Föstudagur, 26. janúar 2024
Regluverkið til bjargar bákninu
Íslendingar eru þjóð sem hefur í meira en þúsund ár ekki bara haldið lífi á vindblásinni eldfjallaeyju við heimskautsbaug heldur tekist að skapa eitt besta samfélag í heimi á því skeri. Þetta hafa þeir getað af því þeir hafa hugsað í lausnum, sem er andstæða þess að festa sig í vandamálunum. Þetta gera þeir sjaldan betur en þegar náttúran ógnar mannlífinu. Í Vestmannaeyjum var sjó sprautað á flæðandi hraun og núna eru reistir varnargarðar í kringum byggðir og orkuver til að stöðva hraun og breyta stefnu þess, og hefur hreinlega gengið vel. Snjóflóð eru líka tamin með varnargörðum sem eru ekki lítil mannvirki.
Þetta geta Íslendingar og gera þegar þeim er ekki haldið niðri af regluverkinu, eins og mjóum unglingi í júdóglímu við spikfeitan, fullorðinn karlmann.
En væri þá ekki ráð að jafna leikinn? Jú, auðvitað. En þróunin er í öfuga átt. Bráðum verður búið að hlaða hópi spikfeitra karlmanna á unglinginn og hann kafnar til dauða.
Ef núverandi regluverk væri við lýði en árið er 1970 væru Íslendingar þá búnir að virkja Sogið og reisa Búrfellsvirkjun? Reisa háspennulínurnar frá hálendinu? Eða koma á laggirnar hitaveitu? Kannski, en kannski ekki. Og við getum gleymt því að á Íslandi væri hreindýrastofn.
Í dag tekst ekki einu sinni að gera það sem þarf augljóslega að gera og er fyrir löngu byrjað að bíta fólk og fyrirtæki á sársaukafullan hátt. Nema ef það er eldgos eða snjóflóð. Þá bráðnar regluverkið í burtu og menn geta hafist handa.
Regluverkið er auðvitað ekki hannað til að vernda umhverfið, stuðla að sjálfbærum lausnum, verja líf og heilsu fólks eða passa upp á velferð dýra. Það er hannað fyrir báknið og kemur því til bjargar ef einhver stjórnmálamaður þykist hafa umboð til að skera aðeins í það eða mjaka því aðeins til hliðar í nafni almannahagsmuna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.