Þeir sem baka og þeir sem borða

Ljómandi samræmi er í sambúð fólks þar sem sumir baka og aðrir borða, eða allir baka og borða. Síður í sambúð þar sem allir vilja borða en enginn vill baka. 

Þessi myndlíking kemur mér til hugar þegar ég hugleiði mögulegar samsetningar næstu ríkisstjórnar Íslands. Verður þar einhver til að baka eða vilja allir bara borða? 

Verður þetta sambúð litlu gulu hænunnar og svínsins, eða svínsins og kattarins?

Verður samstarfið blanda af hægriflokkum sem passa bókhaldið og verðmætasköpunina og vinstriflokka sem þenja út velferðarkerfið fyrir afraksturinn, eða hrein stjórn vinstriflokka sem tæmír alla skápa og fyllir ekki á neitt og tekur yfirdráttalán fyrir næstu innkaupum?

Miðað við skoðanakannanir er óumflýjanlegt að næsta ríkisstjórn verði blanda af flokkum sem baka og öðrum sem borða. Ein slík samsetning leit að mínu jafnvel ágætlega út og er ljómandi vel lýst hér:

Í kosningasjónvarpi Eyjunnar í gær bentu stjórnmálafræðingarnir Eva H. Önnudóttir og Agnar Freyr Helgason á að það sé ein stærsa [sic] spurningin um úrslit kosninganna hvort þessir þrír flokkar [Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur, Flokkur fólksins]muni ná þingmeirihluta. Bentu þau bæði á að það væri ekki óbrúanleg gjá milli málflutnings Flokks Fólksins og hinna flokkanna tveggja sem eru yfirleitt skilgreindir sem hægri flokkar. Áherslur Flokks fólksins séu nokkuð til vinstri í velferðarmálum en flokkurinn vísi ekki markaðslausnum á bug í þeim málaflokki eins og vinstri flokkar geri gjarnan. Flokkur fólksins halli sér aftur á móti til hægri í sumum málum eins og t.d. þegar kemur að hælisleitendum.

Hvers vegna ekki? Hægrimennirnir fá að rétta af bókhaldið, lækka skatta, einkavæða og auka auðsköpun. Vinstrimennirnir fá að millifæra meira á sína kjósendur og hafa að öðru leyti ekki neinar athugasemdir við reksturinn.

En nei, mætir þá ekki formaður Fólks fólksins og hreinlega lokar á slíkt samstarf!

Átti flokkurinn ekki að snúast um fólkið fyrst og svo allt hitt? Var það bara lygi? Snýst flokkurinn bara um að vera venjulegur vinstriflokkur?

Ef svo er þá þarf ég að játa að sjaldan hef ég haft meira rangt fyrir mér um nokkuð stjórnmálaafl, og hið sama má segja um aðra. Flokkur fólksins hvað? Nei, bara enn einn vinstriflokkurinn.

Er nú hætt við að fylgið týnist af flokknum. Það er nóg af vinstriflokkum í boði. Að vísu ekki flokkum sem vilja fara hóflega í að dæla þúsundum erlendra ríkisborgara inn í landið og bjóða út opinbera þjónustu til að gera hana skilvirkari en nóg af flokkum sem vilja þenja út hið opinbera.

Flokkur fólksins var kannski með svolitla sérstöðu en hún er núna farin. Af hverju að kjósa Litlu-Samfylkinguna þegar er hægt að kjósa Stóru-Samfylkinguna?

En mátti reyna. Hugsunin var góð á meðan hún entist. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Ég sé nú fyrir mér að það yrði æði stormsamt samstarf ef Flokkur fólksins væri í ríkisstjórn - spurning hvaða flokkar treysta sér í slíka sambúð með þeim

Grímur Kjartansson, 29.11.2024 kl. 14:05

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Grímur,

Það væri enginn vandi - bara halda Ingu ánægðri. Það hlýða allir mömmu á því heimili. 

Geir Ágústsson, 29.11.2024 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og sex?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband