Hraðpróf sem hraðall á opnanir

Nánast öll sóttvarnarúrræði eru skárri en að loka fólk inni. Þar á meðal hraðpróf. Danir hafa tekið hraðpróf opnum örmum. Gegn neikvæðu hraðprófi get ég lifað nánast venjulegu lífi og farið út að borða, farið í klippingu og bráðum bíó. Hraðprófið gildir í 72 klst. Ég fór einmitt í eitt slíkt á fimmtudaginn og var kominn með svar hálftíma seinna og fór svo á barinn um kvöldið og hitti þar vini, grímulaus. Æðislegt.

Bretar eru líka að taka hraðprófinu opnum örmum sem tæki til að opna hraðar en ella, skilst mér.

En af hverju ekki Íslendingar? Jú, meðal annars vegna fullyrðinga eins og þessara:

"Um er að ræða hraðpróf sem geta gefið niður­stöðu á um það bil 30 mín­út­um. Þau eru tal­in minna ná­kvæm en PCR-próf, próf­in sem t.a.m. er stuðst við hér­lend­is. Um sól­ar­hring tek­ur að fá niður­stöður úr slík­um próf­um."

Minna nákvæm!

Þetta hefði blaðamaður mátt útskýra aðeins betur.

Jú, hraðpróf greina síður þá sem eru nýbúnir að smitast eða hafa að mestu jafnað sig á veirusmiti. Fleiri veirur þurfa að vera í líkama ef hraðprófið á að greina smit.

Sumir kalla þetta "falskt neikvætt próf".

PCR-prófin eru samt heldur ekki óskeikul, og sérstaklega ekki þegar þau eru stillt mjög næm eins og á Íslandi. Slík próf grípa fólk með dauðar veiruleifar í líkamanum, nokkuð sem smitar engan né skaðar. 

Þetta heitir "falskt jákvætt próf" á mannamáli og mætti alveg eins kallast "of mikil nákvæmni". Heilbrigt fólk sem engan smitar og er ekki í neinni hættu lokað inni. Fyrirtækjum lokað af ótta við að inn í þau streymi fársjúkir veiruberar. Landamærum lokað á fólk sem er bara að reyna rækta fjölskylduböndin eftir meira en ár af hringli í samfélaginu.

Þrátt fyrir að hraðpróf gómi ekki hverja einustu veiru á einstaklingsgrundvelli eru þau samt mjög nothæf til að kortleggja smitútbreiðslu. Danir eru að taka fleiri hundruð þúsund próf, á dag (hraðpróf og PCR-próf). Þetta kostar auðvitað svimandi fjárhæðir, en það gera lokanir líka

Og nú þegar er hægt að kaupa hraðpróf til heimanota þá ætti að vera hægt að hætta þessum svokölluðu sóttvarnaraðgerðum og hnýta aðra fálkaorðu á þríeyki og senda heim. Sóttvarnarlæknir getur þá sinnt sóttvörnum og landlæknir sinnir lýðheilsu og þau tvö takast svo á í stað þess að haltur leiði blindan.


mbl.is Gæti bundið enda á sóttkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband