Tiltektarsérfræðingar

Nú bregð ég aðeins út af vana mínum og ætla að fjalla um tiltektarmál. Þau hafa verið mér mjög hugleikin undanfarna mánuði þar sem ég er að koma mér fyrir í íbúð og er með allskonar sérviskuþarfir sem þarf að uppfylla.

Tiltektarráð 1: Ekki eiga marga hluti.

Tiltekt er einföld þegar hlutirnir sem geta farið á flakk eru fáir. Ein leið til að minnka draslið er að eiga ekki mikið af kommóðum, hirslum og hillum. Allt slíkt fyllist á einn eða annan hátt af hlutum, hvort sem þú þarft á þeim að halda eða ekki. 

Tiltektarráð 2: Ekki eiga mikið af húsgögnum.

Hvað situr þú á mörgum stöðum eiginlega? Þú átt eldhúsborð og þar eru stólar. Þú átt sófa. Þú átt kannski hægindastóla, skrifborðsstóla og hvaðeina. Hvað þarftu að sitja á mörgum stöðum? Húsgögn flækjast fyrir og safna ryki og hlutum. Skápar og stærri húsgögn safna ryki undir sér og á bak við sig. Fækkaðu þeim.

Tiltektarráð 3: Eigðu réttu græjurnar.

Burðast þú með þunga ryksugu á milli herbergja sem þarf að stinga í samband hér og þar á meðan þú ferðast um gólfið? Hentu þessu drasli og fáðu þér þráðlausa standryksugu. Þá líða ekki meira en 10 sekúndur frá því þú sérð þörf á að ryksuga og þar til þú ert komin(n) vel áleiðis með verkið. Allskyns klútar, blautþurrkur og slíkt leysa af hólmi bréf og jafnvel hreinsiefni og þetta fæst í öllum búðum og kostar sáralítið.

Tiltektarráð 4: Hentu fullt af drasli.

Opnaðu einn af þínum stóru skápum og hentu helmingnum í honum. Það er ekkert mál. Finndu svo einhvern sem á sendibíl til að sækja draslið og fara með á haugana. Þú þarft ekki allt þetta drasl. Láttu eins og þú sért að flytja þótt þú sért ekki að flytja og ímyndaðu þér sóunina á plássi, tíma og orku sem færi í að pakka draslinu í kassa og keyra á nýjan stað. 

Tiltektarráð 5: Haltu yfirborðum auðum.

Eldhúsborð- og bekkir, hillur, borð og fletir ofan á skápum safna endalausu ryki og ættu að vera sem auðastir. Gerðu það að vana að rýma alla slíka fleti við hvert tækifæri og halda þeim auðum. Þá er líka auðvelt að þurrka af. 

Það mætti ætla að ég byggi í galtómri íbúð þar sem er ekki að finna nein húsgögn, enga hluti og engin föt en svo er ekki. Ég á heima í huggulegri og heimilislegri íbúð sem er auðvelt að taka til í. Bráðum fer ég í að hreinsa úr öllum skápum sem á einhvern undraverðan hátt eru að fyllast af drasli sem ég nota ekki og veit varla að ég á. Fatahirslur fá líka heimsókn frá mér bráðum. Út með draslið. Þá er minni þörf á tiltekt. 


mbl.is Reglurnar sem tiltektarsérfræðingarnir fara eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Inga Þormar

Þetta eru fínustu ráð hjá þér, ég hef það fyrir reglu að fara af og til í gegnum skápana hjá mér, og ef ég finn þar eitthvað sem ég hef ekki lengi notað og ekki saknað, þá læt ég það gossa.

Kristín Inga Þormar, 30.9.2021 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband