Fyrsta verkfallið mitt

Mikið er nú fjallað um svolítil verkföll á Íslandi. Þá rifjast upp fyrir mér mín fyrsta verkfallssaga.

Ég var ungur maður á menntaskólaaldri og verkamaður á byggingasvæði orkuvers og þar að vinna fyrir verktaka í rafmagnshlutanum. Þetta var skemmtileg vinna og samstarfsfólkið gott en launin lág, eins og gefur að skilja fyrir ófaglærðan ungling. Þó fannst mér ástæða til að biðja um launahækkun eftir svolitla hvatningu, herti upp hugann og gekk á yfirmanninn.

Nei, því miður, var svarið. Ég væri nú þegar á hæsta taxtanum. 

Á hæsta taxtanum? Ég vissi ekki að ég væri á taxta og hvað þá að hann héldi mér niðri í launum (ef svar yfirmannsins var heiðarlegt).

Ég talaði við vin minn í kjölfarið. Hann var líka verkamaður á byggingasvæði en fékk svokallað jafnaðarkaup: Einhvers konar meðaltal dagvinnu- og yfirvinnutaxta. Sem sagt, hærri dagvinnutaxti, eða það var mín hugsun.

Ég talaði við atvinnurekanda hans, fékk starf og hætti í fyrra starfinu.

Þetta breytti voðalega litlu fyrir mig hvað varðaði heildarlaun og vinnan var jafnvel leiðinlegri á köflum (auðveldari en leiðinlegri), en lærði töluvert á þessu. Ein lexían er sú að yfirleitt má finna valkosti. Stundum þýða þeir lægri laun, stundum hærri, stundum óbreytt. Stundum verður vinnan leiðinlegri en auðveldari. Stundum, með heppni, skemmtilegri og auðveldari. Að skella í verkfall og skipta um vettvang hefur gagnast mér alla mína starfsævi. Það er mín stærsta lexía.


mbl.is Myndskeið: Sólveig kallaði á gesti Fosshótela
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Láttu ekki svona Geir.

Þú lítillækkar þig svo mikið með þessari færslu sem er beinn áróður gegn mennskunni, og þér að segja Geir, þá þekki ég fáa, sem tjá sig í dag, sem virða mennskuna eins mikið og þú.  Og þetta segi ég um frjálshyggjumann, sem fyrirfram, það er ef ég leita langt aftur í tímann, ég hefði haldið að væri í gagnstæðu liði.

Í alvöru Geir, hvaða röfl er þetta um tækifæri ungra manna sem sóttu menntun, og í millitíðinni unnu tilfallandi verkamannastörf, ekki á heilu ári, heldur á sumrin sem voru rúm og góð frá skólum og gerðu öllum kleyft að sækja menntun, það er að kostnaður væri ekki ásteytingarsteinn.

Hvað kemur það þessum viðbjóði við, sem ég veit að innst inni þú fyrirlítur af öllu þínu hjarta, sem markvisst vinnur að því að láta kenningar Locke raungerast á 21. öldinni, að þú hafir einhvern tímann farið í verkfall, og síðan lært að maður velur sér sín tækifæri.

Er þetta réttlæting fyrir nútíma þrælahald??, það er ert þú genginn í Samfylkinguna??, er þetta réttlæting fyrir þrælahald þess nútíma sem hófst með virkjun gufuaflsins, eða ert þú að réttlæta þrælahald frá upphafi skráðra sögu, sem og hinnar óskráðu???

Eða vissir þú bara ekki Geir hvað þú varst að segja með þessari dæmisögu þinni??

Eins og þú haldir að þrælahaldarar hafi eitthvað að gera með frelsi (ha ha ha) eða frjálsa samkeppni, og þér renni því blóðið til skyldunnar að rifja upp æskusögur þínar til að réttlæta nútímaþrælahald þeirra.

Veit ekki Geir.

Hins vegar veit ég að þú virðir áa þína, þú kemur til Íslands til að kynna börn þín fyrir þeim.

Í hvaða mínútu heldur þú að þau réttlæti þessa færslu þína??

Ég þarf ekki svarið Geir, ég veit að þú veist það.

Og þú þarft ekki einu sinni að leita innst inni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.2.2023 kl. 15:57

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jafnaðarkaup er óheimilt. Fyrir yfirvinnu á að borga yfirvinnukaup.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.2.2023 kl. 16:41

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ómar,

Þetta var nú bara fyrsta sagan. Ég hef farið í gegnum margar leiðir til að bæta kjör mín, gera vinnuna skemmtilegri og meira krefjandi, hef þurft að þola tímabil launa sem rétt svo héldu mér á floti, þurft að sækja fast á launahækkun án þess að vilja skipta um starf, farið í nýtt starf og lækkað í launum en fljótlega kominn vel yfir fyrri laun af því ég fékk fleiri tækifæri, og bara nefndu það.

En að standa með skilti úti og treysta á einhvern einstakling sem ég þekki ekki til að sækja betri kjör (laun, starfsaðstæður eða annað) - hef ekki ennþá gerst svo frægur.

Taxtar gera að verkum að lélegasti starfsmaðurinn fær of mikið í laun og sá besti of lífið. 

Geir Ágústsson, 10.2.2023 kl. 20:50

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Þetta var jú á tímum ósiðmenningar og barbaratíma einhvern tímann á bilinu 1994-1998. Sem betur fer er nú búið að taka samningaréttinn af flestu fólki sem vinnur með höndunum, og blóm í haga verið niðurstaðan síðan.

Geir Ágústsson, 10.2.2023 kl. 20:53

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Geir.

Þú minnir mig mjög á gríska þrælinn sem sagði að uppreisn Spartakusar hefði verið óþarfa upphlaup, hann sjálfur hefði alveg gert það gott, fyrst sem skrifari, síðan birgðateljari, og loks falið sú ábyrgð að stýra verslunarviðskiptum herra síns.

Alveg rétt, nema hann var bara ekki fjöldinn.

Og rökhyggjan að baki er að það hefði varla verið fjöldamorð (nefni ekki staðinn, en hann var í borg sem þá var í Sovétríkjunum), því eftirlifandi vitni hefði sagt að vissulegar var skotið af vélbyssum á hópinn sem stóð við gryfjubarminn, en hann var ósærður og lét sig bara falla til að vera eins og hinir, og ekki dó hann.

Ég er alls ekki að draga frásögn þína í efa Geir, eða gera lítið úr lífshlaupi þínu, en þú ert hins vegar að gera ofsalega lítið úr fjöldanum  sem er ekki í sömu sporum og þú.

En vitsmunalega finnst mér það sorglegt að þú skulir ekki átta þig á að þau kjör sem þér býðst, og þú gast samið um, eða þau lífskjör sem þú áttir aðgang að, voru öll tilkomin vegna fjölda sem barðist fyrir þeim.

Músin bakaði sko ekki brauðið þó hún yrði södd af molanum sem féll af borðinu, og ég held Geir að hún hafi vitað það allan tímann.

En brauðmolinn fæddi hana engu að síður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.2.2023 kl. 22:45

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Ómar,

Þú hljómar eins og trúnaðarmaður verkalýðsfélags sem gekk ítrekað á mig sem póstburðarmanns í Danmörku á sínum tíma. Þar kom saman mannekla og taxta-umhverfi. Ég kalla það mótsögn. Ég var byrjaður að keyra út fyrirtækjapóst þegar mér bauðst eitthvað betra, og þáverandi yfirmaður vægast sagt svekktur að missa mig, og sagði það upphátt yfir allan hópinn. 

Ein kona, sem nú er komin á lífeyri, sagði mér að hún gæti því miður ekki fengið hærri laun: Hún væri nú þegar á hæsta taxta. En svo kom símtalið frá ánægðum viðskiptavini og hún fékk launahækkun. Ég veit ekki hvað snýr upp og niður hérna: Að taxtar séu notaðir sem átylla til að halda besta fólkinu niðri í launum, eða því versta uppi í launum.

Annars er ég til í lesefni sem fjallar um það hvað kom fyrst: Svigrúm hins frjálsa markaðar til að bæta kjör vinnandi fólks, eða yfirlýsingar verkalýðsfélaga um að þau hafi komið á þessum kjörum, plús aðgengi að sumarbústöðum og fundarherbergjum sömu félaga í dýru skrifstofuhúsnæði og með skara fṕlks á launum við að halda fundi.

Geir Ágústsson, 10.2.2023 kl. 22:54

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Geir, án þess að ég sé á nokkurn hátt að gera lítið úr hlutverki hins frjálsa markaðar í brauðbakstrinum þá er það svo að það er innbyggt í hann að keyra niður réttindi og laun fólks, annars væri hann ekki frjáls.  Enda getur þú ekki nefnt eitt dæmi þar sem hann sjálfur hefur þróað velferð og velmegun vinnandi fólks.  Það ferli hófst með þrýstingi vinnandi fólks og best tókst til þar sem það var þokkaleg sátt milli stjórnmála og markaðarins.

Sögur þínar hér að ofan sýna aðeins að ólíkt músinni þá virðist þú ekki gera þér grein fyrir að brauðmolinn kom ekki að sjálfu sér að himni ofan heldur af borðinu þar sem brauðið var borðað.

Og án þess að ég viti það þá held ég að músin viti að góðmennska býr ekki að baki brauðmolanum, hann féll af borðinu en var ekki dreift til hennar viljandi.  Þannig séð skilur hún eðli hins frjálsa markaðar betur en þú sem virðist að skilja trendið til að borga vel fyrir nauðsynlega þekkingu starfsfólks og þá í einhverri sæluvímum áttar þig ekki á trendinu að keyra niður kostnað.

Músin veit það því hún sætir færis að hirða molann áður en honum er sópað burt.

Mýsnar vita nefnilega sínu viti.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.2.2023 kl. 10:15

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ómar, svo allrar sanngirni sé gætt, þá sagði Geir Að skella í verkfall og skipta um vettvang hefur gagnast mér alla mína starfsævi. Þannig að hann var ekki að andmæla verkföllum sem slíkum, eða þannig túlkaði ég orð hans.

Reyndar átta ég mig ekki á orðalaginu að skella í verkfall, þar sem hvergi kemur fram í upphafsfærslunni að Geir hafi farið í verkfall. Að segja upp í einu starfi og ráða sig í annað, er ekki verkfall.

Ég er hinsvegar ósammála því að launataxtar séu af hinu illa. A.m.k. er nauðsynlegt að lágmarkstaxtar séu til staðar. Er það einhvers staðar svo að ekki sé hægt að borga hærri laun en hæsti taxti segir til um?

Ef sú staða kemur upp að atvinnurekandi telji einhvern vera það góðan starfsmann, að hann sé tilbúinn að borga honum hærri laun, en megi ekki fara upp fyrir hæsta taxta?

Reyndar efast ég um að þannig atvinnurekendur séu til og hafi þeir einhvern tímann verið til, eru þeir líklega báðir komnir á eftirlaun, en það er önnur saga. Ef svo ólíklega vill til að svona staða komi upp, eru þá ekki bara málin leyst með óunninni yfirvinnu eða einhverjum aukahlunnindum?

Theódór Norðkvist, 11.2.2023 kl. 17:27

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Theódór, Geir sagði nú líka margt annað, þess vegna erum við í músafræðum, í svona anga af Litlu gulu hænunni.

En sem betur fer mega atvinnurekendur borga það sem þeim dettur í hug, það er ef þeir eru í einkageiranum, það er allt miklu fastmótaðra hjá hinu opinbera, neyðarbrauðið er oft að gera menn að stjórum af ýmsu tagi, óunnin yfirvinna og svo framvegis.

Það reynir hins vegar á taxtana í niðursveiflum sem og þar sem óheft aðstreymi er af fátæku erlendu verkafólki, og þegar þeir eru það lágir að fólk getur ekki framfleytt sér af launum sínum, þá er hægt að tala um nútímaþrælahald.

Sérfræðimenntaðir telja sig oft geta rifið kjaft yfir þessum raunveruleik því þeir telja sig alltaf fljóta ofaná.  En það þagnaði í mörgum í Bandaríkjunum þegar þarlend fyrirtæki fengu velmenntaða Indverja til að sinna störfum þeirra, og það á kvartkaupi þess sem áður var borgað.

Þá fékk Trump óvæntan liðsauka í baráttu sinni við alþjóðvæðinguna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.2.2023 kl. 17:42

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Úr því Indverjar eru hérna nefndir:

Ég vinn hjá danskri verkfræðistofu sem leggur mjög mikið upp úr að hafa vel starfandi indverskar skrifstofur fyrir ýmsa vinnu, svo sem forritun, líkanasmíðar og teiknivinnu. Útseld vinna fólksins er seld á margföldum launum fólksins sem vinnur vinnuna. Indverjarnir vita þetta vel, en þeir eru um leið á góðum launum miðað við Indverja sem eru ekki svona beintengdir við vestrænt verðlag. 

Á verkefnum þar sem tekst að nota mjög mikið indverskt starfsfólk eru þau jafnvel að skila þreföldum eða fjórföldum tekjum miðað við launakostnað. 

Svo blessaðir séu Indverjarnir og framlag þeirra til verkefna í okkar heimshluta. Og sem betur fer eru þeir að "stela" frá okkur vinnu og um leið dæla inn í eigið samfélag rjómann af uppsafnaðri þekkingu vestrænna verkfræðinga og gera sig samkeppnishæfa um allan heim.

Geir Ágústsson, 11.2.2023 kl. 21:02

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Geir.

Þó ég eigi ekki kristalkúlu þá ætla ég að spá því að allflestir kollegar þínir endi sem fyrrverandi frjálshyggjumenn og verðandi Trumpistar.

Því eins og maðurinn sagði, þegar upp er staðið þá er það brauðið  á disknum sem stjórnar atkvæði okkar.

Ég sé það hins vegar af þróun gagnkvæmra athugasemda að þú eins og músin gerir þér alveg grein fyrir að það er ekki sjálfgefið að molarnir detti af borðum. Og þú vitir eins og hún, þó músin geti líklegast ekki komið því í orð, að trendið við að hindra að brauðmolar detti eða liggi á gólfinu, trendið við að skera allan kostnað inn að beini, getur keyrt laun niður úr öllu valdi. Niður að hungurmörkum þess sem getur unnið viðkomandi starf.  Aðeins þjónunum sem halda þrælakerfinu gangandi er launað vel, síðan hafa milliliðir viðskiptanna það einnig ágætt. 

En þeir sem fá að þjóna og þeir sem fá að sjá um viðskiptin á milli þrælahagkerfa, þeir eru alltaf brotabrot af heildinni, massinn, fjöldinn er örbjarga.

Þess vegna bundumst menn samtökum, réðust að stoðum þrælahagkerfis frjálshyggju 19. aldar, og smán saman í samvinnu við stjórnmálin, sköpuðu nýtt trend fyrir markaðinn, það er að aðlaga sig að lágmarkslaunum, réttindum vinnuaflsins, skattlagningu til að fjármagna velferð og að sjálfsögðu leysti markaðurinn það með sóma eins og liggur í eðli hans.

Því það er ekki markaðurinn sem er vandamálið, hann er hjarta og lunga heilbrigðra viðskipta á milli fólks og samfélaga, það er forritunin sem stjórnar honum sem ræður útkominni, því hann sjálfur hefur ekki vitund, heldur er hann sjálfvirkir ferlar sem leitast til að dreifa vöru og þjónustu á sem hagkvæmasta máta, sé hann forritaður til að skapa velmegun og velferð, þá gerir hann það, sé hann forritaður til að skapa örbirgð og fátækt, þá gerir hann það.

Forritunardæmið sem gerir menntaða sérfræðinga að Trumpistum er dæmi um eitthvað þar sem markaðurinn grefur undan lífskjörum í þróuðum löndum, því eðli málsins vegna eru góð laun á Indlandi ekki góð laun í Bandaríkjunum eða Danmörku.  Skýringin er náttúrulega ólíkur framfærslukostnaður,sem aftur stafar af hinni almennu fátækt í vanþróuðum löndum.  Og meir að segja verða Indverjarnir einn daginn ósamkeppnisfærir vegna þess að fjölmenn nágrannalönd munu líka fara þessa leið að mennta unga fólkið sitt og falbjóða það síðan á markaðstorgi glóbalvæðingarinnar.

Niðurstaða þessarar forritunar markaðarins er ekki bara að allir verða fátækari, heldur líka vargöld.

Vargöld sem gengur að siðmenningunni dauðri þó ekkert annað komi til.  Lítil hagræðing í því.

Og mér er óskiljanlegt Geir að þeir sem hafa alið af sér líf sem þeir sóru að vernda, skuli ekki sjá hina óhjákvæmilegu Vargöld.

Bottomlænið er samt að markaðurinn er ekki dólgurinn, heldur mennirnir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2023 kl. 13:38

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Ómar,

Ef öll ríki ættu að fara vestrænu leiðina til að verða ríki - leggja fyrir og fjárfesta í áratugi og jafnvel aldir - þá hefðu aldrei orðið til Suður-Kórea, Taiwan, Kína og Hong Kong dagsins í dag. Og jafnvel ekki Ísland dagsins í dag. Alþjóðleg samvinna hleypir fjármagni og tækni að þeim sem í dag brenna þurrkaðri mykju inni hjá sér til að elda mat og halda á sér hita. 

Geir Ágústsson, 12.2.2023 kl. 17:40

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Geir.

Ekki veit ég hvernig það hvarfli að þér að ég hafi nokkuð á móti alþjóðlegum viðskiptum, nýbúinn að segja að markaðurinn sé ekki dólgurinn heldur forritararnir.

Markaðurinn hefur einfalt tæki til að ná jafnvægisstöðu milli ríkja þó halli á annað vegna betri samkeppnisstöðu hins, og það er innbyrðisskráning gjaldmiðla þeirra, helguð af þeirri einföldu reglu að þú flytur ekki meira inn en þú flytur út.  Ríkin hafa svo einfalda vörn sem kallast landamæri sem þau geta varið á ýmsan máta, með tollum eða byggja upp trend innanlands sem hyglar innlendri voru svo sú erlenda þarf að vera mun ódýrari svo hún sé keypt í tilboðum og svo framvegis.

Tollaverji menn sig andskotans eða reyni að framleiða allt innanlands, þá taka þeir einfalda Norður Kóreu á þetta, og dragast mjög aftur úr þeim ríkjum sem byggja hagsæld sína á öflugum milliríkjaviðskiptum.

Hagsæld Taiwan og Suður Kóreu byggjast á slíku konsepti frjálsra milliríkjaviðskipta og hafa ekki gert neitt annað en að auka velsæld innfæddra sem og þeirra þjóða sem skipta við ríkin.  En þar fyrir utan ættir þú sem frjálshyggjumaður að vita að uppbygging þessara ríkja var ríkisstýrð, en ekki markaðsstýrð, og mjög gott dæmi um pilsfaldakapítalisma.

Alþjóðavæðingin tók hins vegar þessa jafnvægisreglur úr sambandi ásamt því að vinna beint gegn hagsæld þróaðra ríkja.  Þar sem þurfti áður sigursæla innrásarheri til að ræna og rupla, þá sá keypt stjórnmálastétt til þess að með einu pennastriki var hægt að loka velreknum fyrirtækjum heima fyrir, tækni þeirra og þekking flutt í þrælabúðir alþjóðavæðingarinnar, og framleiðsluvörurnar fluttar svo til baka á verði sem heimamenn gátu ekki keppt við.

Fyrir einhverja skrýtna tilviljun þá snarjókst flækjustig allra reglugerða, allskonar ytri kröfur um mengun, öryggi og annað voru gerðar, sem voru ekki gerðar til hinna innfluttu vara, og þegar bættist við mismunur á lífskjörum, þá er ekki lengur hægt að tala um markaðslögmál eða viðskipti á frjálsum markaði.

Ekki nema menn haldi að Djengis Kahn eða Víkingar hafi stundað frjáls markaðsviðskipti í anda alþjóðavæðingar.

Það blasir við öllu skynsömu fólki Geir að þessi hagfræði andskotans hefur ekkert með frjálsan markað eða kapítalisma að gera, og hin beina örugga afleiðing; Vargöldin, ætti að fá alla sem eiga líf sem þeir sóru að vernda, að hætta hugsa með litla skriðdýraheilanum og nota þann hluta heilann sem hefur þróast síðan risaeðlurnar dóu út, tilfinningar, vit og skynsemi.

Því tilgangur okkar á jörðu er ekki að safna gulli í sjóð, heldur að skapa það samfélag að börnin okkar séu örugg og komist á legg.

Það er það sem borgarlegur kapítalismi gerði, en nýfrjálshyggjan gróf undan, og er að eyðileggja með öllu.

Samfélagssáttina og það kristna hugarfar að við berum ábyrgð á hvort öðru.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2023 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband