Þriðjudagur, 26. desember 2023
Fjölmiðlar í aftursætinu
Frá því veirutímar skullu á hefur það orðið sífellt fleirum ljóst að fjölmiðlar eru bara ein möguleg aðferð til að finna upplýsingar, og mögulega léleg leið í þokkabót. Þeir þögguðu niður í rannsóknum, vísindamönnum, álitsgjöfum, greinendum og jafnvel prófessorum. Þeir tóku að sér hlutverk gjallarhornsins fyrir yfirvöld. Þeir köstuðu sér gagnrýnislaust út í hræðsluáróður og skautun á samfélaginu.
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, og mætti jafnvel segja að fjölmiðlar hafi komið sér rækilega í aftursæti minni, sjálfstæðari fjölmiðla sem sumir eru varla mikið meira en einn blaðamaður, eða bara einhver gaur á samfélagsmiðlum.
Nýlegt dæmi eru umfjallanir Nútímans um mál íslenskrar móður sem hefur brennt brýr svo árum skiptir og súpir nú seyðið af því. Í kjölfarið fóru aðrir miðlar að sýna inntaki þess máls áhuga frekar en bara slagorðunum á skiltum oftækishópa.
(Biðin eftir rækilegri rannsóknarblaðamennsku á umframdauðsföllum í kjölfar sprautu heldur áfram.)
Á Brotkast eru reglulega tekin fyrir mál og hliðar á þeim sem fá lítið pláss í öðrum miðlum. Þar slær líka hjarta málfrelsisins, án afsakana!
Fréttin.is kom eins og bjargvættur inn í íslenska umræðu þegar kæfandi þögn hinna miðlanna var orðin óbærileg og hefur haldið sínu striki alla tíð síðan.
Nýjasti gullmolinn í hópi óháðra, sjálfstæðra og hugrakkra miðla á íslenskri tungu er Snorri Másson, ritstjóri. Það var ánægjulegt að sjá að löng vist hans í Ríkisútvarpi Útvaldra Viðhorfa (RÚV) náði ekki að eyðileggja hann.
Ekki má svo gleyma Útvarpi Sögu og Mitt val og vefritinu Krossgötum.
Kannski mætti kalla alla þessa miðla afsprengi veirutíma þótt sumir séu eldri en veiran. En í flestum málum sem skipta máli gildir í dag að það getur enginn kallað sig upplýstan um umræðuna eða mál málanna nema hafa skoðað a.m.k. einhverja þeirra reglulega. Sérstaklega mæli ég með því að fólk kynni sér það sem stundum er kallað samsæriskenningar en má oft kalla undanfara frétta á öðrum miðlum.
Fjölmiðlar höfðu lengi verið í ákveðinni tilvistarkreppu - tóku sig mjög hátíðlega, forðuðust að taka á erfiðu málunum og farnir að reiða sig á æsandi fyrirsagnir til að laða að músarsmelli. Á veirutímum ákváðu þeir svo meira og minna allir sem einn að gerast málpípur og svíkja þar með endanlega neytendur frétta. Þeir voru kannski hægt og rólega á leið í gröfina en tóku svo upp á því að grafa hana sjálfir. Gott á þá! Áfram sjálfstæð hugsun og raunveruleg blaðamennska!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.