Af hverju er nóg af olíu en skortur á vatni?

Vatnsskortur er yfirvofandi í 17 löndum. Vandamálið vex með hverju ári. Oft má litlu muna. Yfirvöld skammta vatn til að bjarga forðanum. Samt er megnið af yfirborði Jarðar vatn (sem þarf bara að hreinsa) og það fellur af himnum ofan, safnast fyrir hér og þar og má flytja á frekar auðveldan hátt yfir langar vegalengdir.

Á sama tíma er talað um ofgnótt olíu. Heimurinn er hreinlega að drukkna í henni og vindmylluhipparnir klóra sér í hausnum yfir því að geta ekki keppt við hana í hagkvæmni, jafnvel þótt olíuverð hafi lækkað mikið frá því það var sem hæst fyrir örfáum árum. Það er mjög erfitt, dýrt og áhættusamt að sækja olíuna. Hún er jafnvel sótt á yfir 2500 m dýpi. Olía er ætandi og gæði hennar mjög mismunandi eftir svæðum. 

Af hverju er vatnsskortur?

Af hverju er ofgnótt olíu?

Svarið er sáraeinfalt: Vatnið er yfirleitt í umsjón opinberra stjórnsýslueininga sem fá að sólunda almannafé á meðan olíuiðnaðurinn treystir á hugvit og drifkraft einkafyrirtækja sem eru rekin með hagnað að leiðarljósi. 

(Olíufélög í opinberri eigu, eins og Equinor og Petrobras, þurfa kannski að taka við fyrirmælum frá stjórnmálamönnum, en sömu stjórnmálamenn vita að þeir geta ekki drepið gullgæsina sína án afleiðinga. Í tilviki Petrobras er þó búið að ganga svo nærri fyrirtækinu með opinberum afskiptum að það hefur ekki lengur burði til að ráðast í risaframkvæmdir á eigin spýtur. Svipaða sögu má segja frá Mexíkó og Saudi-Arabíu þar sem er verið að sólunda auðlindum úr gjöfulum svæðum.)

Það þarf að einkavæða vatnið, því betri er dýr sopi í stuttan tíma á meðan einkaaðilar vinna að því að stilla saman framboð og eftirspurn en enginn sopi í langan tíma í biðraðamenningu opinberrar framleiðslu.


mbl.is Vatnsskortur yfirvofandi í 17 löndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú dælir upp einum lítra af olíu og þá þarf opinberra stjórnsýslueiningin að skaffa þér 260.000 lítra. Heimurinn notar 260 tonn af vatni á móti hverjum lítra af olíu. Bara til að búa til kjötið í einn hamborgara þarf um 1000 lítra af vatni.

Þar sem einkaaðilar sjá um vatnsbúskapinn er ástandið áberandi verra en þar sem opinberir aðilar sjá um hann. Það þarf ekki að fara lengra en til Bretlands til að sjá dæmi þess.

Vagn (IP-tala skráð) 7.8.2019 kl. 09:42

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Er vatnsskortur í Bretlandi?

Annars athugar þú ekki - kannski af ásetningi - að það þarf ekki hreint drykkjarvatn í olíuframleiðslu. 

Geir Ágústsson, 7.8.2019 kl. 10:14

3 identicon

Það þarf ekki hreint drykkjarvatn í olíuframleiðslu, það er hægt að nota vatn sem var hreint drykkjarvatn áður en olíuframleiðslan mengaði það. Og þá þarf bara tvöfalt lagnakerfi svo einnig sé hægt að fá hreint vatn þar sem þess þarf.

Og vatnsskortur er ekki óþekktur í Bretlandi. 7 milljón Breta fundu fyrir því að sumstaðar þurfti að banna bílaþvott og garðavökvun sumarið 2018.

Vagn (IP-tala skráð) 7.8.2019 kl. 11:56

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Mörg ríki/sveitarfélög brugðust við þurrkunum í fyrra. Td Danmörk. 

Þetta með olíuframleiðsluna þigg ég gjarnan ítarefni um.

Geir Ágústsson, 7.8.2019 kl. 15:32

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Skilur þú þá kannski afhverju menn eru að kaupa lendur með ám sem bæði er hægt að virkja og selja síðan vatnið og segja síðan við erum að vernda laxinn.Hlæ, hlæ... Vatn er dýrara en olía á Íslandi hvað þá í Sahara. 

Valdimar Samúelsson, 7.8.2019 kl. 19:54

6 identicon

Google virkar ágætlega til að finna hvað mikið af olíu er dælt upp og hversu mikið af vatni mannkynið notar. Smá deiling til að finna hlutfallið milli olíunotkunar og vatnsnotkunar. Hókus pókus, heimurinn notar 260 tonn af vatni á móti hverjum lítra af olíu.

Vagn (IP-tala skráð) 7.8.2019 kl. 20:53

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvar er olíuframleiðsla á landi að valda staðbundnum vandamálum fyrir drykkjarvatnsframleiðendur og -neytendur?

Geir Ágústsson, 8.8.2019 kl. 03:56

9 Smámynd: Geir Ágústsson

 Þar sem dómstólar verja eignarétt þarf bara að sanna mál sitt til að stöðva skemmdarverk. Þó veit ég að "fracking" er allskonar loðið (eins og annað grams neðanjarðar, sbr Hellisheiðarvirkjun).

Annars staðar er ekkert hægt að gera ef stjórnmálaelítan er á bandi iðnaðarins.

Geir Ágústsson, 8.8.2019 kl. 15:20

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Aðgangur að vatni er misjafn. Á sumum svæðum er einfaldlega mjög lítið um vatn. Annars staðar er yfrið nóg af því. Þar sem lítið er um vatn notar fólk minna af því en þar sem nóg vatn er að finna. Samt þarf lítið til svo vatnsskortur verði. Ég er ekki endilega sannfærður um að ástæðan sé að dreifing vatnsins sé í höndum opinberra aðila. Á mörgum svæðum sækir fólk einfaldlega vatn í brunna og í þurrkatíð minnkar í brunnunum, þeir þorna jafnvel alveg.

Þú spyrð hvers vegna nóg er af olíu en of lítið af vatni. Og svarið er að ástæðan sé sú, að olía er unnin og dreift af einkaaðilum, en vatn ekki. Augljósa athugasemdin við þetta er að það er alls ekki rétt að á olíumarkaðnum ríki einhver samkeppni einkaaðila. Megnið af olíu heimsins er undir yfirráðum stjórnmálamanna og olíuframleiðendur hafa meira að segja með sér virkt samráð um að stýra verði hennar. OPEC ræður yfir 80% af olíubirgðum heimsins. Olíumarkaðurinn er því fjarri því að vera gott dæmi um kosti einkaframtaksins því einkaframtakið má sín ekki mjög mikils á þessum markaði.

Þorsteinn Siglaugsson, 8.8.2019 kl. 20:56

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Öll olía heimsins er undir yfirráðum stjórnmálamanna en það er mikill munur á því hvernig olían er unnin.

Í Saudi-Arabíu hefur ríkisolíufélagið, Saudi Aramco, 100% lögvarða einokunarstöðu. En þar er olíu líka sóað, og olíufélagið þjakað af spillingu, og það er byrjað að bitna á þeim núna. Þeir hafa meira að segja talað um að selja hluti í félaginu en það gera sósíalistar aldrei að gamni sínu.

Í Mexíkó var lengi um svipað ástand að ræða þar til nýlega að yfirvöld hafa neyðst til að ræða á að opna fyrir aðkomu erlendra olíufélaga. Slíkt olli miklu uppnámi í stjórnmálum þar í landi, en neyðin er einfaldlega til staðar: Sóun og léleg nýting auðlinda er að valda hruni í framleiðslu og þar með tekjum.

Í Noregi býður ríkið upp olíuvinnsluleyfin og í norskri landhelgi starfar mikill fjöldi olíufélaga, erlend og innlend. Þar er passað mjög vel upp á að samkeppni sé til staðar (sem felur líka í sér að það sé hægt að hagnast á framleiðslunni). Olíuvinnsla í norskri landhelgi er tæknilega í fremstu röð.

Í Brasilíu hafa yfirvöld nýlega þurft að hleypa erlendum félögum að sínum olíusvæðum, en þeir reyna samt að halda framleiðslunni í höndum síns félags, Petrobras. Petrobras gat lengi vel ráðið við allt sjálft, en sóun, spilling og misnotkun á sjóðum félagsins hefur lamað það að hluta. Því hefur þurft aðkomu útlendinga (meðal annars Kínverja).

Í Afríku er fyrirkomulagið jafnfjölbreytt og ríkin en yfirleitt lendir olíuauðurinn þar í höndum stjórnmálamannanna.

En sem fyrrum starfsmaður fyrir framleiðanda ýmissa hluta til útsjávarvinnslu á olíu og gasi get ég ekki sagt annað en að samkeppnispressan sé gríðarleg, og allt þarf helst að vera hagkvæmt og af hæstu mögulegu gæðum á sama tíma. Þegar olían hrundi úr 100+ dollurum í 35 dollara fór iðnaðurinn allur í gegnum mikla tiltekt og hreinsun og getur núna þénað á mun lægra olíuverði en áður, græningjum til mikils ama.

Geir Ágústsson, 9.8.2019 kl. 09:30

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Aðeins varðandi "fracking":

Sumt sem er sagt er satt og rétt en annað er hálfgerð móðursýki. Til dæmis hafa gengið um myndbönd sem sína fólk kveikja í vatninu sem kemur úr krananum, enda komið mikið metan í vatnslindirnar vegna "fracking". En metan er í grunnvatni víða, meðal annars í Danmörku, og er með svolítilli tækniþekkingu einfaldlega fjarlægt. Skiljanlega er það eftir í vatninu sem ekki er hreinsað í burtu.

En "fracking" er allskonar grams í neðanjarðarlögum og menn hafa ekki alltaf nægjanlega þekkingu á jarðlögunum til að sjá fyrir afleiðingarnar. Þetta þekkja Íslendingar á eigin skinni sem þrátt fyrir marga áratugi af  jarðvarmarekstri eru að lenda í miklum vandræðum með Hellisheiðarvirkjunina. Kannski á að banna bæði "fracking" og jarðvarmavirkjanir?

Annars hélt ég að bandarískir landeigendur fengju vænar greiðslur fyrir að leyfa "fracking" á jörðum sínum. Vilja menn bara fá hagnaðinn fyrirfram og hlaupa svo frá samningum? 

Geir Ágústsson, 9.8.2019 kl. 09:35

13 Smámynd: Steinarr Kr.

Ísraelar (svo dæmi sé tekið) eru fyrir löngu búnir að leysa sín vatnsvandamál með hreinsun og áveitukerfum í landbúnaði sem nota brot af vatni sem annars færi í að rækta land.  Það hafa fáir, sérstaklega í sama heimshluta viljað nýta sér tæknina og kenna náttúrulega öðru um.

Steinarr Kr. , 9.8.2019 kl. 17:08

14 Smámynd: Geir Ágústsson

Steinarr,

Ísrael stingur svolítið í stúf á lofthnattarmyndum af þessu svæði sem yfirleitt mætti kalla eyðimörk. Hér er grein með nokkrum góðum slíkum (tek ekki afstöðu til greinarinnar):

https://the-peak.ca/2014/07/israel-palestine-one-state-solution/

Geir Ágústsson, 11.8.2019 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband