Þriðjudagur, 14. mars 2023
Viltu borða viðbjóðsleg skordýr eða ljúffengt kjöt?
Ég hitti nokkra vini í dag á veitingastað sem sérhæfir sig í að bjóða upp á gott kjöt. Hlaðborð staðarins býður upp á 15 mismunandi tegundir af kjötstykkjum og allt sem ég prófaði var gott. Kjöt er gott, hollt, nærandi og mettandi.
Flestir vilja geta borðað gott kjöt. Ein stærsta hindrunin er oft verðið, en menn láta sig oft hafa það. Nú eru hins vegar tímar fallandi kaupmátts peninga og íþyngjandi reglugerða á alla sem gera eitthvað verðmætaskapandi (þeir sem gera ekkert verðmætaskapandi fá undanþágur og niðurgreiðslur). Meðal afleiðinga er hækkandi kjötverð. Færri hafa efni á þeim mat sem þeir vilja.
(Ég veit að landbúnaður er yfirleitt niðurgreiddur í vestrænum ríkjum en það er uppbót fyrir ríkismiðstýringu, og er önnur saga.)
Þetta er ósköp einfalt, en hvernig getur blaðamaður flækt það? Jú, með þessum hætti:
Rætt hefur verið um kjötneyslu í samhengi við umhverfismál en margir hafa vaxandi áhyggjur af afleiðingum loftslagsbreytinga. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur reiknað út losun gróðurhúsalofttegunda frá kjötframleiðslu.
Áætlað er að framleiðsla á kjöti og dýraafurðum valdi tæpum 15% af allri losun gróðurhúsalofttegunda af mannana völdum. Framleiðsla nautgripaaafurða losar langmest en framleiðsla á kjúklingum og svínakjöti losar til dæmis þriðjungi minna af gróðurhúsalofttegundum.
Hvort samdrátt í kjötneyslu megi rekja til umhverfissjónarmiða skal ósagt látið eða hvort sífellt fleira fólk kjósi að borða ekki kjöt og kjötafurðir vegna sinna lífsskoðana.
Ef til vill hefur sambland af þessu tvennu áhrif eða kannski eru landsmenn farnir að borða minni skammta eða hlutfall kjöts á diskunum hefur minnkað.
Umhverfissjónarmið! Einmitt það. Svangur neytandi labbar um verslun, sér kjöt, hafnar því og hugsar: Umhverfið!
Auðvitað hugsar hann ekkert slíkt. Hann hugsar: Verðið!
Hann labbar síðar framhjá hillu sem hann hafði ekki séð áður og býður upp á gæludýrafóður en er selt sem mannamatur: Skordýr. Ódýrt, auðvitað, enda á undanþágum og jafnvel niðurgreiðslu. Gott og vel, engisprettur verða það frekar en lambakjöt.
Það má vel vera að það sé svokallað frjálst val að geta valið á milli rándýrs mannamats og niðurgreidds gæludýramats, en menn vilja mannamat og yfirvöld vilja eitthvað annað, og sá sem getur beitt mestu ofbeldi ræður.
Góða matarlyst, og láttu ekki engisprettuleggina standa í hálsinum á þér!
Landsmenn draga úr kjötneyslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:58 | Facebook
Athugasemdir
15 mismunandi tegundir af kjötstykkjum. Ætli katta, rottu og hundakjöt hafi verið þar á meðal? Og svo þykja pöddur herramannsmatur ef þær koma úr sjó, eins og humar og rækja.
Gæludýrafóður þarf heldur ekki að vera neitt slor. Sumir ala sín gæludýr á bestu og dýrustu kjötbitum sem fást.
Og það er lambakjötið sem engin borðar nema það sé ríflega niðurgreitt. Gæludýrafóður nýtur hins vegar hvergi niðurgreiðslna.
Matarvenjum má breyta, sé fólk ekki þeim mun fordómafyllra og matvandaðra. Unga fólkinu í dag þykir margt af því sem afar þeirra og ömmur borðuðu með bestu lyst hið mesta ógeð. Kannski barnabörnum þínum verði flökurt við að sjá þig japla á nautalund eða kótilettu.
Vagn (IP-tala skráð) 15.3.2023 kl. 11:31
Vagn,
Þú getur kannski frætt okkur sem heimsækja þessa síðu hvernig er best að matreiða ánamaðka og bjöllur?
Geir Ágústsson, 15.3.2023 kl. 12:14
Mér sýnist að þó eldunarkunnáttuna skorti þá sé það ekki það sem stoppi þig og komi í veg fyrir að þú borðir framandi mat.
Vagn (IP-tala skráð) 15.3.2023 kl. 14:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.