Þegar rétttrúnaðurinn þurrkar út heilbrigða skynsemi

Mikill áróður er núna rekinn gegn plastnotkun. Sá áróður er ekki reistur á neinum rökum. Plast er afskaplega þarfur þjónn og hefur engin slæm umhverfisáhrif þar sem fólk kann að meðhöndla rusl. Ljósmyndir af skjaldbökum vafðar í plastrenninga eru frá vanþróuðum svæðum þar sem sorpi er einfaldlega mokað í hafið.

Í stað plastpoka er fólki meðal annars ráðlagt að nota fjölnota poka. Gleymist þá tvennt:

  • Framleiðsla fjölnota poka er orku- og hráefnafrek
  • Þeir eru gróðrarstía fyrir bakteríur

Skortur á áreiðanlegum valkostum við plastið ýtir líka undir matarsóun. Matvæli rotna einfaldlega í hillunum og enda í gámunum af því þeim var ekki pakkað almennilega inn.

En nú eru það auðvitað neytendur sem ráða. Verslanir reyna að höfða til þeirra og ef rotnandi matvæli sem enda í bakteríufullum fjölnota pokum er það sem neytendur vilja þá þeir um það. Þó grunar mig að margir taki Bónus-pokana bara með sér í Krónuna.


mbl.is Krónan plastpokalaus í árslok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Eins og Eric Sevareid sagði: Meginorsök vandamála eru lausnir.

Og ástæðan er sú að í stað þess að líta á óæskilegar afleiðingar (skjaldbaka vafin í plast) sem tækifæri til að greina og finna undirliggjandi orsök höfum við ríka tilhneigingu til að grípa bara nærtækustu skýringuna og leysa það sem við höldum að sé vandamálið. Við komumst aldrei að því hvert raunverulega vandamálið er.

Og til að bæta gráu ofan á svart ferst yfirleitt alltaf fyrir að reyna að greina hvaða nýju óæskilegu afleiðingar lausnin gæti haft (matarsóun).

Rótin er sú að í stað þess að horfa á kerfi sem kerfi beinum við yfirleitt bara sjónum að hluta kerfisins. En kerfi er ekki summan af hlutum þess. Það er heldur ekki meira en summan af hlutum þess. Það er einfaldlega allt annað en hlutar þess.

Þorsteinn Siglaugsson, 5.2.2020 kl. 10:18

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þorsteinn,

En skemmtilega heimspekileg athugasemd!

En já, stundum er talað um að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Svo eru líka til þeir sem hvetja til þess að sjá ekki bara það sem blasir við heldur líka hitt sem blasir ekki við: Ekki skattleggja til að styðja við iðnað A því um leið minnkar þú kaupgetu kaupenda að varningi iðnaðs B. En að lokum snýst þetta um að heilla kjósendur. Þeir eru kannski sama fólk og við köllum neytendur en þegar í kjörklefann í komið gleymist raunveruleikinn og kosningaloforðin ein standa eftir.

Geir Ágústsson, 6.2.2020 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband