Jakkinn á stólbakið

Nú þegar kosningar til Alþingis eru handan við hornið virðist hafa þornað rækilega upp í streymi auglýsinga á algjörlega gagnslausum störfum hjá ríkinu. 

Sem betur fer hefur Reykjavík nú tekið við keflinu sem afþreying að þessu leyti, og þá sérstaklega meðal hins svokallaða Þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Tökum dæmi (Samskiptaséní):

Sérfræðingur kemur auga á tækifæri til hverskonar samskipta og vinnur að útfærslu, samræmingu og framkvæmd fjölbreyttra markaðsaðgerða. Hann hefur umsjón með framleiðslu hverskonar markaðsefnis og á í samskiptum við auglýsingastofur, hönnuði, framleiðendur og aðra hagaðila vegna þessa. Hann tryggir að allt markaðs- og kynningarefni á vegum sviðsins lýsi stafrænni vegferð borginarinnar, þeirri jákvæðu þróun sem hún felur í sér og áhrifum á deglegt líf íbúa og starfsemi fyrirtækja, á mannlegan og skemmtilegan hátt.

Þess má geta að vegferð sem er ekki hafin hefur ekki haft í för með sér jákvæða þróun. Vegferðin þarf að hefjast til þess. En smámunir. Menn eru bjartsýnir.

En menn eru ekki hættir þar. Sérstakur atferlisfræðingur eða framtíðarfræðingur (báðir titlar í boði) fær nóg að gera:

... hann styðst við gagnagreiningar og framsæknar rannsóknaraðferðir og freist­ar þess að brjóta til mergjar hvað það er sem hefur áhrif á og mót­ar hegðun fólks til framtíðar, samþættir innsýn í atferli einstaklinga við vöruþróun og hönnun á viðmóti í stafrænni vegferð og hefur forgöngu um tilraunir með nýstárlegar lausnir til að leysa áskoranir í þjónustuveitingu.

Það er ekkert annað! En kann hann að laga holur í malbiki og líta á eftir börnum vinnandi foreldra? Kemur í ljós.

Munum að öll þessi stafræna vegferð borgarinnar er afrit af stafrænni vegferð ríkisvaldsins: Stafrænt Ísland. Þar á bæ bjuggu menn til markmið, tímalínur og skilgreindu fjármagn og sendu svo alla handavinnuna út til verktaka sem hófust handa. Í Reykjavík búa menn til deildir, ráða framtíðarsérfræðinga og vona það besta, og kannski það helst að Sorpu- og braggamál endurtaki sig ekki. Í stafrænum heimi fá menn ekki myglusveppi eða vaða í skólpi. Kannski það veiti ákveðið skálkaskjól.

Á sama tíma lítur ekkert út fyrir að Reykvíkingar ætli að hrista af sér núverandi meirihluta. Hvað þarf til veit enginn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einhver þarf að ráða þetta gagnslausa pissa upp í vindinn háskólafólk sem hangir á blogginu ruglandi endalausa þvælu og bull og einkafyrirtækin miskuna sig ekki yfir. Þú ert heppinn hvað vinnuveitendur í Danska einkageiranum eru hjartahlýrri en þeir Íslensku. Og að finna https://klapjob.dk/ þegar vinnuveitendur hér höfnuðu þér.

Er virkilega svona lítið að ske í Kaupmannahöfn að þú sofir ekki fyrir áhyggjum af Degi, að of mikið af störfum standi til boða og vilja Reykvíkinga? Eru krár enn lokaðar þarna í Köben?

Vagn (IP-tala skráð) 16.9.2021 kl. 00:14

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Umhyggja þín fyrir atvinnuveitanda mínum er hjartnæm en óþarfi. Raunar er verið að drekkja mér í verkefnum og þá er nú gott að dreifa huganum aðeins með öðru þegar tækifæri gefast. Annars vill svo til að ég þekki fjölda manns sem ég hef taugar til og býr í Reykjavík (sem og aðra sem hafa flúið yfir landamærin). Kannski það hreyfi við taugum í mér. Óráðsía í öðrum sveitarfélögum á Íslandi varðar mig minna af þessum sökum. Enda kannski hvergi meiri.

Geir Ágústsson, 17.9.2021 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband