Sunnudagur, 17. nóvember 2019
Að velja sinn ráðgjafa
Mörg okkar höfum vanið okkur á að skola diskana áður en þeir fara í uppþvottavélina. Það er einfaldlega rökrétt að maður hefði haldið en að mati sérfræðinganna áttu alls ekki að gera það. Eða svo segir í lítilli frétt.
Og hvaða sérfræðingar eru það? Hvaða forsendur hafa þeir fyrir ráðgjöf sinni? Hver kallar sig sérfræðing í notkun uppþvottavéla?
Svona lítil frétt um uppvask í vél er ágætt dæmi um að ráðgjöf er ekki alltaf góð ráðgjöf jafnvel þótt meintir sérfræðingar séu látnir tala til lesanda. Það þekkja allir sína uppþvottavél best og þótt fræðsla og upplýsingar séu góðir hlutir þá þurfa þeir ekki að leiða til breytinga í hegðun og ættu jafnvel ekki að gera það fyrirvaralaust.
Sem dæmi get ég tekið mína eigin uppþvottavél. Hún er öflug, stór, hljóðlát og afkastamikil en af ýmsum ástæðum er góð hugmynd fyrir mig að skola af diskunum áður en ég set þá inn þannig að fastar matarleifar fari af. Vélin á það til að hringsóla matarleifunum þannig að þær enda á að setjast á glös og annað og storkna. Af hverju fylgir uppþvottavélin mín ekki fyrirmælum sérfræðinganna? Það veit ég ekki.
Ráðgjöf sérfræðinga er engin trygging á neinu. Við höfum t.d. ítrekað séð ráðgjöf sérfræðinga setja fyrirtæki og jafnvel heilu hagkerfinu á hliðina, stofna heilsu fólks í voða, ýta börnum til hliðar í skólakerfinu og fylla fólk af áhyggjum þar sem slíkt er óþarfi.
Að lokum þurfum við, sem einstaklingar, alltaf að vega og meta alla þá ráðgjöf sem okkur berst. Það er enda farsælasta leiðin til að byggja upp reynslu og þekkingu sem raunveruleg not eru af.
Alls ekki skola diskana sem fara í uppþvottavélina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Las þessar ágætu leiðbeiningar sjálf og var ekki alveg sátt við þetta með matarleifarnar í uppþvottavélina. Mér finnst betra að skafa þær í ruslið í þeirri von og trú að þeim verði eytt í sorpvinnslustöðvum í stað þess að fóðra rotturnar í skolpræsunum. Hlýtur líka að spara viðgerðarþjónustu á uppþvottavélinni? En hvað veit svosem einföld húsmóðir þegar fræðingar eru annars vegar.
Kolbrún Hilmars, 17.11.2019 kl. 13:49
Hjartanlega sammála þér með það Geir, að sérviskan er yfirleitt gáfulegri en sérfræðiþekkingin.
Sjálfur þekki ég reyndar ekki vandamálið því ég bý við svo svakalega sérvisku að uppþvottavél hefur aldrei komið inn á mitt heimili.
Magnús Sigurðsson, 17.11.2019 kl. 15:31
Mér hefur nú ávallt þótt það hálf tilgangslítið að vera að standa í að stafla leirtaui í uppþvottavél ef búið er að þvo það áður hvort sem er. Er ekki bara fljótlegra að klára verkið þá í vaskinum og láta vélina eiga sig?
En þessar leiðbeiningar eru greinilega ekki ritaðar af neinni sérstakri mannvitsbrekku. Sér í lagi sú staðhæfing að ekki eigi að skola af leirtauinu vegna þess að það sé þá hreinna en ella og vélin skynji það og setji því ekki sömu orku í þvottinn. Er það ekki einmitt tilgangurinn með hinum nefndu óhreinindaskynjurum, að skynja það? Þarna þykir mér rökhugsunin svolítið hafa farið forgörðum hjá fréttahöfundinum.
Þorsteinn Siglaugsson, 17.11.2019 kl. 15:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.