Frakkar vilja veiða í landhelgi annars ríkis

Brexit ætlar að vefjast fyrir stjórnmálaelítunni enda er um að ræða stóran viðburð sem getur hugsanlega haft víðtækar afleiðingar. Ef ESB setur upp tollahliðin þá missir ESB stóran markað - Bretar kaupa miklu meira frá ESB en ESB kaupir frá Bretlandi. Ef tollahliðin eru ekki sett upp er komið slæmt fordæmi sem gæti freistað fleiri aðildarríkja - að það sé hægt að ganga úr ESB án þess að henda frjálsum viðskiptum í ruslatunnuna. Ef Bretar missa markaði í ESB gæti reynst þeim erfitt að finna þá annars staðar jafnvel þótt Bandaríkin, Ástralía og fleiri hafi sýnt mikinn áhuga á fríverslunarviðræðum í kjölfar Brexit.

Fyrir Bretum er valið samt augljóst: Keyra Brexit í gegn með eða án samninga og sjá svo til hvað gerist. Líklega kemur ESB skríðandi á hnjánum og biður um bresk viðskipti. Bretar semja um fríverslun við samveldisríki um allan heim. Viðskipti innan Evrópu halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. 

Stormur í vatnsglasi, í stuttu máli, en ESB með einni stoðinni minna til að halda sér uppi.


mbl.is Frakkar vilja veiða í breskum sjó næstu 25 árin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að Frakkar skuli heimta 25 ára "aðlögun" sýnir örvæntingu ESB er yfir því að fá ekki að nýta auðlindir Breta endurgjaldslaust áfram.

Íslendingar ættu að muna eftir hvernig ganga Makrílsins í íslenska landhelgi bjargaði okkur frá rökum falsspámanna um hvernig umsókn í ESB mundi bjarga okkur frá öllu illu.

Grímur (IP-tala skráð) 25.1.2020 kl. 20:16

2 identicon

Frakkar vilja veiða í landhelgi annars ríkis, eins og Íslendingar, Bretar, Norðmenn og flestar fiskveiðiþjóðir. Telji eitthvert ríki sig geta samið um veiðar í landhelgi annars ríkis þá er ekkert að því að reyna það, annað væri heimska.

Bretar fá ekkert frítt frá ESB. í samningum við ESB er allt sem Bretar hafa að bjóða undir, ESB eru ekki góðgerðarsamtök fyrir ríki sem standa utan ESB.

"Ef ESB setur upp tollahliðin þá missir ESB stóran markað - Bretar kaupa miklu meira frá ESB en ESB kaupir frá Bretlandi." En það segir bara hálfa söguna. Bretland er stór markaður en lítill í samanburði við ESB. Og þó upp komi tollahlið þá er ekki um viðskiptabann að ræða. Eftir sem áður verður um viðskipti að ræða. En Breskar vörur hækka í verði um allan heim sem kemur niður á samkeppnishæfni Breta. Og vörur frá ESB, og ríkjum sem ekki hafa fríverslunarsamning við Bretland hækka í verði í Bretlandi.

"..Bretar kaupa miklu meira frá ESB en ESB kaupir frá Bretlandi." Það mætti eins segja að Bretar þurfa miklu meira frá ESB en ESB þarf frá Bretlandi og því muni kostnaður Breskra heimila og fyrirtækja hækka miklu meira en heimila og fyrirtækja í ESB. ESB finnur minna fyrir útgöngunni en Bretland. Því er hætt við að komi einhver á hnjánum þá verði það frekar Bretar.

Bretar þurfa að semja við ríki um allan heim því viðskipta- og fríverslunarsamningar ESB við ríki um allan heim munu ekki gilda um Bretland. Á meðan munu ekki vera neinir samningar í gildi við Bretland og vöruverð og viðskipti samkvæmt því. Algengast er að þegar  viðskipta- og fríverslunarsamningar takast þá hafi ferlið tekið fimm til tíu ár. Viðskipta- og fríverslunarsamningar eru flókin mál því þeir snerta meðal annars regluverk framleiðslu vara í báðum ríkjunum og samninga við önnur ríki en ekki bara tolla. Viðskipti innan Evrópu halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Ýmsir hafa séð útgönguna sem tækifæri til að komast inn á Breskan markað með vörur sem ekki eru taldar boðlegar fólki í ESB. Þeir hafa lýst yfir miklum áhuga á fríverslunarsamningum við Breta. Hrifning Breta er takmörkuð og hæpið að þeir slaki mikið á kröfum þeim sem þeir gera nú þegar sem ESB ríki, kröfum sem þeir sjálfir áttu þátt í að móta og samþykktu. Fyrstu árin munu því viðskipta og fríverslunarsamningar sennilega einskorðast við ríki sem ESB hefur þegar samið við og Bretar geta notað til grundvallar sínum samningum.

Í öllum samningum við Breta mun ESB leitast við að gera sem hagstæðastan samning fyrir aðildarríki ESB, eins og ætíð í öllum samningum við ríki utan ESB. ESB mun verja hagsmuni ESB ríkja þó það verði á kostnað ríkja utan ESB. ESB mun gera kröfur sem ríkjum utan ESB munu þykja ósanngjarnar. ESB mun gera kröfur sem ríkjum utan ESB munu þykja bera vott um yfirgang og frekju. ESB gætir bara hagsmuna ESB ríkja.

Vagn (IP-tala skráð) 25.1.2020 kl. 21:36

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Það er auðvitað alveg á hreinu að ESB ver fyrst og fremst hagsmuni ESB-ríkja, eins og dæmin sanna. ESB hefur t.d. ítrekað sagt að það ætli að auka viðskipti við þróunarríki en þegar á hólminn er komið rekast slík ríki á reglur um merkingar, upprunavottorð og annað sem í reynd stöðva öll viðskipti:
https://uk.reuters.com/article/uk-trade-protectionism-eu-idUKTRE7655R920110706

Í ESB hafa menn yfirleitt engan áhuga á að missa Breta úr ESB, og ESB-sinnar sem lýsa yfir áhyggjur af breskum neytendum eru í raun með áhyggjur af ESB en ekki Bretum. Bretar kunna að stunda viðskipti við allan heiminn og munu halda því áfram. Það er ESB sem situr eftir með sárt ennið.

Svo má ekki gleyma því að aðaldrifkraftur Brexit er ekki krafa ESB um beinar ágúrkur eða að allir noti metrakerfið heldur sú að Bretar geti ekki flokkað innflytjendur við landamærin eftir sínu höfði. Það vandamál angrar miklu fleiri ESB-ríki en Bretland.

Geir Ágústsson, 25.1.2020 kl. 23:43

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Grímur,

Eftir stutt tímabil eftir hrun held ég að áhugi á inngöngu í ESB meðal Íslendinga sé nánast hverfandi. Menn þurfa að vera ansi frumlegir í spurningasmíðinni til að kreista út jákvæðni gagnvart slíku og tala um "viðræður" þegar engar slíkar eru til staðar - ESB mun verja hagsmuni ESB fyrst og fremst. 

Geir Ágústsson, 26.1.2020 kl. 00:11

5 identicon

Í ESB hafa menn yfirleitt engan áhuga á að missa Breta úr ESB. En Í ESB hafa menn heldur engan áhuga á að halda í þá ef þeir vilja fara. Skýrslur Breta sýna hver áhrifin verða, sama hverju fylgjendur eða andstæðingar ESB lofa. Það er hægt að fletta upp á því hvað lífskjör munu rýrna, kaupmáttur minnka og atvinnutækifærum fækka, miðað við bestu og verstu útkomu.

Bretar kunna að stunda viðskipti við allan heiminn og munu halda því áfram er sagt. Og sumir leggja einhvern trúnað í þau orð, jafnvel þó Evrópa hafi samið fyrir Breta í 50 ár og þar áður hafi viðskipti Breta lengst af byggt á nýlendukúgun og hernaðarmætti. Þorskastríðin voru Bretar að sýna hver þeirra aðferð var við að stunda viðskipti við allan heiminn.

Með tæpt eitt prósent íbúanna innflytjendur af ESB svæðinu en rúm 12 prósent frá fyrrum nýlendum Breta verður innflytjendavandamál Breta ekki leyst með úrsögn úr ESB. Aðal drifkraftur Brexit er ekki krafa ESB um kassalaga egg eða að allir noti skóhlífar og ekki sú að Bretar geti ekki flokkað innflytjendur við landamærin eftir sínu höfði. Aðal drifkraftur Brexit eru loforð um endurheimt fornrar frægðar, samanber "Bretar kunna að stunda viðskipti við allan heiminn". Blekkingar og rangfærslur um að með úrsögn verði Bretland voldugt á ný, smjör drjúpi af hverju strái og útlendingarnir verði sendir heim. Gallinn er bara sá að heimurinn hefur engan áhuga á að starfa eftir leikreglum Breta, Pakistaninn og Arabinn sem þeir vilja senda heim komu til Bretlands á Breskum vegabréfum og stór hópur innflytjenda á ESB svæðinu eru aldraðir Bretar.

Vagn (IP-tala skráð) 26.1.2020 kl. 01:48

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Á hverju byggir þú þessa greiningu þína á hugarástandi Breta?

Innflytjendamálin eru yfirgnæfandi ástæða Brexit, hvort sem BBC velur að flagga því eða ekki. Hringdu í handahófskenndan Englending í milli- eða verkamannastétt og hann segir þér það sama. Ég held að hugsanir um drottnun heimsins fylli mjög lítið í höfði þessa fólks en daglegar fréttir af hnífsstungum af hendi glæpagengja innflytjenda þeim mun meira.

Geir Ágústsson, 27.1.2020 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband