Kreppuhagfræði 101

Greinilegt er á umræðunni að hvorki íslenskir blaðamenn né stjórnmálamenn eru sérstaklega vel að sér í grunnatriðum hagfræðinnar. Þessu til staðfestingar má benda á eftirfarandi atriði sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn meðhöndla meira og minna rangt, og um leið er í örstuttu máli bent á hvernig á að meðhöndla þau rétt:

  • Gjaldeyrishöft: Koma í veg fyrir eðlilega verðmyndun á gjaldmiðlum í íslenskum krónum. Aðlögun að auknu peningamagni er slegið á frest með seinni tíma sársaukafullri og óumflýjanlegri aðlögun.
  • Afnám verðtryggingar: Í umhverfi verðbólgu mun lögbann á verðtryggingu keyra allt lánsfé í felur og vexti upp sem nemur verðbólgunni, í hið minnsta.
  • Aukin ríkisútgjöld: Ríkisútgjöld eru einfaldlega útgjöld skattgreiðenda og flytja fé frá þeim til útvaldra aðila sem græða á kostnað allra annarra. Einnig má fjármagna ríkisútgjöld með prentun peninga og þynna út verðmæti þeirra peninga sem áður voru til. Það hefur sömu áhrif og t.d. tap fólks á fjárfestingu í peningamarkaðssjóðum, en er auðveldara að komast upp með.
  • Auknar framkvæmdir á vegum ríkisins: Ríkisvaldið aflar sér ráðstöfunartekna með því að skerða tekjur skattgreiðenda. „Mannaflsfrekar framkvæmdir“ á vegum ríkisvaldsins eru greiddar af skattgreiðendum sem hafa þá minna á milli handanna. Tilkomumiklar brýr og byggingar eru öllum sýnilegar. Þær fjárfestingar sem glötuðust við skattheimtuna sjást ekki. Þessu gleyma flestir. 
  • Hvatning til almennings um að halda áfram að eyða: Almenningur reynir nú að láta enda ná saman og grynnka á skuldum. Aukin skuldsetning og neysla grefur undan fjárhagslegri getu almennings seinna.
  • Skattahækkanir (t.d. á tekjur, áfengi og tóbak): Skerðir ráðstöfunartekjur sem bitnar fyrst og fremst á þeim sem þurfa að vanda valið mest þegar kemur að útgjöldum. Skattahækkanir eru sannkallaðir lágtekjuskattar.
  • Áhyggjur af verðfalli á hlutabréfum og húsnæði: Verð á hlutabréfum og húsnæði hefur blásist út á tímum aukins peningamagns og ódýrra lána. Verð þarf að lækka til að jafnvægi náist á milli framboðs og eftirspurnar. Upplausn slæmra fjárfestinga er nauðsynleg þótt hún sé mörgum sársaukafull.
  • Hækkun atvinnuleysisbóta: Gerir atvinnuleysi eftirsóknarvert miðað við aðra valkosti (t.d. nám) og þeim, sem vantar vinnuafl, fá það ekki nema verðmætasköpun vinnunnar sé meiri en sem nemur bótunum. Atvinnuleysi verðlaunað og þar með aukið og framlengt, sérstaklega fyrir ófaglærða og ungt fólk.
  • Ríkisábyrgð á skuldum einkafyrirtækja (t.d. bankanna): Hvetur til áhættusækinnar hegðunar. Gróðinn er einkavæddur en tapið þjóðnýtt.
  • Áframhaldandi ríkisstyrking atvinnuvega (t.d. landbúnaðar): Viðheldur óhagkvæmri framleiðslu og neytendur gjalda með háu vöruverði og háum sköttum, sem rýrir lífskjör þeirra.
  • Lögvernd kjarasamninga: Í slæmu árferði dragast tekjur flestra fyrirtækja saman. Þau neyðast þá til að segja upp fólki ef ekki má endursemja um laun, og lækka þau. Margir vilja vinna frekar en að sjá fram á atvinnuleysi og munu þá sætta sig við skerðingu launa. Með því banna slíkt með lögum eða lögvörðum kjarasamningum fær atvinnurekandinn ekki möguleika á að halda í starfsfólk sitt.
  • Aukin reglugerðabyrði: Því hefur verið haldið fram að ein regluþyngsta atvinnugrein Íslands, fjármálageirinn, hafi skort eftirlit og reglur og að það sé ástæða bankahrunsins. Hið rétta er að vegna hinna íþyngjandi reglugerða var samkeppni heft og þá aðila sem voru á markaði vantaði því markaðsaðhald, sem, auk ríkis- og seðlabankaábyrgðar á nær öllum skuldbindingum, leiddi til óábyrgrar og áhættusækinnar hegðunar.
  • Að velja íslenskt: Að velja íslenskt bara til að velja íslenskt er slæmt fyrir neytendur ef þeir þurfa að greiða hærra verð en fyrir sambærilegan innfluttan varning. Slíkt rýrir lífskjör þeirra og grefur undan getu þeirra til að greiða niður lán, spara og fjárfesta.
  • Áhyggjur af ódýru vinnuafli útlendinga / innflytjenda: Á tímum mikillar atvinnu og í umhverfi opinna landamæra flykkjast útlendingar til Íslands til að vinna.  Hvorki íslenskum launþegum né skattgreiðendum stafar hætta af hinu nýja vinnuafli sem vinnur störf sem ella hefði þurft að leggja niður eða flytja úr landi (ef slíkt er mögulegt), þ.e. á meðan velferðarkerfið er ekki of gjafmilt á atvinnuleysi.

Stjórnlaus vöxtur hins opinbera seinustu ár hefur gert það háð góðærisskatttekjum sem gufa núna upp. Með aðhaldsleysinu steypir ríkið sér nú út í risavaxinn hallarekstur og skuldsetningu næstu kynslóða.
 
Hjólum atvinnulífsins verður ekki haldið gangandi með gjaldeyrishöftum, óhagkvæmri og niðurgreiddri framleiðslu, fátækum neytendum, sárþjáðum skattgreiðendum og lömuðum fjárfestum. Eina ráðið út úr vítahring dýrs ríkisreksturs og efnahagslegrar niðursveiflu er að skera niður útgjöld hins opinbera, borga skuldir og sýna aðhald í rekstri. Markaðslögmálunum á einnig að gefa lausan tauminn til að taka til í íslensku hagkerfi. Því fyrr sem það gerist, því fyrr mun kreppan verða að nýju og öllu varanlegra góðæri.

Grein birtist áður í Morgunblaðinu, laugardaginn 24. janúar sl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Merkilegt nokk, en ég er að mestu leyti sammála þér (en er þó ekki byrjaður á PIG bókinni góðu). Þó eru nokkur atriði svolítið vafasöm, eða þarfnast ferkari skýringa...

Afnám verðtryggingar: Er þetta ekki bara vegna þess að gjaldmiðillinn okkar er drasl? Önnur lönd hafa enga verðtrygginu og lægri vexti. Eru þau öll að svindla á kerfinu?
En er eitthvað vit í að aðilar sem nánast geta stjórnað verðbólgunni beri enga verðbólguáhættu? Mér finnst kerfi þar sem öll verðbólguáhættan er hjá öðrum aðilanum (0% eða 100% verðtryggt) alltaf vafasamt. Mætti ekki skipta áhættunni, eða taka t.d. líka mið af launavísitölu?

Aukin ríkisútgjöld: Hvurs lags útgjöld ertu að tala um hér? Niðurskurður getur verið til bóta ef verið er að skera burt fitu (s.s. alþingissukk), en skaða ef verið er að skera niður lífsnauðsynlega eða "atvinnuskapandi" þjónustu (s.s. heilbrigðissþjónustu/forvarnir sem munu valda meiri kostnaði seinna).

Auknar framkvæmdir á vegum ríkisins: „Mannaflsfrekar framkvæmdir“ fækka fólki á atvinnuleysisskrá, rétt á meðan þær eru unnar. Það verður a.m.k. að taka það með í reikninginn, hver sem heildaráhrifin eru.

Hvatning til almennings um að halda áfram að eyða: Er ekki gert ráð fyrir að fólk hafi núna fattað muninn á skuldsettri eyðslu og eyðslu á peningum? Hvatningin er almennt að nota peningana sem fólk á í stað þess að láta þá alla liggja sem "dautt fé" inni á bankabók, ekki að eyða um efni fram.

Skattahækkanir (t.d. á tekjur, áfengi og tóbak): Viðbótargjöld á þessar vörur eru gjöld - ekki skattar. Kallaðu hlutina nú réttum nöfnum. En fyrst þú kallar þetta lágtekjuskatta, hvað með hátekjuskatta (t.d. af háum tekjum)?

Hækkun atvinnuleysisbóta: Sammála þessu, en eitthvað þarf að gera fyrir þessar þúsundir atvinnulausra, svo að þau endi ekki allir í gjaldþroti og vitleysu. Hins vegar hafa margir komið með hugmyndir um "atvinnubótavinnu", t.d. í sprotafyrirtækjum, þar sem ríkið myndi borga hluta af launum nýrra starfsmanna sem ráðnir eru af atvinnuleysisskrá. Hefurðu skoðun á því?

Lögvernd kjarasamninga: Hef ekki skoðun á þessu, en það er markmið launþega að hafa sem hæst laun, og atvinnurekenda að hafa sem lægst laun. Hvar á að draga mörkin?

Aukin reglugerðabyrði: Reglugerðafjöldinn skiptir engu máli ef þær reglur eru marklausar, eða jafnvel hundsaðar. Ertu að reyna að halda því fram að bankana hafi skort frelsi til aðgerða?

Áhyggjur af ódýru vinnuafli útlendinga / innflytjenda: Hefur nokkur maður áhyggjur af þessu lengur? Það er írónískt að nú hefur þetta nánast snúist við -  Það kæmi mér ekki á óvart þó fleiri íslendingar séu í vinnu erlendis en útlendingar á íslandi.

Eina ráðið út úr vítahring dýrs ríkisreksturs og efnahagslegrar niðursveiflu er að skera niður útgjöld hins opinbera, borga skuldir og sýna aðhald í rekstri. Sammála þessu, en aðhald og hagræðing eru mikilvægari en að kreista krónur og aura af fjársveltum stofnunum, sérstaklega ef niðurskurðurinn er á fyrirbyggjandi aðgerðum sem valda okkur meiri kostnaði síðar.

Einar Jón, 27.1.2009 kl. 08:52

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Kannski Hagfræði í hnotskurn sé meira við hæfi en PIG-bókin þegar kemur að því að rökstyðja efni greinar minnar. Sérstaklega þá þetta með "dauða féð" svokallaða og auðvitað atvinnuleysisbæturnar.

Geir Ágústsson, 27.1.2009 kl. 11:36

3 Smámynd: Einar Jón

Þú þarft ekkert að rökstyðja þetta frekar en þú vilt.

En ef þú vilt halda því fram að fjölmiðlar og stjórnmálamenn meðhöndla þetta meira og minna rangt og þú rétt, þá hefði ég gaman að frekari skýringum á sumu af þessu. Það breytir þó sjálfsagt engu...

Einar Jón, 27.1.2009 kl. 12:51

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Hefði gaman af umræðunni niður í minnstu smáatriði. Tíminn leyfir það samt ekki í bili.

Blaðagreinar leyfa ekki mikinn texta en það er alltaf spurning um að lengja mál mitt fyrir næsta Þjóðmála-blað. Hummms.

Geir Ágústsson, 27.1.2009 kl. 16:06

5 identicon

Ekki alveg laust við að greinin lykti dálítið af HHG-seinheppni... En annars bara eitt innskot:

Ríkisábyrgð á skuldum einkafyrirtækja (t.d. bankanna): Hvetur til áhættusækinnar hegðunar. Gróðinn er einkavæddur en tapið þjóðnýtt.

Væri ekki rétt að muna þetta ef einkafyrirtæki fara að olnboga sig víðar inn í grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins? Þau myndu sannarlega njóta ríkisábyrgðar (ríkið greiðir þjónustuna) og hagnaðurinn einkaaðilans kæmi þannig úr vasa skattgreiðenda.

Kristján Haukur Flosason (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 00:39

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Kristján,

Góð hagfræði byggist hvorki á heppni né tímasetningu. 

Góð hagfræði sagði t.d. árið 2005: "So in conclusion, while we can be fairly optimistic about the US economy in the short run because of the likely boom in business investments and in the long run because of its still comparatively market-oriented economic structure, the imbalances created by the Fed's cheap money policies make a sharp recession likely in the medium-term outlook."

Ef nú bara fleiri væru betur að sér!

Geir Ágústsson, 28.1.2009 kl. 08:51

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Kristján,

Í Stokkhólmi (já, í Svíþjóð) og víðar þar sem hið ríkisrekna heilbrigðiskerfi var að sliga allt og opnað var á útboð til einkaaðila þá hefur raunin verið sú að þjónusta hefur batnað, ánægja starfsfólks aukist og fyrirtæki á markaði heilbrigðisþjónustu neyðst til að sýna aðhald og um leið bæta þjónustu og lækka kostnað.

Þú ættir að fjárfesta í eins og einu eintaki af vorhefti Þjóðmála 2008 og lesa þar grein mína um heilbrigðiskerfi í höndum einkaaðila um víða veröld, t.d. Sviss.

Geir Ágústsson, 28.1.2009 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband