Sunnudagur, 24. febrúar 2008
Æj, æj, var súrt að bragða á eigin meðali?
Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir eru sérfræðingar um "veika meirihluta". Þeirra eigin var jú úr sögunni örfáum mánuðum eftir að hann var myndaður, og þótt nýjum veikum meirihluta hafi a.m.k. tekist að ná saman um málefnaskrá þá óska þau að sjálfsögðu eftir því að allt fari til fjandans hjá honum svo þau geti sjálf myndað enn einn veikan minnihlutann, hugsanlega aftur án málefnaskrár (og, eins og kom í ljós seinast, án málefna).
Gott og vel að Morgunblaðið veiti þessum ágætu stjórnmálamönnum mikið rými til að tjá sig um gremju sína með hrun hins gamla veika meirihluta og myndun hins nýja veika meirihluta. Gott og vel að Morgunblaðið gæli við hugleiðingar tveggja einstaklinga í hinum núverandi minnihluta til að ýta undir getgátur um hrun hins nýja meirihluta. Það sem vantar er að Morgunblaðið bendi á kjarna málsins sem er þessi:
Kjörnir stjórnmálamenn (kjörnir samkvæmt gildandi, vel þekktum reglum á hverjum tíma) hafa á sérhverjum tímapunkti umboð kjósenda til að gera hvað sem er sem þeirra eigin (góða eða slæma) samviska segir þeim að gera (að undanskildum lögbrotum).
Þetta kallast "fulltrúalýðræði". Sumir stjórnmálamenn vinna í nafni þess af heilindum og skipta um skoðun eða sleppa því í nafni hagsmuna kjósenda (og eigin hugsjóna, séu þær til staðar). Aðrir eru síðri í vinna á þennan hátt og vilja til dæmis umfram allt vera stjórnarformenn Orkuveitu Reykjavíkur, sama hvað það þýðir í pólitísku samstarfi. En fulltrúalýðræðið gerir engan greinarmun þarna á. Á milli kosninga eru það fulltrúarnir sem stjórna lýðræðinu, en ekki öfugt.
Dagur og Svandís vilja ólm mynda enn einn nýjan veikan meirihlutann og ég skil það ágætlega, og vitaskuld er freistandi fyrir þau að túlka allt sem núverandi veikur meirihluti gerir eða segir sem tákn um yfirvofandi fall hans. Allt í lagi. En fulltrúarnir ráða á milli kosninga (t.d. því hvort kosið sé fyrr en síðar). Kjósendur horfa á. Þannig sátu Sjálfstæðismenn sárir eftir á sínum tíma. Þannig sitja Dagur og Svandís sár eftir núna. Þannig virkar og vinnur fulltrúalýðræðið.
Flókið? Nei. Augljóst? Já. Endurspeglast skilningur á þessu í orðum núverandi veiks minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og stuðningsmanna hans? Nei.
Viðvarandi stjórnarkreppa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:52 | Facebook
Athugasemdir
Þegar upp er staðið skiptir blátt áfram það eitt máli að borgarstjórnin vinni vinnuna sína fyrir íbúa Reykjavíkur.
Hvort þar er að verki veikur eða sterkur meirihluti, um það má einu gilda.
Árni Gunnarsson, 24.2.2008 kl. 23:07
Ég held að hægri menn ættu nú bara að láta það eiga sig að vera gagnrýna aðra á meðan þeir sjálfir eru með allt niður um sig. Hættið þessu væli og hisjið upp um ykkur buxurnar. Og þú talar um fultrúalýðræði, jú rétt er það en það sem við höfum verið að sjá núna á síðustu vikum er þetta lýðræði í sinni aumustu mynd. Mikið er gert fyrir völdin. Það er sorgleg staðreynd að fólk skuli yfir höfuð styðja óheiðarleika og verja hann með kjafti og klóm. Vinir og vandamenn Villi hafa hagnast um hundruðir miljóna á lóðabraski eftir að Villi komst með puttana í stjórn borgarinnar. Spilling. Í Reykjanesbæ vaða uppi innstu koppar í búri Sjálfstæðismanna og ætla að gleypa í sig eignirnar sem kaninn skyldi eftir. Spilling. bankarnir og einkavinavæðingin eins og hún leggur sig. Spilling, Kvótakerfið. Spilling. Mannaráðningar. Spilling. Sala eigna. Spilling. Svo koma svona hottintottar eins og þú og verja ósköpin með orðum og síðan atkvæðum á fjögurra ára fresti. Það var til dæmis aumt að sjá þegar Árni Matt var í vanda með ráðningu á syni Davíðs, þá komu svona gæjar og vörðu gjörninginn. Hvernig er það hugsa menn ekkert þegar þeir verja svona? Hafa menn ekki snefil af sómatilfinningu eða heiðarleika? Mikið djöfull er þetta rotið. Ekki skal mig undra þó þessi athugasemd mín fái ekki birtingu hérna hjá þér, því það vill loða við ykkur hægri pésana að þið ritskoðið athugasemdir alveg eins og þegar hægri menn voru með DV. Þá héngu þeir á öxlum blaðamanna og breyttu fréttum svo ekki félli skuggi á óheiðarleika Sjálfstæðismanna, og þetta er staðreynd!
Valsól (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 23:08
Valsól,
Það skiptir engu máli hvað kjörnir fulltrúar gera á milli kosninga (sem lögreglan flokkar ekki sem lögbrot). Skoðanakannanir eru áhugaverðar, en þær hagga ekki fulltrúalýðræðinu. Ég er ekki að gagnrýna neitt annað en skilningsleysi á virkni fulltrúalýðræðis - gildir einu hvort núna séu það Dagur og Svandís sem skilja ekki, eða Sjálfstæðismenn á sínum tíma (þætti vænt um ábendingar á dæmi um slíkt skilningsleysi Sjálfstæðismanna - finn ekkert í fljótu bragði sjálfur).
Spillingu eiga óháðar eftirlitsstofnanir (ríkisvaldsins) að fanga, en ekki æsifréttamenn DV þótt þeir geti komið með (rökstuddar) ábendingar eins og hver annar.
Hvað varðar óverðskuldaðar svívirðingar þínar í minn garð þá bið ég þig vinsamlegast um að halda þeim utan þessarar síðu, þar eð ég æski lágmarkskurteisi óháð biturð þeirra sem skrifa athugasemdir hér.
Geir Ágústsson, 24.2.2008 kl. 23:15
Þess má geta að ég er ekki Sjálfstæðismaður. Ég er frjálshyggjumaður og vildi helst sjá alla stjórnmálamenn eiga auglýsingu í "starf óskast"-smáauglýsingum dagblaðanna, og fá að kjósa um allt á milli himins og jarðar með debetkortinu á frjálsum markaði, með kosningarétt oft á dag.
Geir Ágústsson, 24.2.2008 kl. 23:21
Það eru margir sem ekki botna neitt í fulltrúa-lýðræðinu. Rauða fylkingin hefur af öllum mætti aukið ringulreiðina með stöðugum tilvísunum til skoðanakannana og fullyrðinga um að þær ákvarði á einhvern hátt umboð þess fólks sem kosið hefur verið í borgarstjórn. Að vanvirða þannig kosningakerfið sem við búum við er atlaga að lýðræðinu.
Að sjálfsögðu má ræða annað fyrirkomulag kosninga. Ég til dæmis óska eftir einstaklings-kosningum á öllum sviðum samfélagsins. Flokksræðið er heldsta mein þessa lands og hefur í framkvæmd stundum nálgast einræði.
Eitt einkenna núverandi fyrirkomulags er sú staða að kjósendur geta ekki losnað við vanhæfa einstaklinga. Hvernig á að losna við Össur Skarphéðinsson úr stóli ráðherra, eða af þingi ? Ég er ekki að tala um núna strax, sem væri æskilegt, heldur í nærstu kosningum. Ef hann nær kosningu í prófkjöri hjá Samfylkingunni verður hann þingmaður. Ef horfur hans til árangurs í prófkjöri eru slæmar, er viðbúið að hann komist á framboðslistann með aðstoð uppstillingu-nefndar.
Við höfum velþekkt dæmi um svona kúnstir frá síðustu kosningum. Löngu fyrir prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum var ljóst að Sturla Böðvarsson ætti enga möguleika á þingsetu, ef prófkjör yrði haldið á Vesturlandi. Með bolabrögðum tókst Sturlu að koma í veg fyrir prófkjör og tryggja sæti á framboðslistanum. Þetta dugði honum ekki til ráðherrasætis, heldur var honum sparkað upp í stól forseta Alþingis.
Eru nokkrir sem verja kosningakerfi sem leyfir mönnum að ganga fram með þessum hætti, nema sjálfskipaðir handhafar flokksræðisins ?
Loftur Altice Þorsteinsson, 24.2.2008 kl. 23:39
Jamm það vill oft gleymast að við afsölum ákvörðunarrétti okkar í hendur atvinnumanna í rifrildum/bakstungum og fatakaupum sem við teljum vera betur henta til að taka ákvarðanir en við sjálf. Svo er fólk hissa á því þegar þessir fulltrúar virðast hafa metnað eða valdafýsn eða eru bara hreint út sagt heimskir.
Þetta kerfi er ekki það sem ég er hrifinn af, er ekki tilbúinn að skipta því út samt, því það er bara bilað ekki endilega ónýtt.
Og ég vil alls ekki að við göngum alla leið og kjósum um allan skapaðan hlut. Þar sem að þó að einstaklingarnir séu gáfaðir þá er múgurinn það ekki.
Og markaðshyggjan að upphæðin í bankanum segi til um hvað þú ræður miklu, viljum við rómverska þingið eða?
Skaz, 24.2.2008 kl. 23:48
Geir - Við höfum svipuð kosningalög og í flestum Evrópulöndum en þar mega stjórnmálamenn ekki skíta upp á bak og hygla vinum og kunningjum án þess að þurfa að segja af sér.
Lagalega er auðvitað verjandi að haga sér eins og bavíani í 4 ár eftir að hafa náð kosningu, en geturðu útskýrt fyrir mér hvers vegna það er bara gert hér á landi á meðan í öðrum löndum þykir sjálfsagt og eðlilegt að segja af sér eftir minnstu yfirsjón?
Einar Jón, 2.3.2008 kl. 13:41
Einar,
Hvaða fjárhagslegu afleiðingar hafa afsagnir á stjórnmálamenn í "flestum öðrum löndum"? Verða þeir tekjulausir og þurfa byrja leita sér að nýju starfi á markaðinum, eða fá þeir áfram greitt í þónokkurn tíma eftir afsögn sína eins og ekkert hafi í skorist?
Fyrir nokkrum misserum var lagt til, með stuðningi nær allra þingflokka, að stjórnmálaflokkaformenn fengju sérstakar launagreiðslur úr ríkissjóði þegar þeir lykju störfum eða hættu sem formenn, því það væri svo erfitt fyrir svona þekkt andlit að fara út á atvinnumarkaðinn á ný. Hver veit, ef slík lög verða innleidd, hvort afsögnum þessara manna byrji ekki að fjölga líka?
Á markaði eru menn einfaldlega REKNIR ef þeir standa sig ekki. Í heimi stjórnmálamannanna er ekki um slíkt að ræða nema um bein lögbrot sé að ræða (og sennilega stinga nú einhverjir upp á því að af lögum sé ekki nóg og þeim þurfi að fjölga!). Spurningin er bara: Hvaða varnir hafa stjórnmálamenn búið til handa sér ef þeir nenna ekki lengur að birtast á forsíðu dagblaðanna undir spillingarásökunum?
Geir Ágústsson, 2.3.2008 kl. 13:51
Besta vörnin væri að minnka spillinguna, en það væri auðvitað út í hött...
Er spurningin ekki frekar: af hverju eru þeir svona oft að birtast á forsíðu dagblaðanna undir spillingarásökunum?
Einar Jón, 2.3.2008 kl. 23:57
Því það selur, með eða án sönnungargagnanna. Annars fagna ég því að stjórnmálamönnum sé haldið á tánum af fjölmiðlum (með eða án sönnunargagnanna).
Geir Ágústsson, 3.3.2008 kl. 17:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.