Einkaaðilar þurfa ekki aðstoð hins opinbera, heldur fjarveru þess

Það virðist engu máli skipta hvaða flokksskírteini er í vösum stjórnmálamannanna sem eru settir yfir rekstur hinna opinberu fyrirtækja, alltaf telja þeir sig þurfa "aðstoða" einkaaðila, einstaklinga og einkafyrirtæki með veitingu opinbers fjár í vel valin gæluverkefni.

Þótt ekki væri af annarri ástæðu (en af þeim er nóg) þá eiga opinberir aðilar að koma sér út úr rekstri fyrirtækja hið snarasta (og fækka stofnunum hins opinbera sem mest þeir mega). Einkaaðilar sem fá aðgang að niðurgreiddu fjármagni (ódýr lán eða beinir styrkir) úr opinberum sjóðum taka öðruvísi ákvarðanir en einkaaðilar sem treysta á markaðsaðila fyrir lánveitingum og hlutafjárkaupum. Öðruvísi að því leyti að ekki er jafnbrýnt að velja vel úr verkefnum og tryggja að arðbær og hagkvæm viðskiptatækifæri sigri hin óhagkvæmari í matsferlinu.

Byggðastofnun er sennilega langskýrasta dæmið um slæm áhrif opinberra fjármuna. Vítt og breitt um landið eru fyrirtæki að skila miklu tapi á reikning skattgreiðenda (og viðskiptavina opinberra fyrirtækja í gjafmildikasti) en það er talið vera "í lagi" og "nauðsynlegt" vegna byggðasjónarmiða. Núna er slíkt talið vera "í lagi" og "nauðsynlegt" af umhverfissjónarmiðum. Stundum er fjáraustrið umborið í nafni félagsmála, stundum menningarmála, stundum atvinnumála.

Ástæðan sem slík er samt aukaatriði. Stjórnmálamenn geta alltaf fundið nýjar ástæður fyrir valdbrölti sínum. Kjarni málsins er sá að hér er um að ræða ríkisafskipti af frjálsum markaði, þar sem fé er annaðhvort sólundað í taprekstur eða slegið á ávöxtunarkröfu þess eftir að skattgreiðendur og viðskiptavinir ríkiseinokunarfyrirtækja hafa verið mjólkaðir af því án þess að hafa nokkuð um það að segja.

Og ég er á móti slíkri nauðung.


mbl.is REI ætlað að aðstoða einkaaðila við útflutning á tækniþekkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Einkaaðilar hafa ekki byggt upp þekkingu á jarðvarma á Íslandi svo nokkru nemi.  Sú þekking hefur byggst upp hjá opinberum fyrirtækjum og hefur sú uppbygging verið kostuð af hinu opinbera.  Því er eðlilegt að það njóti hagnaðarins líka nú þegar líður að uppskeru.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 10.10.2007 kl. 15:53

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ríkisvaldið hefur ekki á nokkurn hátt komið nálægt vaxandi fjármálastarfssemi á Íslandi (sem raunar hófst ekki fyrr en ríkisvaldið fjarlægði sig frá henni).

Samkvæmt sömu rökum og þú beitir þá á ríkisvaldið heldur ekki að fá hlutdeild í hagnaði fjármálafyrirtækja á Íslandi. Fjármagnstekjuskatt og skatt af hagnaði fjármálafyrirtækja ber að leggja niður.

Mér líkar ágætlega við þessa frumlegu röksemdartækni!

Það gleymist bara að lagalegt svigrúm einkaaðila til að bora holur í jörð og dæla heitu vatni til sölu inn á einokunarpípukerfi opinberra veitna (eða fá leyfi til að grafa nýjar leiðslur í jörðu og leggja í hús) er eitthvað takmarkað, en við látum það liggja á milli hluta í bili.

Geir Ágústsson, 10.10.2007 kl. 16:01

3 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Líklega eru margir sömu skoðunar og Sigurður, en hann segir:

Einkaaðilar hafa ekki byggt upp þekkingu á jarðvarma á Íslandi svo nokkru nemi. Sú þekking hefur byggst upp hjá opinberum fyrirtækjum og hefur sú uppbygging verið kostuð af hinu opinbera. Því er eðlilegt að það njóti hagnaðarins líka nú þegar líður að uppskeru.

Málið er miklu flóknara en þessi orð Sigurðar benda til. Starfsemi orkufyrirtækja, eins og annara fyrirtækja, byggir á menntun starfsmanna. Þekking þeirra býr með þeim sjálfum, en ekki í skýrslum, uppi í hillu. Mikilvægt er að menn átti sig á, að í skýrslunum eru upplýsingar, en ekki þekking !

Menntun allra landsmanna er að stórum hluta, á kostnað þjóðfélagsins. Verkfræðingar hjá orkufyrirtækjunum er engin undantekning og sama gildir um aðra starfsmenn. Þess vegna, er engin forsenda fyrir sérstakri meðhöndlun orkufyrirtækja. Ef menn halda því samt fram, ættu menn að sýna heiðarleika og krefjast þjóðnýtingar á öllum vænlegum fyrirtækjum í landinu.

Krafa flestra landsmanna er sú, að opinber rekstur nái einungis til þjónustufyrirtækja. Margir telja einnig bezt að þjónustufyrirtæki séu í einkarekstri, ef við verður komið. Samfélagið nýtur góðs af allri arðsamri starfsemi í landinu. Einnig ætti að vera ljóst, að stjórnmálamenn eru almennt ekki hæfir til að stjórna áhætturekstri. Þeir eru ekki kosnir til að stunda fjárhættuspil fyrir reikning borgaranna.

Loftur Altice Þorsteinsson, 10.10.2007 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband