Mánudagur, 17. apríl 2023
Ruslaborgin
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að urðun á rusli sé stórt vandamál í Reykjavík. Of mikið sé urðað. Allt þetta rusl leiðir til losunar á lofttegundum.
Manni sýnist kannski að hér sé fjarlægðin frá ráðhúsinu orðin of mikil því íbúar telja mögulega að annað vandamál sé stærra: Að rusl sé yfirleitt sótt.
Tunnurnar hafa minnkað, sorphirðugjaldið hækkað, ruslabílunum fækkað og sífellt færri hlutir sem mega enda í ruslatunnunni og þarf að keyra hingað og þangað um bæinn á sífellt færri móttökustöðvar.
Eða svo mér er sagt. Og sé það svo þá er bara komið enn eitt dæmið um opinberan rekstur sem hækkar í kostnaði og minnkar í gæðum.
Víða um heim er rusl talið vera mikilvægt hráefni, ýmist í eitthvað sem má nýta í annað á verðmætaskapandi hátt (án niðurgreiðslna) eða til orkuöflunar. Danir flytja til að mynda inn rusl til orkuframleiðslu.
Íslendingar telja hins vegar að gríðarlega smámunasöm flokkun á því örlitla magni sem 370 þúsund hræður framleiða af rusli vera ógn við loftslag Jarðar. Þeir sóa því gríðarlegum verðmætum í að keyra með ruslið hingað og þangað, pakka því saman í skip sem sigla með það á hjara veraldar til að enda þar í ofnum eða efnablöndum.
Gefið, auðvitað, að það sé yfirleitt hægt að losna við ruslið, sem er nú kannski sú þjónusta sem íbúar þurfa fyrst og fremst á að halda.
Vill koma böndum á ruslrekstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.