Föstudagur, 25. ágúst 2023
Hvað er raunverulegur niðurskurður?
Til að ná markmiðum um hallalausan rekstur ríkissjóðs á komandi árum samhliða stórum verkefnum er gert ráð fyrir 17 milljarða króna hagræðingu til hægja á vexti útgjalda, að fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þetta hljómar eins og stór tala en er það ekki. Ríkisvaldið brennir á árinu 2023 um 1334 milljörðum og 17 milljarðar svara til 1,2% lækkunar á þeirri upphæð. Það eru varla meira en skekkjumörkin í þeirri miklu óvissu sem fjárlög eru.
Gleymum því svo ekki að skattgreiðendur borga ekki bara í ríkishítina. Þeir þurfa líka að fóðra sveitarfélögin, og sum þeirra eru einfaldlega byrjuð að borga af einum yfirdrætti með öðrum.
Ég vann einu sinni í einkafyrirtæki sem þurfti ítrekað að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Ein slík breyting var skellurinn í hinu alþjóðlega fjármálakerfi árið 2008 og önnur var hrun á olíuverði ekki mörgum árum síðar. Í bæði skiptin var ráðist í niðurskurð sem þurfti bæði að varðveita fjárhag fyrirtækisins og tryggja að það gæti þjónað sínum mörkuðum með framleiðslu og þróunarvinnu. Niðurskurðurinn í báðum tilvikum var mikill og í kringum 20-25% starfsmanna sagt upp. Ég sá marga samstarfsmenn hverfa, þar á meðal reynslumikla sérfræðinga. Ferðalög voru stöðvuð eins mikið og hægt var. Allar veislur voru skornar við nögl. Samið var við alla birgja og verktaka upp á nýtt. Meðal hugmynda var meira að segja að slökkva á sjálfsölum á nóttunni.
Auðvitað er drepleiðinlegt að vinna í slíku umhverfi en stundum er það einfaldlega nauðsynlegt. Fyrirtækið safnaði aldrei skuldum og var alltaf vel í stakk búið til að stökkva á næstu uppsveiflu.
Mér finnst varla hafa tekið því að blása í sérstakan blaðamannafund til að tilkynna um 1% lækkun á ríkisútgjöldum.
Fréttin er kannski sú að ríkisvaldið er einfaldlega ennþá á bleiku skýi og fjarri því jarðtengt.
17 milljarða hagræðing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Venjan er að ríki þenjast út þar til raunveruleikinn segir "nei," með tilheyrandi byltingu.
Fólk er ekki gáfaðara en svo.
Ásgrímur Hartmannsson, 25.8.2023 kl. 20:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.