Gamalt bandalag frjálshyggjumanna og sósíalista

Núna hrinti ég sjálfum mér á hálan ís sem ég veit ekki hvert mun leiða mig. Á Ósýnilegu höndina skrifaði ég litla hugleiðingu sem endar á eftirfarandi pælingu:

"Er eitthvað í vegi fyrir því að stofna til bandalags sósíalista og frjálshyggjumanna líkt því sem var svo lifandi í upphafi 20. aldar í Bandaríkjunum?"

Hvaða bandalag er það? Bandalagið er bandalag frjálshyggjumanna og sósíalista gegn öllu stríðsbrölti á erlendri grund!

Meira hér.

Þess má geta að ekki er um að ræða neitt sérstakt bandalag fyrir heimsfriði eða stöðvun þjóðarmorða. Bandalagið er skýrt og skorinort og felst nákvæmlega í því orðalagi sem ég nota. 

Nú er að sjá hvort einhver verði viðbrögðin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi hugmynd var raunhæf í Bandaríkjunum í upphafi 20. aldar vegna þess að 1) stóru Evrópuríkin voru í hlutverki heimslögreglunar og 2) Bandaríkin voru það öflug að þau gátu varið sig sjálf.

Ef Bandaríkjamenn myndu draga sig út úr afskiptum af heiminum núna í dag þá færi allt í kalda kol. Rússar færu að sýna klærnar í Evrópu, Kínverjar færu í heimsókn í til Taipei (og Guð má vita hvað myndi gerast í Kóreu), Arabaríkin myndu aftur fara að beita olíunni sem vopni o.s.frv.

Þetta er heldur ekki möguleiki fyrir Ísland þar sem við getum ekki varið okkur sjálf og þurfum þess vegna að vera í bandalögum á borð við NATO sem felur í sér að við tökum þátt í afskiptum þess í öðrum löndum. 

Annars er einangrunarhyggja líklega ekki stefna sem gengur upp í nútímanum. Óstöðugleiki er sjaldnast staðbundið vandamál í dag. T.d stafaði mikil hætta af stríðinu á Balkanskaga á sínum tíma (vegna þess að Rússar hefðu getað farið að skipta sér af). Þetta er ástæða þess að jafnvel hlutlaus ríki á borð við Svíþjóð og Írland eru farin að beita sér í ríkari mæli í friðargæslu og öðrum stöðugleikaverkefnum.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 23:30

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég þakka ljómandi innlegg! 

 Háli ísinn er greinilega byrjaður að mynda stefnu sýnist mér. Fleiri hugleiðingar (t.d. en þó ekki eingöngu í átt að hinum málstaðnum) hjartanlega velkomnar.

Geir Ágústsson, 22.10.2007 kl. 23:54

3 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Vildi miklu frekar sjá bandalag þjóðlegra íhaldsmanna um heim allan! Þar sem borin er virðing  fyrir Heimstré varðveiðslu ólíkra þjóða, kynþátta og menningararfs.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 23.10.2007 kl. 01:04

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Andstæðar fylkingar geta einstaka sinnum mæst í ídealískri baráttu sinni fyrir einstökum verkefnum. En það yrði aldrei annað en áhugamannafélag sem endist aðeins þangað til markmiðinu er náð. Hvaða markmiði? Að halda friðinn? Það er endalaust, þannig að þessir andstæðu jaðrar kúrfunnar yrðu alltaf að vera sammála, bara um þetta eina atriði. Ekki hljómar það stöðugt.

Hægri- heila ídealistinn með blómið í hárinu sem hefur áhyggjur af breyttu loftslagi sunnan Sahara og vill breyta því á sjaldnast samleið með vinstri- heila frjálshyggjusinnanum sem telur sig sjá ríkisvaldið þenjast út hvar sem er með hvaða ráðum þess sem er.  Þó geta þau slysast til að vera sammála um eitthvert atriði, en bara örsskotsstund. Á að byggja heimsfriðinn á því?

Ívar Pálsson, 23.10.2007 kl. 14:29

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Um heimsfriðinn hef ég fátt að segja. Hið gamla bandalag í Bandaríkjunum byggðist einmitt á því að bandaríski herinn átti ekki að gera annað en að verja bandaríska jörð, hvað sem líður átökum og deilum annarra úti í hinum stóra heimi.

Þetta var samt bandalag sem kannski er óhentugt að heimfæra upp á heiminn í dag. Hef ekki alveg hugsað þetta út í gegn - hence hugleiðingin.

Geir Ágústsson, 23.10.2007 kl. 14:50

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Þetta eru þarfar hugleiðingar hjá þér, Geir. Auðvitað höfum við ekkert að gera með að senda nokkrar hræður út í „friðargæslu“ á átakasvæðum þar sem við „öxlum ábyrgð“ á herbrölti annarra, eins og sprengingum Nató í Bosníu. Ekki ber okkur heldur að greiða fjárhæðir til stríðsbrölts annars staðar, sama á hvers vegum, því að fórnarlömbin eru alltaf helst saklausir borgarar. Eftirlit og varnir hér heima er allt annað mál, enda öruggt að það yrði vegna ágangs annarra. Um þetta gætu líklega flestir þingmanna verið sammála, ef gengið væri á hvern og einn. Bandalagið þitt yrði því líklegast þverpólítískt, en þó, jaðrarnir sterkastir.

Síðan er „hlutleysi“ í varnarmálum önnur spurning, því að maður er alltaf háður einhverjum. Svíar framleiddu stál og vopn fyrir andstæðinga í stríðinu og gera enn á meðan Svisslendingar byggðu veldi sitt á Nasistagulli og Gyðingapeningum og framseldu fólk fram og til baka. Bandalagið þitt myndi líklega semja við Norðmenn um varnir í alvöru átökum, en það myndi kosta okkur amk síldarkvótann!

Ívar Pálsson, 23.10.2007 kl. 15:52

7 identicon

Aftur byrjar þessi Norðmannadella! Við getum ekki samið við Norðmenn um varnir landsins af þeirri einföldu ástæðu að norski herinn hefur nákvæmlega enga getu til þess að verja landið, a.m.k ekki án þess að koma sér upp bækistöð hérna en það hafa Norðmenn engan áhuga á að gera (og jafnvel þótt þeir hefðu hér bækistöð þá væru varnirnar ekki sérlega öflugar).

Eina varnarsamstarfið sem veitir eitthvað meira en pappírsvarnir er samtarf við Bandaríkin og NATO. Það samstarf þarf að rækta (við getum litið á það sem iðngjöld) og þess vegna þarf Ísland að taka þátt í verkefnum í Bosníu og fleiri stöðum.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 16:31

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvað væri tæknilega því til fyrirstöðu að gera tvíhliða samning við Bandaríkin um varnir Íslands og halda þannig íslensku skattfé utan við "verkefni" NATO annars staðar í heiminum (en vissulega kosta stórfé til að greiða fyrir eigin varnir)?

Bandaríkjamenn myndu líklega vera á móti því pólitískt (þeir vilja að það sé til NATO og að þeir stjórni því gegn því að borga brúsann meira og minna). Tæknilega gæti það samt sennilega (og auðveldlega) gengið, rétt eins og Kringlan semur við Securitas um gæslu í Kringlunni án þess samt að vilja greiða fyrir verkefni Securitast í t.d. Smáralind.

Geir Ágústsson, 23.10.2007 kl. 19:45

9 identicon

Við erum með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkjamenn (varnarsamningurinn frá 1951 er enn í gildi) en hann er tengdur NATO. Bandaríkjamenn hafa ákveðin hvata til þess að viðhalda honum (Ísland er þannig staðsett að þeir vilja eiga hér innangengt) en ég efast um að hvatinn sé nógu sterkur til þess að þeir væru til viðræðu um tvíhliða samning án NATO.

Reyndar er NATO orðið hluti af hvatanum sem þeir hafa til þess að vilja eiga í samstarfi við Ísland. Þeir vilja rækta NATO vegna þess að það gefur þeim tækifæri til þess að kaupa stuðning A-Evrópuríkja, veitir þeim aðgang að aðstöðu í sumum löndum og kemur að ákveðnu gagni, t.d í Afganistan.

Tæknilega gæti tvíhliða varnarsamstarf auðvitað gengið ef við ættum eitthvað meira til þess að bjóða þeim - en við eigum bara þetta þrennt; pólitískan stuðning, að vera aðili að NATO og eiga aðstöðu sem þeir gætu kannski þurft að nota einhvern tímann í framtíðinni.

Hinn kosturinn, að greiða fyrir eigin varnir, er í raun ekki fyrir hendi. Án bandamanna væri of lítil vörn í íslenskum her.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 20:35

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Þá er einn möguleiki eftir í stöðunni eða svo sýnist: Að lýsa Ísland algjörlega hlutlaust. Engin þróunaraðstoð, ekkert hjálparstarf, engir fordómar í milliríkjaviðskiptum (Íran eða Írland, gildir einu), engin friðargæsla, ekki neitt. Jafnerfitt/auðvelt fyrir Araba, Armena og Austurríkismann að fá hér dvalarleyfi, ríkisborgararétt og atvinnuleyfi, séu ákveðnar almennar kröfur uppfylltar (eða engar).

Hvað svo er Rússaflotinn siglir til Siglufjarðar og lýsir því yfir að Ísland sé nú hérað í Rússlandi? Treysta því að það gerist ekki (vegna viðskiptahagsmuna, pólitísks titrings, ótta við að styggja Bandaríkjamenn sem vilja örugglega ekki rússneska eldflauga- og flotastöð á Íslandi, osfrv), og vera 'ligeglad'!

Sennilega leikur við óttann sem kemur í veg fyrir þetta. Ótta sem ég skil vel og bý yfir sjálfur en er að reyna að ræða á brott (en hefur ekki tekist enn). Já og það að margir Íslendingar vilja að Ísland sé með í einu brölti erlendis (þróunaraðstoð) en ekki öðru (varnarsambandi).

Geir Ágústsson, 23.10.2007 kl. 20:55

11 identicon

Það eru til lönd sem gera þetta. Sviss og Kiribati til dæmis. Málið er bara að annað er uppí í fjalli, með formlega hlutleysissamninga (sem engin vill gera við okkur) og þar að auki með öflugan her sem hefur töluvert fælingargildi. Hitt er bókstaflega úti í hafsauga.

Ísland reyndi hlutleysi frá 1918 til 1949. Það reyndist engin vörn í því þegar á reyndi. Ef landið liggur hérna galopið þá þarf ekki mikinn hvata til þess að einhver komi hingað og lega landsins er þannig að það þarf ekki mikið til þess að gerast til þess að einhver hafi slíkan hvata (svo er þetta líka alltaf spurning um að vera í stöðu til að framfylgja tilkalli landsins til náttúruverðmæta á borð við fiskinn).

Best er að halda sig við NATO, það er mjög örugg lausn og ódýr. Úr því að við erum ekki undir sérstökum verndarvæng Bandaríkjamanna með sama hætti og fyrr munum við fyrr eða síðar þurfa að gerast virkari í varnarmálum en við gætum auðveldlega haldið útgjöldunum á milli 1 og 2% af VLF sem er ekki dýrt á heimsmælikvarða.

Annars er innlimun löngu komin úr tísku. Rússarnir væru líklegri til þess að koma hér upp vinveittum einræðisherra. Steingrími J. til dæmis..

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 21:48

12 Smámynd: Ívar Pálsson

Hans. þú hefur nú flest rétt fyrir þér í þessu. Veltum þó upp möguleikanum að Bandaríkin standi svo höll, t.d. fjárhagslega, að þau verði að einbeita sér að eigin vörnum. Það er vel mögulegt, þar sem bara þetta litla Íraksstríð er að koma þeim í trilljón dollara skuld og þeir heimta undanþágu á þinginu, hvað þá ef barist yrði á nokkrum vígstöðvum. Þar kom Noregur helst inn fyrir okkur (en bara sem baktrygging), þar sem það land er ákveðið í að margstyrkja her sinn, sérstaklega til auðlindavarna sem verður líklega aðalmálið hjá okkur, að verja orkufreka málmavinnslu til hernaðar.

Mest freistandi er að lýsa yfir algeru hlutleysi (sbr. Geir), en paranoia massinn myndi varla samþykkja það, þótt hann geri það á tyllidögum friðarins. Afar okkar og ömmur veifuðu til þýsku njósnavélanna, var það ekki? Engin þörf að ráðast á slíkt fólk.

Ívar Pálsson, 23.10.2007 kl. 23:40

13 identicon

Eins og stendur myndi ég nú ekki lýsa þeim breytingum sem eru að verða á norska hernum sem margstyrkingu, frekar áherslubreytingu.

Í fyrst lagi eru þeir að skipta út Oslo kafbátaleitar-freigátunum fyrir Fridtjov Nansen flokkinn. FN er líka fyrst og fremst kafbátafreigáta en þó fjölhæfari, t.d verður hún færari um að veita öðrum skipum loftvörn. Freigátuhluti norska sjóhersins hefur hingað til fyrst og fremst verið hugsaður sem framlag til Atlantshafsflota NATO og verður það ennþá en fjölhæfnin mun gefa meiri sveigjanleika.

Í öðru lagi ætla þeir að skipta út F-16 orrustuþotunum, sem eru fjölnota þotur en með mesta áherslu á loftbardaga, fyrir eitthvað með meiri árásargetu.

Í þriðja lagi eru ýmsar smærri breytingar t.d hefur strandgælan fengið stórt varðskip sem er líka ísbrjótur.

Hinsvegar eru ekki upp áætlanir um t.d fleiri flutningavélar fyrir flugher eða eldsneytisflugvélar (en án þeirra yrðu norsku orrustuþoturnar ekki til stórræða hérna yfir Íslandi), hraðsveitir fyrir landher eða að sjóher fái móðurskip fyrir landgöngupramma (LPD). M.ö.o verður norski landherinn ennþá byggður upp sem heimavarnarher og sjóherinn verður ennþá strandvarnafloti og flugherinn verður byggður upp til varnar eigin landi og landhelgi.

Ísland er einfaldlega of langt frá Noregi til þess að norski herinn geti veitt einhverja vörn. Ef Bandaríkin standa ekki til boða þá eru Bretland og Frakkland einu kostirnir sem eru eftir.

En þessi athugasemd er auðvitað utan við efni færslunnar...

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 01:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband