Á maður að kolefnisjafna sig?

Mér var bent á grein sem bar eftirfarandi kynningu:

Að meðaltali losar hver Íslendingur um það bil 12 tonn af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið á ári. Víða á netinu er hægt að kaupa kolefnisjöfnun á 12 tonnum fyrir 20 þúsund krónur eða svo. Þá er eðlilegt að margur spyrji: Ef fólk gerir þetta árlega, er fólk þá ekki bara í góðum málum?
Gagnvart svona nálgun súpa sumir hveljur en aðrir staldra við. Málið er umdeilt eins og hér er farið yfir.

En spennandi! Farið yfir umdeilt mál! Á miðli sem ég þekkti ekki og sem fjallar kannski gagnrýnið um málið! Ég hoppaði undireins inn í greinina sjálfa.

Vonbrigði mín voru mikil. Fjallað var um allar svikamyllurnar, bæði þær sem eru það án þess að kallast það og hinar sem eru það og kallast það. Lokaorðin segja alla söguna:

Aðalatriðið er þó að gleyma alls ekki að rækta sinn eigin garð, minnka sína losun og auka sína bindingu, og berjast fyrir því að stjórnvöld geri allt slíkt auðveldara fyrir alla. En að kolefnisjafna sig að auki, með vottuðum og viðurkenndum einingum það getur varla sakað. Það þarf jú mörg verkfæri í boxið, margar nálganir og aðferðir, þegar loftslagsvandinn er annars vegar.

Þarna rekst ég sérstaklega á að það geti ekki sakað að kolefnisjafna sig. Þetta er einfaldlega rangt. Það sakar, mjög mikið. Þessi árátta til að kolefnisjafna, eins og það kallast, er að valda miklum skaða á samfélagi okkar og hagkerfi. Mjög miklum. Og allt til einskis. Fé út um gluggann. Verðmæti í súginn. Mannlegar þjáningar. Efnahagslegt sjálfsvíg.

En bíddu nú við, er ekki í lagi að ég borgi auka hundraðkall fyrir flugmiðann svo það sé hægt að rækta meiri skóg? Það er í góðu lagi, en kallaðu það þá stuðning við skógrækt, skógræktar vegna. Ef þú hefur áhyggjur af kolefnisfótspori þínu þá kaupir þú auðvitað ekki flugmiðann til að byrja með. Sparaðu þér bara ómakið. 

Kolefnisjöfnun er ein stór svikamylla sem er einfaldlega ætlað að herða tök yfirvalda og alþjóðasamtaka á samfélagi okkar. Nú þegar er hægt að fá greiðslukort sem reikna út hvað þú ert búinn að losa miklum koltvísýring í andrúmsloftið með neysluvenjum þínum. Næsta skref er að setja kvóta á slíkt. Bíddu bara.

Allt þarf þetta að stoppa sem fyrst, og sem betur fer mörg teikn á lofti um að það sé líkleg lokaniðurstaða. Fyrst eru sett markmið, síðan er dregið úr þeim og loks er þeim frestað, ítrekað. Á meðan er auðvitað svimandi upphæðum sturtað í eltingaleikinn við eigin skugga en fyrr eða síðar segja kjósendur nóg, ef þeirra atkvæði hafa þá eitthvað að segja, en að því er líka unnið að slíkt verði ekki raunin.

Við erum kannski bara lítil kónguló í klósettinu og búið að ýta á takkann til að sturta niður. En hver veit, með því að ríghalda í klósettskálina er kannski hægt að lifa af ódæðið og fá böðulinn til að sleppa takkanum. Eða hoppa upp úr og hverfa úr greipum hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Man eftri hér í denn þegar ég var að fá langtímastæði við Leifsstöð.
Það var -VAR- gluggi þar sem stóð CO2.
Eins og ég hefði minnsta áhuga á að vita hve miklu CO2 bíllinn minn afkastaði.
Ég skrifaði alltaf "Fuck you" í þann glugga.
Sá hann ekki seinast.
Kannski hafa fleiri en ég sett þar skilaboð?
Jákvætt ef svo er.

Ásgrímur Hartmannsson, 3.5.2024 kl. 19:47

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásgrímur,

Gott hjá þér. Hvað héldu þeir að kæmi mikið CO2 úr bíl sem væri í langtímastæði? Eða var verið að meina kolefnisfótspor bílsins sjálfs, þegar hráefni og aðföng og framleiðsla er tekin með í reikninginn? Því þá er hætt við að margir rafbílaeigendur myndu skammast sín.

Geir Ágústsson, 4.5.2024 kl. 06:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband