Mánudagur, 21. september 2020
Höfuðborgarsvæðið
Ég var á einhverjum þvælingi á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar það blasti við mér betur en áður hvað skipting hins íslenska landflæmis upp í sveitarfélög er órökrétt. Myndin hér að neðan sýnir það vonandi.
Sveitarfélög eru eins konar verkfæri ríkisvaldsins og hafa þann tilgang að sinna ákveðnum lögbundnum verkefnum sem hafa það kannski helst sameiginlegt að krefjast nærveru stjórnvaldsins við íbúana. Sveitarfélög geta svo að auki reist glæsihallir og sjósett gæluverkefni eins og enginn sé morgundagurinn.
Þegar fjarlægðin milli stjórnvaldsins og íbúanna er orðin mjög mikil er hætt við að tengingin rofni. Þetta getur komið fram með ýmsum hætti, og segir t.d. á einum stað sem túlkun á niðurstöðum ánægjukönnunar meðal íbúa:
Stundum megi ætla að minni sveitarfélögin græði á smæð sinni, þar sem einhvers konar bæjarstolt kunni að mati viðmælenda Kjarnans í sumum tilvikum að hafa áhrif á svör íbúa þeirra.
Bæjarstolt! Þetta kannast ég vel við sem gamall Árbæingur og stuðningsmaður Fylkis sem leit niður á bæði Breiðholt og Grafarvog en aðallega miðbæjarliðið, en auðvitað á vingjarnlegum nótunum. Ég vann sjálfboðavinnu fyrir íþróttafélagið, sópaði götuna mína á hreinsunardeginum á vorin með öllum hinum krökkunum og fannst ég raunverulega tilheyra litlu samfélagi sem væri ólíkt öllum öðrum. Bæjarstolt er gott og þegar það dalar er það slæmt.
Það eru einhver teikn á lofti um að bæjarstolt í sumum hverfum Reykjavíkur sé á fallandi fæti. Ég veit t.d. af því að í sumum hverfum austan við Elliðaá finnist fólki það frekar vanrækt af borgarstjórn (með réttu eða röngu). Og hvað er þá til ráða?
Ekkert.
Þrýstingur frá ríkisvaldinu er í þá átt að sveitarfélög stækki svo það sé auðveldara fyrir það að fleygja í þau fleiri lögbundnum verkefnum án þess að þurfa hafa áhyggjur af fjármögnuninni. Sveitarfélög geta því sameinast út í hið óendanlega og hætta þannig auðvitað að vera þetta nálæga stjórnvald sem er í nánum tengslum við íbúa sína. Og fólk sem er ósátt þarf að flytja langar vegalengdir til að komast í næsta sveitarfélag. Í Reykjavík er þó, þrátt fyrir allt, frekar auðvelt að skipta um sveitarfélag, og líklegt að það veiti svolítið aðhald. Það gæti breyst ef Reykjavík fær að gleypa nágranna sína.
En af hverju má ekki stokka upp? Eða má það? Segjum sem svo að íbúar Grafarvogs tjái þá skoðun afdráttarlaust í íbúakosningu að þeir vilja frekar tilheyra Mosfellsbæ en Reykjavík. Væri slíkt mögulegt? Væri það þungur róður? Ég spyr því ég veit það ekki en vona um leið að svarið sé: Ekkert mál! Landfræðilega er það a.m.k. skynsamlegt enda er Grafarvogur smátt og smátt að bráðna saman við þéttbýli Mosfellsbæjar (þyrfti bara að kaupa út einn sveitabæ og þá æðir byggðin áfram), og aukin nálægð við stjórnsýsluna væri bara góð fyrir aðhald íbúanna á kjörnum fulltrúum sínum.
Hvað um það. Ef sveitarfélögin eiga ekki að verða þessi ógnarskrímsli sem drepa bæjarstoltið þá þarf sennilega að fara hugsa í átt frá eilífri stækkun sveitarfélaga og að rökréttari legu þeirra svo fólk geti á ný verið nálægt stjórnsýslunni og sparkað þar upp hurðinni ef yfirvaldið gengur of langt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:06 | Facebook
Athugasemdir
Ég veit bara fyrir mitt leiti þá hef ég sem Kópavogsbúi engan áhuga á að sameinast reykjavík og fara undir stjórn ruglsins sem þar er í gangi. Þessi óstjórn þar er búin skemma þar nóg án þess að þurfa troða því yfir til mín líka, því miður þá hefur þessum vitleysingjum þar tekist að draga nálæg sveitarfélög og ríkið inn í eitt af gæluverkefnunum sínum sem eflaust setur öll félögin rækilega á hausinn, hér er ég að tala um borgarlínu bastarðinn.
Halldór (IP-tala skráð) 21.9.2020 kl. 09:42
Halldór,
Það er nú heila málið: Að það sé mögulegt að breyta einhverju sem virkar ekki, jafnvel þótt það sé langt í kosningar þar sem má moka fé í átaksverkefni eftir 3 ára vanrækslu.
Geir Ágústsson, 21.9.2020 kl. 16:57
Áhugaverðar pælingar, Grafarvogur tilheyrði vafalaust Mosfellssveit líkt og Garfarholt og Árbær hér forðum. Mosfellssveit náði fram á ártúnsholtið. Hús sveitarstjórans í Mosfellssveit stendur enn undir Garfarholtinu, skreytt foknu trambolíni.
Gunnar (IP-tala skráð) 22.9.2020 kl. 00:08
Gunnar,
Það væri kannski ráð að skipta Reykjavík í Reykjavík austur og Reykjavík vestur, eins og menn tóku upp á við kjördæmin til þingkosninga? Grafarvogur, Grafarholt, Mosfellsbæ, Kjalarnes og Úlfarsfell (eða hvað það nú heitir) í eina sæng? Jafnvel Höfðahverfið og Árbær í kaupbæti. Landfræðilega samhangandi og skiljanlegt og Reykjavík hefði gott af samkeppninni.
Geir Ágústsson, 22.9.2020 kl. 11:17
Mér finnst Kópavogur mjög skrítinn í laginu séður á korti. Stóð til að Kópav. sameinaðist Reykjavík fyrir mörgum áratugum en það varð ekki.Trúlega átti Kópav. að sameinast borginni( hagræði í skipulagi og fl.) Ég er Breiðhyltingur til 20 ára .Held að Reykjavíkurborg hugsi alveg sæmilega um Breiðholtshverfið. Búið að kynna nýtt hverfisskipulag Breiðholts. Leist bara ágætlega á þær tillögur.
Hörður Halldórsson, 22.9.2020 kl. 18:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.