Sunnudagur, 21. júní 2020
Aðferðir til að skera sig úr í stjórnmálum
Stjórnmálamenn eða tilvonandi stjórnmálamenn geta leitað í margar áttir eftir hugmyndum til að skera sig úr og fá athygli, verðskuldaða eða ekki.
Samgöngumál eru hérna frjósamur akur. Í þeim má stinga upp á endalausum leiðum sem snúast aðallega um að hægja á fjölskyldubílnum og sóa tíma fólks í umferðinni eða við biðskýli í roki og rigningu.
Það má til dæmis stinga upp á því að setja þriggja stafa milljarðaupphæð í að byggja lestarteina og setja á það lestarvagna.
Menn eru nú þegar að vinna að áætlunum um að setja risastóra strætisvagna á umferðargötur og ýta fjölskyldubílnum inn á færri akreinar.
Einhverjir hafa líka stungið upp sporvagninum, gamla góða. En auðvitað með nýju nafni, léttlestir.
Og strætóskýlin eiga helst að liggja þannig að strætisvagninn stöðvi umferðina þegar hann dvelur við þau. Ekki veit ég hvaðan sú hugmynd kom, a.m.k. ekki frá Kaupmannahöfn.
Ekki má byggja fleiri mislæg gatnamót til að greiða leið umferðarinnar. Nei, það á að leggja fleiri hjólastíga. Ekki má losa um reglugerðarfrumskóginn í kringum leigubílaakstur og hleypa framsæknum aðilum inn á þann markað sem gætu stuðlað að því að fleiri hætti hreinlega að nenna eiga bíl því það borgar sig ekki, hvorki í tíma né fé.
Ég vil því leggja til að yfirvöld skoði alvarlega kosti þess að ýta undir notkun hestvagna. Þeir menga ekki, geta nýst á öllum tegundum vega, tryggja að farþegar fái mikið af fersku lofti og er tiltölulega ódýrt að setja í fjöldaframleiðslu sem getur notast við umhverfisvænt timbur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:55 | Facebook
Athugasemdir
Lýðræðismúgurinn mun gera það sem hann gerir, með eða án míns atkvæðis. Ef ég bý í kringum nógu mikið fólk sem er ósammála mér og það angrar mig nógu mikið, þá er það á minni ábyrgð að pakka saman og flytja burt. Ég hef gert það margoft og þú býrð í Danmörku skilst mér. Hvað Reykvíkingar gera kemur okkur lítið við.
Lífið er of stutt til að sóa því í vitleysu, þ.á.m. að standa í biðröð að kjörklefanum sínum eins og kind á leið í sláturhúsið.
Gunnar (IP-tala skráð) 21.6.2020 kl. 07:15
Öfgahægrisinnaðir karlar, sem gapa daglega hér á Moggablogginu, ættu að fylgjast betur með ef þeir halda að þeir viti betur en allir aðrir í heiminum.
Evrópu er að langmestu leyti stjórnað af hægri flokkum og 90% ferða í evrópskum borgum eru ekki með einkabílum.
Þar að auki er meirihluti sveitarstjórnarmanna í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi sammála um ágæti Borgarlínunnar, sem verður á öllu höfuðborgarsvæðinu en ekki einungis hér í Reykjavík.
Þorsteinn Briem, 21.6.2020 kl. 10:18
Miklabraut verður lögð í stokk frá Snorrabraut upp fyrir gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, þannig að Miklabrautin liggi undir Kringlumýrarbrautina og gatnamótin því mislæg.
"Þetta verður 2+ 2 vegur, keyrt niður í og upp úr stokknum við Snorrabraut og til móts við Kringluna.
Og aðreinar og fráreinar verða við Kringlumýrarbraut," segir Árni Freyr Stefánsson verkfræðingur ."
Miklabraut í stokk - Myndband
Þorsteinn Briem, 21.6.2020 kl. 10:40
Auðvitað er gott og blessað að kjósa á fjögurra ára fresti og vona að yfirvöld breyti ekki friðsælu götunni sem maður býr við í hraðbraut, eða taki úr sambandi samgöngur við viðskiptavini. Í mínu sveitarfélagi á nú að fara tvöfalda vegtengingar í trássi við íbúa til að liðka fyrir umferð. Í Reykjavík er akreinum fækkað og bílum troðið á færri akgreinar. Yfirvöld fara sínu fram og hafa vissulega "umboð" til að traðka á hverjum sem er, bara á meðan sá hópur er í minnihluta.
Engum dettur í hug að hlusta meira á íbúasamtök eða hagsmunasamtök fyrirtækja. Í slíkum samskiptum geta menn bara kosið á 4 ára fresti og tekið þarf afstöðu til heilu bæklingana af loforðum til framtíðar og heilu bókanna af ákvörðunum seinustu 4 ára.
Miðstýring skal það heita í stað þess að sleppa bara aðeins tökunum og leyfa fólki og fyrirtækjum að ráða meiru um nærumhverfi sitt í frjálsum samskiptum og viðskiptum við aðra: Viltu bíla? Göngugötu? Hestvagna? Risastóran strætó? Gjörðu svo vel!
Geir Ágústsson, 21.6.2020 kl. 11:08
Annars get ég sparað þeim sem heimsækja mig á þessa litlu síðu við að eyða tíma í falsrökin "þú getur ekkert sagt! þú býrð ekki í réttu póstnúmeri"!
Því þá þyrfti ég að hætta að mótmæla mannréttingarbrotum í Miðausturlöndum, götuofbeldi í New York, valdníðslu í Brussel og dýraníði á Selfossi. Og auðvitað yfirgangi yfirvalda í Reykjavík, sveitarfélagið sem hýsir megnið af mínum vinum og fjölskyldu sem hafa alveg kvartað í mín eyru yfir mörgu sem er slengt framan í þau af borgaryfirvöldum, meðal annarra.
En ef það er mikil eftirspurn eftir umfjöllun um dönsk stjórnmál (umfram það sem ég læt stundum detta hér inn), svo ég tali ekki um sveitarstjórnarmál Tårnby kommune, þá væri mér ljúft og skylt að koma til móts við slíkt.
Geir Ágústsson, 21.6.2020 kl. 11:12
Til að það sé á hreinu þá bý ég ekki á póstsvæðum 100 eða 200. En ég tel mig þó mega hafa skoðun á málinu.
Í fyrsta lagi er Reykjavík höfuðborg allra landsmanna, hvar sem þeir búa. Í öðru lagi kemur oftar en ekki upp sú staða að ég neyðist til að heimsækja borgina, þar sem sum þjónusta fæst ekki annarstaðar á landinu. T.d. er slík miðstýring orðin í heilbrigðiskerfinu að stóran hluta þess verður að sækja inn fyrir borgarmörkin. Í þriðja lagi kemur mér vissulega við í hvað mínir skattpeningar fara.
Hins vegar kemur mér ekkert við þó borgarstjórn vilji taka upp nítjándu aldar samgöngumáta, svo fremi það hamli ekki nauðsynlegum ferðum mínum um höfuðborgina og að mínum skattpeningum sé ekki sóað í slíka afturför!!
Gunnar Heiðarsson, 21.6.2020 kl. 19:35
Var í dag að skipta um brotinn gorm í bílnum hjá mér - 30 þ km
skilst að flestir bíleigendur í Reykjavík þurfi mun oftar en aðrir hópar að skipta um hluti í fjöðrunarbúnað bifreiða
Grímur (IP-tala skráð) 21.6.2020 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.