Þriðjudagur, 13. nóvember 2007
Danskir skattgreiðendur vona hið besta
Sem íbúi í Danmörku og skattgreiðandi hér í landi get ég ekki annað en vonað að hinir svokölluðu hægriflokkar haldi völdum. Vinstriflokkarnir hafa lofað því að skattar verði ekki lækkaðir ("velferð eða skattalækkanir?" segja sósíaldemókratarnir), og útgjöld ríkisins snaraukin (um 68 milljarða danskra króna segir næststærsti vinstriflokkurinn). Þeir eru samt alltaf að skipta um skoðun á því hvort útgjaldaaukningum verði dembt á húsnæðiseigendur eða launþega. Svolítill vindhanagangur sem er erfitt að átta sig á og hvað þá spá fyrir um hvar endar ef vinstrið nær völdum.
Í Danmörku er hægt að reikna sig fram til að hæstu skattarnir hér í landi nemi allt að 71% þegar allt er talið með. Um 900.000 Danir á "vinnufærum aldri" eru á opinberri framfærslu og þá eru þeir ekki taldir með sem þiggja bætur eða einhvers konar aðstoð, heldur eru beinlínis á opinberri framfærslu. Hvað ætli verði margir eftir þegar fólk í raunverulegri nauð hefur verið dregið frá níu hundruð þúsundunum? Varla einn fimmti af íbúunum eða hvað!
Um þetta er samt ekki kosið. Allir flokkar lofa að eyða meiru í allt. Þeir sem lofa skattalækkunum gera það ekki til að svipta ríkið fjármunum heldur til að "hvetja" fleiri til að vinna meira og hugsanlega ná einhverjum til baka af þeim tugum þúsundum landflótta vel menntaðra Dana sem hafa flúið land og skattkerfi.
Skattkerfið er líka flókið. Á meðan sumar holur í því eru búnar til viljandi til að laða að vel menntað fólk (með lægri skatti í ákveðinn árafjölda) þá verða aðrar til þess að peningar hverfa úr landi í stórum stíl.
Enginn flokkur berst fyrir einfaldri og gegnsærri stjórnsýslu. Ekki er um það að ræða að leysa vandamál ríkisrekstursins með öðrum leiðum en áframhaldandi auknu fjáraustri. Ríkisreksturinn vex svo hratt í kostnaði að margmilljarða árlegar útgjaldaaukningar kallast "niðurskurður" af stjórnarandstöðunni!
Þetta er meira að segja svo brenglað að ef hinir íslensku Vinstri-grænir myndu lofa því sama og dönsku "hægri"flokkarnir þá yrðu þeir sennilega þurrkaðir út í næstu kosningum! Eða hvaða Íslendingur ætlar að kjósa flokk sem beinlínis lofar því að "hæstu skattar á laun verða 50%" og "rekstur hins opinbera á að vaxa í kostnaði um 50 milljarða á næstu þremur árum"? Ekki margar, að ég held!
Skattalækkanir ef hið danska svokallaða hægri vinnur? Varla nema á yfirborðinu. Áframhaldandi stopp á skattahækkanir? Vonandi!
![]() |
Útgönguspár benda til sigurs dönsku stjórnarflokkanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Facebook
Athugasemdir
Mér þætt vænt um að vita hvar öll þessi ókeypis þjónusta fæst utan kosningabæklinganna. Ekki finn ég neitt ókeypis í Nettó eða Bilka þótt ég komist stundum nærri því. Eitthvað finnst mér svo reikningurinn fyrir þessa ókeypis þjónustu vera vaxa þótt ég sjái hann aldrei nema í gegnum frádráttarliðina á launaumslaginu.
Kannski að ekkert sé ókeypis eftir allt saman? Kannski að ríkiseinokunarstarfsemi sé jafnvel ennþá meiri okrari en sú starfsemi sem er kölluð einokunarstarfsemi á hinum semí-frjálsa markaði?
Ég vona a.m.k. að samgöngur í DK verði ekki enn ódýrari og hvað þá að tvær strætó-zónur verði boðnar á 10 danskar krónur. Það gæti kostað sitt eftir allt saman, nema bensín, strætóbílstjóralaun og viðhald á gulum bílum detti í sjálfboðavinnu.
Geir Ágústsson, 13.11.2007 kl. 19:23
Þessir 900.000 Danir jafngilda um 50.000 Íslendingum sem eru á beinni framfærslu hins opinbera. Ég er hræddur um að það færi um Íslensku Þjóðina í heild sinni ef svona tölur ættu eftir að sjást á klakanum.
Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 21:31
Sæll Geir
Vildi bara láta þig vita af því ég svaraði kommenti frá þér á síðunni henar Vilborgar.
Þú ættir að lesa það í rólegheitum. það er alveg ókeypis.
Cheers
Sævar Finnbogason, 14.11.2007 kl. 01:34
Sæll Sævar og takk fyrir ábendinguna.
Það eina sem ég get sagt meira við þínum vangaveltum um hver má hvað og hversu mikil byrði sumt fólk er á heilbrigðiskerfinu er að ég æpi og öskra hástöfum NEI sem svar við spurningu þinni: "Er þá ekki skársta leiðin að reyna eftir fremsta megni að takmarka að stuðlað sé að áfengisneyslu og takmarka aðgengi að því einsog gert er í dag?"
Tæknilegar útfærslur á afnámi ríkiseinokunar á sumu áfengi en ekki öðru o.s.frv. eru ekki kjarni málsins.
Þess má geta að kassi af Carlsberg í dós fer á hálfvirði í Netto á morgun! Kannski ég kippi einum með þegar ég fer í matar- og handsápukaupaleiðangur eftir vinnu í kvöld!
Geir Ágústsson, 14.11.2007 kl. 09:26
...annað kvöld, væntanlega!
Geir Ágústsson, 14.11.2007 kl. 09:27
Sem íbúi í dk get ég ekki annað en verið sammála, nóg að gera í vinnunni hjá mér væri alveg til í að vinna smá yfirvinnu svona til tilbreytingar eini ókosturinn er að fyrir hverja 4 yfirvinnutíma fara þrír í topskat og einn í minn vasa. Nú er bara að vona að þeir fjarlægi topskattinn þannig að maður geti unnið lengur og fá tímana útborgaða í staðinn fyrir að taka þá út í frí eða setja inn á eftilaunin.
Hordur (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.