Blaðamennska

Ég hef áður nefnt það hér að af öllum íslenskum fjölmiðlum þá finnist mér blaðamennskan á Vísi vera sú versta. Nú skal tekið dæmi til að rökstyðja þá persónulegu skoðun mína.

Nýleg frétt um lagabreytingar í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna um þungunarrof (eða fóstureyðingu, eins og það var einu sinni kallað) ætti í raun að vera einfalt að skrifa. Ríki eru að breyta því hvað margar vikur mega líða frá getnaði til þungunarrofs og rökin fyrir því fjölbreytt og oft umdeild. Sumir fagna og aðrir mótmæla. Einfalt mál að fjalla um, ekki satt? Greinilega ekki.

Öldungadeildarþingmenn í ríkisþingi Suður-Karólínu samþykktu í gær að banna þungunarrof eftir sex vikna meðgöngu. Fæstar konur vita að þær eru þungaðar innan sex vikna og er í raun verið að alfarið banna þungungarof í ríkinu en Repúblikanar hafa gripið til sambærilegra aðgerða víða um Bandaríkin.

Ég sem hélt að frjósamar konur sem eru ekki óléttar færu á blæðingar á um 28 daga fresti, sem fyrir talnaglögga svarar til fjögurra vikna. Konur fylgjast oftar en ekki vel með tíðahring sínum og taka eftir því þegar blæðingum seinkar, sérstaklega eftir að hafa stundað óvarið kynlíf. En kannski einhver geri leiðrétt mig hérna.

Núgildandi lög Suður-Karólínu heimila konum að gangast þungunarrof á fyrstu 22 vikum meðgöngu.

Hérna er óbeint gefið til kynna að 22 vikur séu alveg eðlileg mörk. Í Danmörku eru mörkin 12 vikur og færri danskar konur en karlar styðja lengingu þess tíma og 22 vikur eru varla í myndinni sem hugmynd. Kannski blaðamaður sé að undirbúa grein um Repúblikana í Danmörku þessa dagana. Hver veit! 

Í Þýskalandi er þungunarrof nánast algjörlega ólöglegt en heimilt til 12 vikna (14 vikna frá seinustu blæðingum) gegn því að þiggja ráðgjöf. Hvar er blaðamaður núna?

Frumvarpið verður sent til Henry McMaster, ríkisstjórans, sem segist ætla að skrifa undir það en hann er einnig Repúblikani. Samkvæmt því mega konur gangast þungunarrof innan tólf vikna í tilfellum nauðgunar og/eða sifjaspells. Þar eru einnig undanþágur sem snúa að heilsu kvenna og fóstra.

Þessir Repúblikanar! Ætla sér að innleiða þýska fyrirkomulagið eins og hver annar afdalamaður úr bandarísku miðríkjunum!

Frá því Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til þungunarrofs úr gildi í fyrra hafa Repúblikanar víðsvegar um Bandaríkin hert lög um þungunarrof mjög. Þetta á sérstaklega við ríki í sunnanverðum Bandaríkjunum, þar sem Repúblikanar fara með stjórnartaumana.

Hvar stendur í stjórnarskrá Bandaríkjanna að konur eigi rétt á að fara í þungunarrof? Það gerir það auðvitað ekki. Það sem breyttist var að fyrri dómur um meintan rétt var felldur úr gildi enda þakinn göllum sem meira að segja stuðningsmenn þungunarrofs viðurkenna. 

En sem afleiðing þess þá eru Repúblikanar að innleiða evrópska nálgun á þungunarrof. Verra er það ekki.

Nú er ég persónulega á þeirri skoðun að þungun sem uppgötvast snemma eigi ekki að mæta fyrirstöðum þegar kemur að þungunarrofi. Um leið er þungunarrof ekki sniðug getnaðarvörn eins og smokkur og getnaðarvarnarpilla, enda er í raun verið að eyða mannslífi. Mér finnst nálgun evrópskra ríkja yfirleitt vera skynsamleg, og fagna því að mörg bandarísk ríki séu að taka hana til sín.

En það breytir því ekki að blaðamaður er hérna algjörlega úti á þekju, skrifaði lélega frétt fulla af fordómum og eigi kannski að hugleiða grunnskólakennslu í stafsetningu í stað ferils sem einhvers konar fjölmiðlamaður. En kannski það sé ástæðan fyrir því að Vísir réði hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

P.S. Rétturinn til að ákvarða fóstureyðingar féll í skaut ríkjanna 50 í stað alríkisins. Þar sem Bandaríkin er nánast heimsálfa og menningin blæbrigðarík og fólks samsetning breytileg, þá er búist við mismunandi niðurstöðu hvernig og hvort fóstureyðingar verða leyfðar eða útfærðar.

Birgir Loftsson, 24.5.2023 kl. 20:09

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Birgir,

Það er jú heila málið. Þetta jafnast á við að Ísland fengi aftur réttinn til að ákvarða svona mál á eigin spýtur í stað þess að sætta sig við þýskar kröfur í gegnum EES-tilskipanir (eftir að hafa misst þann rétt um tíma). Það er nú öll dramatíkin.

Kannski nærtækt dæmi: Ísland sem fullvalda ríki gat tekið eigin ákvarðanir um meðhöndlun Icesave-kröfugerðanna frekar en að falla á hnén fyrir framan Evrópusambandið. Sem betur fer.

Geir Ágústsson, 24.5.2023 kl. 20:21

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Næsta frétt blaðamanns verður væntanlega sú að krefjast þess að Íslendingar fái að ráða þungunarrofslögum Færeyja. 

"Today, a Faroese woman has to fulfill one of four special criteria to be legally eligible for an abortion: She must either be in severe danger, have been exposed to rape or incest, carrying a fetus at risk of suffering from severe physical illness, or be deemed unable to take care of her child."
Faroe Islands hold on to restrictive abortion laws | Courthouse News Service

Geir Ágústsson, 24.5.2023 kl. 20:23

4 Smámynd: Birgir Loftsson

Vísir er ekki mikils virði hjá mér, afspyrnu léleg fréttamennska. En nóta bene, það er munur á fósturvísir og fóstri. Fóstrið telst byrjað að myndast við tveggja mánaðar meðgöngu en áður var það fósturvísir. 

Birgir Loftsson, 24.5.2023 kl. 20:41

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ég nenni ekki lengur að lesa fréttir á DV nema til samanburðar.  Og til hvers þá?  Þetta kemur allt frá CNN eða þaðan af verri stað.  Þar er aðallega hægt að skemmta sér yfir fyrirsögnum:

"Rödd íbúa sé algjörlega hunsuð."  Veit ekki meir.

"Sjálf­stæðis­flokkurinn [hefur] verið við stjórn í tíu ár."  So?

"Bíl-og ból­laus líf­stíll í einni íbúð á Snorra­braut."  Ég er líka alltaf bíllaus í eldhúsinu heima.  Svona mestmegnis.

Og svo er þetta raunveruleg fyrirsögn sem er til: "Þetta er allt í móðu."

Ásgrímur Hartmannsson, 24.5.2023 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband