Fimmtudagur, 12. desember 2019
Brenna rusl
Danir hafa nýlega opnað risavaxna ruslabrennslu og byggt ofan á hana skíðabrekku.
Á sama tíma eru Íslendingar að setja hömlur á sínar örfáu ruslabrennslur og neyða sveitarfélög til að keyra ruslinu sínu langar vegalengdir. Að hluta má skrifa þetta á hertar kröfur yfirvalda sem neyða sorpbrennslurnar út í dýrar fjárfestingar sem oftar en ekki buga rekstur þeirra.
Auðvitað gerir fólk meiri kröfur en áður, og tölfræðin segir okkur hið augljósa: Því ríkari sem við verðum því kröfuharðari verðum við á umhverfisgæði okkar (þess vegna er auðsköpun ein besta leiðin til að bæta umhverfið).
En stundum má setjast niður og hugsa: Er núverandi ástand betra en ef kröfurnar eru hertar? Er ástandið svo slæmt í dag að það megi ekki gefa nýju kröfunum lengri tíma?
Þetta er samt ekki tíðarandinn. Í Reykjavík skrifa menn ný lög og gefa út nýjar reglur og niðurstaðan er svo oft verri en áður þegar á heildina er litið. Danir hafa lært þessa lexíu að mörgu leyti og fela sveitarfélögunum mun meira vald yfir sinni umhverfisvernd en ég sé að eigi við á Íslandi. Kannski er það ein af ástæðum fyrir því að þeir geta núna skíðað ofan á ruslabrennslunni sinni á meðan Íslendingar senda það í flutningabílum á milli landshluta.
Farðu á skíði í miðri Kaupmannahöfn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:06 | Facebook
Athugasemdir
Eða: Danir hafa nýlega opnað risavaxna skíðabrekku og byggt inn í hana ruslabrennslu. Hvort ætli þá Dani sem réðu hafi langað meira í, skíðabrekku eða ruslabrennslu? Er ruslabrennslan kænlegt yfirvarp svo hægt sé að setja skattfé í skíðabrekku?
Hvað er smá díoxín milli vina. https://www.ruv.is/frett/dioxin-medal-eitrudustu-efna https://www.ruv.is/frett/farga-tharf-dyrum-vegna-dioxins
Vagn (IP-tala skráð) 12.12.2019 kl. 20:56
Dioxin... Ruslabrennslur í dag brenna við það hátt hitastig að það sundrast. Síðan er umhugsunarefni hvort það sé gáfulegra að keyra rusli hundruð kílómetra til að grafa það. Það kemur ekki í veg fyrir myndun eiturefna, hvort heldur dioxins eða hvað þá annara efna sem myndu eyðast í hita ófullkomnari ruslabrennsluofna. Líkt og þeirra sem búið er að banna hér á landi.
Eins og of oft fer eftirlitið offari og horfir ekki á heildarmyndina.
Sindri Karl Sigurðsson, 12.12.2019 kl. 21:14
Það er um að gera og grafa upp næstum því áratugagamlar fréttir til að hræða fólk frá sorpbrennslu.
En kannski það sé lýsandi fyrir ástandið á Íslandi, hver veit? Dönsku umhverfisyfirvöldin segja að iðnaðurinn sé fyrir löngu búinn að aðlaga sig að kröfum um losun á þessu efni og að niðurstaðan sé sú að megnið af dioxín-losun Danmerkur sé frá brennslu á tré, eldsvoðum í húsum og þess háttar, þ.e. ekki vegna brennslu á sorpi sem hefur þó aukist umtalsvert.
Eftir stendur að það er lítið gert til að styðja við þessa aðferð til að losna við rusl og breyta því í orku. Miklu frekar er rekinn hræðsluáróður.
Vegna eyðslu á skattfé þá er einmitt mikil áhersla lögð á að förgun sorps sé gerð á eins hagkvæman hátt og hægt er (miðað við opinberan rekstur), og meðal annars má sækja sorp utan eigenda-sveitarfélaganna til að halda uppi afköstum. Hérna gætu eigendur Sorpu kannski lært eitthvað?
Geir Ágústsson, 13.12.2019 kl. 07:43
Tímarnir breytast og í dag reykir þú ekki í bíl fullum af börnum og sveitarfélög reyna að eitra ekki fyrir dýrum og mönnum. Áratugagamlar fréttir eru ekki til að hræða fólk frá sorpbrennslu. Þær eru til að benda á ástæðu þess að gamlar sorpbrennslur eru ekki lengur notaðar. Svo er fjárhagslegt bolmagn Kópaskers ekki það sama og Kaupmannahafnar til að reisa nýja nokkurra milljarða sorpbrennslu. Eins og þú bendir á þá sækir Kaupmannahöfn viðskipti annað þó íbúarnir sem fjármagna sorpbrennsluna séu tvöfalt fleiri en Íslendingar. Förgun sorps á eins hagkvæman og umhverfisvænan hátt og hægt er þarf ekki endilega að vera brennsla á öllum stöðum.
Vagn (IP-tala skráð) 13.12.2019 kl. 10:00
Vagn,
Það er auðvitað kórrétt að það hentar ekki það sama á öllum svæðum. Á Kópaskeri og Dalvík er kannski skynsamlegt að hafa varaaflstöð sem er knúin með Dísel-olíu á meðan Reykjavík þarf stærri lausnir. Á Húsavík er kannski betra að brenna ruslinu (t.d. úrgangi sláturhúsa) en keyra það langar vegalengdir þótt auðvitað sé erfitt að reikna út raunverulegan kostnað þar sem menn hafa kippt markaðslögmálunum úr sambandi eins og í tilviki ruslameðhöndlunar. Og ef maður brenglar kostnaðartölurnar nógu mikið (með niðurgreiðslum og öðru) er jafnvel hægt að búa til Excel-skjal sem lætur siglingar á rusli til Svíþjóðar líta vel út, og þá bara eftir að yfirgengilegar kröfur um flokkun á sorpi og marga rúnta til að sækja hinar ýmsu tegundir af því í allar götur hafa líka verið fegraðar í bókhaldinu.
Það er a.m.k. lítil ástæða til að treysta því að sorpförgun, -flokkun og -meðhöndlun sé gerð með hagkvæmum og skynsamlegum hætti.
Geir Ágústsson, 13.12.2019 kl. 10:13
Það er vissulega lítil ástæða til að treysta því í blindni að sorpförgun, -flokkun og -meðhöndlun sé gerð með hagkvæmum og skynsamlegum hætti, sama hvort það er í Reykjavík eða Kaupmannahöfn.
Og svo er enginn skortur á snillingum sem vita ekkert hvað hlutirnir kosta en telja sig vita nákvæmlega hvað er hagkvæmast og hverja á að taka til fyrirmyndar. Passi svo snillin ekki við tölurnar má alltaf segja bókhaldið falsað.
Vagn (IP-tala skráð) 13.12.2019 kl. 15:37
Þess vegna er best að hafa sem flest á frjálsum markaði, þar sem verðlagning er ákveðin byggð á framboði og eftirspurn, frjálsri verðlagningu og gjaldþroti þeirra sem reikna vitlaust.
Geir Ágústsson, 14.12.2019 kl. 20:28
Þá yrði ég að ráða hvort ég keypti þjónustu einhvers einkafyrirtækis eða fargaði sjálfur mínu rusli, sturtaði í sjóinn eða brenndi í garðinum. Sem væri sennilega betra miðað við sögu einkafyrirtækja í þessum geira. Heilsa almennings og umhverfi hafa þar fengið að víkja svo fyrirtæki sýni vænan gróða eða verði ekki gjaldþrota. Nema þú sért þá einnig að kalla eftir öflugu og valdamiklu eftirlitskerfi ofaná annan kostnað við förgun sorps.
Sjálfur tel ég betra og ódýrara að hafa þess í stað samfélagslegt fyrirtæki sem hefur þann tilgang að farga sorpi á kostnaðarverði án skaða fyrir almenning og umhverfi. Sleppa því að borga dýrt eftirlitskerfi og hagnað eigenda.
Vagn (IP-tala skráð) 14.12.2019 kl. 21:47
Afstaða þin til ríkiseinokunar er vel þekkt.
Geir Ágústsson, 15.12.2019 kl. 06:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.