Fimmtudagur, 11. apríl 2024
Ha, er ég ekki framfærandi?
Á Íslandi er við lýði kerfi sem mismunar foreldrum gróflega en um leið fyrir opnum tjöldum. Í þessu kerfi er foreldri barns ekki endilega framfærandi barns þótt þetta foreldri framfæri því með blöndu af meðlagi og beinni framfærslu (mat, föt, svefnaðstaða, vasapeningur, greiðsla fyrir tómstundaiðkun og svona mætti lengi telja). Raunar er það svo í íslenska kerfinu að um leið og annað foreldrið byrjar að greiða hinu foreldrinu meðlög, fyrir utan að halda uppi barninu, þá fær það ekki lengur að kalla sig framfæranda.
Þetta er svona orðað í skattframtalinu (áhersla mín):
Á Íslandi fá framfærendur barna yngri en 18 ára ákvarðaðar barnabætur. Fullar barnabætur eru ákvarðaðar vegna barnsins fyrir fæðingarárið en engar fyrir árið þegar barnið nær 18 ára aldri. Eingöngu framfærendur barna eiga rétt á greiðslu barnabóta. Við ákvörðun þess hver telst framfærandi barns er fyrst og fremst litið til þess hjá hverjum barnið er skráð til heimilis í árslok samkvæmt Þjóðskrá og skiptir ekki máli þótt barnið hafi ekki verið skráð þar allt árið. Sá sem greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi. Barnabætur eru ákvarðaðar við álagningu opinberra gjalda sem fer fram árið eftir tekjuárið og eru barnabætur greiddar út í tvennu lagi, fyrri greiðslan er 1. júní og sú síðari 1. október. Sjá nánar A. lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Það mætti túlka þetta fyrirkomulag þannig að það sé einfaldlega verið að segja við feður (meirihluti meðlagsgreiðenda) að þeir fái ekki þessar blessuðu barnabætur af því að þeir greiða meðlög til móður, og óháð því hvað barnið fær að sjá föður sinn mikið og vera með honum.
Í Danmörku enda skilnaðir foreldra oftast á jafnri umgengni, viku og viku, og meðlög eru að hluta frádráttarbær frá skatti svo foreldrar greiða oft meðlög til hvors annars og njóta þannig báðir frádráttarins (ekki í anda laganna en látið óafskipt). Barnabætur fylgja lögheimili barnsins og einnig er algengt að foreldrar deili slíkri skrásetningu (ef börnin eru fleiri en eitt) og fá þá báðir hluta af barnabótunum.
Á Íslandi er umgengni barna við föður sinn yfirleitt skert og jafnvel alveg stöðvuð, hann fær að borga meðlögin, sér ekki krónu af barnabótunum og þarf að auki að kyngja þeirri súru pillu að fá ekki að kalla sig framfæranda í pappírsvinnu hins opinbera þótt hann haldi vissulega heimili þar sem er herbergi fyrir barn (eða börn), matur í ísskápnum fyrir það og endalausir reikningar sem fylgja tómstundum þess, skólamáltíðum og fatakaupum.
Þetta er viðbjóðsleg og niðurlægjandi framkoma af hálfu hins opinbera á Íslandi og má alveg jafna að fullu við aðskilnaðarstefnu, skipulagða kúgun, mismunun gagnvart kynferði og barnaníð.
Það er fátt sem ég titla mig með meira stolti en að vera faðir með börn á framfæri - framfærandi! Að fráskildir feður á Íslandi þurfi að skrifa undir að vera ekki framfærendur til að geta skilað inn skattframtali er skipulagt ofbeldi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.