Miðvikudagur, 24. desember 2008
Kreppa kapítalismans?
Grein úr vetrarhefti Þjóðmála, 2008 (eftir mig)
Kreppa kapítalismans?
Á Íslandi og víðast hvar í hinum vestræna heimi ríkir nú djúp og mikil fjármálakreppa. Lán eru varla veitt, fyrirgreiðslur eru á hverfandi hveli og verð hlutabréfa hefur gufað upp. Þessari fjármálakreppu vilja margir blanda saman við hinn frjálsa markað. Sagt er að kreppan sé ekki bara kreppa fjármálafyrirtækja og almennings heldur líka kreppa frelsis og frjálshyggju - kreppa kapítalismans. Ekkert er þó fjær sanni. Til að útskýra það er ekki nóg að stinga hausnum ofan í sand af tölfræði og aðsendum greinum í Morgunblaðinu. Skilningur fæst eingöngu með réttri undirstöðu, sem nú verður veitt.
Hvað eru peningar?
Peninga má skilgreina í mjög stuttu máli sem millilið í viðskiptum. Þegar bakarinn selur brauð þá tekur hann við peningum sem hann getur svo notað til að kaupa sér skó, nýja hrærivél eða aðgang að fyrirlestri í hagfræði. Skósalinn og hagfræðingurinn taka við greiðslu í peningum og nota þá til að kaupa sér brauð eða egg eða hvað sem þeir vilja.
Peningum þarf samt ekki alltaf að eyða í kaup á þjónustu og varningi. Þá má líka geyma eða lána til annarra. Ef bakarinn bakar 10 brauðhleifa en eyðir eingöngu andvirði tveggja þeirra þá hefur hann sparað það sem nemur andvirði átta brauðhleifa. Hann getur ákveðið að sitja á þeim sparnaði eða lánað hann til einhvers gegn ákveðnu gjaldi (vöxtum). Í stað þess að eyða í neyslu í dag hefur bakarinn með þessum hætti aukið framboð á lánsfé (kapítali) sem aðrir nota til fjárfestinga í þeirri von að þær borgi sig og skili arði sem má nota til að endurgreiða lánið. Vextirnir á þessu lánsfé fara eftir framboði og eftirspurn eftir lánsfé. Ef margir vilja lána þá geta lánþegar samið um lága vexti við lánardrottna sína. Ef lítið er um lánsfé þá krefjast lánardrottnar hárra vaxta.
Takið eftir að hér að ofan er gert ráð fyrir því að magn peninga sé fast þótt framboð á lánsfé breytist. Framboð á lánsfé og vextir á því stjórnast af því hversu margir eru viljugir til að fresta eyðslu á peningum sínum og lána þá þess í stað út, og vextirnir á því lánsfé stjórnast af framboði lánsfjár og eftirspurn eftir því. Vextir í slíku hagkerfi eru, ef svo má segja, náttúrulegir - ákvarðaðir af óheftum samskiptum og viðskiptum allra einstaklinga á tilteknum markaði, og breytast í takt við breytingar á vilja einstaklinga til að eyða og leggja þess í stað fyrir.
Takið einnig eftir því að hér skiptir ekki máli hvað peningarnir heita (hvaltennur, gull eða dúkatar) eða hver gefur þá út (hver banki fyrir sig, ríkisvaldið eða hópur geimvera sem býr á tunglinu). Það eina sem skiptir máli er að magn þeirra sé nokkurn veginn fast eða hægbreytilegt þannig að markaðsaðilar geti treyst því að fyrir ákveðna upphæð í dag fengist álíka mikið af vörum og þjónustu á morgun. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir að af traust á tiltekinni tegund peninga minnkar (t.d. vegna skyndilegrar breytingar í peningamagni) þá hafi einstaklingar frelsi til að draga úr viðskiptum með þá og leita að traustari peningum sem halda enn betur verðgildi sínu, nú eða hækka og lækka verð þannig að jafnvægi náist. Þannig er vondum peningum útrýmt en góðir peningar verðlaunaðir með mikilli notkun. Að lokum má benda á að ef peningamagn eykst skyndilega þá þýðir það ekki að fleiri verðmæti hafi verið sköpuð eða að úrval þjónustu hafi aukist. Ef eitthvert almættið eða yfirvaldið ákvæði að á morgun ættu allir tvöfalt fleiri peninga en í dag þá mun tvöföldun peningamagnsins einfaldlega valda því að tvöfalt fleiri peningar elta einfalt framboð varnings og þjónustu, sem mun í kjölfarið nokkurn veginn tvöfaldast í verði þar til jafnvægi kemst á á ný.
Fiktað við peningamagnið
Ímyndum okkur nú að inn á markaðinn komi aðili (t.d. seðlabanki ríkisins) sem þvingi alla til að nota eina tegund peninga - sína tegund - sem enginn má keppa við í útgáfu eða með öðrum eða annars konar peningum (t.d. gullmyntum). Að auki væri skylt að greiða skatta og skuldir við hið opinbera með einokunarpeningunum.
Þessi aðili fylgist með vöxtum á frjálsum markaði stíga og falla, framboð á lánsfé sveiflast í sífellu og sér suma lenda í skorti á lánsfé og aðra sitja uppi með mikið lánsfé sem enginn vill lána (þótt slíkt sé ólíklegt ástand á meðan frelsi til viðskipta og vaxtabreytinga er óskert).
Í skjóli einokunarstöðu sinnar ákveður þessi aðili nú að auka peningamagnið (t.d. með skuldabréfakaupum af bönkunum, fjármögnuðum með nýútgefnum peningum) og með hinu aukna framboði peninga tekst honum að lækka vexti. Fleiri geta nú tekið lán og gera það, fjárfestingar aukast, eftirspurn eftir vinnuafli eykst, laun hækka og mikil uppsveifla virðist eiga sér stað í hagkerfinu. Bráðum er byrjað að tala um þenslu og hvert er rétta meðalið við henni? Einokunaraðili peningaútgáfu grípur til þess ráðs að minnka peningamagn og hækka vexti. Lán verða dýrari og þeir sem áður eyddu og skuldsettu sig draga nú saman seglin og byrja að leggja fyrir. Háir vextir draga fé inn í bankakerfið og hið meinta góðæri breytist nú í stöðnun og jafnvel niðursveiflu. Hefst þá hringrásin upp á nýtt - vextir eru lækkaðir og hið nýja góðæri tekur við. Einfalt, samkvæmt bókinni, allt undir stjórn og engin vandamál, eða hvað?
Upp- og niðursveiflur
Hið eilífa fikt við peningamagnið er ekki til þess fallið að auðvelda líf markaðsaðila þegar til lengri tíma er litið. Síbreytilegt peningamagn, handstýrt af ríkisvaldi eða seðlabanka, sendir röng skilaboð út á markaðinn. Ef magn peninga er skyndilega aukið og vextir á því þvingaðir niður fyrir hið náttúrulega eða eðlilega vaxtastig markaðarins þá blekkir það fjárfesta. Þeir líta í auknum mæli til óarðbærra fjárfestinga sem, í skjóli hins lága vaxtastigs, virðast nú vera arðbærar. Langtímafjárfestingar í hrávöruvinnslu og framleiðslutækjum sem ekki nýtast til neyslu (verksmiðja, bygginga og þess háttar) aukast. Langtímafjárfestingar í stórum verkefnum taka flugið.
Neytendur á sama tíma sjá laun sín hækka í kjölfar aukinnar samkeppni um vinnuafl sitt sem veldur auknum kaupum á neysluvörum. Fjárfestar hafa hins vegar einbeitt sér að fjárfestingum í framleiðslutækjum sem lenda sjaldan á borði neytenda og framboð neysluvarnings minnkar því hægar en eftirspurnin vex. Neytendur hafa ekki breytt um smekk hvað varðar vilja sinn til að spara og kaupa dýrar framleiðsluvörur sem fjárfestar hafa eytt miklu í að fjárfesta í. Á endanum kemur skellurinn - fjárfestar í langtímafjárfestingum losna ekki við varning sinn og lenda í fjárhagsvandræðum. Neytendur höfðu þrátt fyrir allt ekki meiri áhuga á að fjárfesta en áður en peningamagnið var skyndilega aukið.
Kreppa siglir nú í kjölfarið. Óarðbærar fjárfestingar eru leystar upp, fyrirtæki fara á hausinn og laun lækka. Þetta veldur stjórnmálamönnum óþægindum og þeir krefjast þess að peningamagnið sé enn aukið til að bjarga fyrirtækjum frá gjaldþroti og neytendum frá launalækkun. Fjárfestingar stórra fjárfesta í dýrum langtímafjárfestingum aukast á ný. Neytendur hefja eyðslu á ný. Jafnvægi eyðslu, sparnaðar og fjárfestinga er raskað á ný. Snjóboltanum er haldið við þegar hann ætti helst af öllu að bráðna.
Ísland og fjármálakreppan
Ofangreind lýsing á upp- og niðursveiflum á frjálsum markaði var fyrst sett fram á 2. áratug 20. aldar af hagfræðingnum Ludwig von Mises [sjá t.d. hér], og rættist skömmu síðar með kreppunni miklu sem hófst árið 1929 og varaði í um áratug. Lýsing Mises hefur staðist tímans tönn með endurteknum upp- og niðursveiflum og fjármálakreppum alla tíð síðan. Ísland er engin undantekning þótt smáatriði málsins séu tæknilega ögn frábrugðin. Á Íslandi hefur vöxtum verið haldið háum af ríkisvaldinu í mörg ár. Erlendir aðilar hófu því að flytja fé til Íslands til að fá góða ávöxtun. Þetta fé leitar inn í bankana sem leggja það inn á reikning sinn hjá Seðlabanka Íslands. Með 10% bindiskyldu þýðir þetta að ef íslenskur banki leggur inn íslenskar krónur að andvirði 100 evrur á reikning sinn hjá Seðlabanka Íslands þá getur hann lánað íslenskar krónur að andvirði 90 evrur áfram til viðskiptavina sinna, t.d. til kaupa á hlutabréfum eða húsnæði. Gríðarleg aukning peningamagns hefur því komið fram sem sprenging á meðal annars hlutabréfa- og húsnæðisverði, og skyndilega eiga allir greiðan aðgang að ódýru lánsfé sem margir eyða í langtímafjárfestingar, enda virðast þær hækka í verði á undraverðum hraða. Fyrirtæki hafa fengið ódýr lán til uppkaupa og útþenslu, og innflutningur tekið flugið.
Hin röngu skilaboð sem hið aukna peningamagn sendi út á markaðinn hafa ekki valdið því að auðsköpun hefur vaxið eða sparnaður og markaðsaðhald fengið næga athygli. Skyndilega er það neysla almennings en ekki sparnaður fjárfesta sem knýr hagkerfið áfram. Ríkisvaldið reynir að skrúfa fyrir eyðslu með háum vöxtum á einum stað (í gegnum Seðlabanka Íslands) en hvetja til húsnæðiskaupa með óeðlilega lágum vöxtum á öðrum stað (með notkun Íbúðalánasjóðs og margföldunar á ráðstöfunarfé bankanna). Það kom mörgum á óvart að bullandi góðæri hefði orðið að einhverjum versta skelli Íslandssögunnar. Ríkisvaldið, stofnanir þess og bankarnir skilja ekkert í stöðunni og binda nú björgunarhringa hvert utan um annað á kostnað skattgreiðenda. Slæmum fjárfestingum á að halda á lífi af öllum öðrum en þeim sem græddu á þeim á meðan veislan stóð sem hæst. Snjóboltanum á að halda á lífi þótt sólin hafi brotist í gegnum reykmökkinn sem var þyrlað upp í mörg ár.
Krónan og kapítalisminn
Fjármálakreppa hins vestræna heims er ekki markaðsgalli. Hún er afleiðing formgalla á peningaútgáfu í flestum ríkjum heims - svokallaður ríkisgalli! Ríkisvaldi og seðlabönkum er treyst fyrir útgáfu peninga og handstýringu hinna svokölluðu stýrivaxta. Röng merki eru send út á markaðinn og fólk og fyrirtæki bregðast við þeim, en þegar allt kemur til alls er ekki hægt að bæla markaðslögmálin til lengri tíma. Hin röngu merki leiða til rangra fjárfestinga og í stað þess að þjóna neytendum byrjar kerfið að þjóna sjálfu sér. Gróðinn er einkavæddur en tapið þjóðnýtt.
Nú eru liðin hátt í 100 ár síðan Ludwig von Mises skýrði ástæður hinna endurteknu og öfgakenndu upp- og niðursveiflna sem fylgja eilífu fikti ríkisins með peninga okkar, magn þeirra í umferð, og vaxtastigs þeirra í bankakerfinu. Kenningar hans hafa síðar verið útskýrðar og þeim beitt á hverja niður- og uppsveifluna á fætur annarri. Ef Íslendingar ætla að læra af reynslu seinustu missera og koma í veg fyrir að eitthvað álíka endurtaki sig í framtíðinni þá væri þeim hollast að sópa röngum kenningum hagfræðinnar til hliðar, láta tölfræðina eiga sig í smástund og byrja að hugleiða grundvallaratriðin þau sem útskýra markaðslögmálin út frá sjónarhóli einstaklinga í stað þess að líta á einstaklinga sem stök í mengi einhverrar tölfræðibreytunnar.
Grein birtist áður í vetrarhefti Þjóðmála, 2008, sem er fáanlegt hér. Tenglum bætt við hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:32 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er góð útekt hjá þér Geir, en þú hefðir mátt ganga skrefinu lengra og kveða upp dauðadóm yfir kerfi seðlabankanna. Þetta er kerfi sem gengur ekki upp fyrir líklega 90% þjóða heimsins. Ég held að borin von sé, að þessir sjálfskipuðu snillingar missi trúna á hæfileikum sínu til að fínstilla hagkerfið. Þjóðin verður að taka fram fyrir hendur þeirra. Lýsing þín á blekkingarleiknum er nær skáldleg:
Fyrir smáríki eins og Ísland, er bara einn valkostur, að leggja Seðlabankann niður og koma á fót Myntráði og öðlast þannig efnahagslegan stöðugleika. Í kjölfar stöðugs gjaldmiðils fylgir minni verðbólga, lægri vekstir, stöðvun eiginfjár-brunans og afnám vísitölu-bindingar lána.
Loftur Altice Þorsteinsson, 24.12.2008 kl. 11:27
Já hefði betur átt að orða það skýrar að einokunarútgáfa ríkisins á peningum sem eru ekki bundnir við eitt né neitt ófalsanlegt er vonlaust kerfi, og sögulega ný tilraun sem gjarnan má enda á ruslahaugum sögunnar.
Það eina sem skiptir máli er að magn tiltekinna peninga (króna, hvaltanna, nagla, vaðmáls) sé stöðugt eða hægbreytilegt. Vaxtastig ákvarðast af sparnaðarvilja þeirra sem gætu eytt fé sínu og lánavilja þeirra sem vantar fé - framboð og eftirspurn af lánsfé. Verðbólga, eða "inflation" (of the quantity of money), er ekki hækkun verðlags heldur aukning peningamagns sem leiðir til hækkunar verðlags - hver eining peninga minnkar í kaupmætti ef magn peningaeininganna eykst.
Ef myntráð finnur góða "jarðtengingu" fyrir séríslenskan gjaldmiðil (sem í mínum huga er ekki að finna í USD, fjöldaframleiddasta pening heims) þá gott og vel. Hinn frjálsi markaður hefur valið gull (og silfur) vegna auðþekkjanleika þess, hversu gott er að deila því upp og hversu erfitt er að falsa það. Ef nútímatækni hefur eitthvað betra í boði þá er það gott og blessað.
Bestu kveðjur.
Geir Ágústsson, 24.12.2008 kl. 14:02
Hér er hægt að lesa smá um hóp í Bandaríkjunum sem er að reyna taka fyrir hendurnar á bandaríska seðlabankanum með notkun gull- og silfurbakkaðra peninga.
Geir Ágústsson, 24.12.2008 kl. 14:09
Þetta með Liberty Dollarann er athyglisvert.
Varðandi USD þá er staðreyndin sú að hann er lang öflugasti gjaldmiðillinn, hvað sem síðar kann að verða. Mjög auðvelt er að skipta út einni grunn-mynt fyrir aðra. hver veit nema gullið komi síðar, þegar við erum búnir að safna digrum sjóði! (draumórar ?).
Loftur Altice Þorsteinsson, 24.12.2008 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.