Fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Sá sem snertir eldinn brennir puttann
Mikið hefur verið rætt um viðskipti Samherja í Afríku. Því er haldið fram að fyrirtækið hafi brotið allskyns lög með því að bera fé að embættismönnum og hafa í staðinn fengið allskyns atvinnuréttindi, þá aðallega kvóta.
Þetta mál er núna komið á borð yfirvalda og verður rannsakað eins og sakamál og fer væntanlega sína leið í gegnum dómskerfið. Ég ætla ekki að gefa mér neitt um niðurstöðuna en grunar samt að þar sem er reykur þar er eldur.
Fyrir þá sem ekki vita þá er engin leið að stunda heiðarleg og lögleg viðskipti í mörgum heimshlutum. Kerfið er einfaldlega þannig skrúfað saman að frumkvæðið er kæft í fæðingu. Í mörgum ríkjum er stór hluti hagkerfisins í einskonar svefngenglaástandi. Nóg er af viðskiptum en það kemur einfaldlega ekki fram í neinni tölfræði. Menn nota reiðufé, borga undir borðið, múta, láta vera að telja fram tekjur, starfa án leyfis og gera samninga sem enginn dómstóll getur staðfest.
Samherji ákvað að hefja viðskipti í Namibíu. Ef þar beið fyrirtækisins gegnsæ stjórnsýsla sem vildi einfaldlega sjá skriflega samninga og staðfestingar á lögskyldum greiðslum þá hefði fyrirtækið örugglega valið þann farveg. Kannski var það svo. En mig grunar að raunin hafi verið önnur. Til að komast í gjöful miðin hafi þurft að gera hitt og þetta sem fellur ekki að allskyns löggjöf.
Þó er aldrei að vita. Kannski tókst Samherja fyrst allra fyrirtækja í heiminum að koma á koppinn arðvænlegum viðskiptum í Afríku án þess að gera nokkuð vafasamt. Ef slíkt kemur upp úr krafsinu á um leið að veita fyrirtækinu Nóbelsverðlaunin því þar með væru vandamál Afríku leyst. Þar hafa menn nefnilega skotið sig í fótinn og grýtt eigin höfn í áratugi með spillingu og handahófskenndri stjórnsýslu og flæmt öll heiðarleg fyrirtæki frá því að stíga þar inn fæti.
En hver veit - kannski tókst Samherja það. Og hluthafar fyrirtækisins, meðal annars lífeyrissjóðir, njóta þess ríkulega.
En kannski ekki. Kannski verður Samherji núna gómaður fyrir að stunda hefðbundin viðskipti á afrískan mælikvarða en ólögleg viðskipti á vestrænan mælikvarða. Kannski verður það til þess að yfirvöld í ríkinu sem um ræðir hugsa sinn gang og byrja að stunda heiðarleg samskipti við heiðarleg fyrirtæki og verða þannig ríkasta svæði heimsálfunnar á örfáum árum.
Mín spá er sú að upp muni komast um stórkostlegar mútugreiðslur sem veittu aðgang að atvinnutækifærum í heimsálfu þar sem slík eru yfirleitt kæfð í fæðingu. Kannski fer einhver í grjótið. Fyrirtækið tapar tekjur. Ríkið sem um ræðir tapar viðskiptum. Allt verður eins og það á að vera - á huldu, á bak við tjöldin, undir borðið og utan mælikvarða tölfræðinnar.
Sjáum hvað setur.
(Sem svolítinn fyrirvara vil ég að sjálfsögðu mæla með því að menn fari að lögum í einu og öllu og láti þá frekar eiga sig að hefja viðskipti en hitt ef í ljós kemur að mútubeiðnir berast. Í því ljósi mæli ég með því að enginn stundi viðskipti við marga heimshluta og haldi sig bara við nágranna sína og vel þekktar stærðir. Þetta gagnast fátækustu og spilltustu heimshlutunum ekki neitt en er sennilega skynsamlegasta aðferðafræðin í ljósi alls.)
Umfjöllun Kveiks einhliða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:13 | Facebook
Athugasemdir
Man þá tíð að heðan var ekki seld ein skreið eða gramm af fiskmjöli nema að múta sig í gegnum embættismannaaðal afríkulanda. Íslenska ríkið tók beinan þatt í því. Þetta voru og eru viðteknar viðskiptaleiðir í mörgum löndum þar sem ekki verður komist inn á markaði án slíkra tilfæringa. Sökin liggur ekki hjá samherja hér, heldur spilltum viðskiptaháttum þessara landa. Ekkert nýtt þar. Þetta hefur verið stundað í 70 ár hið minnsta með allra vitneskju.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.11.2019 kl. 00:39
Svo er það álitamál hvort kalla á þetta mútur eða kommissjón. Ég hallast að því síðara. Slíkt gæti þó aldrei staðið undir eldgosafyrirsögnum.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.11.2019 kl. 00:42
Eins og þú nefnir hafa menn val um það hvort þeir greiða mútur. Sé mútufjár krafist er best að láta viðskiptin eiga sig. En svo má líka velta því fyrir sér hvort kemur á undan, krafa um mútur eða boð um mútur. Til að mútur verði viðteknar þarf í það minnsta tvo til, mútuþegann og mútugreiðandann.
Kjarni málsins er kannski þessi: Hver svo sem á upptökin, þá hljóta mútugreiðslur til stjórnmálamanna að vera eitur í beinum allra frjálshyggjumanna, því með því að taka þátt í slíku er stutt við að stjórnmálamenn meðhöndli eignir eða réttindi almennings eins og sínar eigin. Tilvist mútugreiðslna grundvallast á því að stjórnmálamenn hafi of mikil völd.
Þorsteinn Siglaugsson, 15.11.2019 kl. 09:43
Þorsteinn,
Ég tek undir þetta. Að borga stjórnmálamönnum til að þeir geti afhent eigur annarra er alveg út í hött.
Ég heyrði einu sinni af fyrirtæki sem var að byggja aðstöðu á einhverju einskismannslandi. Það var svo tímafrekt og erfitt að fá einfalt byggingaleyfi að menn voru að verða brjálaðir. En þá var þeim bent á "accelleration fee" og allt gekk betur. En svona verða menn einfaldlega oft að athafna sig.
En ætli menn sér að forðast spillinguna og múturnar þurfa menn oftar en ekki að forðast ákeðin hagkerfi og jafnvel stærri svæði í heiminum. Það er sennilega rétt ákvörðun fyrir fyrirtækin en ekki besta niðurstaðan fyrir almenning á spilltum svæðum. Þar fá menn ekki tækifæri til að sýna neinum hæfileika sína og getu.
En að afhenta stjórnmálamanni pening svo hann geti afhent atvinnutækifærin til ríkra útlendinga - það er alveg glatað.
Geir Ágústsson, 16.11.2019 kl. 09:26
Ég var að enda við að lesa grein i Mbl.eftir Ole Anton Bieltvedt (úr þáttagerð kveik´s) um meinta spillingu og brot Samherja.- Hef ástæðu til að tak mark á flestu sem Ole skrifar. Ég gat auðvitað sagt mér að umfjöllunin yrði ekki neitt skemmtiefni eins og höfundur áréttar að ekki sé meira sagt.
Uppljóstrarinn mikli virkaði ekki vel á greinarhöfund né sagan sem hann sagði. Var ekki annað að sjá en hann hefði sjálfur verið höfuðpurinn í spillungunni.
Góð ábending hjá Ole Bieltvedt að minna menn á hvað Samherji hefur gert mikið fyrir íslenskt samfélag í formi launagreislna,skattgreiðslna,gjaleyrisöflunar og fleira
Helga Kristjánsdóttir, 16.11.2019 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.