Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna

Það má oft vera áhyggjufullur þegar þingmenn tala um að breyta þurfi löggjöf. Yfirleitt þýða slíkar breytingar hærri skatta, meira kostnaðarsamt eftirlit, skerðingar, boð og bönn, auknar heimildir ráðherra til að leggja á íþyngjandi reglugerðir og allskyns flókin völundarhús undanþága, leyfirveitinga og flækjustiga.

En mér var nýlega bent á undantekningu frá þessu.

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa nú lagt fram (og aðrir lýst stuðningi við) frumvarp til breytinga á lögum nr. 162/2006 um fjármögnun stjórnmálaflokka. Þar er lagt til að lækka ríkisstyrki til flokkanna (sem sumir eru ekki einu sinni á þingi) og hækka takmörk á frjálsum framlögum. 

Segir í greinargerð við frumvarpið:

Það er eindregið mat flutningsmanna að sú þróun sem hafi orðið hér á landi vegna hárra framlaga hins opinbera til stjórnmálaflokka dragi úr stjórnmálastarfi flokka og tengslum þeirra við flokksmenn sína og við atvinnulífið, enda þurfa flokkarnir sífellt minna á þeim að halda í öruggum faðmi hins opinbera. Grundvöllur þess að stjórnmálaflokkar séu hornsteinn lýðræðis í landinu er sá að þar fari fram virk starfsemi og þjóðmálaumræða, en ríkiskostunin hefur dregið úr hvata flokkanna til að sinna því hlutverki. Það er öfugþróun enda eru stjórnmálaflokkar einungis skipulögð lýðræðisleg samtök fólksins sem þá myndar. Í framkvæmd hefur fjárstyrkur hins opinbera því hamlað starfsemi og sjálfstæði stjórnmálaflokka sem gengur þvert á upphaflegt markmið með setningu laganna. Þá hefur fjáraustur hins opinbera til stjórnmálaflokka síst dregið úr umfangsmikilli kosningabaráttu, eins og vonast var til með setningu laganna og er miklum fjármunum skattgreiðenda varið í auglýsingaherferðir stjórnmálaflokka.

Hérna tek ég undir hvert orð. Hér er líka við hæfi að rifja upp hvað Björn Jón Bragason benti nýlega á í pistli:

Styrkjunum er á endanum að mestu eytt í aðdraganda kosninga, en þeim er ekki varið til reglubundinnar starfsemi — til að styrkja lýðræði — eins og hugmyndin var kannski í upphafi.

Ég vona að þetta frumvarp nái fram að ganga. Núna er Íslendingum sagt að herða sultarólina á meðan ríkisstjórnin fer eins og sinueldur í gegnum alla varasjóði og leggur að auki á nýja skatta. Stjórnmálaflokkarnir eiga hér að sýna gott fordæmi.

Það verður spennandi og fróðlegt að sjá hvernig atkvæðin falla og afhjúpa þá þingmenn Alþingis sem vilja ræna þig til að fjármagna kosningaherferðir sínar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Grímulaus tilraun til að útrýma smáflokkum, fækka röddum og koma hinum undir stjórn fjársterkra aðila. Það verður geðslegt þegar Samherji stjórnar allri umræðu um sjávarútveg og fiskeldi á Alþingi, Arion umræðu um efnahagsmál og fjármálafyrirtæki, Alma húsnæðis og leigumarkað og Hagar verslun og viðskipti.

Vagn (IP-tala skráð) 25.11.2023 kl. 14:24

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Á Íslandi mælast 9 flokkar með yfir 3% fylgi í Þjóðarpúlsi Gallup, en 1 flokkur á hverja 44 þús. íbúa. Það myndi gera 135 flokka í dönsku samhengi.

Í Danmörku mælast 12 flokkar með yfir 3% fylgi.

Stundum mætti huga meira að gæðum en magni.

Geir Ágústsson, 25.11.2023 kl. 15:38

3 identicon

Hvernig ætli gæðin séu þar sem er einn flokkur með allt fylgið? Gæði þjóðmálaumræðunnar eru sennilega ekki minni þar sem raddirnar eru fleiri. Stundum mætti huga meira að því hvað eru gæði og hvað er þægilegast fyrir stóra flokka með sterka bakhjarla sem vilja meiri völd.

Vagn (IP-tala skráð) 25.11.2023 kl. 16:21

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ert væntanlega að senda hérna væna sneið á Samfylkinguna sem mælist stærst núna og er eftirlæti margra ríkra manna.

En hinir flokkarnir þurfa einfaldlega að reyna höfða til fólks sem langar að styðja þá með fé og vinnu.

Ég sé ekki að skattgreiðendur eigi að þurfa halda úti Miðflokki og Viðreisn til að efla lýðræðið, auk flokka sem ná ekki einu sinni að skrapa saman í 4% fylgi og eru að gera hvað við peningana?

Geir Ágústsson, 25.11.2023 kl. 17:18

5 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ætla þeir ekki að fjarlægja 5 prósenta viðmiðið sem fyrirbyggir nýja alvöruflokka?

Guðjón E. Hreinberg, 25.11.2023 kl. 18:27

6 identicon

Samfylkingin er eitt dæmi, Sjálfstæðisflokkurinn annað áberandi grófara dæmi um hvernig peningar ríkra stuðningsmanna móta stefnuna og stjórna framgöngu þingflokksins. Þeir sem til dæmis styðja landbúnað, náttúruvernd, frjálsa fjölmiðlun, hag almennings og velferð dýra eiga sér fáa stuðningsmenn meðal auðmanna og stórfyrirtækja. Og að þagga niður í þeim og koma út af þingi kæmi eflaust þingmönnum, og þingmannsefnum, Sjálfstæðisflokksins vel. Það er svo þægilegt að geta sótt stefnuna til Samherja, Lyfju, Olís og Haga og þurfa ekkert að hlusta á einhverjar mótbárur og óánægjuraddir. Nærri því eins og þjóðin sé öll sammála fyrir allan peninginn.

Vagn (IP-tala skráð) 25.11.2023 kl. 18:49

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Þú heldur því varla fram að ríkisstjórnir með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs hafi dansað í takt við þarfir og kröfur Samherja, Lyfju, Olís og Haga seinustu áratugi?

Á vakt þessa flokks er búið að koma á kolefnisskatti og bankasköttum og fiskveiðigjaldi, sveitarfélög fá að ganga lausum hala í skattlagningu og skuldsetningu og vanrækslu á uppbyggingu innviða, núna stefnir í að flug- og skipafélögin þurfi að senda neytendum enn hærri reikninga vegna nýrra kolefnisskatta, skuldirnar eru svimandi og afleiðingar peningaprentunar (verðbólga) veirutíma að blóðmjólka heimili og fyrirtæki, og íþyngjandi kröfur á fyrirtæki í formi eftirlitsgjalda og endurmenntunar á rjúkandi uppleið, svo eitthvað sé nefnt, og báknið bólgnar út.

Það er í raun erfitt að hugsa sér ríkisstjórn sem er meira andsnúin þörfum fyrirtækja sem eiga þó að standa undir bákninu.

Kjósendur hafa auðvitað refsað Sjálfstæðisflokknum hressilega við þetta daður við vinstristefnumálin.

Eftir situr auðvitað að vissulega styðja Sjálfstæðisflokkurinn og VG og fleiri flokkar við núverandi kerfi fiskveiðiheimilda, sem betur fer, og að landbúnaðurinn eigi að vera ölmusaþegi frekar en atvinnugrein, því miður.

En ríkisstyrkir til stjórnmálaflokka efla ekki lýðræðið, valdefla ekki kjósendur, leiða ekki til aukinnar þátttöku almennings í stjórnmálastarfi og tryggja ekki að allar raddir hafi sér talsmann, hvorki á þingi né í þjóðmálaumræðunni.

Þú einblínir auðvitað af öllum mætti á flokk sem mælist í dag með 20% fylgi og gleymir 80% hlutanum. Svokölluðu öfug nálgun á Pareto-regluna, og þar með nálgun sem má hunsa.

Geir Ágústsson, 25.11.2023 kl. 19:22

8 identicon

Þeim sjálfsagt svíður það að hafa ekki verið einráðir og þurft að koma í gegn málum sem eigendurnir eru ekki mjög ánægðir með. Og tapið má að einhverjum hluta rekja til þess að samþykktir félagsmanna á landsfundum hafa vikið fyrir hagsmunamálum fjársterkra eigenda. Að selja svo pabba sínum, stórum eigenda, hlut í banka þvert á reglur, loforð og vilja annarra stjórnarflokka bætti ekki úr. En hefði verið falið ef ekki fyrir þessa pirrandi smáflokka sem ríkið heldur lífi í.

Það varst svo þú sem dróst nafngreinda flokka inn í umræðuna og þú sem varst að einblína á fylgi flokka.

Vagn (IP-tala skráð) 25.11.2023 kl. 20:28

9 Smámynd: Geir Ágústsson

"Að selja svo pabba sínum... "

Takk fyrir þetta. Ég gat ekki varist hlátri. Bankasýsla ríkisins, sem er fengin til að framkvæma verkefni án aðkomu framkvæmdavaldsins, er greinilega núna einhvern veginn með manneskju í heiminum sem hún getur kallað "pabba".

Takk fyrir innleggið. Virkilega.

Geir Ágústsson, 25.11.2023 kl. 21:16

10 identicon

Ábyrgðinni á framkvæmdinni getur ráðherra ekki vikið sér undan með því að láta einhverja stofnun framkvæma vilja sinn. Kvittun ráðherra er undir kaupendalistanum en ekki símadömu á ríkisstofnun.

Vagn (IP-tala skráð) 25.11.2023 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband