Mun landsbyggðin bjarga Íslandi?

Ég á marga vini sem ólust upp á mölinni en hafa síðan á fullorðinsárum valið að flytja út á land til að stofna þar fjölskyldu. Allir bera því söguna vel, hvort sem það er vinkona á Hveragerði eða kunningi á Egilsstöðum. Það kvartar enginn yfir lífinu á landsbyggðinni þótt það sé lengra í Kringluna. Á landsbyggðinni er minni umferð, meira samfélag og jafnvel betri skólar að sögn. 

Það þarf heldur ekki að dvelja lengi á landsbyggðinni til að finna þar hið sanna íslenska hugarfar. Komi upp vandamál þá er það leyst. Minna traust er á að hið opinbera komi til bjargar. Þar eru meira að segja flugeldasýningar á sumrin. Börn stikla á steinum við ár og læki og koma í drullugum skóm úr leik í einhverjum skurði. 

Ef leið mín liggur aftur til Íslands þá hugsa ég að ég myndi vilja búa út á landi. Til vara í Mosfellsbæ. Reykjavík er auðvitað sokkið skip með ónýta innviði og skóla og svo skuldsett að það er engin von að svo mikið sem rispa höfuðstólinn. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sýna lítil ummerki um að ætla sér að ranka úr rotinu í þeim vandræðamálum sem bæði sorphirða og Borgarlína eru orðin. 

Landsbyggðin þarf auðvitað líka að hugsa sinn gang. Hún er of háð ríkisstyrkjum og hún hefur látið ríkisvaldið dæla of mörgum verkefnum í sig sem sliga alla sjóði. Sjálfstæði sveitarfélaga til að ráða sínum málum sjálf í takt við aðstæður þarf að aukast. Þannig geta sum sveitarfélög reynt að lokka til sín aldraða á meðan önnur reyna að krækja í unga fólkið sem borgar skatta í langan tíma. Lítil sveitarfélög halda áfram að vinna þvert á landamæri sín, svo sem að skólaakstri og ýmis konar félagslegri þjónustu. 

Fyrir um 15 árum fékk ég tækifæri til að vinna fjarvinnu frá Íslandi í um það bil ár. Þá hétu forritin Skype og MSN Messenger. Núna er slíkt fyrirkomulag orðið mjög útbreitt. Lífið á landsbyggðinni er ekki bara fiskur og búfé - frá Kópaskeri er hægt að vinna að stórum alþjóðlegum verkefnum eða fylgjast með heitavatnsleiðslu á Selfossi. Landsbyggðin getur boðið upp á meiri lífsgæði, hagkvæmara húsnæði og seinast en ekki síst: Íslenska hugarfarið.

Landsbyggðin - bjargvættur Íslands? Mögulega!


mbl.is Flutti á Djúpavog fyrir börnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill, Geir

Er algjörlega sammála inntaki pistilsins.

Gleðileg jól og farsæl komandi ár.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 26.12.2023 kl. 15:31

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Símon,

Takk fyrir innlitið og athugasemdina og gleðileg jól og farsælt komandi ár sömuleiðis!

Hvar ert þú staddur á skerinu, ef ég mætti spyrja?

Geir Ágústsson, 26.12.2023 kl. 19:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband