Miðvikudagur, 20. júní 2007
Hefur afturhaldssinnaður þverhaus alltaf rangt fyrir sér?
Ein tegund röksemdarfærslu hefur alltaf setið frekar illa í mér, en hún er eftirfarandi: Ef þú ert ekki sammála mér, þá ertu afturhaldssinnaður og þrjóskur! Nú getur vel verið að ég sé hvoru tveggja, en er málflutningur minn þar með rangur? Þarf ekki að koma til fleira en að vera gamaldags og hafa ekki látið sannfærast til skoðanaskipta til að skoðunin sé röng eða á einhvern hátt ekki rétt? Í grunnskóla dugði e.t.v. að segja, pabbi minn er sterkari en pabbi þinn svo það væri rétt (t.d. með nógu mörgum endurtekningum og ákveðni í röddinni). Í örlítið rökréttari heimi duga svona fullyrðingar samt ekki. Þeim þarf að fylgja einhver sannindi, t.d. pabbi minn tekur 150 kg í bekkpressu á meðan pabbi þinn tekur bara 120 kg, og þar með er pabbi minn sterkari í bekkpressunni en pabbi þinn. Ég vil ekki að íslensk yfirvöld taki upp einhvern gjaldmiðil né haldi úti gjaldmiðli og reki seðlabanka. Ég vil ekki að Ísland gangi í ríkjasamband sem það hefur nú þegar gildan fríverslunarsamning við. Ég vil að skattar lækki (hverfi!), heilbrigðis- og menntakerfið einkavæðist og að sendiráð séu lögð niður. Fyrir öllu þessu hef ég ástæður og sennilega get ég týnt til eitthvað af rökum líka. Það að einhverjum finnist ég afturhaldssinnaður eða þver hrekur hvorki rökin né breytir ástæðunum. Fleira þarf að koma til, sé fleira yfirleitt til staðar!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.