Raunveruleg vandamál og ímynduð

Við erum mjög upptekin af ímynduðum vandamálum. Það út af fyrir sig er ekkert nýtt því sérhvert samfélag á sérhverjum tíma hefur alltaf átt við sín ímynduðu vandamál. Vandamálið við ímynduðu vandamálin er að þau draga athyglina frá raunverulegum vandamálum. Nú eru ímynduðu vandamálin orðin svo umfangsmikil að þetta er farið að hafa verulega skaðleg áhrif á lausn raunverulegu vandamálanna.

Nokkur dæmi um ímynduð vandamál má nefna.

Ímyndað vandamál: Losun koltvísýrings

Barátta Vesturlandabúa (Kínverjum og Indverjum er skítsama) við losun koltvísýrings er að valda lokun hagkvæmra orkuvera, ofálagi á dreifikerfi rafmagns og sóun á gríðarlegu fé í óhagkvæma og klunnalega orkuframleiðslu. 

Ímyndað vandamál: Misskipting auðs

Þeir sem hagnast á peningaprentun ríkisvaldsins eru að verða ríkari á meðan launafólk og fólk á fastri opinberri framleiðslu þarf að éta verðbólguna. Þetta er auðvitað vandamál en vaxandi misskipting vegna þessa er samt ekki raunverulegt langtímavandamál, og hvað þá vandamál sem má skattleggja sig frá. Leyfum bólunni bara að springa og hættum að prenta peninga. Þá verða þeir ríkir sem finna upp hagkvæmar og nothæfar lausnir, okkur öllum til hagsbóta. Það þarf ekki að láta misskiptingu auðs valda okkur áhyggjum.

Ímyndað vandamál: Donald Trump

Mörgum finnst Bandaríkjaforseti vera mikið vandamál. Hann hefur ekki gert jafnmargar árásir og Obama eftir hans fyrstu fjögur ár og eyðir aðallega tíma sínum í að skrifa á Twitter og valda óreiðu í bandarískum stjórnmálum. Nema honum takist að stuðla að stríði við Íran er hann satt að segja frekar skaðlaus og á í mesta lagi eitt kjörtímabil eftir sem forseti þar sem hann þarf að kljást við blússandi stjórnarandstöðu allan tímann. Þetta gengur yfir.

En hver eru þá okkar raunverulegu vandamál?

Raunverulegt vandamál: Fátækt Afríku

Á mörgum svæðum Afríku er einræðisherrum haldið uppi með vestrænu hjálparstarfi. Fólkið fær ekki að stunda frjáls viðskipti (bæði vegna heimatilbúinna viðskiptahindrana en einnig tæknilegra viðskiptahindrana Vesturlanda) og verja eigur sínar fyrir ágangi yfirvalda og er talið frá því að taka í notkun hagkvæma orkugjafa. Það þarf líka að leyfa notkun DDT skordýraeitursins aftur svo malaríuskaðræðinu megi halda í skefjum á hagkvæman og öruggan hátt.

Raunverulegt vandamál: Einokun seðlabanka heimsins á útgáfu peninga

Erum við ekki orðin þreytt á þeirri óvissu sem felst í reglulegum bólum og kreppum? Eina stundina gengur allt vel hjá öllum og þá næstu er kreppa og atvinnuleysi. Þetta má skrifa á peningaprentun seðlabanka heimsins. Það þarf að koma ríkisvaldinu hvar sem er út úr framleiðslu peninga og koma á frjálsum markaði hér, rétt eins og gildir um framleiðslu og notkun á tannburstum og handsápu.

Raunverulegt vandamál: Staðbundin mengun

Mengun er að jafnaði mest þar sem virðing fyrir eignaréttinum er lítil. Á slíkum svæðum heimila yfirvöld mengandi verksmiðjum að dæla eitri og sóti yfir eigur annarra, bótalaust, til að greiða fyrir velgengni þeirra. Skólpi, rusli og plasti er dælt í sjóinn. Borgarbúar ganga um með grímur. Í Austur-Evrópu brenndi súrt regn skógana á meðan íbúar Vestur-Evrópu hreinsuðu umhverfi sitt. Óvirðing fyrir eignaréttinum getur af sér staðbundna mengun (sem getur svo auðvitað dreift úr sér).

Ímynduðu vandamálin eiga að fara ofan í ruslatunnu sögunnar sem fyrst. Það eykur plássið sem raunverulegu vandamálin fá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Raunverulegt eða ímyndað vandmál

Það er verið að sóa dýmætri orku í að grafa i gagnverum eftir BitCoin en það eru engin verðmæti að baki BitCoin gengið ræðst alfarið af framboði og eftirspurn

Ég er sammála þér um Trump og bara fyndið að heyra í dag RUV margtyggja að Katrín Jakobsdóttir telji ummæli hans óboðleg - so what

Grímur (IP-tala skráð) 17.7.2019 kl. 17:55

2 Smámynd: Lárus Gabríel Guðmundsson

Ég held ekki að þú sétt fátækur maður...fátækur maður myndi aldrei láta hafa slíkt eftir sér.

Lárus Gabríel Guðmundsson, 18.7.2019 kl. 01:01

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Grímur,

Já þú segir nokkuð. Létu raforkuframleiðendur plata sig til að skrifa undir eitthvað sem brýtur trúnað þeirra við almenna neytendur? Þegar eftirspurn eykst og framboð er stöðugt ætti verðið að hækka hjá einhverjum. Hver á að borga?

Lárus,

Þú þarft að vera aðeins skýrari. Er fátækt Afríku og mengun þróunarríkja ekki vandamál? Ertu hræddur við Trump? 

Geir Ágústsson, 18.7.2019 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband