Föstudagur, 21. febrúar 2020
Þá hefst partýið
Skattar á Íslandi eru í svimandi hæðum. Reglugerðafrumskógurinn er kæfandi. Skuldir hins opinbera er gríðarlegar. Opinberir starfsmenn eru á höttunum eftir miklum launahækkunum. Kröfurnar frá grísunum við spena ríkisgyltunnar eru margar og stórar.
Hvað er þá til ráða? Jú henda í tugmilljarða svokallaða innspýtingu í hagkerfið!
Það kemur mér ekki á óvart að stjórnmálamaður tali á þessum nótum. Það kemur mér aðeins meira á óvart að Samtök atvinnulífsins geri það en kannski ætti ég að hafa búist við slíku.
Nú er áríðandi fyrir stjórnmálamenn í atkvæðaleit og fyrirtæki í leit að opinberu fé að grípa tækifærið á meðan örlítill slaki er í hagkerfinu og fara á beit á kostnað skattgreiðenda.
Það er jú ekki hægt að lækka skattana, selja opinber fyrirtæki upp í skuldir, fækka reglunum og fjarlægja hindranir fyrir fólk og fyrirtæki, er það? Nei. Það fær enginn atkvæði út á það og fyrirtæki þurfa þá kannski að bíða eftir verkefnunum í stað þess að fá þau á silfurfati frá ríkisgyltunni.
Hið opinbera notar alltaf allskyns neyðarástand sem átyllu til að þenja sig út á kostnað hins frjálsa framtaks. Því miður ætlar að myndast þverpólitísk sátt um slíkt núna. Skattgreiðendur eiga ekki séns.
Vill tuga milljarða innspýtingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Besta "innspýtingin" í hagkerfið yrði skattalækkun bæði fyrirtækja og einstaklinga.
Kolbrún Hilmars, 21.2.2020 kl. 13:50
Gallinn er bara sá að skattar á Íslandi eru ekki í svimandi hæðum ef miðað er við önnur vestræn ríki. Reglugerðafrumskógurinn er enginn frumskógur, fyrir allflesta er hann lítið annað en runni. Skuldir hins opinbera eru með því lægsta sem gerist í heiminum. Og flestir opinberir starfsmenn eru á höttunum eftir svipuðum launahækkunum og aðrir hafa verið að semja um. Kröfurnar frá grísunum við spena ríkisgyltunnar eru margar og stórar, og þeim fjölgar bara og verða kostnaðarsamari ef ríkið fer að útvista verkefnum til einkaaðila.
Með þetta í huga mætti endursemja pistil þinn og fá aðra niðurstöðu en hinar röngu fullyrðingar kölluðu á.
Vagn (IP-tala skráð) 21.2.2020 kl. 14:01
Vagn á sömu línu og Samtök atvinnulífsins og formaður Framsóknarflokksins og jafnvel Bjarni Ben? Jahérna, aukin ríkisútgjöld hafa greinilega mikinn samtakamátt. En einmitt þessu vegna eiga skattgreiðendur engan séns.
Geir Ágústsson, 21.2.2020 kl. 15:06
Ef rangar og réttar fullyrðingar eru lína þá er ég á þeirri sem velur réttu fullyrðingarnar frekar en þær röngu. Allir málstaðir sýnast veikir og ræfilslegir ef grípa þarf til rangra fullyrðinga til að sanna ágæti þeirra. Og trúverðugleiki þeirra sem þannig rökstyðja mál sitt hverfur eins og dögg fyrir sólu.
Vagn (IP-tala skráð) 21.2.2020 kl. 15:54
Skattar hér eru með því alhæsta sem gerist. Í samanburðinum verður vitanlega að taka tillit til þess að í mörgum löndum eru lífeyrissjóðsgreiðslur inni í skattlagningunni, en hér koma þær sérstaklega. Virðisaukaskattur hér er líka með því hæsta sem gerist. Og einnig ýmis þjónustugjöld fyrir þjónustu ríkisins.
Ég þekki ekki kröfur BSRB en við vitum, og það hefur komið fram eftir að borgarstjóri opinberaði tilboð borgarinnar, að kröfur Eflingar eru í það minnsta langt umfram það sem aðrir hafa verið að semja um.
Menn skyldu passa sig á að saka aðra um rangar fullyrðingar, séu þeirra eigin fullyrðingar rangar.
Þorsteinn Siglaugsson, 21.2.2020 kl. 16:54
Gleymum því ekki að skattgreiðendur og neytendur eru einn og sami hópur.
Það var mikið lán hversu snemma í siðmenningu heimsins það var sem ráðamenn þjóðanna áttuðu sig á hlutverki skattanna við jöfnun lífskjara.
Það er hinsvegar eilífðarverkefni að stilla sköttum í hóf.
En það er vonlaust verkefni að ætla sér að lækna skattafóbíu þeirra sem standa ægra megin í pólitík.
Skattafóbían er nefnilega fylgikvilli græðginnar.
Árni Gunnarsson, 21.2.2020 kl. 17:09
Ef siðmenningin hófst með sósíalismanum já, en það var nú ekki þannig. Notkun skatta til að jafna lífskjör hófst ekki snemma í siðmenningunni heldur er slíkt frekar nýtilkomið. Og í raun og veru jafna skattarnir alls ekki lífskjör, vegna þess að það er í megindráttum sami hópurinn sem greiðir þá og nýtur þess sem er eftir af þeim þegar ríkisbáknið hefur hirt sinn helming.
Þorsteinn Siglaugsson, 21.2.2020 kl. 20:59
Í Kaliforníu er 33% skattur á ávexti úr sjálfsölum. Írland og Danmörk skattleggja kýr fyrir metanmengun, prump. Skattar eru misjafnir milli landa og mis háir. Það er því hægt að "sanna" hvað skattar séu háir eða lágir með því að velja einn eða tvo sem passa við fullyrðinguna. Það virkar ef fólk hugsar ekki.
Miðað við hve mikið af skattfé fer í að greiða ellilífeyri þá er vafasamt að fullyrða að lífeyrir sé ekki innheimtur með sköttum. Ekki vann ríkið í lottó. Það að við viljum meira en það sem frá ríki kemur og höfum komið okkur upp fasteign, sparað á bankabækur, lagt í séreignasjóði og stofnað okkar egin lífeyrissjóði og samið við ríkið um lagasetningu breytir því ekki að ríkið ábyrgist lágmarks greiðslur sem skattar borga. Í mörgum löndum, Ísland þar með talið, eru lífeyrisgreiðslur ríkisins inni í skattlagningunni.
Opinberir starfsmenn teljast í tugum þúsunda, þeir 240 sem eru í Eflingu tala ekki fyrir þá alla. Mér skilst að Efling haldi því fram að kröfurnar séu svo fjarstæðukenndar að enginn heilvita mundi taka þær upp og því hafi þær ekki keðjuverkandi áhrif.
Notkun skatta til að jafna lífskjör hófst snemma í siðmenningunni. Það er vitað að skattlagning var hafin fyrir 4500 árum síðan. Tíund þekkjum við úr okkar sögu og ölmusa sett sem skylda hjá Múslimum. Jöfnunin var e.t.v. ekki mjög áberandi en færri drápust úr hungri og herinn gat tekið við landlausum sveltandi bændasonum.
Vagn (IP-tala skráð) 22.2.2020 kl. 02:52
Hjá Reykjavíkurborg er gífurlegur fjöldi millistjórnenda nú ráðnir án auglýsingar og eru því ekki hluti af þessum föstu stöðugildum sem öll tölfræði virðist vera unnin út frá.
Þannig að umsvif hins "opinbera" hjá Reykjavíkurborg blæs út þó tölfræðin segi annað enda ekkert svigrúm til að lækka álögur á almenning í braggaborg Dags
Borgari (IP-tala skráð) 22.2.2020 kl. 08:59
Samkvæmt þessari frétt RÚV frá síðasta ári er skattbyrði á einstaklinga hér næsthæst í OECD: https://www.ruv.is/frett/ojofnudur-a-islandi-minnkar
Skattlagning hefur tíðkast lengi, en tilgangurinn var ekki tekjujöfnun heldur fyrst og fremst að standa undir stríðsrekstri og lífsstíl yfirstéttanna.
Þorsteinn Siglaugsson, 22.2.2020 kl. 11:21
Skattbyrði á einstaklinga segir ekkert um skattbyrði á fjölskyldur og fyrirtæki. Segir ekkert um áhrif barna og húsnæðisbóta. Segir ekkert um kaupmátt eftir skatt. Samanburður á skattprósentum sem gera einum erfitt að kaupa brauð en öðrum að kaupa Yaris segir ekkert um skattbyrði. Svo fátt eitt sé nefnt.
Skattlagning hefur jafnað lífskjör þó tilgangurinn hafi oftast verið annar. Þegar annar sonurinn erfði jörðina og hinn ekkert þá gerði skattlagning það að ríkið gat ráðið þann eignalausa og þannig gert hans lífskjör betri en annars. Tilgangurinn var ekki að bæta hans lífskjör en það voru samt afleiðingarnar.
Vagn (IP-tala skráð) 22.2.2020 kl. 18:37
Orð núverandi varaformanns Framsóknarflokksins, um að hún vilji tugmilljarða innspýtingu í ´´innviði´´ sýnir einskæran hroka og fyrirlitningu á skattborgurum þessa lands. Svokallaðir innviðir landsins hafa verið látnir sitja á hakanum, árum og áratugum saman. Þar eiga sennilega allir stjórnmálaflokkar landsins jafna sök. Stórir sem litlir, en sennilega þeir stærstu mesta.
´´Blekkingar, lygar og sú árátta að, fara á snið við lög, reglur og niðurstöður dómstóla virðist vera orðin sérstök íþróttagrein í íslenskri pólitík. Íþróttagrein sem allt venjulegt hugsandi fólk hefur megnustu óbeit á.´´
Tekið úr Bændablaðinu, síðasta tölublaði. Lítil grein, aðeins einn dálkur, en holl og góð lesning á blaðsíðu 6, undir dálknum Skoðun.
Hvers vegna vísa ég í þetta? Jú, stjórnmálamenn og konur tala fjálglega um að veita svo og svo miklu í hitt og þetta, en sjaldnast fylgir nákvæmt bókhald með, um hvernig eigi að framkvæma, eða hverjir eigi að borga brúsann. Hálfvitahátturinn alger og nú síðasta blaður varaformanns Framsóknarflokksins alger sönnun þess. Þvílíkur hálmshaus, blessuð dúkkan. Svosem ekki að undra, alin upp við sæbjúgnaeldi Orkuveitu Reykjavíkur og risarækjum í eftirrétt.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 23.2.2020 kl. 00:15
Það hafa fjölmargir reynt Excel-hagfræðina sem gengur út á að "skimma rjómann" af góðærinu og nota í hallærinu. Það sem gerist samt í raunveruleikanum er:
- Í hallæri stofnar hið opinbera til mikilla skulda og hækkar skatta til að fjármagna allskyns verkefni
- Komist á skárra árferði er samt hikað við að greiða niður skuldirnar og skattar lækka alltaf mun hægar en þeir hækka
- Allskyns skrifræðisbákn sem komust á í hallærinu standa óhögguð eftir og gefa ekki eftir einn blýant baráttulaust
- Stjórnmálamenn sem leggja í að minnka báknið eftir útþenslu eru teljandi á fingrum annarrar handar og eiga ekki bara við pólitíska andstöðu heldur líka andstöðu vinstrimanna í háskólum, fjölmiðlum og öðrum álitsgefandi apparötum
- Þegar næsta hallæri skellur á er því skattheimtan enn í botni, skuldirnar gríðarháar og báknið risastórt. Ofan á allt þetta þarf svo að bæta við enn meiri skuldum, enn hærri sköttum og enn meira bákni
Geir Ágústsson, 23.2.2020 kl. 09:00
Það hafa einnig fjölmargir sagt að verkfræðingar byrji sem sóparar á gólfinu og eru svo hækkaðir í stöðu þar til þeir eru komnir í stöðu sem þeir ráða ekki við. Og þar hanga þeir skítandi upp á bak í áratugi. Hlandblautu verkfræðingarnir sem pissa upp í vindinn er víst ekki tilhæfulaus þjóðsaga.
Þær eru margar kenningarnar og þumalputtareglurnar. Og þær eru allar sannar samkvæmt Excelskjali landflótta verkfræðings undir verndarvæng Evrópusambandsins í draumaríkinu Danmörk.
Vagn (IP-tala skráð) 23.2.2020 kl. 16:57
Vagn,
Þetta var út og suður og aðallega um eitthvað allt annað en efnið, en til áminningar má minna á sérstakan skatt sem var lagður á til að reisa Þjóðarbókhlöðuna. Eitthvað leið á milli þess sem hún var reist og þar til skatturinn var afnuminn.
Geir Ágústsson, 23.2.2020 kl. 18:37
Orðasambandið "verndarvæng Evrópusambandsins í draumaríkinu Danmörk" er efni í sérfærslu. Síðar.
Geir Ágústsson, 23.2.2020 kl. 19:06
Þeir sem heimta skattalækkanir þurfa að tilgreina hvar á að skera niður á móti. Er bruðlað í kjörum heilbrigðisstarfsfólks eða kennara? Þarf að fækka stöðugidum?
Það þarf að hækka verulega skatta hinna tekjuhæstu og auðugustu og kannski mætti þá lækka skatta hinna verst settu. En heildarskatttekjur þyrftu að hækka til að koma til móts við vel rökstuddar kröfur almennings.
Skuldir þjóðarbúsins hafa lækkað mikið undanfarin ár. Nú er svo komið að erlendar skuldir eru lægri en erlendar eignir. Það er almennt viðurkennt sem góð hagstjórn að ríkið auki umsvif sín í samdrætti og dragi úr þeim i uppsveiflu til að jafna sveiflur.
Geir þú virðist vera a algjörum villigötum með þennan pistil þinn.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 23.2.2020 kl. 22:31
Ásmundur,
Ríkið skuldar miklu meira núna en árið 2017. Hið sama gildir um sveitarfélögin.
Ríkið á núna banka og eignarhlut í bönkunum sem verða að akkeri um háls skattgreiðenda ef það kemur minnsti hósti i viðkvæmt fjármálakerfi heimsins, sem er í mun brothættara ástandi en 2007.
Af einhverjum ástæðum kostar alltaf meira og meira að passa börn og mennta þau og hlúa að sjúklingum á meðan launakjör kennara og heilbrigðisstarfsfólk halda áfram að teljast óásættanleg. Í eitthvað fer allt féð. Kannski báknið? Kannski í opinbera umsýslu með menntun og heilbrigðisþjónustu? Kannski með framúrkeyrslum á framkvæmdum? Þetta ætti að vera efni í rannsóknarverkefni.
Geir Ágústsson, 24.2.2020 kl. 10:55
Geir, það er rangt að skuldir ríkisins hafi hækkað mikið síðan 2017. Þvert á móti hafa þær lækkað mikið og fara enn lækkandi. Ég býst við að sama eigi við um sveitarfélögin.
https://www.ceicdata.com/en/indicator/iceland/government-debt--of-nominal-gdp
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 24.2.2020 kl. 12:11
Ásmundur,
Ég vona svo sannarlega að það sé rétt hjá þér og að menn hafi líka stjórn á lífeyrisskuldbindingum.
Ég meinti auðvitað 2007.
Geir Ágústsson, 24.2.2020 kl. 14:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.