Jarðefnaeldsneyti er frábært

Allt tal um að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti er tómt tal. Mannkynið hvorki ætti né getur hætt að nota jarðefnaeldsneyti með núverandi tækni, og það eru fá teikn á lofti um að tæknin geti leyst jarðefnaeldsneytið af á næstu áratugum. 

Auðvitað geta rík lönd talað á öðrum nótum. Það er alveg hægt að neyða almenning til að taka upp hálfþróaða tækni og niðurgreiða með svimandi fjárhæðum valkosti við jarðefnaeldsneyti. Auðvitað. Og um leið láta börn í Afríku grafa á eftir sjaldgæfu málmunum sem þarf í öll þessi batterí. En fyrir heiminn, heilt á litið, eru það bara heimatilbúnar og svæðisbundnar æfingar sem skipta engu máli fyrir heildarmyndina og mannkynið. Á Ísland að nota jarðefnaeldsneyti eða ekki? Svarið skiptir ekki máli nema fyrir íslenska skattgreiðendur.

Nú fyrir utan að jarðefnaeldsneyti er ekkert vandamál í sjálfu sér. Jú, auðvitað veldur ósíaður kolareykur usla, en hreinn gasbruni eða bruni bensínvélar er engin sérstök óværa. Fyrir milljónir fátækra Jarðarbúa er raunar mikil framför í að komast í kol til brennslu, sem valkost við bruna dýraskíts innandyra með tilheyrandi reykeitrun og jafnvel hættu á dauða.

Hafi menn áhyggjur af styrkleika koltvísýrings í andrúmsloftinu og því að hann hafi meiri áhrif á hitastig lofthjúpsins en sjálf sólin þá er sú goðsögn á góðri leið með að verða afhjúpuð sem ósönnuð tilgáta. Koltvísýringur er ekki mengun. Hann er tiltölulega áhrifalítill fyrir lofthjúpinn, en meiri styrkur um leið frábær áburður fyrir plönturnar. Því meira, því betra (upp að ákveðnu marki, auðvitað).

Svo þurfum við að muna að jarðefnaeldsneyti er ekki bara eldsneyti heldur líka hráefni. Það kæmi mér mjög á óvart ef það væru færri en 50 hlutir í kringum þig, sem þetta les, sem á einn eða annan hátt eru framleiddir með notkun olíu sem hráefnis.

Mörgum er tíðrætt um orkuskipti. Þau eru ekki frá jarðefnaeldsneyti í græna orku (svokallaða), heldur frá skítugri orku til hreinni.


mbl.is Orkuskipti rædd á opnum ársfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það virðist mikill skortur á að horfast í augu við það að Sólarorka, vindorka og jafnvel vatnsorka eru ekki með 100% uppitíma og þegar sólin fer niður eða þegar það er logn eða þurkar þá er ekki framleidd raforka. Fyrir utan að það er að koma í ljós að t.d. vindorka getur valdið fuglum skaða.

Ég skil ekki þeta hatur á oliu, eins og þú réttilega bendir á þá er rosalega margt annað í daglegri notkun unnið úr hráolíu þannig að það er einfaldlega ekki hægt að hætta að nota hana. Hinsvegar erum við á réttri leið með að minka mengun frá henni með að bæta eyðslu og útblástur frá bensín/dísel vélum.

emil (IP-tala skráð) 8.9.2020 kl. 12:39

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

a) Hvar eru mæligögnin fyrir loftslagsbreytingar. b) Hvar eru mæligögnin fyrir koltvísýring? Eina svarið er "þú trúir ekki á vísindin."

Rétt eins og með covid köfnunina; Engin raunveruleg umræða um vísindin sjálf.

Eitt sem stingur alltaf upp í þetta lið; Þú getur ekki framið sjáĺfsmorð með Díselútblæstri.

Guðjón E. Hreinberg, 8.9.2020 kl. 12:55

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það snýst ekkert um "hatur á olíu" þegar hún gengur til þurrðar. Það er ekki nóg að elska olíuna til þess að hún verði að endurnýjanlergri orku. 

Ómar Ragnarsson, 8.9.2020 kl. 17:21

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hvað með kóbaltið sem þarf til rafgeymasmíði fyrir rafmagnsbíla?  Er það meira óþrjótandi hráefni en olían?

Kolbrún Hilmars, 8.9.2020 kl. 18:00

5 identicon

Geir.

Það er þetta með uppgröft á kóbalti, Kínverjar eiga umþað bil 80% af öllum námaleifum á kóbaltinu sem er notað til að fá jónaflæðið að mínusskautinu í ra í nútíma Li Co rafhlöðum og þegar þú athugar hvernig það er unnið úr yfirborðsnámum þá er það í bestafalli ógeðfelt, en þarna séruðu best hvernig "Belti og braut" virkar.

Hvað með aukið magn Co2 í andrúmslofti hefur aukist er ekki nóg að horfa á tímabilið 2010 til 2020 það er marktækast að horfá tímabilið frá ca 1700 þar til nú til að sjá langtímavöxt.

Svo er rétt að líta á athugasemd Ómars hér að ofan, yfirlætis laus og segir margt.

Kv.

Alli 

allidan (IP-tala skráð) 8.9.2020 kl. 18:07

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Ómar,

Það er rétt hjá þér að olían er takmörkuð auðlind, en "peak oil" hefur samt aldrei verið fjarlægari þrátt fyrir gríðarlegan vöxt.

Það sem mannkynið þarf er að Kína og Indland klári sinn pakka sem "þróunarlönd", og að Afríka hoppi bráðum á bátinn og verði rík. Afgangur heimsins er nú þegar byrjaður að auka skilvirkni orkunotkunnar sinnar.

Í Póllandi vilja menn nú minnka kolanotkun og auka gasnotkun.

Austur-Evrópa öll er á svipaðri vegferð. Að hugsa sér blessunina! Skítugt kolaryk verður að hreinum útblæstri, og skilvirkum.

Bjartsýni er við hæfi. Heimurinn er smátt og smátt að verða hreinni. Það þarf bara að taka þennan ótta við koltvíoxíð út fyrir sviga.

Geir Ágústsson, 8.9.2020 kl. 18:41

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Svo þarf einhvern tímann vind- og sólarorkuiðnaðurinn að útskýra hvaðan öll hráefnin eiga að koma til að byggja þeirra dót. Stál, epoxy, kísill, risavaxnir rafmagnskaplar til að tengja vindsvæðin við lognsvæðin (https://www.dw.com/en/germany-protesters-oppose-suedlink-wind-energy-cable/a-48437451), og svona má lengi telja. Ótalin er svo áskökun Michael Moore um að græna orkan sé einfaldlega samsæri ríkisbubba á kostnað almennings um að sjúga til sín skattfé (Youtube: Planet of the Humans).

Þessu er aldrei svarið, aldrei rætt. Engar efasemdir. Engin heildarmynd. Engin jákvæðni á þróun mála í dag. 

Bara: "Olía er slæm, vindur er góður."

Þetta er óheilbrigt.

Því auðvitað er vindur góður á sumum svæðum, og sólin á öðrum, og vatnið á þriðja, og olían annars staðar.

Geir Ágústsson, 8.9.2020 kl. 18:48

8 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Fyrirbærið Peak Oil er algjörlega ósannaður áróður, sömuleiðis fullyrðingarnar um að hráolía séu eldgamlar plöntuleyfar. Það er fjöldi vísindamanna sem hefur sýnt fram á þetta en sósíalista-mafían þaggar umfjöllun um það.

:) Góðar stundir.

Guðjón E. Hreinberg, 8.9.2020 kl. 19:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband