Miðvikudagur, 10. október 2007
Hér er frændum okkar á Norðurlöndum ekki fylgt mjög vel
Ein háværustu tískurökin á Íslandi eru þau að Íslendingar eigi að gera eitthvað því slíkt "tíðkast hjá frændum okkar á Norðurlöndum". Með því að ýja að því að íslensk fyrirtæki séu að gera eitthvað rangt með því að taka ensku upp sem vinnumál er verið að hunsa þau tískurök fullkomlega (sem yfirleitt veit á gott en ekki í þessu tilviki).
Sjálfur vinn ég í Danmörku hjá dönsku fyrirtæki sem sinnir fyrst og fremst útsjávar-olíuiðnaðinum vítt og breitt um heiminn. Vinnumálið er formlega séð enska, en vitaskuld tala Danir sín á milli á dönsku rétt eins og tveir Íslendingar sem mætast á bar í Köben tala saman á íslensku. Skýrslur á mínum vinnustað eru skrifaðar á ensku, við tölum við viðskiptavinina (sem eru frá öllum heimshornum) á ensku og allir vinnuferlar eru einnig á ensku (alþjóðlegar vottunarstofnanir sem þá lesa hafa sjaldan Dani innan sinna vébanda).
Hvernig dettur nokkrum manni í hug að þetta fyrirkomulag sé atlaga að tungu innfæddra? Af hverju í ósköpunum eru stjórnmálamenn yfirleitt að tjá sig um val einstakra fyrirtækja á (formlegu) tungumáli vinnustaðarins og fyrirtækisins? Ef Þorgerður Katrín væri ráðherra í Danmörku þá væri búið að spotta hana duglega í hérlendum fjölmiðlum, en á Íslandi lepja fjölmiðlar upp sérhvert orð hennar og setja í samhengi stjórnarskrárbreytinga!
Ég legg til að í stjórnarskránna verði sett eftirfarandi grein, sem viðbót við 79. greinina um tjáningarfrelsi:
"Ekki má gera að lögreglumáli hvaða tungumál er notað í ræðu eða riti á Íslandi."
Óþarfaákvæði? Aldeilis ekki. Nú virðist vera stemming fyrir því að gera mitt eða þitt val á tungumáli að lögreglumáli, og fátt hræðir mig meira!
Samhljómur um að ákvæði um íslensku verði sett í stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég held að aðal málið sé ekki að banna fólki að tjá sig á öðrum tungumálum en Íslensku. Heldur sé hér málið að skýrslur og önnur gögn sem fyrirtæki senda frá sér verði aðgengileg á íslensku líka.
Það er farið að vera frekar alvarlegt mál hér á klakanum hvað fólk er farið að nota enskuna mikið. Sem dæmi má nefna alþjóðlegu kvikmyndahátíðina sem er nýliðin. En þar voru titlar kvikmyndanna þýddir yfir á ensku og hengdir upp á vegg í Regnboganum. Þó mátti hvergi sjá sambærilegt veggspjald með titlunum á frummálunum eða Íslensku.
Ellert Smári Kristbergsson, 10.10.2007 kl. 15:54
Bendi bara á 17.grein Finnsku stjórnarskráinnar, þar er talað um að Finnska og Sænska skuli vera þjóðarmál Finnlands. Hví ættu Íslendingar ekki að hafa Íslensku sem sitt þjóðarmál?
LL (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 15:59
Ég veit ekki betur en að íslenska sé töluð á Íslandi af nær því öllum sem þar búa. Það að orðið "þjóðtunga" sé notað sem skraut á stjórnarskránna (sem nú þegar er orðin rækilega útvötnuð) er pappírsvinna og afþreying fyrir stjórnmálamenn.
Skýrslur og önnur gögn fyrirtækja eru ætluð kúnnum og hluthöfum þessara fyrirtækja. Tungumálið skiptir engu máli á meðan tilætlaður lesendahópur er ánægður. Í langflestum tilvikum mun þetta þýða að útgefið efni íslenskra fyrirtækja verður a.m.k. líka gefið út á íslensku, sé þörfin talin vera til staðar.
Geir Ágústsson, 10.10.2007 kl. 16:04
Ég vinn í flugbransanum og þar fer allt fram á ensku, en samstarfsmenn tala að sjálfsögðu saman á íslensku. Þetta er ekki hlutur sem þingið er að setja fyrir sig, heldur það að þegar þú ferð í verslun eða þarft að fá þjónustu einhversstaðar þá þarftu ekki að vera að nota annað en íslensku.
Mér finnst allavega pirrandi að þurfa að fara í Bónus og tala þar við fólk sem kann ekkert annað en pólsku. Ég tek það fram að ég hef ekkert á móti Pólverjum, en þeir koma hingað og þá verða þeir að aðlaga sínu lífi að okkur en ekki við þeim.
Heimir (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 17:06
"Ég veit ekki betur en að íslenska sé töluð á Íslandi af nær því öllum sem þar búa. Það að orðið "þjóðtunga" sé notað sem skraut á stjórnarskránna (sem nú þegar er orðin rækilega útvötnuð) er pappírsvinna og afþreying fyrir stjórnmálamenn."
Ég er sammála þér þarna. Tilgangurinn með ákvæðinu er enginn. Þetta má alveg vera þarna mín vegna en ég myndi kjósa að tíma alþingismanna á þessu löggjafarþingi, og því næsta, yrði betur varið.
Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 18:46
Heimir,
Útsjávar-olíuiðnaður, flugiðnaður, heildsöluverslun, alþjóðleg ráðgjafarþjónusta (gvuð má vita hvað vinnumál Geysir Green Energy er?!), osfrv. Dæmin eru mýmörg og ég þakka fyrir þitt.
Ég skil ágætlega pirring þinn á ótalandi þjónustufólki, en ráðning Pólverja er þó bara eitt af mörgu sem Bónus gerir til að halda vöruverði niðri (lægra en hjá samkeppnisaðilum).
Þér er vitaskuld velkomið að versla í verslun sem þú ert næsta viss um að ráði eingöngu hagyrta íslenskufræðinga, og búðir ættu vitaskuld að geta auglýst sig á slíkum forsendum, en þá er auðvelt að ímynda sér að krónutalan sé nokkuð hærri á verðmiðunum.
Jón,
Amen! Best væri auðvitað að sumar- og jólafrí þingmanna yrðu lengd til muna svo ekki vinnist tími til annars en stimpla á þær örfáu lagasetningar sem talin er brýnust þörf á að koma á.
Geir Ágústsson, 10.10.2007 kl. 21:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.