hækkað í verði umfram það eru ofmetnir og eru að taka á sig lækkun þessa dagana.

Loks kemur að því að bankar hafa lánað frá sér allt vit, lán byrjuð að gjaldfalla og peningaskortur byrjar að kræla á sér í sýndarhirslum bankanna.

Þá er hið versta hugsanlega ráð gripið - að auka enn peningamagn í umferð!

Ríkisafskipti af heilbrigðisgæslu, skólum og grísakjötsframleiðslu er slæm. Forræðishyggja og afskiptasemi ríkisins er slæm. Hið versta er samt þegar ríkið hróflar við sjálfri undirstöðu hins frjálsa markaðar - peningunum - með linnulausum ríkisafskiptum (annaðhvort beinum eða sem pólitískri pressu á seðlabanka ríkisins).

Af öllu því sem væri góð hugmynd að einkavæða þá er afnám ríkiseinokunar á útgáfu peninga sennilega sú besta.


mbl.is Seðlabanki Evrópu setur meira fé í umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitt fyrir samtökin að ríkið á landið og ræður hvað það nýtist undir

Sérhagsmuna-tuðhópar eins og SUNN þurfa að átta sig á einu: Ríkisvaldið getur ráðstafað eigum sínum að vild (innan gildandi lagaramma), rétt eins og forsvarsmenn samtakanna geta ráðstafað sínum eignum að vild (innan gildandi lagaramma). Þessi samtök þurfa líka að átta sig á því að það eru margir sem "lobbýja" ríkisvaldið: Atvinnulausir, ökumenn, ferðamann, verktakar og svona má lengi telja. Það að SUNN sé einn þessara lobbýista gerir samtökin ekki sjálfkrafa að þeim sem mest er tekið mark á.

Ef SUNN og aðrir vilja að vegaframkvæmdir liggi um önnur landsvæði, eða að virkjanir spretti upp annars staðar en í nákvæmlega uppáhaldsfirði forsvarsmanna samtakanna, þá eiga samtökin að hætta að tuða og bjóðast til að kaupa landið af ríkinu og fá þannig sjálfir umráðarétt yfir því. Það er til nóg af sæmilega efnuðum græningjum út um allt land sem með ánægju myndu henda pening á eftir slíku framtaki, og jafnvel án þess að gera nokkru kröfu aðra en að ekki verði framkvæmt á því. Það er að segja, ef tuð íslenskra kaffihúsaspekinga er annað en bara nákvæmlega það - tuð!

Þetta er í raun aðferð sem mundi virka út um allt land á hvers konar framkvæmdir sem ríkið hyggst fara út í. Komum þessu landi í einkaeigu og þannig úr klóm stjórnmálamanna. Stjórnmálamenn gefa alltaf eftir háværustu þrýstihópunum, og þá sérstaklega ef þeir eru þeir sem vilja stórframkvæmdir í sínu nágranni til að "efla landsbyggðina" og "auka fjölbreytni atvinnulífs á svæðinu". Það að selja ferðamönnum gönguferðir að ósnertu landi, og samlokur að lokinni gönguferð, er ekki það ábatasamur bissness þrátt fyrir allt!


mbl.is Vilja friðlýsa Héðinsfjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðing um löggjöf og ríkisvaldið

Ég henti inn lítilli hugleiðingu um lög og ríksvaldið á Ósýnilegu höndina

Hefðinni samkvæmt vitna ég aðeins í sjálfan mig (þar sem ég dæmi skrif mín sem tímaeyðslu!):

"Lög og reglur hins opinbera eru því skoðaðar sem einhvers konar óþægindi sem vissara sé að sætta sig við, or else! Vangaveltur yfir sanngirni og réttmæti lagasetningar ríkisins eru tímaeyðsla."

Og hananú!


Seljum hálendið til auðmanna!

Nú virðist enn ein deilan um ráðstöfun ríkisins á landi sínu vera að fæðast. Alltaf eru greyið stjórnmálamennirnir látnir sitja í súpunni fyrir það hvernig hið opinbera og orkufyrirtæki þess, Landsvirkjun, ákveða að haga málum sín á milli. 

Ef einhver hefur raunverulegan áhuga á "ósnertu" Íslandi þá á viðkomandi að beina því til  yfirvalda að það selji lendur sínar til moldríkra auðmanna, bæði innlendra og erlendra. Þeir einir hafa efni á því að eiga stór landsvæði sem eru ekki nýtt til eins né neins nema útsýnis og léttra gönguferða.

Eða heldur einhver að það þurfi bara réttu stjórnmálamennina til að "breyta til"? Hvernig gekk íslenskum vinstrimönnum að standa við stóru orðin og koma Íslandi úr NATO á sínum tíma? Hvernig mun þeim ganga að standast hina pólitísku freistingu að "skapa störf" og "afla gjaldeyris" með virkjanaframkvæmdum?


mbl.is Þjórsárdalurinn aldrei samur verði af virkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband