Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Einkaaðilar þurfa ekki aðstoð hins opinbera, heldur fjarveru þess

Það virðist engu máli skipta hvaða flokksskírteini er í vösum stjórnmálamannanna sem eru settir yfir rekstur hinna opinberu fyrirtækja, alltaf telja þeir sig þurfa "aðstoða" einkaaðila, einstaklinga og einkafyrirtæki með veitingu opinbers fjár í vel valin gæluverkefni.

Þótt ekki væri af annarri ástæðu (en af þeim er nóg) þá eiga opinberir aðilar að koma sér út úr rekstri fyrirtækja hið snarasta (og fækka stofnunum hins opinbera sem mest þeir mega). Einkaaðilar sem fá aðgang að niðurgreiddu fjármagni (ódýr lán eða beinir styrkir) úr opinberum sjóðum taka öðruvísi ákvarðanir en einkaaðilar sem treysta á markaðsaðila fyrir lánveitingum og hlutafjárkaupum. Öðruvísi að því leyti að ekki er jafnbrýnt að velja vel úr verkefnum og tryggja að arðbær og hagkvæm viðskiptatækifæri sigri hin óhagkvæmari í matsferlinu.

Byggðastofnun er sennilega langskýrasta dæmið um slæm áhrif opinberra fjármuna. Vítt og breitt um landið eru fyrirtæki að skila miklu tapi á reikning skattgreiðenda (og viðskiptavina opinberra fyrirtækja í gjafmildikasti) en það er talið vera "í lagi" og "nauðsynlegt" vegna byggðasjónarmiða. Núna er slíkt talið vera "í lagi" og "nauðsynlegt" af umhverfissjónarmiðum. Stundum er fjáraustrið umborið í nafni félagsmála, stundum menningarmála, stundum atvinnumála.

Ástæðan sem slík er samt aukaatriði. Stjórnmálamenn geta alltaf fundið nýjar ástæður fyrir valdbrölti sínum. Kjarni málsins er sá að hér er um að ræða ríkisafskipti af frjálsum markaði, þar sem fé er annaðhvort sólundað í taprekstur eða slegið á ávöxtunarkröfu þess eftir að skattgreiðendur og viðskiptavinir ríkiseinokunarfyrirtækja hafa verið mjólkaðir af því án þess að hafa nokkuð um það að segja.

Og ég er á móti slíkri nauðung.


mbl.is REI ætlað að aðstoða einkaaðila við útflutning á tækniþekkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er ljóst að OR verði áfram handbendi stjórnmálamanna?

"Þá sagði Geir ljóst, að ekki stæði til að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur."

Er það ljóst? Hvers vegna? Af hverju ekki? Hvenær var þetta gefið út? Hversu lengi á að leyfa stjórnmálamönnum að hringla með tugmilljarða fyrirtæki sem á hvergi betur heima en í höndum gallharðra viðskiptamanna?

Íslenskir vinstrimenn mala nú gull á hlutabréfum lífeyrissjóða sinna í hinum nýfrjálsu bönkum. Bankarnir stunda gríðarlega útrás út um allan heim og minnka í sífellu þann hluta hagnaðar síns sem er upprunninn í viðskiptum á Íslandi. Allt eru þetta góð tíðindi fyrir íslenska lífeyrissjóðs- og hlutafjáreigendur.

Almenningur getur heldur ekki kvartað. Hvar annars staðar í heiminum geta 300 þúsund hræður valið á milli þriggja alhliða viðskiptabanka (sem sennilega mun fjölga á næstu misserum), ógrynni fjárfestingarbanka og aragrúa sparisjóða? Já, og það þótt einokunarmynt Seðlabanka Íslands sé ennþá val meirihluta landsmanna, og þótt stýrivextir á henni hlaupi á annan tug prósenta.

Sömu sögu og sögð er um bankana í dag mætti hæglega ímynda sér sagða um íslensk orkufyrirtæki. Enginn hefur hugmynd um þá vaxtamöguleika sem hugsanlega bíða þeirra á meðan þeim er haldið í gíslingu hins opinbera á Íslandi (ríkis og sveitarfélaga).

Ég vona að nafni minn Haarde hafi kolrangt fyrir sér, og að í skúffum borgarstjóra liggi leynilegar áætlanir um einkavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur.


mbl.is Orkulindirnar ekki endilega andlag einkavæðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álit hans skiptir máli vegna þess að.. ?

Af hverju eru einhver ummæli seðlabankastjóra Seðlabanka Evrópu (ekki Evrópu!) um Ísland aðalfrétt mbl.is núna? Íslendingar nota fjöldann allan af myntum - evran er bara ein þeirra. Fjölmargir Íslendingar hafa "tekið upp evru", á meðan aðrir hafa haldið í krónuna eða tekið upp bandarískan dollar eða breskt pund. Á þetta hefur margoft verið bent, og áfram skal bent á þetta (eða þar til stjórnmálamenn ákveða að taka fyrir hendurnar á fólki og skikka alla til að nota sömu mynt).

Valdamiklir embættismenn Evrópusambandsins hafa vissulega athyglisverðar skoðanir á mörgum málum, en þegar allt kemur til alls þá bera þær meira og minna að sama brunni; útvíkkun sambandsins og aukning á völdum Brussel. Íslendingum er hollast að standa utan við svartholið sem embættismannabákn Brussel er, ella verða gleyptir með húð og hári.


mbl.is Seðlabankastjóri Evrópu: Best að Ísland gengi í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olían heldur áfram að sópa milljónum manna úr fátækt

Olían er eldsneytið sem knýr hagkerfi heimsins áfram og það mun ekkert breytast á næstu árum. Kínverjar nota nú olíu til að knýja sig til velmegunar og það er hið besta mál. Mengun af völdum olíu er minniháttar og skaðlaus miðað við þá tröllauknu mengun sem kolabruni leiðir af sér og því mikilvægt fyrir líf og heilsu Kínverja að hafa aðgang að sem allramestri olíu.

Aukning á losun CO2 er ekki raunverulegt vandamál og það er gott að sjá að Kínverjar gera sér grein fyrir því og halda áfram að auka orkunotkun sína á meðan sjálfumglaðir íbúar Vesturlanda sóa auði sínum í vindmyllur og ruslabrennslu-orkuver, og neita að byggja fleiri kjarnorkuver af ótta við ímyndaðar ógnir.


mbl.is Olíuinnflutningur Kínverja eykst um 18%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband